14. maí 2009

Viðhorf til hjólreiða

Mér var í gær bent á það, af bílstjóra sem ók fram úr mér á Njálsgötunni að það væri fyrir löngu búið að leyfa hjólreiðamönnum að hjóla á gangstéttinni. Ég svaraði honum að það væri bara miklu betra að hjóla á götunni og fékk þá það svar að þar væri ég fyrir. Þar sem hann var þá komin fram úr mér gafst mér ekki tækifæri til að segja neitt af viti og kallaði bara NEI.

Einmitt á þessari götu eru gangstéttarnar algjörlega ónothæfir til hjólreiða. Stéttarnar eru þröngar og með þrengingum hér og þar. Húsin eru alveg upp við götuna og mjög oft er bílum lagt upp á stéttina. Hámarks hraðinn er 30 km/klst á götuni og venjulega næ ég líklega 20-25 km/klst þarna en maður þarf reglulega að hægja á út af þvergötum sem eiga forgang.
Mér finnst best þegar það er bíll fyrir framan mig því þá er augljóst að ég fer ekki hægar en hann og þá fá bílstjórar fyrir aftan mig ekki þessa tilfinningu að ég sé að hægja á þeim. En ef það er ekki bíll fyrir framan mig þá finn ég fyrir óþolinmæði bílstjóranna fyrir aftan mig. Oftast fer ég þá upp á stétt og hleypi framúr.

12. maí 2009

Vortónleikar unglingadeildar söngskóla Sigurðar Demetz

Í gærkvöldi söng Eyrún á vortónleikunum. Hún stóð sig virkilega vel. Tónleikarnir voru tvískiptir, klassísklög í fyrrihluta og sungið í hljóðnema á seinnihluta, en á milli sungu allar stelpurna í kór og líka í lokin.

Þetta voru allt stelpur og sungu þær flestar tvö einsöngslög og svo allar í kórlögunum. Þær voru greinilega komnar mis langt í náminu og margar áttu erfitt með að standa fyrir faman alla gestina og syngja, en allar komust þær vel frá sínu og stóðu sig vel. Tónleikarnir voru vel sóttir og þurfti að bæta við sætum til að allir kæmust fyrir.

Lögin sem Eyrún söng voru Brátt mun birtan dofna og lagið úr Anastasiu sem hún hefur sungið nokkrum sinnum áður, en það lag var valið með svolítið litlum fyrirvara og því náðist ekki að undirbúa og finna nótur að undirspili fyrir undirleikarana að spila svo hún notaði upptöku sem við Arnar bróðir settum saman fyrir Eyrúnu þegar hún söng lagið á Árshátíð unglingadeildar Vogaskóla fyrr í vor.

Bæði lögin voru virkilega fallega sungin hjá henni.

10. maí 2009

Tátiljur




Var að prjóna mér þessar tátiljur. Finnst þær bara nokkuð sætar.
Uppskriftin er í sokkabókinni sem Þórhallur gaf mér í jólagjöf.

8. maí 2009

Myrkur 29. september 2006

Munið þið eftir því þegar öll götuljós voru slökkt í hálftíma í september 2006?

Mikið vildi ég að það væri endurtekið. Í þessari færslu er ég að skrifa mína upplifun á því að ganga um hverfið með enga götulýsingu. Helsti gallinn var að margir íbúar slökktu ekki hjá sér ljósin. Og ég var líka hissa á fjöldanum sem ákváð að fara í bíltúr þennan hálftíma.

En þetta var frábært framtak sem mætti vel endurtaka (þó ekki fyrr en í haust þegar myrkrið er komið aftur).

7. maí 2009

Hjólað í vinnuna


Átakið Hjólað í vinnuna hófst í gær. Veðrið var ótrúlega gott þá miðað við að undanfarna daga var rok og rigning. En í gær skein sólin og vindinn hafði lægt töluvert. Enda var krökkt af hjólandi og gangandi þegar ég fór heim í gær.
Það reynir svolítið á þolinmæðina þegar menn fara ekki eftir hægri-umferðar-reglunni. En í morgun voru allir með hana á hreinu sem flýtir fyrir og auðveldar alla umferð.

