31. desember 2014

Hjólað í desember 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 190 km, þar af 116 km til og frá vinnu og 74 km annað.  

Hjólaði 13 af 21 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók mér viku frí í byrjun mánaðarins og svo var einn dagur sem ég hjólaði ekki vegna veðurs (þ.e. skildi hjólið eftir í vinnuni (16. des) og var því augljóslega ekki að hjóla í vinnuna daginn eftir, enda var færðin ekki beint spennandi eftir mikla snjókomu og óveður og svo var ég í fríi á aðfangadag og gamlársdag.  En seinnipart þess 17. hjólaði ég heim og var þá búið að hreinsa stígana nokkuð vel þó gatnamót væri felst ill fær og ég þurfti að stíga af hjólinu og teyma yfir.
 
Sá að meðaltali 3 á hjóli á dag til vinnu og 6 á heimleið. Mest taldi ég 6 til vinnu og 11 á heimleiðinni.  Hjólaði svo til allan mánuðinn niður Álfheimana, eftir Suðurlandsbraut og svo Laugaveg.  Sá stígur er í forgangi og var nokkuð vel hreinsaður af snjónum plús það að stór hluti af nýja hjólastígnum frá Kringlumýrarbraut og að Fíladelfíu er upphitaður.

Viðbót 6.1.2015.
Fékk póst frá endomondo og svona lítur mánuðurinn minn út frá þeirra bæjardyrum:



30. desember 2014

Hjólateljarinn farinn að telja aftur!

Í gær (eftir rigningu og hita um nóttina) var klakinn loksins farinn að gefa sig yfir stígnum hjá hjólateljaranum og hann er farinn að telja hjólreiðamenn aftur.  En hann hefur ekki talið hjólandi síðan 9. desember, hafi eitthvað verið talið á tímabilinu þá eru það snjóruðningstæki.

Á leiðinni heim í gær var ég nr. 21 og í morgun var ég nr. 7.  Ég hef hjólað framhjá teljaranum svo til allan desember út af snjónum en sú leið er best hreinsuð og svo tekur við upphitaður stígur sem er mikill lúxus.

17. desember 2014

Hjólafréttir eftir ófærð gærdagsins

Hjólaði heim eftir vinnu áðan.  Í gær skildi ég hjólið eftir í vinnunni og tók strætó en töluverð ófærð var á höfuðborgarsvæðinu og ég ákvað að vera ekkert að reyna að puða  heim á hjólinu.
En eftir nokkrar vangaveltur ákvað ég að hjóla heim núna og sé ekki eftir því.

Stígarnir nokkuð vel ruddir miðað við aðstæður en öll gatnamót illfær.  Ég tók því bara rólega, steig af hjólinu og leiddi það yfir erfiðustu partana.  Var rúmar hálftíma á leiðinni en er vel sátt við það.

Stoppaði á leiðinni og tók þessa mynd, Laugardalurinn vinstra megin og Suðurlandsbraut hægra megin.

13. desember 2014

Hjólafréttir


Hjólaði heim eftir Sæbrautinni í gær (föstudag).  Hef ekki farið þá leið síðan á mánudagsmorgun vegna ótíðar í veðri en þá hef ég valið að fara leið sem er ekki við opið hafið.  Það er greinilegt að sjórinn hefur verið með læti í vikunni því svona var stígurinn fyrir neðan gatnamótin Sæbraut-Kringlumýrarbraut.

Lenti í því á fimmtudaginn þegar ég hjólaði heim að hjólið rann undan mér á svellbunka.  Þetta kom mér verulega á óvart því ég hef hingað til getað treyst nagladekkjunum svo til 100%, aðeins í saltpækilsslabbi í húsagötum hef ég upplifað að missa stjórn  á hjólinu og forðast því slíkar aðstæður.
Ég var sem betur fer ekki á mikill ferð, var að lúsast niður Smiðjustíginn og þá finnst mér að afturhjólið fari að halla og ég ræð ekki neitt við neitt og enda í götunni.  Kenndi mér ekki meins enda gerðist þetta frekar rólega.  En hinsvegar minnkaði traustið á nagladekkjunum og mér finnst ég vera óöruggari á þeim en áður.  Vonandi kemst ég fljótt yfir þá tilfinningu því þessi 6 ár (ef ég man rétt) sem ég hef verið að hjóla á veturnar þá hef ég ekki lent í vandæðum og alltaf fundist ég öruggari á hjólinu en á bílnum eða gangandi.

11. desember 2014

Engin annar að hjóla?

