4. nóvember 2014

Mengun frá eldstöðinni


Fannst ég finna fyrir einhverju skrítnu í morgun þegar ég hjólaði í vinnuna.  Það lagaðist þó þegar nær dró miðbænum.  Fann ekki bragð eða lykt heldur skrítna tilfinningu í hálsinum og hóstaði nokkrum sinnum út af því.  Vonandi hættir þetta eldgos fljótlega.
Myndin er fengin af vef umhverfisstofnunar.


Endomondo í október

Fékk tölvupóst frá endomondo um skráða hreyfingu í október.  Ég er reyndar ekki sammála heildar km fjölda í mánuðinum, en það er önnur saga.


1. nóvember 2014

Hjólað í október 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 325 km (ath endomondo segir 319km), þar af 248 km til og frá vinnu og 77 km annað.  
Hjólaði 22 af 23 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, daginn sem ég hjólaði ekki var starfsdagur hjá okkur í Hveragerði.  Sá að meðaltali 11 á hjóli á dag til vinnu og 14 frá vinnu. Mest taldi ég 20 til vinnu og 36 á heimleiðinni. 

Fór á nagladekkin 20. október, en hef verið á því og sumarhjólinu til skiptis.  Það snjóaði aðfararnótt 21. okt en síðan hefur snjórinn ekki sést.

Fór á námskeið í Kópavog i Hlíðarsmára í mánuðinum (hverfið fyrir ofan Smáralind) og hjólaði á stígum svo til alla leið.  En það sem mér fannst fáránlegt (og ég reyndi að fanga á myndinni) er að það er ekki gert ráð  fyrir að þeir sem ferðast eftir stígunum þurfi að fara inn í hverfið sem er vinstramegin á myndinni, en þangað var ég einmitt að fara.  Er hér á leið upp Smárahvammsveg.  

Hér eru svo nokkrar myndir teknar úr endomondo.

Þessi mynd sýnir hvernig það sem ég skrái er í samanburði við aðra.  Ég virðist vera aðeins fyrir ofan meðaltalið í októbermánuði.

Svona lítur mánuðurinn út.  Kortið og vegalengdin sem er teiknuð á það er síðasta ferð mín heim í úr vinnu þennan mánuð.  Ég hjólaði Hverfisgötu (gafst upp á að fara hjólastíginn vegna hindrana á honum, bæði gangandi - en þeir fá kjánalega lítið pláss á gangstéttunum - og vörubíls sem lagt var yfir stíginn) - Laugarveg - Suðurlandsbraut- Laugardalur út af hressilegum mótvindi en sú leið er skjólbetri en Sæbrautin sem ég hjóla oftast meðfram.

Hér eru svo samantekt á heildarskráningu hjá mér frá því ég hóf að nota endomondo, 
 Og að lokum samanburður milli mánaða.  Flekkurinn sem er dekkri skráði ég sem sport en ekki samgönguhjólreiðar af því þá var ég að hjóla upp á sportið en ekki til að koma mér milli staða.

21. október 2014

Fyrsti snjór vetrarins


Þessu var nú spáð svo það kom ekki sérlega á óvart, en alltaf er nýfallinn snjórinn jafn falleg sjón.
Fór fyrstu ferð á vetrarhjólinu í gær (já nú er maður orðin svona flottur á því að eiga sumar- og vetrarhjól).

Í morgun lagði ég svo af stað nokkuð fyrr en venjulega ef færðin væri slæm.  Finn að ég treysti ekki hjólinu alveg og nagladekkjunum, en það er oft þannig í fyrsta snjó og hálku.  En ég var ekki mikið lengur en venjulega í vinnuna og þó ekki væri búið að skafa nema hluta af leiðinni þá kom það ekki að sök, enda snjórinn ekki það mikill og alls ekki þungur.

3. október 2014

Fagur morgun

Fegurðin nær þó engan vegin að skila sér í þessari mynd.  En öll leiðin til vinnu í morgun var eitt  listaverk sama hvert var litið.  Sjórinn hvítfyssandi, birtan, glampinn af sólaruppkomunni á húsunum.  Allt var fagurt.  En í morgun var mótvindur og það var svolítið puð að komast í vinnuna (mér fannst það nokkuð fyndið eftir að hafa skrifað í gær langan pistil um hvernig ég er eiginlega alltaf með meðvind).  En maður hefur ekkert nema gott af áreynslunni og roðinn í andlitinu hjaðnar eftir smá stund.