18 hjólreiðamenn sáust á og við stígana við Miklubraut í morgun. Það eru 4 fleiri en þegar ég skráði þessa færslu.

6. maí 2009

Vorsýning, Klassíski listdansskólinn







Verð bara að segja frá þessu því maður er að springa af monti og stolti af frumburðinum. Á sunnudaginn var vorsýning Klassíska listdansskólans í Borgarleikhúsinu og þar kom fram (meðal fjölda annara frambærilegra dansara) hún Hrund mín. Vinkona henna Halldóra var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir sem ég nappaði af facebook, vona að hún fyrirgefi mér það. Við eigum svo fleiri myndir heima sem ég gæti vel átt til að skella hér inn líka, en þar var Eyrún á myndavélinni og náði ótrúlega góðum myndum miðaða við fjarlægð frá sviði.

5. maí 2009

Sumarið er komið

Því ég er komin á sumardekkin!!!!!!

Og ekki seinna vænna þar sem átakið Hjólað í vinnuna hefst á morgun.

Fékk skemmtilega aðstoð á leið í vinnuna í morgun í mótvindi og rigningu. Hjólreiðamaður sem var að taka fram úr mér býður mér að hjóla með sér þe. hann sá um að kljúfa vindinn og ég hjólaði við afturdekkið hjá honum. Það munaði ótrúlega um það og um stund var ég næstum í logni. Þurfti þó að hafa mig alla við að halda í við hann en við áttum skemmtilegt spjall um hjólreiðar í leiðinni.
Þetta er í annaðskiptið sem mér býðst svona aðstoð en síðast var ég á heimleið við svipaðar veðuraðstæður. Það var fyrir meira en ári síðan, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort um sama manninn sé að ræða...
Að minnstakosti þakka ég honum kærlega fyrir hjálpina í morgun.

30. apríl 2009

Hjólafréttir

Var næstum búin að láta keyra á mig í morgun. Sökin var jöfn milli mín og bílstjórans mundi ég halda og við sluppum bæði ósködduð svo við reynum bara að læra eitthvað af þessu.

Sá löggu á mótorhjóli hjóla á gangstétt, hélt það væri bannað. Fyrst taldi ég hann ætla að fyljgast með morgunumferðinni á gatnamótunum Suðurlandsbrautar/Laugarvegs og Kringlumýrarbrautar en svo hélt hann bara áfram stíginn að Listhúsunum! Abbababb.




8 hjólreiðamenn fyrir utan mig í morgun og meirihluti karlmenn.

27. apríl 2009

Eftir kosningar

Þá er viðburðarrík helgi yfirstaðin.

Ég tók aðra moltutunnuna okkar í gegn. Náði úr henni 2 (stórum) fötum af mold sem ég setti í matjurtarbeðið. Uppskar ógurlegar harðsperrur í óæðri endanum og er enn að eiga í því. Það var ansi misskipt í tunnunni of blautt sumsstaðar og annarsstaðar skrauf þurrt. Í miðjunni var síðan góður millivegur. Ég þarf líklegast að vera duglegri að hræra í tunnunni. Á stefnuskránni er að gera þetta sama við hina tunnuna líka.

Síðan var kosið og það er nóg búið að blaðra um það svo ég hef ekki fleiri orð um það nema að ég er ágætlega sátt við útkomuna, en nú er að sjá hvernig spilað verður úr og hverskonar stjórn verður mynduð.

Foreldrar mínir áttu svo 40 ára brúðkaupsafmæli á laugardaginn. Í tilefni dagsins var okkur boðið í grillveislu. Veðrið lék við okkur, þó það hefði kólnað þegar leið á daginn.

Í gær setti ég svo niður í garðinn 11 kartöflur, 3 raðir af gulrótarfræjum, 3 raðir af kálfræjum og 3 raðir af radísufæjum. Vona að kuldinn í nótt hafi ekki náð að bíta, en ég er með plast yfir garðinum sem vonandi hefur náð að halda einhverjum hita á jarðveginum.

