26. febrúar 2009

Sólókeppni í Óperunni


Í gær var undankeppni sólódans í klassískum ballett fyrir keppni í Svíþjóð. 3 dansarar komust áfram, og svo voru 3 til vara.


Hrund mín tók þátt í þessari keppni og stóð sig mjög vel. Sveif um sviðið eins og ekkert væri léttara eða skemmtilegra í heiminum. Hún var þó ekki í hópi þeirra 6 sem valdir voru áfram.


Á sviðið stigu 23 dansarar frá 3 ballettskólum (20 stelpur og 3 strákar). Þau stóðu sig öll stórvel og voru glæsileg á sviðinu. Mikið vildi ég að það væru fleiri tækifæri til að sjá klassískan ballett hér á landi hann er svo yndislegur á að horfa.

24. febrúar 2009

Töskurnar mínar


Þetta byrjaði með því að mig langaði að prófa að þæfa lopa. Ég átti til plötulopa og bullaði upp úr mér uppskrift að tösku. Allra fyrsta taskan var blá og prjónuð úr einföldum plötulopa. Það kom ekkert sérlega vel út. Bæði festist hún öll saman í þæfingu og líklegast hef ég heldur ekki þæft hana nógu vel (spurning hvort ég skelli henni aftur í vélina og breyti í buddu?). Svo prófaði ég aftur (nú með tvöföldum plötulopa) og út kom gráa taskan lengst til vinstri. Ég var mjög ánægð með þá tösku, nema hvað að axlarbandið er helst til of stutt.





Nýjasta taksan mín er svo þessi sem er ein á mynd (og lengst til hægri á hinni myndinni). Hana prjónaði ég á tveimur dögum og þæfði. Ætli það megi ekki áætla 10 klst vinna hafi farið í hana, sem segir mér einfaldlega það að til að það borgi sig fyrir mig að fara út í að framleiða og selja þessa tösku þá þarf ég að fá a.m.k. 20.000 kr. fyrir töskuna og þá er ég samt ekki með hátt tímakaup.
En mér þykir mjög vænt um þessar töskur af því þær eru mín hugmynd og hönnun.

16. febrúar 2009

Prjónaárið 2009

Prjónaárið 2009 byrjar vel. Í gær lauk ég við tösku sem ég byrjaði að prjóna í húsmæðraorlofinu á Skagaströnd. Linda systir Ingu hafði prjónað svona tösku sem hentar einstaklega vel undir kórmöppur og ég féll flöt. Auðvitað fengum við Inga uppskrift og byrjuðum að prjóna (vildi svo vel til að ég var búin að fá ábendingu um að þetta stæði til og hafði því tekið lopa með). En taskan er prjónuð með tvöföldum plötulopa og svo þæfð.

Lindu taska er öðruvísi en mín að því leiti að hún er hvít alveg upp og línurnar 5 eru nótnastrengir og hún hafði saumað í þá nótur. Það kemur virkilega skemmtilega út, en það var í mér einhver leti svo ég sleppti því. Og sjá hér er árangurinn.

Ætlunin er að ljósmynda allar afurðir ársins. Andrésbókin er með á myndinni til að menn átti sig á stærðinni. En núna er ég að prjóna bæði dúkku og sokka sem ná uppfyrir hné.


Ps. sá hvorki meira né minna en 8 hjólreiðamenn á leið minni til vinnu! Enda er veðrið og færð töluvert betri núna, næstum allur klaki farinn og hitinn 6°C. Ég var ekki nema 17. mín á leiðinni.

14. febrúar 2009

Húsmæðraorlof.

Nú er ég endurnærð eftir vel heppnað húsmæðraorlof á Skagaströnd. Hvað er betra en taka sér vikufrí frá vinnu og stinga af frá fjölskyldu og hversdagslífinu og skella sér í rútuferð norður í land?