2. október 2014

Hjólafréttir - eða svoleiðis.

Það eru mikil forréttindi að hafa tækifæri og getu til að hjóla til og frá vinnu.  Ég hef hjólað í vinnuna að staðaldri síðan 1998, fyrst bara á sumrin alveg þar til að eitt haustið að ég gat ekki hugsað mér að hætta að hjóla.  Þá voru keypt nagladekk undir hjólið og ég bjó mig undir mikil átök um veturinn.  Þetta var árið 2008 (sjá hér skrif frá mér um efnið).  Eitthvað var minna um átökin en ég bjóst við og kom mér á óvart hversu auðvelt og gaman var að hjóla yfir veturinn.  Auðvitað komu daga þar sem ég sleppti því að hjóla vegna veðurs og færðar en þeir voru miklu færri en ég átti von á.

En að árinu í ár.  157 daga af þessu ári hef ég hjólað í vinnuna.  Hef því samtals sleppt því að hjóla 28 daga (mest orlofs dagar) þar sem vinnudagar þessa árs fram til lok september mánaðar voru 185.  Samtals er kílómetrafjöldi ársins orðinn 2.355 (þar af 1.718 til og frá vinnu)

Stundum skrái ég hjá mér athugasemdir um veðrið og ég ákvað að telja saman þá daga sem ég skráði eitthvað um mótvind, meðvind og stillt veður.

11 sinnum mótvindur, 20 sinnum meðvindur og 30 sinnum stillt veður

ég veit, þetta eru ekki nema 61 dagur af 157 sem ég hef hjólað en oftar fannst mér ekki ástæða til að segja eitthvað um vindinn.  Ég er heppin með það að vindáttin er ríkjandi með mér á morgnana og snýst oft yfir daginn og er með mér heim aftur, en auðvitað er það ekki alltaf og þá tekst maður við mótvindinn (þegar ekki er logn altsvo). 

Í vor keypti ég mér fallegt hjól hjá Kríu.  Mig hefur langað í svona borgarhjól ansi lengi enda er ég mikill aðdáandi danska og hollenska stílsins og hef gaman að því að horfa á hin og þessi myndbönd af hjólreiðum þaðan.  Mikið hlakka ég til þegar við förum að nálgast hjólamenninguna þar, því ég hef fulla trú á því að það gerist.  Menn eru að vakna og sjá og skilja að hjólreiðar eru frábær samgöngumáti.  Menn hafa ranghugmyndir um að það sé erfitt að hjóla í Reykjavík út af veðri og brekkum en það er ekki rétt.  Og vona ég svo heitt og innilega að fleiri haldi áfram að bætast við þann fjölda sem dregur fram hjólin til að skjótast hingað og þangað og þannig smám saman aukist hjólamenningin.

En svolítið um mínara hjólreiðar, ég bý í 104 og vinn í 101.  Leiðin sem ég hjóla oftast er tæpir 6 km hvora leið en ég get valið úr nokkrum leiðum eftir veðri, vindum og færð.  Að meðaltali er ég 20 mín á leið í vinnuna og er aðeins fljótari á sumrin en á veturnar.

Og nú fer að koma sá tími að ég verð að leggja nýja fína hjólinu mínu yfir veturinn því það er svo mikið borgarhjól að ekki komast nagladekk undir það.  Upphaflega var ætlunin að ég mundi nota gamla hjólið mitt til yfir veturinn, en mér til mikillar hrellingar þá á ég ekki samleið með því hjóli lengur (sjá hér) en þá vill svo vel til að minn ektamaður á hjól sem hann notar ekki mikið og aldrei yfir vetrartímann og nú eru vetrardekkin mín komin undir það hjól og er líklegt að bráðlega verði skipt um hjól, allavega var hitastigið á mælinum heima í morgun ekki nema rétt yfir frostmarki.

1. október 2014

Hjólað í september 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 297 km, þar af 235 km til og frá vinnu og 62 km annað.  
Hjólaði 21 af 22 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók 1 orlofsdag.
Sá að meðaltali 16 á hjóli á dag til vinnu og 15 frá vinnu. Mest taldi ég 25 til vinnu og 34 á heimleiðinni.  

Tvo síðustu daga september komu lægðir upp að landinu með roki og rigningu (fólk beðið að festa lausa hluti).  En ég hjólaði samt (skoðaði www.belgingur.is til að sjá vindátt), fór leið sem er skjólbetri og styttri en Sæbrautin þ.e. í gegnum Laugardalinn og svo Suðurlandsbraut-Laugarvegur.  Fékk ég þennan fína meðvind báða dagana.  Sá þó ekki nema einn annan á hjóli fyrri daginn, 29. sept (um morguninn).

