5. maí 2010

Hjólafréttir - nýtt fjöldamet

Á fyrsta degin átaksins Hjólað í vinnuna er slegið fjöldamet ársins á leiðnni minni. Sá 17 hjólreiðamenn í morgun og eru það 10 fleiri en í gærmorgun og bættust 4 við fyrra metið.

30. apríl 2010

Vorið er komið

Sofnaði út frá fugla söng í gærkvöldi og vaknaði við hann í morgun. Mikið eru þeir duglegir fuglarnir.

27. apríl 2010

Húsnæðislán

1. maí 2006 kr. 31.453,-
1. maí 2007 kr. 33.105,-
1. maí 2008 kr. 35.760,-
1. maí 2009 kr. 41.131,-
1. maí 2010 kr. 44.607,-

Þetta eru afborganir af láni sem tekið var seinnihluta árs 2005 að upphæð kr. 7.000.000,-
Eftirstöðvar í dag með verðbótum eru kr. 9.969.582,-
Lánið er tekið hjá Kaupþing-banka þegar þeir buðu flotta vexti og áður en lán í erlendri mynt komu til (sem betur fer, þar sluppum við vel).

13. apríl 2010

Hjólafréttir - nýtt fjöldamet ársins

Sá 13 hjólreiðamenn í morgun.
Er að sjá sum andlit frá síðasta ári aftur og er gaman að því. Menn farnir að draga fram hjólin enda er veðrið einstaklega gott til hjólreiða nú um stundir.
Nú er spurning hvort óhætt sé orðið að taka nagladekkin undan hjólinu? Ætla að bíða aðeins því það er verið að spá kulda um næstu helgi þó ekki geri þeir ráð fyrir frosti hér á suðvesturhorninu.

11. apríl 2010

Hitt og þetta

Nýja fína rúmteppið sem tengdamamma saumaði handa okkur. Þið afsakið myndgæðin.

Fór út í gær og réðst á skriðsóleyna sem er í innkeyslunni á mörkum lóðanna. Get ekki annað en dáðst að dugnaði þessarar plöntu sem er ansi klók að koma sér fyrir. Var u.þ.b. klstu úti og náði að reita þennan flekk sem sést hér á myndinni. En sóleyin blessuð er út um allan garð hjá okkur svo það verður töluverð vinna að uppræta hana.



Hér er svo mynd af nóvemberkaktusinum í vinnunni minni sem ég var svo leið yfir að blómstraði ekki fyrir síðustu jól. Svona leit hann út þegar ég kom í vinnuna aftur eftir páskafrí.

28. mars 2010

Grein eftir Daða.

Daði bróðir skrifaði grein sem kom í blaðinu Politiken í Danmörku.

Og hér er slóð á frétt um greinina sem birtirs á mbl.is og þar er einnig slóð á pdf skjal af greininni.
Hér er líka slóð á viðtal við Daða sem kom í fréttatíma stöðvar 2 í gærkvöldi.

23. mars 2010

Garðvinna

Fékk lánaðnn þennan fína greinakurlara og kurlaði þær greinar sem ég klippti og sagaði af birkirunnunum í febrúar og líka rótarsprota af reynitrjám. Þetta var vikrilega skemmtileg vinna og útkoman fullur ruslapoki af kurli.

Að lokum klippti ég valdar greinar af birkitrjám úr framlóðinni og setti í vatn, ætli þær nái að springa út um páskana?

19. mars 2010

Hjólafréttir

Fjöldamet ársins frá 9. febrúar slegið og tvöfaldað! Sá hvorki fleiri né færri en 10 hjólreiðamenn í morgun og var þeim ágætlega dreift yfir leiðina. En oft er það þannig að ég sé engann fyrrihluta leiðarinnar en fleiri eftir því sem nær dregur miðbænum.

15. mars 2010

Hrund og húfan

Hrund með hrikalega stóra húfu sem ég prjónaði (hélt ég væri að prjóna minni húfu fyrir Þórhall bróður í stað þeirrar sem ég gaf honum í jólagjöf en þessi er alveg jafn stór). Er núna með hugmyndir um að þæfa hana og breyta í tehettu eða allavega sjá hvernig hún kemur út sem slík. En Hrund er algjörlega að selja hana á þessari mynd, virðist smell passa á hana og er svaka flott.