Í morgun 8 hjólreiðamenn og meirihlutinn kvenfólk. Fór Sæbrautina.

17. apríl 2009

Skemmtilegur dagur í gær.

Eftir vinnu í gær fór ég með samning á faseignasölu, já við erum búin að setja íbúðina okkar á sölu. Sjáum hvað gerist.

Síðan fórum við Hrund og keyptum okkur skó. Mér finnst skór sem kosta meira en 5 þús kall of dýrir, en þannig fór nú samt að við keyptum okkur báðar of dýra skó af því verðmatið hjá mér er greinilega brenglað.

Eftir skókaup fórum við öll fjölskyldan á Pizza-Hut Sprengisandi og fengum okkur að borða. Þjónustan þar var alveg hreint frábær og manni fannst maður vera á fínasta veitingastað. Vonandi verður Alexander aftur þjónninn okkar næst þegar við förum þangað.

Södd og sæl eftir fínustu máltíð fór ég svo á námskeið í ræktun matjurta hjá Endurmenntun Háskólans. Við vorum rétt að komast í gír að tala um motlugerð þegar tíminn var búinn en ég er áhugasöm um jarðgerð og finnst fátt skemmtilegra en að búa til eitthvað nytsamlegt úr svo til engu. En kennarinn lofaði að halda áfram með þá umræðu í seinni tímanum.
Ég var einmitt að kraka í jarðgerðarkössunum okkar um páskana og ætla mér að halda því áfram við fyrsta tækifæri. Því núna er einmitt rétti tíminn til að stinga upp matjurtargarðinn og setja í hann næringu (nýju fínu moldina sem hefur verið að myndast síðast liðið ár eða svo).
Svolítið fyndið að fara á námsekiðið með ekki stærri en 3 m2 matjurtargarð en draumurinn er að eingast nýjan garð á nýjum stað, svolítið stærri og geta ræktað fleiri tegundir. Hingað til hef ég sett niður ca. 11 kartöflur, tvær raðir af gulrótum og tvær af radísum og tvær af salati. Bara nokkuð gott fyrir svona lítinn garð.

Es. 7 hjólreiðamenn, fór Suðurlandsbrautina.

16. apríl 2009

Hjólafréttir

14 hjólreiðamenn í morgun og sá fjórtándi var engin önnur en Adda mágkona (má maður segja mágkona þó fólk sé ekki gift?). Glimrandi gaman að hitta hjólreiðamann sem maður þekkir.

Fór Hringbrautina í dag, en það hef ég ekki gert í langan tíma. Sá einn hjólreiðamann sem ég þekki frá gamalli tíð en stúlkan sú var með mér í barnakór fyrir nokkrum árum (lesist a.m.k. 20 ár) síðan. Við höfum verið að hjólast á undanfarin 3 ár eða svo.

Er með vott að harðsperrum í handleggjunum eftir skokkið í gær (hvaða bull er það eiginlega?). Þarf greinilega að styrkja handleggsvöðvana fyrst þeir þola ekki smá skokk.

15. apríl 2009

Skokk

Fórum saman hjónin lítinn skokkhring. Hann var ekki nema rétt rúmur einn og hálfur kílómetri en þar sem þetta eru fyrstu skokktilburðir ársins erum við nokkuð ánægð með árangurinn.

Veðrið var dásamlegt og við blöðruðum svo til alla leiðina sem var líka gaman. Það sem mér finnst skrítnast er að ég er meira þreytt í höndunum en fótunum eftir hreyfinguna. Eitthvað finnst mér það öfugsnúið.

Hjólafréttir

Það hefur aldeilis bæst í hjólaflóruna undanfarið. Vegna veikinda og páska hef ég ekki hjólað í næstum 2 vikur. Fjöldi hjólreiðamanna á morgnana hefur tvöfaldast á þeim tíma og sá ég í gær 7 og í morgun 10.