Á þriðjudaginn tók ég rútuna norður á Blönduós þar sem Inga vinkona tók á móti mér. Jói var svo indæll að lána mér rúmið sitt og herbergi. Svo fór í hönd tími sem var allt í senn hressandi og afslappandi. Við fórum í göngutúra í snjónum. Svo á listasýningu í barnaskólanum þar sem Sigurbjörg hafði búið til allskonar fínerí úr leðri (þar á meðal virkilega flott bókamerki handa mér) og Jói hafði bæði teiknað og leirað. Ég fékk að fylgjast með söngtíma hjá Ingu sem var gaman. Linda systir Ingu dró okkur með sér á prjónakvöld á Blönduósi þar sem haldinn var fyrirlestur og prjónað (og auðvitað skoðað og sýnt það sem verið var að vinna með). Okkur var boðið í kreppukaffi til mömmu Ingu og þar fengum við dásamlega góðar kökur.
Að ótöldum þeim tíma sem við prjónuðum eða púsluðum og kjöftuðum frá okkur allt vit.

Á meðan ég skemmti mér á norðurlandinu húkti eiginmaðurinn í bælinu með hálsbólgu og hita.
En núna er ég komin heim til að hjúkra honum og þá verður allt betra ;)

29. janúar 2009

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór


Veit ekki hvort ég er endanlega farin yfirum. En ég hjólaði í vinnuna í morgun. Færðin var ansi misjöfn. Sumstaðar (og á flestum stígum) búið að moka, en annarsstaðar ekkert mokað síðan í gær og á 2 stöðum ekkert mokað og auðvitað hraukar hér og þar og aðallega við göturnar. Hef sjaldan þurft að teyma hjólið jafn oft og í morgun.
Sá engan annan hjólreiðamann en för í snjónum eftir einn (smá fegin að sjá að ég er ekki ein um að vera svona klikk). Var 26 mínútur í vinnuna sem er 8 mínútum lengur en í gær.
En á svona ferðalagi á hugurinn það til að fara á flug. Ég mætti einni gröfu á stígunum og þá var mér hugsað til pabba, þegar hann var á vegheflinum. Hvernig hann dreymdi fyrir peningum með snjókomu því snjór táknaði vinnu. Og það leiddi hugann að vegheflinum sem stóð útí götu og við Hörn lékum okkur í og kölluðum GullinTá. Man ekki betur en að við höfum samið lag um GullinTá a.m.k. var hefillinn uppspretta margra ævintýra.
Og svo komst ég inn á Laugaveginn sem er upphitaður og snjólaus. Náði þar 24 km/klst hraða, var augljóslega svolítið þreytt eftir barninginn við snjóinn því ég hjóla þar eins hratt og ég mögulega get, hef mest náð 28 km/klst þar í vetur.
Það er svo frábært að hjóla!

28. janúar 2009

Hjólafréttir

Eitthvað virðist hjólreiðamönnum hafa fækkað á morgnanna. Sé ekki nema 2-3 á leið minni í vinnuna. Um miðja síðustu viku sást til 5. En almennt eru fleiri för í snjónum svo við erum að á öllum tíma dagsins.

En mér gengur ljómandi vel að hjóla. Á í raun erfitt með að trúa því að það sé ekki meira mál að hjóla á veturnar. Veðrið hefur auðvitað leikið við mig þ.e. lítið er um blástur. Færðin misjöfn en að meðaltali er ég ekki nema 5 mín lengur í vinnuna núna heldur en á sumrin.

Svo er gaman að því að benda fólki á átak sem er að hefjast sem kallast lífshlaupið. Þetta er fyrirtækja- og einstaklingskeppni sem stendur yfir 2. - 24 febrúar og felst í því að hreyfa sig (skiptir ekki máli hvernig eða hvenær) í 30 mín samanlagt (þarf ekkert frekar að vera allt í einu) á dag.

24. janúar 2009

Búsáhalda byltingin

Mér finnst þetta skemmtilegt heiti á mótmælunum og ætla mér að mæta í dag.

Það er komin endurnýjuð orka í mótmælin og menn virðast hafa náð að hemja ólætin og árásir á lögreglu. Því hver vill lifa í landi þar sem óeyrðir geysa? Þegar svona ólæti hafa verið í sjónvarspfréttunum frá útlöndum þá hefur tilfinningin fyrir því að svona gerist ekki á Íslandi verið til staðar.