10. mars 2010

Hlið

Elías er búin að hanna og smíða hlið sem mun prýða innganginn í garðinn okkar.

Fyrst var ætlunin að hafa rimlana beint upp eins og sést á einni myndinni. Svo var prófað að setja þá svona á ská og við féllum algjörlega fyrir því. Það eina sem ekki er handsmíðaða af Elíasi eru spjótin efst.

Nú á bara eftir að láta sandblása það og húða því ekki viljum við að það ryðgi.






5. mars 2010

Ný slóð

Bætti inni nýrri slóð hjá hjólabloggurum sem heitir "Hjólaðu maður". Á þeirri síðu er flipi sem heitir "Ástand stíga" og er ætlunin að halda utan um snjómokstur og færð á stígum með comment-kerfi.

3. mars 2010

Svolítið af misheppnaðri snjóhreinsun á stígum.





Hjólafréttir







Jibbí, loksins búið að skafa almennilega. Ég var næstum hætt við að hjóla í morgun því ég varla komst út götuna mína fyrir slabbi. Slabbið varð til þess að ég spólaði út í eitt. En áfram hélt ég á þrjóskunni og þegar ég komst á stíginn fyrir neðan Sæbrautina (á móti shell bensínstöðinni) þá sá ég að búið var að skafa stíginn í morgun og ekki bara það heldur var hann líka vel skafinn! Næstum ekkert slabb eða snjór á stígnum. Ég var svo hamingjusöm með það að ég tók af því mynd. (skelli henni kannski inn í kvöld).
Stígurinn hefur ekki verið svona vel skafinn síðan það byrjaði að snjóa. Meira að segja flest gatnamót voru vel skafin (ekki þessir endalausu snjóhraukar sem almennt tefja för þvert yfir síginn). Færðin versnaði þó heldur þar sem stígurinn liggur meðfram sjónum. Líklegast hefur saltið frá sjónum eitthvað með það að gera en saltslabb er eitthvað það versta sem við hjólreiðamenn lendum í. Var 5 mín fljótari í vinnuna í dag en í gær og í miklu betra skapi.

2. mars 2010

Hjólafréttir

5,69 km, ferðatími 35 mín, 9,7 km/klst meðalhraði, 18,8 km/klst hámarkshraði.

Var á ferðinni milli kl. hálf átta og átta. Ekkert búið að skafa stígana. Skv. texta á þessari síðu hjá Reykjavíkurborg á að vera búið að skafa stofnbrautir í forgang fyrir kl. 7 á morgnana. Svo eru þau með kort sem sýnir hvernig stígum er skipt niður í forgang, sjá hér. Skv. þessu korti er hlutu stíga við Sæbraut á mesta forgangi og hefði því átt að vera búið að skafa þar eða a.m.k hefði ég átt að mæta snjóhreinsitæki á leiðinni. En það var ekki.

Samt var hægt að hjóla á stígunum í dag þar sem þeir voru skafðir í gær og í dag hefði ég ekki lagt í að hjóla á Sæbrautinni þar sem svolítið var af snjó á götunni og þið vitið hvað bílar geta verið stórhættulegir við svoleiðis aðstæður.

Einn hjólreiðamaður tók fram úr mér á leiðinni og stakk mig af. Sá för í snjónum eftir þrjá í viðbót, svo ég er ekki ein um þessa bilun. Vildi bara að Reykjavíkurborg stæði sig betur í mokstrinum.

Til sambanburðar við tölurnar hér að ofan þá var þessi sama leið farin 10.2.2010: 5,76 km, ferðatími 18 mín, meðalhraði 19,11 km/klst.

1. mars 2010

Hjólaborgin Reykjavík

Það er snjór yfir öllu og augljóst að Reykjavíkurborg er að spara við sig í snjómokstri. Fyrir 2 árum var vart þverfótað fyrir snjómoksturstækjum við svipaðar aðstæður, núna sér maður ekki nema eitt og eitt á stangli.