Í annað skiptið á þessu ári sé ég engan annan á hjóli á leið minni til vinnu.  Það kom mér verulega á óvart í morgun því veðrið í dag er mun skaplegra en í gær, en þá sá ég 4 aðra á hjóli.

Þetta gerðist síðast þann 26. mars 2014 en þá hafði veðurstofan spáð stormi en mér hefur engu að síður fundist veðrið ekki nógu fráhrindandi til að sleppa því að hjóla.

Enn virkar hjólateljarinn ekki.  Hann sagðist hafa talið  6 í morgun, en ég geri ráð fyrir því að það séu snjómoksturstæki en ekki hjól því ekki taldi hann mig.  Finnst leiðinlegast að búið er að loka fyrir hugmyndir inni á "Betri Reykjavík" því það væri tilvalið að annaðvhort setja hita í stiginn við teljarann eða færa teljarann þangað sem hiti er nú þegar í stígnum.

10. desember 2014

Brjálað veður

Töluverður mótvindur á leiðinni í vinnuna í morgun.


Var samt ekki nema 5 mínútum lengur á leiðinni í gær, sem kom mér á óvart því ég fór ansi hægt yfir á köflum þar sem vindhviðurnar voru hressilegar.  Ég hef ekki svo ég man eftir farið niður í svona lágan gír á leiðinni til vinnu áður.
 Svona er maður svo rauður í framan þegar komið er til vinnu.  En verð samt að segja að það er ótrúlega gaman að takast á við veðrið og sjálfan sig.  Færðin að öðru leiti góð, stígar vel skafðir og meira að segja helstu gatnamótin líka.



9. desember 2014

Gatnamót og snjóhreinsun

Get ekki sagt annað en að ég sé nokkuð ánægð með snjóhreinsunina það sem af er vetri.  Það hefur nokkuð snjóað í viku eða svo og það sem ég hef þurft að fara hef ég vel komist.  Á facebook hafa menn líka verið duglegir að hrósa Reykjavíkurborg fyrir snjóhreinsunina, þó auðvitað sé alltaf hægt að gera betur.

Á sunnudaginn síðasta hjólaði ég í messu í Dómkirkjunni og þá var færðin allstaðar góð nema á gatnamótum, þau voru almennt illa skafin og erfið yfirferðar.  Þurfti allt of oft að fara af hjólinu og teyma það yfir götuna.  En nú í morgun hjólaði ég í vinnuna (sjá mynd af leið).  Þá var erfiðast, eins og svo oft áður, að komast út götuna heima og upp á Langholtsveg þar sem ég þóttist nokkuð viss um að búið væri að skafa - og það reyndist rétt hjá mér.  Nú hef ég nýlega uppgötvað að á Borgarvefsjá er hægt að sjá "lifandi gögn" sem sýna hvar búið er að skafa (valið annaðhvort stígar eða götur) og ég skoðaði það vel og vandlega í morgun, en mér til mikillar armæðu var skv. því ekkert búið að skafa neina stíga nema í úthverfum borgarinnar.  En ég ákvað að þetta hlyti að vera vitleysa (sem það var).

Allavega þá var færðin bara nokkuð góð alla leið eftir að ég var komin upp á Langholtsveginn, meira að segja gatnamót voru nokkuð hrein og þokkalega fær (þurfti ekki að stíga af hjólinu sem er mikill kostur).

Gatnamót Laugavegur/Suðurlandsbraut-Kringlumýrarbraut.  Mynd tekin sunnudaginn 7. des.  Allt annað að fara þarna um í morgun.
Leiðin sem ég hjólaði í morgun.  Var 23 mín. á leiðinni sem er bara mjög svipað og venjulega (er yfirleitt rétt undir 20 mín á góðum degi, en þá fer ég reyndar örlítið lengri leið).
Skjámynd af Borgarvefsjánni í morgun kl. 8.  Kortið sýnir gögn sem eru 2 klst. eða yngri.  Rauðu strikin eiga að sýna þar sem búið er að skafa, en í þetta skiptið var ekki alveg að marka kortið, vona að það sé undantekning því svona kort sem virkar getur hjálpað manni mikið við að velja bestu leiðina þegar færðin er ekki upp á sitt besta.

Ps. hjólateljarinn við Suðurlandsbraut er ekki að virka. Hann stóð í 8 þegar ég fór framhjá honum í gær á leiðinni heim (um kl. 16:15) og gerði það enn í morgun.  Í gær voru 2 á hjóli á undan mér og hann taldi allavega ekki mig og þann sem vær næst á undan mér og í morgun var einn á undan mér sem greinilega var ekki talinn heldur. 

4. desember 2014

Hjólatúr í góða og fallega veðrinu.