Var ekki nema 16 mín á leiðinni, hlakka til að fara af nagladekkjunum því það ætti að vera léttara að hjóla án þeirra. Er samt búin að bíta það í mig að skipta ekki fyrr en í lok apríl.

28. mars 2009

Öðruvísi mér áður brá.


Fór í vikunni og leysti út lyf fyrir dóttur mína sem hún þarf að taka að staðaldri. Við erum með fjölnotalyfseðil og fáum 4 dollur af lyfinu í hvert skipti. Venjulega kostar það okkur milli 3 og 4 þúsund krónur. En núna borgaði ég ekki neitt! Ég bara ætlaði ekki að trúa þessu. Sönnun, sjá mynd.
Nú veit ég ekki af hverju þetta er. Líklegast hefur hækkað hlutur tryggingastofnunar og svo er þetta apótek Lyfjaver á Suðurlandsbrautinni líka töluvert ódýrara en þau apótek sem ég hef hingað til verslað við.

12. mars 2009

Hjólað, vor og sumar.

Núna er sko gaman að hjóla. Götur og stígar næstum alveg auðir, bara rétt smá íshula hér og þar og nokkrar litlar sjnóhrúgur eftir mokstur. Var ekki nema rétt tæpar 18 mín í vinnuna í morgun miðað við rúmlega 19 í gærmorgun og varla farið undir 20 mín dagana þar á undan.
Hjólaði heim eftir Sæbrautinni í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Góð tilfinning og þetta er skemmtileg leið.

Metfjöldi hjólreiðamanna sjáanlegur í morgun, þeir voru hvorki fleiri né færri en 6!

Sumarlöngunin farin að gera vart við sig. Maður farin að spá í sumarfríi og svona. Hlakka til þegar það verður undantekning að maður hjóli í regngallanum til hlífðar. Ég er enn að hjóla í sama fatnaðnum og þegar það var 10° frost og finn fyrir því að það er aðeins of mikið. Líklegast í lagi að sleppa ullarsokkunum og fá sér léttari vettlinga svona rétt á meðan hitinn er um og yfir frostmark. En auðvitað er bara miður mars ennþá svo líklegast þarf maður að halda í hlífðarfötin eitthvað áfram.

En mikið hlakka ég til sumarsins.

4. mars 2009

Hjólafréttir

Úff það var erfitt að hjóla í morgun. Reyndar svo að ég þurfti að teyma hjólið töluverða vegalengd og endaði svo með því að fara upp á Suðurlandsbrautina og hjóla á götunni. Það var nefninlega ekki búið að moka stíginn minn.

Hringdi í Reykjavíkurborg og kvartaði. Var bent á að hjóla frekar meðfram Miklubrautinni því hún sé á forgangi með mokstur. Leiðin mín er næst þar á eftir. En mína leið hef ég farið því hún er styst og létt (þ.e. fáar brekkur), Miklubrautarleiðin er 2 km lengri plús hærri brekkur í báðar áttir.

Sá ekki nema 1 hjólreiðamann á leiðinni en för eftir a.m.k. 2.

26. febrúar 2009

Sólókeppni í Óperunni


Í gær var undankeppni sólódans í klassískum ballett fyrir keppni í Svíþjóð. 3 dansarar komust áfram, og svo voru 3 til vara.


Hrund mín tók þátt í þessari keppni og stóð sig mjög vel. Sveif um sviðið eins og ekkert væri léttara eða skemmtilegra í heiminum. Hún var þó ekki í hópi þeirra 6 sem valdir voru áfram.


Á sviðið stigu 23 dansarar frá 3 ballettskólum (20 stelpur og 3 strákar). Þau stóðu sig öll stórvel og voru glæsileg á sviðinu. Mikið vildi ég að það væru fleiri tækifæri til að sjá klassískan ballett hér á landi hann er svo yndislegur á að horfa.