Það var búið að skafa stíginn frá Skipasundinu og niður að Holtagörðum, sem ekki hafði verið mokaður frá því byrjaði að snjóa svo það var ekkert val um annað á föstudaginn en að hjóla á götunni. En núna komst ég klakklaust niður að Sæbraut. En þá tók verra við. Þegar ég var komin yfir Sæbrautina sá ég að ekki var búið að skafa stíginn þar svo ég sá mér ekki annað fært en að hjóla á Sæbrautinni sjálfri. Gatan var auð svo það var ekki vandamál. En ég hef ekki lagt það í vana minn að hjóla á götum sem er með svona mikinn umferðaþunga og hraða. Ég hugsaði mér svo að fara upp á stíginn við fyrsta tækifæri. Veit að aðeins vestar er stígurinn á forgangi með mokstur og á að vera búið að moka fyrir kl. 8 á morgnana.

Hjá Olís bensínstöðinni tékkaði ég á stígnum, en nei hann var ófær svo ég hélt áfram á götunni, en við næstu gatnamót sá ég að stígurinn var í skárra ástandi, þó greinilegt væri að hann hefði ekki verið skafaður í morgun þar sem hann var líkt og þvottabretti, troðinn niður af duglegu fólki sem hefur notað helgina í gönguferð um borgina sína. Eitthvað var líka um hjólaför. Eftir þessum stíg truntaðist ég alveg að Höfða, en þá var ég líka komin með nóg og fór aftur upp á Sæbrautina.

Það sem kom mér mest á óvar var hversu auðvelt var að hjóla á Sæbrautinni. Ég skal viðurkenna að ég var með töluverðan hjartslátt þegar ég fór út á götuna og fyrstu bílarnir óku fram hjá mér. En það skrítna er að þeir áttu mikið auðveldara með að komast fram úr án vandræða heldur en þegar ég hjóla á götum eins og Langholtsveginum eða húsagötum almennt. Akreinarnar á Sæbrautinni hljóta að vera svona mikið breiðari heldur en á hinum götunum. Ég fékk það ekki eins sterkt á tilfinninguna að ég væri fyrir.

Þegar ég svo loksins komst í vinnuna var ég algjörlega búin. Ferðin tók mig 29 mínútur, en í vetur hef ég að meðaltali verið ca 21 mín þessa sömu leið. Á Sæbrautinni náði ég góðum hraða, en "þvottabrettið" fram að Höfða tók langan tíma að fara yfir og svo var mjög erfitt að hjóla upp Klapparstíginn þar sem hann hefur verið saltaður en lítið skafinn og þá nær hjólið mjög illa gripi og ég lenti í því að spóla töluvert. En þrátt fyrir það allt saman þá líður mér vel núna og er ánægð með að hafa farið á hjólinu. Því hvað er betra en að byrja daginn á smá púli?

Hjá Reykjavíkurborg fékk ég þau svör að stígamoksturstæki verktakanna sem skafa þennan stíg hafi bilað í morgun, en þeir ættu að vera búnir að skafa á hádegi í dag.

10. febrúar 2010

Hjólafréttir.


Hlaupadagbókin http://hlaup.com/ er góð síða til að halda utan um hreyfingu, hvort sem það er hjól eða hlaup.

Allt síðasta ár skráði ég inn þau hlaup og hjólaferðir sem ég fór með Garmin græjuna á arminum. Það er hægt að sjá farnar vegalengdir yfir allt árið (eða einn og einn mánuð) og ég er stollt að segja að á síðasta ári var ég í 8. sæti kvenna sem skráðu inn hjólaferðir sínar (sjá meðfylgjandi mynd).
Árið 2009 hjólaði ég samtals 2.148 km og hljóp 116. Ætli ég nái að bæta við mig í ár?

9. febrúar 2010

Hjólafréttir

Fjöldamet ársins 2010, enn sem komið er. Sá hvorki fleiri né færri en 5 hjólreiðamenn í morgun!

8. febrúar 2010

Hjólafréttir.