Hér má sjá samanburð milli ára á meðtaltali talninga á hjólandi* sem ég tel fyrir hvern mánuð.




Hér eru tölur frá endomondo.  Inni í þessu er líka labb (þó ekki mikið, ég er greinilega meira fyrir það að hjóla).  En þetta eru tölur frá því ég byrjaði að skrá hreyfingu mína hjá þeim.

* Á morgnana tel ég alla sem ég sé á hjóli á meðan ég hjóla til vinnu og skrái hjá mér. Finn svo út meðaltal fyrir hvern mánuð og það eru tölurnar sem birtast í línuritinu. Ég er á ferðinni milli 7:30 og 8:00 og fer lang oftast meðfram Sæbrautinni en á þó líka til að fara um Laugardalinn og meðfram Suðurlandsbraut og Laugarvegi og örsjaldan meðfram Miklubraut.

 Bætt við 7.10.2014:

17. september 2014

Uppskera úr garðinum

Hér er smá sýnishorn af uppskerunni úr garðinum í ár.

Man ekki eftir því að hafa fengið svona stórar gulrætur áður.  Setti sand í beðið í vor og plantaði gulrótarfræjum sem búið var að húða svo þau voru eins og kúlur í laginu og auðvelt að raða þeim í beðið og ekkert þurfti að grisja (en ég á almennt mjög erfitt með þann hluta af ræktuninni).
 Svo er hér hindberjasulta úr fyrstu alvöru uppskerunni af hindberjaplöntum sem ég fékk hjá góðum nágranna haustið 2012 að mig minnir.

1. september 2014

Hjólað í ágúst 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 242 km, þar af 125 km til og frá vinnu og 117 km annað.  
Hjólaði 11 af 20 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók 9 orlofsdaga.
Sá að meðaltali 18 á hjóli á dag til vinnu og 24 frá vinnu. Mest taldi ég 26 til vinnu og 43 á heimleiðinni (en þá hjólaði ég meðfram Miklubrautinni en ekki Sæbraut eins og venjulega).  

Inn á endomondo hjá mér vantar einn hjólatúr sem ég fór með mágkonu minni frá Grafarholti og upp í Mosfellsbæ og til baka í gegnum golfvöll í rétt hjá Korpúlfsstöðum.  En ég gleymdi símanum heima (sem sér um að taka upp hjóleríið mitt).




14. ágúst 2014

Hjólaði kringum Grafarvoginn.


Í morgun stóðst ég ekki að fara út að hjóla.  Það var glampandi sól en ekkert sérstaklega hlýtt (fín fyrir hjólatúrinn) og ég sett i stefnuna á Grafarvoginn.  Einhverntíman hjólaði ég hringinn í kringum hann með eldri stelpunni minni og höfðum við mjög gaman að.  Núna er ég á borgarhjóli og var ekki viss um að það hentaði á malarstíginn (eða hvort búið væri að malbika hann ???).  Allaveg og í versta falli mundi ég snúa við og fara sömu leið til baka.  En þegar til kom gekk allt ljómandi vel.  Skógarstígurinn er þröngur og því  fór ég varlega, mætti bara einum skokkara svo það var engin hætta.
Góð byrjun á góðum degi.



Hér er ég hjá bryggjuhverfinu og er þetta skýrt dæmi um svokallaðar óskalínur.  Þ.e. stígurinn er ekki lagður eins og hentar vegfarendum best og þess vegna er kominn aukastígur þar sem heppilegast er að fara um.

 Endaði svo með því að fara í bakaríið í Holtagörðum og kaupa bakkelsi með morgunmatnum fyrir fjölskylduna sem hefði átt að  vera að skríða á fætum um það  leiti sem ég kom heim.  Þetta listaverk er á húsvegg við Skútuvog og það lífgar aldeilis upp á umhverfið.

Annar hjólatúr.

Nú var það Guðlaug mágkona sem stjórnaði ferðinni.  Hittumst hjá henni í Gvendargeisla og hjóluðum í Mosfellsbæ eftir nýja stígnum (fyrsta ferð mín um hann) og svo til baka meðfram sjónum og framhjá golfvellinum.  Kíktum til tengdaforeldranna á Brúnastöðum og svo aftur til baka með smá útúrdúr fram hjá matjurtargörðunum.

