12. október 2007

Er vinstri umferð í Reykjavík?

Skoðið þessa myndasýningu. Það er nákvæmlega þetta sem mig hefur langaði til að gera á þeim leiðum sem ég fer dags daglega. Taka myndir og benda á það sem þarf að laga til að auka öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda í Reykjavík.

11. október 2007

Hjólað frahjá Hlemmi.



Að hjóla er góð skemmtun og líka heilsusamlegt, en ekki alltaf það öruggasta. Þá á ég við þegar ekki er gert ráð fyrir hjólandi umferð í gatnakerfi.

Sú leið sem um þessar mundir er vinsæl hjá mér að hjóla heim liggur framhjá Hlemmi. Þá er ég að fara frá vestri til austurs, eða frá vinstri til hægri á myndinni. Leiðin mín er merkt með fjólubláum deplum. Vandamálið er að það er ekki svo auðvelt að komast þessa leið og fara eftir umferðarreglum og hagkvæmnisreglum.

Hluti af leiðinni er bleikari en annar og er það vegna þess að á horni Laugavegar og Snorrabrautar er skilti við gangastéttina sem segir að umferð hjóla sé bönnuð. Auðvitað fer maður ekkert eftir því en það er samt að naga mig og pirra.
Eftir þann ólöglegabút er komð að Hlemmi sjálfum og þar er auðvitað nokkuð um gangandi fólk sem hugsar ekki út í að reiðhjól gætu átt leið framhjá og er því ávallt fyrir.
Aðrar leiðir eru að fara yfir Laugarveginn og beygja til hægri inn Hverfisgötuna (leið merkt grænum punktum á kortinu). En þar tekur ekki betra við. Jú það er smá gangstéttarbleðill vinstramegin við götuna sem nær alla leið, en hann er bara svo mjór að engin leið er að mæta nokkrum manni og síðan þröngar krappar beygjur fyrir horn sem eru mjög varasamar.
Hvað er þá eftir? Jú, hægt væri að fara til baka eftir að búið er að þvera Snorrabrautina á gönguljósum og hjóla inn Njálsgötuna (leið merkt gulum punktum á kortinu). Ekki er hægt að fara beint yfir götuna þar sem grindverk hamla för. En þá er farið í aksturstefnu og reglum nokkurnvegin fylgt. Þessa leið hef ég ekki prófað, því hvaða heilvita maður fer til baka??? Kannski ég prófi hana í dag og kem með komment um þá reynslu.

10. október 2007

Flísar

Fyrst voru teknar flísarna sem voru á veggjunum.



Síðan kom 3 daga þurrktímabil því veggirnir voru blautir


















Eftir þurrktímabilið var borinn grunnur á vegginn og síðan einhverskonar þéttkvoða.



Og þá var loksins hægt að leggja flísar.



En þar með var björninn ekki unninn því bakslag kom á verkið þegar taka átti réttskeiðina (spítuna undan flísunum). Þá losnaði ein flísin og þéttiefnið ásamt grunni kom af veggnum hægra megin. Þá þurfti að grunna og þétta aftur, gaman gaman.
Hér er Elías að skafa allt það lausa í burtu, sem var nú sem betur fer ekki allur veggurinn, en nóg samt.



Og nú er þetta farið að ganga betur. Einn veggur orðinn þakinn flísum og sá næsti vel á veg kominn.

8. október 2007

Fleiri fallegar myndir frá Eskifirði.



Hitt og þetta

Ætlaði varla að trúa mínum eigin augum á leiðinni til vinnu í morgun. Sá hvorki fleiri né færri en 11 aðra hjólarar. Það er töluverður fjöldi á þessum árstíma og miðað við síðustu viku, bara ansi hreint margir. Það var örlítið frosthéla hér og þar á stígunum á leiðinni en sem betur fer engin óhöpp.

Til ykkar íslenskusénía. Af hverju segir maður "fraus" en ekki "frostnaði" ?
Dæmi: Það fraus í nótt.