24. febrúar 2009

Töskurnar mínar


Þetta byrjaði með því að mig langaði að prófa að þæfa lopa. Ég átti til plötulopa og bullaði upp úr mér uppskrift að tösku. Allra fyrsta taskan var blá og prjónuð úr einföldum plötulopa. Það kom ekkert sérlega vel út. Bæði festist hún öll saman í þæfingu og líklegast hef ég heldur ekki þæft hana nógu vel (spurning hvort ég skelli henni aftur í vélina og breyti í buddu?). Svo prófaði ég aftur (nú með tvöföldum plötulopa) og út kom gráa taskan lengst til vinstri. Ég var mjög ánægð með þá tösku, nema hvað að axlarbandið er helst til of stutt.





Nýjasta taksan mín er svo þessi sem er ein á mynd (og lengst til hægri á hinni myndinni). Hana prjónaði ég á tveimur dögum og þæfði. Ætli það megi ekki áætla 10 klst vinna hafi farið í hana, sem segir mér einfaldlega það að til að það borgi sig fyrir mig að fara út í að framleiða og selja þessa tösku þá þarf ég að fá a.m.k. 20.000 kr. fyrir töskuna og þá er ég samt ekki með hátt tímakaup.
En mér þykir mjög vænt um þessar töskur af því þær eru mín hugmynd og hönnun.

16. febrúar 2009

Prjónaárið 2009

Prjónaárið 2009 byrjar vel. Í gær lauk ég við tösku sem ég byrjaði að prjóna í húsmæðraorlofinu á Skagaströnd. Linda systir Ingu hafði prjónað svona tösku sem hentar einstaklega vel undir kórmöppur og ég féll flöt. Auðvitað fengum við Inga uppskrift og byrjuðum að prjóna (vildi svo vel til að ég var búin að fá ábendingu um að þetta stæði til og hafði því tekið lopa með). En taskan er prjónuð með tvöföldum plötulopa og svo þæfð.

Lindu taska er öðruvísi en mín að því leiti að hún er hvít alveg upp og línurnar 5 eru nótnastrengir og hún hafði saumað í þá nótur. Það kemur virkilega skemmtilega út, en það var í mér einhver leti svo ég sleppti því. Og sjá hér er árangurinn.

Ætlunin er að ljósmynda allar afurðir ársins. Andrésbókin er með á myndinni til að menn átti sig á stærðinni. En núna er ég að prjóna bæði dúkku og sokka sem ná uppfyrir hné.


Ps. sá hvorki meira né minna en 8 hjólreiðamenn á leið minni til vinnu! Enda er veðrið og færð töluvert betri núna, næstum allur klaki farinn og hitinn 6°C. Ég var ekki nema 17. mín á leiðinni.

14. febrúar 2009

Húsmæðraorlof.

Nú er ég endurnærð eftir vel heppnað húsmæðraorlof á Skagaströnd. Hvað er betra en taka sér vikufrí frá vinnu og stinga af frá fjölskyldu og hversdagslífinu og skella sér í rútuferð norður í land?

Á þriðjudaginn tók ég rútuna norður á Blönduós þar sem Inga vinkona tók á móti mér. Jói var svo indæll að lána mér rúmið sitt og herbergi. Svo fór í hönd tími sem var allt í senn hressandi og afslappandi. Við fórum í göngutúra í snjónum. Svo á listasýningu í barnaskólanum þar sem Sigurbjörg hafði búið til allskonar fínerí úr leðri (þar á meðal virkilega flott bókamerki handa mér) og Jói hafði bæði teiknað og leirað. Ég fékk að fylgjast með söngtíma hjá Ingu sem var gaman. Linda systir Ingu dró okkur með sér á prjónakvöld á Blönduósi þar sem haldinn var fyrirlestur og prjónað (og auðvitað skoðað og sýnt það sem verið var að vinna með). Okkur var boðið í kreppukaffi til mömmu Ingu og þar fengum við dásamlega góðar kökur.
Að ótöldum þeim tíma sem við prjónuðum eða púsluðum og kjöftuðum frá okkur allt vit.

Á meðan ég skemmti mér á norðurlandinu húkti eiginmaðurinn í bælinu með hálsbólgu og hita.
En núna er ég komin heim til að hjúkra honum og þá verður allt betra ;)

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...