En þó verð ég að segja að eftir að mótmælin hófust og maður sá hvernig tekið var á þeim í fjölmiðlum þá fóru nú að renna á mig tvær grímur.
Í upphafi mótmælanna (fyrir hvað 15 eða 16 vikum) tók ég þátt í friðsömum mótmælum, hlustaði á kröftugar ræður og fannst magnað að vera innan um fjölda manns með sömu óvissuna í hjarta. Svo fór maður heim ánægð með dagsverkið og horfið svo á fréttir um kvöldið og hlakkaði til að sjá boðskapinn útbreyddann með brotum úr ræðunum (því margir sem vildu komust ekki á staðinn), en nei - þá voru bara myndir af fólki með ólæti. Þeir sem hrópuðu hæst komust í mynd en ekki málefnin.
Þetta breyttist þó aðeins eftir háværar kvartanir frá þeim sem tóku þátt í mótmælunum. En ég komst ekki hjá því að hugsa hvort þetta væri svona líka þarna í útlöndunum. Þegar við sjáum myndir af fánabrennum og æstum mönnum (konur eru líka menn) kastandi grjóti og bensínsprengjum, eru þetta þá bara dreggjarnar af kröftugum, fjölmennum, mótmælum sem farið hafa úr böndunum eftir að hin almennu mótmæli eru yfirstaðin?

Allavega þá trúi ég því að mótmælin í dag verði fjölmenn, kröftug og án ofbeldis.
Ætlar þú að mæta?

13. janúar 2009

Hjólafréttir


Einn gír eftir. Þ.e. aftuskiptirinn er frosinn og ég var búin að útskýra þetta með miðjutannhjólið að framan. En það merkilega er að það kemur ekki að sök. Kemst vel af með þennan eina gír eins og veðrið er þessa dagana, aðeins meiri átök upp sumar brekkur og gæti farið hraðar á öðrum stöðum (fyndið samt að vera á 21 gíra hjóli og nota bara 1, hí hí).

Meðalhraðinn er 14 km/klst og hámarkshraðinn 22 km/klst. Töluvert hægar en í sumar en kemur mér örugglega á milli staða. Bremsurnar haga sér vel sem skiptir öllu máli.

5. janúar 2009

5. janúar 2009

Í dag á mamma mín afmæli. Til hamingju með daginn mamma!

Hjólið mitt er nýþvegið og smurt og svakalega fínt. Fundum reyndar út að miðjutannhjólið að framan er algjörlega búið, það er farið í sundur á 2 stöðum (enda var það alltaf að haga sér eins og verið væri að skipta um gír) svo núna er hjólið mitt bara 8 gíra af því ég nota eingöngu stærsta tannhjólið að framan, en það gerir ekki til, greinilega þarf ekki meira svona innanbæjar í góðu færi.

Á morgun byrja skólarnir hjá stelpunum og jólaskrautið ratar aftur ofaní kassa. Eins og það er gaman að segja það upp þá er ég líka alltaf jafn fegin þegar það fer niður aftur. Er komin með meira en nóg af glitri og glingri.

Þetta árið hef ég prjónað eins og vindurinn (tilvitnun í ¡Three Amigos!) og gengur mjög vel. Er að prjóna virkilega fallega peysu sem er sérpöntuð (gaman að fá svona pantanir) og ég virðist ætla að ná að klára hana á met tíma.

15. desember 2008

Piparkökuturninn





Í upphafi baksturs sagði ég sem svo: "Stelpur eigum við ekki bara að gera lítið og sætt piparkökuhús í ár?"

Útkoman varð svo stærsta piparkökuhús sem við höfum nokkurntíman gert.

Til samanburðar er hér mynd af húsinu sem við gerðum í fyrra.

Hrund hannaði piparkökubílinn, kemur skemmtilega út.

13. desember 2008

Snjórinn



Jæja, var að moka snjóinn. Mikið verður allt fallegt klætt hvítum snjó.