Flísalagnir í sturtunni eru farnar að ganga ágætlega eftir afleita byrjun. Næstum einn heill veggur orðinn flísalagður og líklegast (vonandi) verður hægt að byrja á þeim næsta í kvöld.
Þetta hófst allt fyrir rúmri viku þegar flísarnar sem fyrir voru voru rifnar niður. Þá kom í ljós að veggirnir voru gegnsósa af vatni frá c.a mittishæð og niðurúr. Það tók 3 sólarhringa að þurrka veggina nægilega mikið til að hægt væri að grunna og mála á þá þéttiefni einhverskonar. Síðan voru fleiri þvælur og vesen sem drógu verkið aftur næstum á byrjunarreit.
En eins og sagði í upphafi þá er þetta loksins farið að ganga betur.

1. október 2007

Nóg að gera um helgina.

Fór í kórferðalag austur á land á laugardagsmorgun. Flogið til Egilsstaða og þaðan farið beint að skoða Kárahnjúkavirkjunina. Landslagið þarna er hrikalegt og fallegt í senn. En ekki skil ég hvernig starfsmenn og fjölskyldur þeirra hafa farið að því að halda geðheilsu þarna uppi á veturnar. Vinnubúðirnar eru á afskaplega hráslagalegu og drungalegu svæði. Myndin er af stærstu stíflunni af þremur. Kárahnjúkurinn sjálfur er til vinstri á myndinni og glöggir menn sjá tröllkerlingu sem hefur dagað uppi á leið í hellinn sinn.

Eftir að hafa séð bæði stíflurnar og stöðvarhúsið (fengum harðkúluhatta og skærgul vesti og skrifuðum undir að við værum þarna á okkar eigin ábyrgð) var farið aftur á Egilsstaði til að sækja nokkar kórfélaga sem komu með seinna flugi. Og síðan var ekið sem leið lá á Eskifjörð og að sjálfsögðu farið beint í kirkjuna til að prófa hljóminn og ýmislegt.
Þaðan var farið á Neskaupsstað þar sem kórstjórinn býr og bauð hann í kvöldmat. Það var ekið yfir Oddskarð í svarta þoku og mikill léttir að koma inn í göngin, sem eru einbreið en vel upplýst.
Kvöldið endaði síðan með akstri til baka yfir á Eskifjörð þar sem hluti kórsins svaf á gistiheimili.
Í gærmorgun vökuðum við í blíðskaparveðri. Sólin skein og umhverfið var töfrandi fagurt. Seinni myndin er af Eskifirði, tekin frá gistiheimilinu sem er rétt fyrir utan bæinn.
Þann daginn var sungið við messu og svo tónleikar.
Á meðan á þessu stóð hjá mér var Elías heima að rífa flísarnar af sturtuveggjum og gólfi. Þá kom í ljós að veggir og gólf voru gegnsósa af vatni og er verið að þurrka það upp núna áður en hægt verður að leggja nýtt lag af flísum þar á. Því fylgir raki og lykt sem hvorutveggja er fremur hvimleitt, en vonandi tekur það ekki of langan tíma.

29. september 2007

27. september 2007

Rífandi gangur.

Mikil aukning í innlitum á bloggið mitt síðan ruslpóstbloggið var sett inn. Vanalega 2-5 innlit á dag en er komin með tæp 40 innlit á 3 dögum! Það er þreföldun á innlitum.

Gætu orðin "viagra" og "penis" haft eitthvað með þetta að gera? Ja, maður bara svona spyr.

24. september 2007

Ruslpóstur gerir hann upp á milli kynja?

Hi Bjarney did you ever ask yourself is my penis big enough...

Svona hljómaði upphaf af ruslpósti sem ég fékk um daginn. Svo fæ ég af og til tilboð um viagra á góðum prís.

Er þetta nafnið mitt eða fá allir svona póst? (Þið vitið Barney - Bjarney)

Það var misskilningur í gamladaga þegar ég fór til systranna á Stykkishólmi eitt sumarið þannig að þær héldu að ég væri strákur og höfðu gert ráð fyrir mér sem strák. Var bara að velta fyrir mér hvort ruslpóstútsendarar væru að gera þessi sömu mistök.