10. ágúst 2014

Hjólatúrar

Dreif mig loksins af stað í hjólatúr á fimmutdaginn.  Hef lítið sem ekkert hjólað annað en til og frá vinnu allt of lengi.  En núna er ég í fríi og þá er hjólið látið standa allt of mikið inni í skúr.
Ákvað að fara hring um Reykjavík með viðkomu á Seltjarnarnesi.  Veðrið var gott og skapið líka.  Mikið hlakka ég samt til þegar þessi hringur verður orðinn fullkominn þ.e. að hægt verði að fara þetta eftir stíg eða merktri leið allan hringinn.  En á þremur stöðum er maður aðeins týndur.  Ég fór hringinn réttsælis og þegar komið er framhjá flugvellinum þá beinir stígurinn manni inn í hverfið.  Reyndar er þar búið að bæta leiðina þannig að málaðir hjólavísar eru á götunni og ekki er mjög flókið að finna stíginn aftur.  Síðan tapast stígurinn aftur á mótum Ægissíður og Hofsvallagötu.   Og svo við Granda er leiðinda kafli næstum alveg að Hörpu og ákvað ég frekar að fara í gegnum hverfið eftir Vesturgötunni.
 Svo í gær hafði mágkona mín samband og þurfti ekki mikið til að sannfæra mig um að koma með sér í hjólatúr.  Af því ég hafði nýlega hjólað Reykjavíkurhringinn (sem hún stakk upphaflega uppá) ákvaðum við  að fara  í Kópavoginn í staðinn.  Veðrið lék við okkur, glampandi sól en nægur vindur til að okkur ofhitnaði ekki.  Að sjálfsögðu kíktum við við hjá mömmu og pabba á Kópavogsbrautinni og fengum trakteringar að launum.  Þetta var mjög gaman og erum við búnar að ákveða annan hjólatúr í næstu viku.

2. ágúst 2014

Hjólað í júlí 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 203 km, þar af 178 km til og frá vinnu og 25 km annað.  
Hjólaði 17 af 23 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók 5 orlofsdaga og var veik 1 dag.
Sá að meðaltali 13 á hjóli á dag til vinnu og 19 frá vinnu. Mest taldi ég 22 til vinnu og 27 á heimleiðinni.  En mánuðinn var blautur og tel ég það vera aðal ástæðuna fyrir því hve fáir hjóla en af þessum 17 dögum sem ég hjólaði í vinnuna voru 8 þar sem annað hvort var rigning eða mjög rigningarlegt.

En þrátt fyrir rigninu og allt of lítið af sólskinsdögum þá blómstra sumarblómin í garðinum og er svo falleg og fín.

Viðbót 4.8.2014, ég og endomondo erum ekki alveg sammála um farna vegalengd í mánuðinum en það er lítið við því að gera.


30. júní 2014

Hjólað í júní 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 292 km, þar af 159 km til og frá vinnu og 133 km annað.  
Hjólaði 14 af 19 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók nokkra orlofsdaga.
Sá að meðaltali 18 á hjóli á dag til vinnu og 21 frá vinnu. Mest taldi ég 35 til vinnu og 36 á heimleiðinni.


Þetta meðaltal er miðað við talningu á morgnanna á leið til vinnu (kl. 7:30-8:00).  

Viðbót 7.7.2014.  Hér er svo pósturinn frá endomondo loksins kominn.  Ástæðan fyrir mismuni á km fjölda er að inni hjá endomondo er eitthvað labb líka sem ég tel ekki með í minni samantekt sem fjallar eingöngu um hjólreiðar.

27. júní 2014

Hjólakeppni hringinn í kringum landið.

Hjólreðakeppnin WOW cyclothon er að ljúka.  Öll lið eru komin í mark og aðeins einsaklingar eftir.  Enda er þetta ótrúleg þrekraun fyrir einstakling að hjóla allan hringinn á 3-4 sólarhringum.
Það hefur verið gaman að fylgjast með keppninni á netinu, þrátt fyrir tæknilega örðugleika þá hefur að mestu verið hægt að fylgjast með liðum og keppendum á Íslandskorti.
Þórhallur bróðir var fyrirliði í liði sem kallar sig Hreystimenn og voru þau í 18-20 sæti en þrjú lið tóku sig saman og hjálpuðust að og voru samferða síðustu 700 km og komu samtímis í mark.  Ég tók þessi þrjú skjáskot í gær.  Þau komu svo í mark kl. 16:45.