Hrund og Brandur fögnuðu próflokum í gær með því að búa til pínulítinn snjókarl. Mér skilst að Brandur hafi nú meira verið í því að veiða hendurnar af karlinum heldur en að hjálpa til, en svona eru kettir.


Hinum árlega piparkökubakstri er lokið og í dag ætlum við að skreyta og setja saman piparkökuhúsið okkar sem er með frekar óvenjulega sniði í ár, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Set inn mynd þegar það er komið saman.
Það fór svo mikið deig í piparkökuhúsið að við ákváðum að hnoða í nýtt deig til að eiga eitthvað af piparkökum til átu líka. Það endaði auðvitað þannig að við erum með allt of mikið af kökum (ef það er hægt).


Það gengur vel að hjóla í snjónum ef frá er talið óhapp sem ég varð fyrir á leiðinni heim um daginn. Þá ætlaði ég að hjóla á götunni eins og ég geri oft, nema hvað að gatan hafði verið söltuð og var snjórinn á henni orðinn n.k. saltpækill - eða drullulitað slabb. Sem betur fer var ekki umferð um götuna því ég gjörsamlega missti stjórn á hjólinu. Mér tókst að halda mér á hjólinu en það svingaði stjórnlaust um götuna og endaði ég á öfugum vegarhelmingi með mikinn hjartslátt og ónotatilfinningu. Af þessu hef ég lært að forðast saltaðar götur og passa mig extra vel þar sem ég þarf að fara yfir götur sem hafa verið saltaðar. Naglarnir hafa greinilega ekkert að segja við þessar aðstæður. Ég endaði á því að hjóla á gangséttinni sem við þessa tilteknu götu er mjög mjó en ég komst heil heim. Það er verst þar sem gangséttin er nálægt götunni og saltslabbið gusast upp á gangséttina en það getur verið mjög varasamt. Ekki datt mér í hug að saltið gæti verið svona hrikalegt.
.
En jólin nálgast og ég ætla mér að gera svakalega margt núna um helgina til að undirbúa jólin. Því eins og venjulega æðir tíminn áfram og einhvernvegin hleypur frá mér. Jólin koma nú samt þó ég hafi aldrei komist alveg yfir allt sem ég ætla mér að gera, en það er líka allt í lagi. Því það sem skiptir máli er ekki hvort búið er að þurrka úr öllum skápum og skúra öll gólf eða annað í þeim dúr.

5. desember 2008

Hitt og þetta og þó mest jólaundirbúningur



Útgáfutónleikarnir tókust vonum framar, full kirkja og góð stemming (diskurinn er til sölu hjá mér).



Svo nú er að fara að undirbúa jólin. Jóladagatalið gengur ekki vel hjá mér í ár. Er einstaklega andlaus eitthvað. Stelpurnar tóku sig til einn daginn og útbjuggu hvor fyrir aðra (án þess að hin vissi af), það kom nokkuð skemmtilega út.



Svo er það piparkökubaksturinn, ætlunin er að hnoða í deigið í dag og baka á morgun, ætli eitt stk hús verði bakað líka (set inn mynd þegar það er komið upp). Þetta er eina smákökusortin sem ég baka fyrir jólin. Aðrar smáköku hafa bara dagað uppi óétnar í fínu kökuboxi, svo það er alveg eins gott að sleppa því að baka þær. Það er svo mikið annarskonar framboð af allskonar sætindum og fíneríi. En ef Bjartur les þetta þá er mjög líklegt að eitt eða tvö kryddbrauð verði bökuð á laugardaginn og hann er velkominn til að taka eitt með sér ef hann kíkir í heimsókn ;)



Mig langar líka svo mikið til að steikja laufabrauð, hef aldrei gert það heima. Það var alltaf hittst í Vogaskóla þegar stelpurnar voru minni og laufabrauð skorið og steikt. En svo var skólaeldhúsið rifið og nokkkur ár tók að byggja nýtt og þessi hefð datt niður. Við söknum þess og því langar mig að spreyta mig á þessu heima. Sjáum til hvort eitthvað verði af því í ár.