Er í fríi þessa vikuna og missti þess vegna af því að hjóla í vinnuna í morgun.  En veðrið var einstaklega fallegt í dag, snjór yfir öllu, sólin skein og varla hreyfði vind.  Ákvað því að fara út í hjólatúr.  Leiðin lá upp  í Grafarvog.  Myndinrnar ná enganvegin að fanga fegurðina, þó þær geri sitt besta.  Fyrsta myndin er tekin í Barðavoginum.
 Búið var að skafa alla stíga sem ég fór um og almennt var það vel gert.  Einstaka stígamót voru þó þannig að hraukar voru skildir eftir þvert yfir stíginn (sjá mynd hér að neðan).  Næstu tvær myndir sína stígana við nýju brýrnar yfir Geirsnef, þar voru bæði hjóla- og göngustígar skafðir en aðeins göngustígurinn sandaður.  Held að flestir sem ferðast á hjóli séu sáttir við þann háttinn.


 Í sumar var gerð breyting á aðkomu að Gullinbrú þar sem beygjan var færð utar, til mikilla bóta.  Enn er þó blindhorn en bæði er varað við því með skiltum og það er ekki eins svakalegt og það var.


 Hér er dæmi um stígamót þar sem samskeitin eru ekki hreinsuð og það er ekki nógu gott.
 Tveir hrafnar sátu upp á staur og stungu saman nefjum.

 Hér ríkir fegurðin ein.  Fór hér um stíga sem ég hef ekki farið um áður og það er alltaf gaman að prófa nýjar leiðir.


 Svolítið skrítið að koma aftur að umferðagötunni Sæbraut eftir að hafa hjólað eftir stígum sem lágu frá götunum.  Skrapp svo í fiskibúðina á heimleiðinni að kaupa í soðið.
Hér má sjá leiðina sem ég fór.

2. desember 2014

Heimsókn í Kópavoginn

Er í fríi þessa vikuna og skrapp í heimsókn og hádegismat til foreldranna í Kópavogi.  Fékk þessi líka fínu svið og fleira góðgæti.  Við mamma kíktum svo í hannyrðaverslanir, eina í Hamraborg og aðra á Nýbýlavegi báðar virkilega notarlegar.

En svo kom að heimferðini og þá ákváðu foreldrar mínir að hjóla með mér heim.  Á leiðinni sáum við tré sem höfðu orðið illa úti í óveðrinu um helgina (sjá meðfylgjandi myndir), á einum stað liggur tréð yfir stíginn en þó er vel hægt að komast framhjá því.



1. desember 2014

Hjólaði í nóvember 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 306 km (ath endomondo segir 310km), þar af 208 km til og frá vinnu og 98 km annað.  

Hjólaði 19 af 20 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, daginn sem ég hjólaði ekki hélt ég að það væri leiðinda veður en svo var það alls ekki svo slæmt og ég sá strax eftir því að hafa skilið hjólið eftir heima.  Ég hef notað www.belgingur.is  nokkuð til að fylgjast með veðri og vindum og það hefur yfirleitt reynst mér vel, en bara ekki þennan umrædda dag.  En belgingur reynist alltaf vel til að átta sig á vindátt og hef ég valið mér leið til vinnu svolítið eftir því.  En í nóvember hef ég næstum alla daga haft meðvind í vinnuna.

Sá að meðaltali 8 á hjóli á dag til vinnu og 11 á heimleið. Mest taldi ég 12 til vinnu og 26 á heimleiðinni.  Nóvember hefur verið óvenju hlýr þetta árið og ég verið á sumarhjólinu flesta daga.


Hér er línuritið mitt yfir talningu á hjólreiðamönnum borið saman milli ára.  Nú vantar bara desember.  Ljósbláa línan er árið í ár. Hlakka til að sjá hvernig árið verður í heild.

Og að lokum þá er hér það sem endomondo sendi mér í tölvupósti:



4. nóvember 2014

Mengun frá eldstöðinni


Fannst ég finna fyrir einhverju skrítnu í morgun þegar ég hjólaði í vinnuna.  Það lagaðist þó þegar nær dró miðbænum.  Fann ekki bragð eða lykt heldur skrítna tilfinningu í hálsinum og hóstaði nokkrum sinnum út af því.  Vonandi hættir þetta eldgos fljótlega.
Myndin er fengin af vef umhverfisstofnunar.


Endomondo í október

Fékk tölvupóst frá endomondo um skráða hreyfingu í október.  Ég er reyndar ekki sammála heildar km fjölda í mánuðinum, en það er önnur saga.