19. september 2007

Verðmerkingar


Heyrði viðtal við formann félags verslunarrekenda á Akureyri (hann var titlaður eitthvað á þá leið). Verið var að velta fyrir sér verðmerkingum í búðargluggum á Íslandi og þá aðallega afhverju þær vanti á mörgum stöðum.

Taldi formaðurinn aðal ástæðu þess að verslanir verðmerktu ekki í búðargluggum væri sú trú að með því næðist að lokka fólk inn í búðina til að forvitnast um verðið.

Þetta finnst mér vera algjörlega út í hött. Þá sjaldan að ég fer í búðarráp þá yfirleitt sneiði ég framhjá þessum búðum einfaldlega vegna þess að í mínum kolli eru þetta dýrubúðirnar (og þá á ég við þessar rándýru með peysur sem kosta frá 15 þús).

Það hefur komið fyrir að ég í forvitni álpast inn í eina og eina óverðmerktabúð og þá er það yfirleitt eingöngu til að staðfesta þessa trú hjá mér.

Hvað finnst ykkur, hafið þið þessa tilfinningu líka með óverðmerktubúðirnar?

13. september 2007

Ísland - Norður Írland


Af því að ég trúi á og treysti okkar frábæru veðurfræðingum þá hjólaði ég ekki í vinnuna í gær sem leiddi til þess að ég tók strætó heim kl. 16.

Á biðstöðinni var allt krökkt af norður Írum sem voru meira en lítið í góðu skapi. Höfðu greinilega farið á pöbbinn og skemmt sér þar í nokkurn tíma, allavega nokkrir þeirra. Og það vildi ekki betur til en svo að þeir tóku sama vagn og ég. Og alla leiðina frá Lækjartorgi að Laugardalslaug (og strætó fer auðvitað ekki beinustu leið) sungu þeir stuðningslög og voru með kvatningarhróp. Það fól meðal annars í sér hopp, að standa upp, klappa saman lófum og berja í rúður.

Það má samt ekki misskilja það þannig að þeir hafi verið með skrílslæti beinlínis þ.e. þeir voru ekki að ógna okkur fáu íslensku hræðum sem voru í vagninum. Heldur var stemmingin hjá þeim svona gífurleg fyrir leikinn. Ég stóðst ekki mátið og tók upp svolítið af söngnum hjá þeim. En því miður hef ég ekki þá tækni að geta tekið upptökuna úr símanum mínum og sett inn hér, en áhugasamir geta haft samband og þá er aldrei að vita nema ég leyfi einum og einum að heyra.

2. september 2007

Skagaströnd

Ein lagði kerling af stað á vit ævintýranna. Það var snemma morguns og nóttin hafði verið óróleg af völdum tilhlökkunar og kvíða því kerling hafði aldrei áður tekið sér sambærilegt ferðalag á hendur.

Nauðsynjum hafði verið pakkað daginn áður fyrir þriggja daga ferð. Aldrei þessu vant var ekki ofpakkað af aukafatnaði eða mat en það var af illri nauðsyn frekar er vilja. Hún kom töskunum tveimur, bakpoka og hliðartösku fyrir á farskjóta sínum. Bakpokinn í körfuna og hliðartaskan á bögglaberann og síðan hjólaði hún af stað.

Fyrsti hluti ferðarinnar var vel þekktur, um 5 km leið að umferðarmiðstöðinni þar sem langferðabíll tæki við kerlingu ef hún aðeins reiddi fram fé í óhóflegu magni – að því henni fannst. Kerling hafði hjólað þá leið oft og mörgum sinnum.

Að sjálfsögðu var hún mætt vel snemma til öryggis og þurfti að bíða nokkra stund áður en rétti langferðabíllinn birtist. En þegar hann loksins gerði það var bílstjórinn svo vænn að koma farskjóta hennar fyrir í farangursrými bifreiðarinnar og inn fór kerling og fann sér sæti. Fljótlega hófst annar hluti ferðarinnar en það var 4 klst ferð um landið ekið eftir þjóðvegi eitt að mestu með stoppum á um klst. fresti. Kerlingu leiddist ferðin ekki enda hafði hún bæði með sér SuDoKu bók og lesefni til að stytta stundirnar.