26. nóvember 2008

Útgáfutónleikar

Þriðjudagskvöldið 2. desember klukkan 20:00 verða útgáfutónleikar í Áskirkju.

Þar fagnar Kór Áskirkju útgáfu á jóladiskinum Það aldin út er sprungið. Kórinn syngur íslensk og erlend jólalög án undirleiks undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Á disknum hljjóma perlur sem allir kannast við, í hefðbundnum sem og óhefðbundnum útsetningum, ásamt minna þekktum kórverkum.

Aðgangur er ókeypis.

10. nóvember 2008

Fréttaflutningur

Ég eins og margir aðrir var sársvekkt yfir fréttaflutningi af mótmælafundinum á laugardaginn síðasta. Mig hefur langað að skrifa eitthvað um það en ekki gefið mér tíma í það. Í staðinn hef ég sett inn hér slóðir á bloggfærslur það sem fólk lýsir óánægju sinni með fréttaflutninginn, enda var hann til háborinnar skammar.

Tilfinningin er sú að maður geti engum treyst lengur. Hver segir satt? Hverju er sagt frá og hvað skilið eftir? Og þegar Sjónvarpið tók upp á þessum ósóma líka, ja hvernig get ég treyst fréttaflutningi frá þeim eftir þetta?

Kíkið endilega á þessar færslur.

Lára Hanna Einarsdóttir - Hvert er eiginlega hlutverk fjölmiðla?

Helga Vala - Af spunasveini Rúv.

Bloggsíða Ágústs Borgþórs - Mannfjöldinn er fréttin - ekki eggjakastið

Silfur Egils - Mótmælin áðan

Jenný Anna Baldursdóttir - Mótmælum rænt um hábjartan dag

En í gærkvöldi klóraði Sjónvarpið í bakkann og birti réttlátari mynd af mótmælunum og talaði við Hörð Torfa og þann sem stóð fyrir borgarafundinum í Iðnó. Lára Hanna Einarsdóttir hefur sett það myndskeið inn á bloggið hjá sér og þetta er slóðin á færsluna hennar. Afsökunarfrétt, Einar Már og skrílslæti forsætisráðherra

31. október 2008

Reynslan af nagladekkjunum er góð.

Finn ekkert fyrir hálkunni, en veit af henni og fer þess vegna hægar yfir og varlegar í beygjur. En ég hef aldrei skrikað eða runnið til og mér finnst líklegt að ég eigi eftir að venjast vetrarhjóleiðunum aðeins betur áður en ég eyk hraðann aftur. Ég er næstum 5 mín lengur í vinnuna þessa dagana en ég var í sumar, en ég er líka með eindæmum varkár manneskja og hrædd við að detta.
Hef bara einu sinni komist yfir 30 km/klst eftir að nagladekkin fóru undir hjólið en ég finn að ég er smátt og smátt að auka hraðann aftur eftir því sem ég læri betur á dekkin.

Kuldinn er lítið sem ekkert að angra mig. Ég er í mínum venjulegu fötum, gallabuxum, bómullarbol (þó vanir hjólreiðamenn segji manni að forðast bómull því hún drekkur í sig svitann og blotnar), lopapeysu og lopasokkum. Utan yfir það er ég svo í fínu Didrikson regn/útivistarfötunum mínum sem bæði halda hita, en anda líka (kostuðuð 12 þús í útilífi í sumar). En mig vantar nýja vetlinga því mínir eru orðnir ansi götóttir og mér verður kalt á puttunum sem standa út úr götunum. En úr því verður bætt fljótlega.

Sem sagt vetrarhjóleiðarnar ganga vel og ég er svo ánægð með að geta haldið áfram að hjóla þó smá snjór og hálka sé í bænum.

30. október 2008

kjosa.is

Fyrir kosningabæra Íslendinga sem ekki eru sáttir og sælir með ráðamenn á Alþingi vil ég benda á síðuna www.kjosa.is þar sem verið er að safna undirskriftum. Listinn verður afhentur valdhöfum og fjölmiðlum 15. nóvember nk.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...