Út af kvefi og slappleika hjólaði ég bara í vinnuna síðasta mánudag og svo ekkert það sem eftir var vikunnar. Þess vegna var einstaklega skemmtilegt að hjóla í vinnuna í morgun. Veðrið var yndislegt en samt sá ég bara einn annan hjólreiðamann á ferli.

En ég bráðum þarf að yfirfara hjólið og skipta um bremsuklossa á afturbremsunum og fleira. Líklegast þarf ég að fá mér ný tannhjól og nýja keðju, þetta endist ekki endalaust.

24. janúar 2010

Fyrsta skokk ársins

Fyrsti skokkhringur ársins. Loksins, loksins tek ég aftur fram hlaupaskóna. Þetta var fínn hringur og mér leið vel að mestu allan hringinn. Fann svolítið fyrir hlaupasting og kláða í húðinni (veit einhver af hverju maður fær þá tilfinningu, frekar óþægilegt) en varð varla móð eða þreytt í fótunum. Hlakka til að hlaupa aftur og bæta við mig kílómetrunum.

Vegalengd 2,5 km, tími 16 mín og 47 sek, pace 6,4.

Veðrið þokkalegt, smá vindur, rigning og 7 stiga hiti.

7. janúar 2010

Færð á stígum

Það er alltaf hægt að finna eitthvað til að kvarta undan. Núna þegar hlýnar og snjórinn er tekinn að bráðna þá versnar það með færðina. Það er eins og hjólið fljóti á slabbinu. Ég var nokkrum sinnum við það að missa stjórn á hjólinu á leiðinni heim úr vinnunni áðan. En það slapp nú alltaf og maður neyddist til að hjóla hægar fyrir vikið.

Eins er það við öll gatnamót. Mig grunar að það sé vegna saltsins sem stráð er á göturnar. Það getur verið pínlegt, einmitt þar sem maður er mest áberandi á gatnamótunum og bílstjórara sem bíða á rauðu ljósi hafa lítið annað að gera en að glápa á blásaklaust hjólreiðafólkið, þar er mesta hættan á að missa hjólið í slabbinu og detta eða a.m.k. að þurfa að stíga niður fæti til að halda jafnvæginu. Það getur leitt til þess að bílstjórarnir fái "sönnun" fyrir því að það sé stórhættulegt að hjóla á þessum árstíma, sem er alls ekki rétt.

6. janúar 2010

Hjólaárið 2010

Spennandi ár framundan. Byrjar svolítið kalt en frostið hefur verið nálægt 10 gráðunum en nú er farið að hlýna og hitastigið farið að nálgast frostmarkið.

Markmiðið er að fara í sumar á vestfirðina í hjólaferð með vinum og ættingjum sem vilja og geta komið með. Við mamma ætlum að skipuleggja ferðina í sameiningu enda er hún farin í tilefni þess að við fyllum saman 100 árin í ár. Stefnt er á júlí mánuð og erum við farnar að setja út klær og annan búnað til að útvega húsnæði og hugmyndir að hjólaleiðum. Það er ljóst að hópurinn verður misjafn í hjólahreisti. Sumir vanir hjólamenn á meðan aðriði eru kannski að dusta rykið af hjólinu eftir einhvern tíma, en það er bara ennþá meiri áskorun að finna hjólaleiðir sem henta öllum. Við þurfum líka að hafa einhverja sem eru tilbúnir að vera bílstjórar og aka með hjólin á þá staði sem hjólað verður til og frá. Ég hlakka mikið til.
Gaman væri að fá tillögur frá einhverjum sem þekkir sig til á vestfjörðunum, sjálf hef ég ekki komið þangað síðan ég var barn.

3. janúar 2010

Prjónaárið 2009

Síðast liðið ár hefur verið dásamlegt prjóna ár. Lopinn er minn uppáhalds efniviður og það vill svo vel til að hann er vinsæll í flíkur þessa dagana.

Afrakstur ársins eru 3 lopapeysur, 1 skokkur á mig, næstum 10 þæfðar töskur, tátiljur, slatti af húfum, herðaslá og svo er ég að prjóna mér sjal úr einbandi (eingirni). Það getur vel verið að ég sé að gleyma einhverju en hér eru nokkrar myndir af því sem ég hef gert.












16. desember 2009

Tónleikar á aðventunni.