Á Blönduósi fór kerling út og tók farskjótann með sér því lengri átti ferðin ekki að vera með bifreið. Hefst hér þriðji og síðasti hluti ferðarinnar þann daginn. Eftir að hafa símað til þeirra sem biðu og þeirra sem skildir voru eftir var enn lagt af stað og nú á fáknum fríða. Fyrst var farið um 1 km leið meðfram þjóðvegi eitt, ekki langur spotti en að mestu upp í móti. Síðan tók við 21 km leið um svo til ókannaðar slóðir. Auðvitað hafði kerling farið þennan spota áður en aldrei á þessu farartæki. Gæti hún þetta? Hvað var hún búin að koma sér í? Enn og aftur lagði hún af stað með kvíða og tilhlökkun sem ferðafélaga.

Veðrið var fínt. Hitastigið mátulegt fyrir svona ferðalag, aðeins mótvindur en ekkert til að hafa áhyggjur af. Áætlaður ferðatími var einn og hálfur til tveir klukkutímar. Hafði þeim sem biðu verið gefin fyrirmæli um að leyfilegt væri að hafa áhyggjur ef kerling væri ekki komin á leiðarenda eftir tvær klst.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel að mestu leiti. Á leiðinni voru bæði langar og stuttar brekkur og þær lágu bæði upp og niður. Umhverfið var fagurt en kerling hefur nýlega uppgötvað einmitt hversu fagurt þetta land er sem hún býr á. Fyrstu 5 km voru erfiðastir en eftir það var fannst henni hún vera komin að mestu yfir mæði og þreytu í vöðvum.

Umferðin um veginn var meiri en hún hafði búist við. Í eitt skiptið þegar stór bíll kom á móti feykti vindurinn sem honum fylgir suðandi flugu í eyra kerlingar og festist hún í eyrnablöðkunni (ekki í hlustinni) og suðaði þar. Kerlingu brá mikið við þetta og var næstum dottin af reiðskjótanum en náði einhvern veginn að halda jafnvæginu og losa sig við fluguna.

Um miðja vegu tók hún sér smávægilega hvíld og fór út í vegkant. Tími var kominn til að gæða sér á nesti. Ummm þetta var yndislegt. Því hvað er betra en að sitja í okkar fallegu náttúru í fínu veðri? Eftir að hafa snætt örlítið af harðfiski, nokkra súkkulaðibita og drukkið hreint og gott vatn var kominn tími til að halda ferðinni áfram. Var kerlingu litið upp í hlíðina fyrir ofan sig og sér þar hóp af nautgripum sem standa í hnapp og stara öll á hana. Hún hlær með sjálfri sér að forvitni þeirra og fer að taka saman dótið sitt. Sér hún þá útundan sér að dýrin eru komin á hreyfingu og eru greinilega á leiðinni niður hlíðina í átt að henni. Hún er ekki alveg viss um að henni lítist svo vel á þetta lengur og fer aðeins að flýta sér með fráganginn og kemur sér upp á veg. Það er aðeins lítil ræfilsleg girðing sem skilur á milli hennar og þessara stóru klaufdýra. Um leið og kerling stígur upp á fák sinn eru fyrstu dýrin komin niður að girðingu og um leið og hún stígur pedalana fara dýrin að hlaupa og hún biður í hljóði að girðingin haldi. En engin ástæða var fyrir þessum áhyggjum þvi dýrin eltu eingöngu eins langt og girðingin leyfði.

Við Höskuldsstaði lenti kerling í hremmingum og þurfti að takast á við hræðslu sem hefur hrjáð hana frá barnæsku. Fyrst heyrist hundgá og síðan koma tveir svartir grimmilegir hundar hlaupandi niður eftir heimreiðinni. Hjartað fór á fullt, allir vöðvar spenntust upp og það eina sem komst að í kolli kerlu var að stíga pedalana eins hratt og líkaminn leyfði bara ef hún gæti losnað við þennan ófögnuð. Einungis annar hundurinn elti - eða hljóp með er réttara að segja því hann var við hliðina á hjólinu geltandi og beraði sínar beittu tennur. Að lokum gafst óargadýrið upp og yfirgaf kerlu og hjólfák hennar. Dálitlum spöl seinna taldi kerling sér vera óhætt að stoppa örlitla stund og jafna sig á þessari óþægilegu lífsreynslu.