1. nóvember 2014

Hjólað í október 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 325 km (ath endomondo segir 319km), þar af 248 km til og frá vinnu og 77 km annað.  
Hjólaði 22 af 23 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, daginn sem ég hjólaði ekki var starfsdagur hjá okkur í Hveragerði.  Sá að meðaltali 11 á hjóli á dag til vinnu og 14 frá vinnu. Mest taldi ég 20 til vinnu og 36 á heimleiðinni. 

Fór á nagladekkin 20. október, en hef verið á því og sumarhjólinu til skiptis.  Það snjóaði aðfararnótt 21. okt en síðan hefur snjórinn ekki sést.

Fór á námskeið í Kópavog i Hlíðarsmára í mánuðinum (hverfið fyrir ofan Smáralind) og hjólaði á stígum svo til alla leið.  En það sem mér fannst fáránlegt (og ég reyndi að fanga á myndinni) er að það er ekki gert ráð  fyrir að þeir sem ferðast eftir stígunum þurfi að fara inn í hverfið sem er vinstramegin á myndinni, en þangað var ég einmitt að fara.  Er hér á leið upp Smárahvammsveg.  

Hér eru svo nokkrar myndir teknar úr endomondo.

Þessi mynd sýnir hvernig það sem ég skrái er í samanburði við aðra.  Ég virðist vera aðeins fyrir ofan meðaltalið í októbermánuði.

Svona lítur mánuðurinn út.  Kortið og vegalengdin sem er teiknuð á það er síðasta ferð mín heim í úr vinnu þennan mánuð.  Ég hjólaði Hverfisgötu (gafst upp á að fara hjólastíginn vegna hindrana á honum, bæði gangandi - en þeir fá kjánalega lítið pláss á gangstéttunum - og vörubíls sem lagt var yfir stíginn) - Laugarveg - Suðurlandsbraut- Laugardalur út af hressilegum mótvindi en sú leið er skjólbetri en Sæbrautin sem ég hjóla oftast meðfram.

Hér eru svo samantekt á heildarskráningu hjá mér frá því ég hóf að nota endomondo, 
 Og að lokum samanburður milli mánaða.  Flekkurinn sem er dekkri skráði ég sem sport en ekki samgönguhjólreiðar af því þá var ég að hjóla upp á sportið en ekki til að koma mér milli staða.

21. október 2014

Fyrsti snjór vetrarins


Þessu var nú spáð svo það kom ekki sérlega á óvart, en alltaf er nýfallinn snjórinn jafn falleg sjón.
Fór fyrstu ferð á vetrarhjólinu í gær (já nú er maður orðin svona flottur á því að eiga sumar- og vetrarhjól).

Í morgun lagði ég svo af stað nokkuð fyrr en venjulega ef færðin væri slæm.  Finn að ég treysti ekki hjólinu alveg og nagladekkjunum, en það er oft þannig í fyrsta snjó og hálku.  En ég var ekki mikið lengur en venjulega í vinnuna og þó ekki væri búið að skafa nema hluta af leiðinni þá kom það ekki að sök, enda snjórinn ekki það mikill og alls ekki þungur.

3. október 2014

Fagur morgun

Fegurðin nær þó engan vegin að skila sér í þessari mynd.  En öll leiðin til vinnu í morgun var eitt  listaverk sama hvert var litið.  Sjórinn hvítfyssandi, birtan, glampinn af sólaruppkomunni á húsunum.  Allt var fagurt.  En í morgun var mótvindur og það var svolítið puð að komast í vinnuna (mér fannst það nokkuð fyndið eftir að hafa skrifað í gær langan pistil um hvernig ég er eiginlega alltaf með meðvind).  En maður hefur ekkert nema gott af áreynslunni og roðinn í andlitinu hjaðnar eftir smá stund.

2. október 2014

Hjólafréttir - eða svoleiðis.

Það eru mikil forréttindi að hafa tækifæri og getu til að hjóla til og frá vinnu.  Ég hef hjólað í vinnuna að staðaldri síðan 1998, fyrst bara á sumrin alveg þar til að eitt haustið að ég gat ekki hugsað mér að hætta að hjóla.  Þá voru keypt nagladekk undir hjólið og ég bjó mig undir mikil átök um veturinn.  Þetta var árið 2008 (sjá hér skrif frá mér um efnið).  Eitthvað var minna um átökin en ég bjóst við og kom mér á óvart hversu auðvelt og gaman var að hjóla yfir veturinn.  Auðvitað komu daga þar sem ég sleppti því að hjóla vegna veðurs og færðar en þeir voru miklu færri en ég átti von á.