Í gær fór ég á tvenna tónleika. Fyrst í hádeginu í Íslensku Óperuna að sjá og heyra Óp-hópinn syngja jólalög og svo um kvöldið í Söngskóla Sigurðar Demetz að hlusta á jólatónleika unglingadeildarinnar.

Eyrún söng eitt einsöngslag í gærkvöldi. Það var Þá nýfæddur Jesú, og hún gerði það virkilega vel. Sá hjá henni mikla framför frá síðustu tónleikum bæði í öryggi í framkomu og í röddinni. Eins stóðu hinar stelpurnar sig vel. Þær sungu nokkur kórlög og mér finnst alltaf gaman að heyra lög sungin sem maður söng sjálfur í kór í gamladaga.

Í kvöld mun svo Hörn frænka stíga aftur á svið með Sópranós en þær verða með tónleika í Hafnarhúsinu. Ég kemst því miður ekki sjálf á þá tónleika, en ég veit að þeir sem fara munu hafa gaman að.

10. desember 2009

Viðbót við óskalistann

- Silfurkórinn jólalög (þessa gömlu góðu sem við áttum á plötu hér í denn).
- Anton berg konfekt.
- Hekkklippur
- Hjólbörur
- Sláttuvél
- Garðslanga
- Standur fyrir garðslöngu
- fleir garðáhöld sem ég man ekki eftir í augnablikinu

7. desember 2009

Óskalisti

Einu sinni bjó maður sér til óskalista fyrir hver jól. Hér er listi yfir ýmislegt sem mig langar í.

- Skóflu til að moka snjó (mín er með allt of stuttu skafti).
- Hnoðskál. Annaðhvort aðra hrærivélaskál eða keramikskál, sá eina brúna í Pipar og Salt sem mér líst ansi vel á.
- Buxur
- Peysur og/eða boli
- Bjöllu á hjólið. Þoli ekki bling, bling bjölluna sem ég er með en það var ekki önnur til í búðinni þegar ég keypti hana.
- Jólaplötu með Mahalia Jackson svo ég geti bakað Írsku-jólakökuna næsta ár.
- Inniskór til að nota í vinnunni.

Þetta er svona það sem ég man eftir núna.

16. nóvember 2009

Biluð tæki.


Uppþvottavél og þvottavél farnar með viku millibili.
Þvottavélin var svo sem tifandi tímasprengja þannig séð, vél sem við fengum notaða frá ömmu Elíasar og tengdapabbi taldi hana vera farna að slaga hátt í 30 árin í notkun sem er nú bara ansi gott. Svo það var alveg kominn tími á nýja þvottavél.
Uppþvottavélin var unglamb miðað við hana, ekki nema 9 ára.
Það hefði þó verið betra að hafa lengri tíma á milli bilana á vélum. Nú erum við með krosslagða fingur og vonum að fleiri heimilistæki fari ekki að gefa sig.

6. nóvember 2009

Alltaf að gleyma einhverju

Argh!
Gleymdi að taka með mér afganginn af kvöldmatnum í gær til að borða í hádeginu í dag. Fæ í staðin samloku, ekki góð skipti.

3. nóvember 2009

Brandur

Kötturinn hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan við fluttum. Hann hefur stungið af fljótlega eftir að við höfum gefið honum leyfi til að fara út og þá hefjast reglulegar ferðir okkar heimilismanna í Karfavoginn því við vitum að þangað leitar hann. Tvisvar hefur hann verið týndur í heila viku, og það sést á honum því hann er orðin ansi horaður.

Núna hefur verið slegið met því hann hefur haldið sig heima í rétt rúma viku. Enda hefur hann svo sem ekki fengið mörg tækifæri til að stinga af. Við höfum farið með honum út eftir vinnu og skóla í u.þ.b. klst á dag og hann hefur ekki farið langt. Í gær eftir vinnu opnaði ég lúguna hans og hann fékk að fara út einn. Og hann skilaði sér inn aftur. Lúgunni var svo læst aftur um kvöldmat.