Eftir vinnu í gær ákvað ég að hjóla upp að Rauðavatni þar sem endamarkið var og freysta þess að verða vitni að því þegar hópurinn kæmi í mark.  Ég reiknaði út að það yrði um kl. 17 og að það tæki mig líklega 40 mín að komast þarna uppeftir.  Mér til mikilla vonbrigða fann ég ekki endamarkið en eftir að hafa þvælst fram og til baka (engar stuttar leiðir ef þú ætlar að fylgja stígakerfinu) þá náði ég engu að síður að verða vitni að því þegar hópurinn hjólaði meðfram vatninu og var það huggun harmi gegn.

Viðbót 30.6.2014:
Tók þessa mynd þegar ég sá hópinn hjóla framhjá.  Var reyndar frekar lengi að ná upp símanum og smella af svo þetta eru öftustu menn.

11. júní 2014

Gamla hjólið mitt.

Í lok maí setti ég sumardekkin undir gamla hjólið mitt.  Auðvitað settist ég upp á það og tók smávægilegan hring (hef ekki hjólað á því síðan ég fékk nýja hjólið) - og þvílíkt áfall.  Þetta hjól sem hefur verið mér tryggur ferðafélagi í 7 ár er hræðilegt, lætur illa að stjórn, er þung og mér fannst ég begja mig langt fram og vera með höfuðið niður við götu.  Mér leið verulega illa eftir þetta, hef aldrei upplifað hjól svona áður en ég hafði átt von á því að upplifa "komin heim" tilfinningu við að stíga á gamla fákinn.
Síðan þá hef ég einu sinni prófað hjólið aftur og nú ekki með sömu væntingar.  Það er enn eins og að fara á gamlan traktor en þó ekki eins slæm upplifun og síðast.  Mér finnst samt ekki spennandi að þurfa að hjóla á því næsta vetur og nú er spurningin hvað er til ráða?  Kannski ég steli hjólinu frá eiginmanninum en það er ekki eins svakalega þunglamalegt og þetta hjól.
En þó er rétt að taka fram að ég á eftir að láta yfirfara hjólið eftir veturinn og það gæti eitthvað skánað við það (vonandi).

31. maí 2014

Hjólað í maí 2014

Hjólaði samtals 303 km í mánuðinum, þar af 206 km til og frá vinnu og 97 km annað.  
Hjólaði 19 af 20 vinnudögum í mánuðinum til og frá vinnu, tók einn orlofsdag.
Sá að meðaltali 26 á hjóli á dag til vinnu (fór niður um 1 á síðasta degi mánaðarins) og 28 frá vinnu. Mest taldi ég 42 til vinnu og 46 á heimleiðinni.  Að venju er mikil fjölgun á hjólandi í maí út af átakinu "Hjólað í vinnuna" og í ár var met slegið í talningum hjá mér.  

Hér til hægri er stöðuuppfæsla sem  ég setti á Facebook 29. maí en þá leit út fyrir að meðaltal hjólandi í mánuðinum til vinnu væri 27.  Súluritið breytist hinsvegar lítið við að þeim fækki um einn.









Hér er til vinstri er samantektar myndin úr endomondo.
Þarna stendur að frá því ég hóf að skrá hjólaferðirnar mína hjá þeim (18. apríl 2013) þá hef ég brennt sem samsvarar 260 hamborgurum (bætt við 22 síðan í april) og hef hjólað 0,089 af leiðnni hringin í kringum hnöttinn og 0,009 af leiðinni til tunglsins.  Að meðal hraðinn hjá mér á hjólinu er 14 km/klst og ég hef samtals hjólað í 10 daga, 8 klst og 39 mín.












Hér er svo  talning mánaðarins.  Ég tel sem sagt alla sem ég sé á hjóli til og frá vinnu og skrái hjá mér.  Ég er um 20 mín á leiðinni til vinnu.  Ferðast á tímabilinu 7:30-8:00 og lang oftast meðfram Sæbrautinni.  Vegalengdin er rétt tæpir 6 km.  Á morgnana eru þetta því oftast fólk á leið til vinnu en seinnipartinn er fjölbreytnin meiri þ.e. bæði fólk á leið heim úr vinn og líka þeir sem fara út til þess að hjóla eingöngu sér til skemmtunar og heilsubótar og ég tel alla sem eru á hjóli, líka þá sem eru á þríhjóli.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...