En að árinu í ár.  157 daga af þessu ári hef ég hjólað í vinnuna.  Hef því samtals sleppt því að hjóla 28 daga (mest orlofs dagar) þar sem vinnudagar þessa árs fram til lok september mánaðar voru 185.  Samtals er kílómetrafjöldi ársins orðinn 2.355 (þar af 1.718 til og frá vinnu)

Stundum skrái ég hjá mér athugasemdir um veðrið og ég ákvað að telja saman þá daga sem ég skráði eitthvað um mótvind, meðvind og stillt veður.

11 sinnum mótvindur, 20 sinnum meðvindur og 30 sinnum stillt veður

ég veit, þetta eru ekki nema 61 dagur af 157 sem ég hef hjólað en oftar fannst mér ekki ástæða til að segja eitthvað um vindinn.  Ég er heppin með það að vindáttin er ríkjandi með mér á morgnana og snýst oft yfir daginn og er með mér heim aftur, en auðvitað er það ekki alltaf og þá tekst maður við mótvindinn (þegar ekki er logn altsvo). 

Í vor keypti ég mér fallegt hjól hjá Kríu.  Mig hefur langað í svona borgarhjól ansi lengi enda er ég mikill aðdáandi danska og hollenska stílsins og hef gaman að því að horfa á hin og þessi myndbönd af hjólreiðum þaðan.  Mikið hlakka ég til þegar við förum að nálgast hjólamenninguna þar, því ég hef fulla trú á því að það gerist.  Menn eru að vakna og sjá og skilja að hjólreiðar eru frábær samgöngumáti.  Menn hafa ranghugmyndir um að það sé erfitt að hjóla í Reykjavík út af veðri og brekkum en það er ekki rétt.  Og vona ég svo heitt og innilega að fleiri haldi áfram að bætast við þann fjölda sem dregur fram hjólin til að skjótast hingað og þangað og þannig smám saman aukist hjólamenningin.

En svolítið um mínara hjólreiðar, ég bý í 104 og vinn í 101.  Leiðin sem ég hjóla oftast er tæpir 6 km hvora leið en ég get valið úr nokkrum leiðum eftir veðri, vindum og færð.  Að meðaltali er ég 20 mín á leið í vinnuna og er aðeins fljótari á sumrin en á veturnar.

Og nú fer að koma sá tími að ég verð að leggja nýja fína hjólinu mínu yfir veturinn því það er svo mikið borgarhjól að ekki komast nagladekk undir það.  Upphaflega var ætlunin að ég mundi nota gamla hjólið mitt til yfir veturinn, en mér til mikillar hrellingar þá á ég ekki samleið með því hjóli lengur (sjá hér) en þá vill svo vel til að minn ektamaður á hjól sem hann notar ekki mikið og aldrei yfir vetrartímann og nú eru vetrardekkin mín komin undir það hjól og er líklegt að bráðlega verði skipt um hjól, allavega var hitastigið á mælinum heima í morgun ekki nema rétt yfir frostmarki.

1. október 2014

Hjólað í september 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 297 km, þar af 235 km til og frá vinnu og 62 km annað.  
Hjólaði 21 af 22 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók 1 orlofsdag.
Sá að meðaltali 16 á hjóli á dag til vinnu og 15 frá vinnu. Mest taldi ég 25 til vinnu og 34 á heimleiðinni.  

Tvo síðustu daga september komu lægðir upp að landinu með roki og rigningu (fólk beðið að festa lausa hluti).  En ég hjólaði samt (skoðaði www.belgingur.is til að sjá vindátt), fór leið sem er skjólbetri og styttri en Sæbrautin þ.e. í gegnum Laugardalinn og svo Suðurlandsbraut-Laugarvegur.  Fékk ég þennan fína meðvind báða dagana.  Sá þó ekki nema einn annan á hjóli fyrri daginn, 29. sept (um morguninn).

Hér má sjá samanburð milli ára á meðtaltali talninga á hjólandi* sem ég tel fyrir hvern mánuð.




Hér eru tölur frá endomondo.  Inni í þessu er líka labb (þó ekki mikið, ég er greinilega meira fyrir það að hjóla).  En þetta eru tölur frá því ég byrjaði að skrá hreyfingu mína hjá þeim.

* Á morgnana tel ég alla sem ég sé á hjóli á meðan ég hjóla til vinnu og skrái hjá mér. Finn svo út meðaltal fyrir hvern mánuð og það eru tölurnar sem birtast í línuritinu. Ég er á ferðinni milli 7:30 og 8:00 og fer lang oftast meðfram Sæbrautinni en á þó líka til að fara um Laugardalinn og meðfram Suðurlandsbraut og Laugarvegi og örsjaldan meðfram Miklubraut.

 Bætt við 7.10.2014:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...