Í morgun var stigið stórt skref því ég opnaði lúguna hans og í dag er hann frjáls að fara inn og út eins og honum listir. Stóra spurningin er hvort hann muni nota frelsið til að stinga af einu sinni enn.

16. október 2009

Hraðamet

Loksins rauf ég 40 km/klst múrinn á hjólinu!

Var með ágætis meðvind, stígurinn örlítið niður í mót og beinn og breiður. Garmin græjan segir 41,2 en þetta var svo sem ekki í langan tíma.

Er orðin þvílíkt gölluð og gíruð fyrir veturinn. Komin á nagladekkin (sett undir þegar snjóaði þarna um daginn, auðvitað hefur hitastigið síðan verið rúmar 5 gráður). Keypti mér skærgult endurskinsvesti, fékk skuplu (buff) í kvennahlaupinu í vor sem ég ætla að nota undir hjálminn þegar kólnar aftur. Fékk mér nýtt framljós á hjólið og Eyrún fékk gamla ljósið mitt. Svo ég er til í flest. Nú er bara að sjá hvað veturinn býður uppá.

8. október 2009

Nagladekk og kattavandamál.

Setti nagladekkin undir hjólið í fyrradag. Fór svo á bílnum í vinnuna í gær (þurfti að skjótast með dótturina og þá er betra að vera á bíl). En hjólaði í morgun og það svo sem gekk vel en það er óþægilegur sláttur í afturdekkinu sem þarf að laga. Elías ætlar að kíkja á þetta með mér eftir vinnu.

Brandur er týndur. Hvarf að heiman fyrir að verða viku núna. Við förum daglega í Karfavoginn til að reyna að finna hann (og stundum nokkrum sinnum á dag) því hann hefur leitað þangað greiið. En hann er aldrei þar á sama tíma og við. Höfum þó frétt frá fyrrum nágrönnum að sést hafi til hans á þessum slóðum síðustu daga. Ætli það sé ekki best að skella inn auglýsingu á www.kattholt.is um að hann sé týndur ef einhver hefur tekið hann að sér þarna í hverfinu því við viljum gjarnan fá hann heim aftur.

21. september 2009

Haustverkin

Lauk við að stinga upp beðið meðfram innkeyrslunni. Setti svo niður 150 nýja haustlauka sem ég keypti í Garðheimum og laukana sem teknir voru upp í vor í Karfavoginum. Svo ef að þeir gömlu hafa lifað af sumarið þá ætti beðið að vera ansi litskrúðugt í vor. Hlakka til.

Keypti mér líka kúmenfræ en er ekki viss hvort ég á að setja þau niður. Segir á upplýsingablaðinu að plantan geti verið erfið í húsagörðum því hún vill dreifa sér um allt. Er einhver þarna úti með reynslu á kúmenræktun?

Svo var Siggi stormur að spá frosti í nótt, spurning hvort tími sé kominn á nagladekkin (á hjólið)?

9. september 2009

Skrímslið




Búin að vera síðan á laugardaginn að berjast við þetta.
Á morgun ætlar Elías að koma með járnkarlinn og þá er að sjá hvort hún gefur eftir.

2. september 2009

Gaman gaman

Ó ég er svo hamingjusöm í nýja húsinu og nýja garðinum.
Í gær fékk Elías lánaða sláttuvél og henni fylgdi glæný hrífa handa okkur. Svo á meðan ég var á kóræfingu sló Elías garðinn. Eftir kvöldmat fór ég svo út með hrífuna nýju og fínu og rakaði yfir framgarðinn. Það er bæði mikið af mosa og sinu (dautt gras, kallast það ekki sina?) því sláttuvélin sá sjálf um að safna upp heyinu.

En ég var að spá. Ætli það megi færa runnana sem eru bakvið hús í beðið sem er við götuna? Og önnur spurning, hvenær færir maður runna og hvenær færir maður ekki runna?

28. ágúst 2009

25. ágúst 2009

Hitt og þetta.

Vorum með opið hús í gær. Komu tveir að skoða, þarf að sjálfsögðu ekki fleiri ef annarhvor aðilinn hrífst af staðnum. Við bara bíðum og vonum.