Að lokum komst hún á leiðarenda. Henni fannst það dásamleg tilfinning að hjóla inn í litla bæinn og hitta þá sem biðu. Sæl og ánægð með að hafa látið gamlan draum rætast um að fara um langan veg á uppáhaldsfarartækinu. Þessum hluta ferðalagsins var lokið en við tók yndislegur og skemmtilegur tími. Móttökurnar voru að venju góðar og það sem eftir var degi var kjaftað, púslað, prjónað og fleira sem kerling og hennar gestgjafi hafa mjög gaman að. Prinsinn á heimilinu vék úr rúmi fyrir kerlu sem kunni vel að meta þægindin og svaf eins og engill sem var gott því næsti dagur beið með ný og spennandi ævintýri.

30. ágúst 2007

Uppskera



Tók upp kartöflur í dag.


Setti niður 11 kartöflur í vor. Uppskeran í dag taldist 71 stk. Þar af 11 grænar (kannski nýtt afbrygði) og 28 sem flokkast undir smælki.
Verð að viðurkenna að ég bjóst við meiri uppskeru, en þetta ætti að duga í 2 soðningar plús svo smælkið sem ætlunin er að sjóða í stutta stund og steikja síðan upp úr smjöri. Nammi-namm.

21. ágúst 2007

Eitt hræðilegt augnablik.


Mætti í vinnuna í gær eftir 2 og 1/2 vikna frí. Svo sem allt við það sama. Nema hvað að í eitt hræðilegt augnablik mundi ég ekki lykilorðið í tölvuna hjá mér.

Og hvað er maður án aðgangs að tölvunni?

Svo til öll vinnan fer fram í tölvu. Maður er næstum handalaus án hennar. En sem betur fer varði þetta ástand ekki lengi og lykilorðið læddist inn í huga minn og allt varð gott aftur.

9. ágúst 2007

Dagbækur

Ég hef haldið dagbók síðan ég var 9 ára. Svona var fyrsta færslan mín:

"Það er ekkert mjög gaman í dag mánudaginn 25 febrúar 1980 ég kelmdi mig á vísifingri og það var mjög sárt ég klemdi mig á bíl hurðini klukkan hálf ellefu. ég var að fara til þórhalls að sækja hann. pabbi og mamma Daði og ég
mamma sat undir mér alla leiðina heim og pabbi hélt á mér alla leiðina inn ég er 9 ára og 30 kíló. ég hef líka áður klemt mig á þumalfingrinumm í firra eða hitti firra þá klemdi ég mig á hægri hendini en núna á vinstri enn ég vona að ég klemmi mig ekki aftur."

Fyrstu dagbókina fékk ég líklegast í afmælisgjöf. Hún er klædd gallaefni, með vasa framaná og læst með lás. En lykillinn týndist einhverntíman svo ég endaði með því að klippa í sundur efnið sem hélt henni saman.

Síðan þá hef ég alltaf haldið dagbók. Þó ekki frá degi til dags, heldur bara svona þegar mig langar að skrifa. Ég hef notað bækurnar þegar ég er í leiðu skapi til að úthella sorgum mínum og létta á mér þegar illa hefur legið á mér. En líka til að segja frá skemmtilegum upplifunum og atvikum. Stundum gramsa ég til að finna gamla bók og les yfir gamla færslu. En bókina frá tímabilinu 15-17 ára hef ég ekki getað lesið. Þar er svo til ekkert nema sjálfsvorkun og geglgjuskrif. Ojbara. Kannski á ég eftir að fá meiri húmor fyrir sjálfri mér seinna og get þá lesið þetta.

Ég hlakka mikið til þegar ég eignast draumahúsið mitt því þá ætla ég að fá mér kistur til að setja þessar bækur í og fleiri gull. Í húsinu verður háaloft og þar verða kisturnar og allskonar skemmtilegir hlutir og hægt verður að gleyma sér við að skoða og gramsa.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...