Vegna dagatalsins er hugurinn á stöðugri leit að einhverju ódýru en jafnframt sniðugu til að hafa sem verðlaun, því ekki er hægt að ætlast til að þrautir séu leystar án verðlauna.
Um daginn fæddist hugmynd og á mánudag var kort í verðlaun með þessum texta:
"Þetta kort er boðsmiðið á rafmagnslaust kvöld að [og hér er heimilisfang, óþarfi að gefa það upp hér].
Gildistími 12.12.2006 frá því að búið er að snæða kvöldverð til kl. 22.00.
Þá verður kveikt á kertum og spil dregin fram.
Hlökkum til að eiga þessa stund með ykkur.
Mamma og pabbi."
Í gær var 12.12.2006. Matur var óvenju seint á borðum vegna þess að húsmóðirin var á kóræfingu lengur en venjulega, en tilhlökkun lá í loftinu. Og um kl. 20.00 var kveikt á kertum og öll ljós slökkt, líka jólaseríur og útiljós. Það er ótrúlega magnað að ganga um íbúðina við kertaljós og er ekki annað hægt en að mæla með því að fólk prófi þetta.
Kvöldið heppnaðist frábærlega. Við spiluðum "ólsen, ólsen", "Uno", "sæl amma" og "þjóf".
Ekki skemmdi það fyrir að bóndinn á bænum hafði fjárfest í góðgæti handa öllum. Hrund fékk túnfisksalat, Eyrún Skittles, ég Irish Coffee og hann sjálfur bjór.
1 ummæli:
Helv..skemmtileg hugmynd, ætla máski að prófa sjálfur...
Skrifa ummæli