Komnar myndir af Reykjavíkurmaraþoninu inni á www.hlaup.is. Þessar þrjár eru þær áhugaverðustu sem ég fann. Mynd 1. Mynd 2. Mynd 3.

Skólarnir byrjaðir. Nú þurfa menn að venjast því að vakna snemma aftur. Fyrsti dagurinn er þó ævinlega sá léttasti, vöknunarlega séð. Það stefnir í strangan vetur hjá Hrund, allavega fyrir áramót. Mikið að gera bæði í dansi og bóklegum fögum. Eyrún ætlar í söngnámið aftur í vetur og halda áfram að æfa borðtennis.

Svo á pabbi minn afmæli í dag, til hamingju með daginn pabbi!

23. ágúst 2009

Reykjavíkurmaraþon


Hljóp í gær 10 km í annað sinn. Nóttina fyrir ætlaði ég ekki að geta sofnað og vaknaði síðan fyrir allar aldir vegna kvíða. Fannst ég ekki hafa undirbúið mig nógu vel fyrir hlaupið og var viss um að ég væri að ofgera mér með því að hlaupa þetta í ár.

En ég var samt ákveðin í að hlaupa og sjá hvernig færi. Þorði ekki annað en að skrifa allar upplýsingar um mig aftan á keppnisnúmerið mitt sem var 3184 svona ef eitthvað færi verulega úrskeiðis og ég mundi lippast niður á miðri leið.

Upp rann hlaupadagurinn og ég hjólaði heim til Þórhalls. Klukkan var ekki orðin átta en samt voru margir á rötinu, allir í sömu átt og í hlaupagöllum (svolítið eins og uppvakningar að stefna allir á ákveðin stað, enginn fór í hina áttina). Þórhallur var við það að fara úr húsi þegar ég kom til hans, enda hljóp hann 21 km og það hlaup var ræst fyrr en mitt.

Svo kemur að því að mitt hlaup er ræst. Ég var búin að plana það að elta 60 mín blöðruna, eða allavega reyna að hanga í henni en sá það fljótlega að það gengi ekki upp. Fyrri hlutann af hlaupinu sá ég í blöðrurnar framundan (þó þær væru fyrir aftan mig í upphafi hlaups þá átti viðkomandi hlaupari greinilega auðveldara með að smegja sér á milli fólks og komast áfram heldur en ég). Hlaupið fór mjög hægt af stað vegna fjölda hlaupara. Það tók mig 3 mínútur frá því hlaupið var ræst að komast yfir byrjunarlínuna, eftir það komst meiri hreyfing á hópinn. En allt hlaupið var maður í þvögu, mikið meira en á síðasta ári þar sem hópurinn þynntist fyrr (en þá fór ég líka enn hægar yfir).
Eins og sést á myndinni þá hljóp ég nokkuð jafnt, tók eitt drykkjarstopp og hélt svo áfram. Í lokin tók ég smá endapretti en ekki mikinn. Ég náði að halda nokkuð góðum andardrætti allt hlaupið varð aldrei móð en einhversstaðar milli 8 og 9 km var ég orðin þreytt í fótunum og hefði tekið labbikafla ef það hefði verið lengri vegalengd eftir en þarna fannst mér ekki taka því.
Áhorfendur og klapplið voru hér og þar um alla brautina og ég efast ekki um að það fólk hafi haft mikil áhrif á það hversu skemmtilegt hlaupið var. Það gefur manni ótrúlegt búst að hafa þetta fólk þarna. Margir með potta og pönnur, einhverjir með bjöllur og svo raddböndin auðvitað.
Sem sagt frábært og skemmtilegt halup og ekki spurning að ég ætla aftur á næsta ári.

4. ágúst 2009

Of gott veður til að vera í innivinnu.

Í gær kom hersing manns að vinna í garðinum okkar. Það virkaði allavega sem hersing miðað við afraksturinn. Grasið var slegið og nokkrar greinar klipptar, þessar sem voru mest í gangveginum.









Myndirnar eru teknar áður en vinnan hófst og á meðan á vinnu stóð. Við fylltum a.m.k. 16 ruslapoka af því sem hreinsað var. Og munurinn er ótrúlegur. Þetta er að verða alvöru garður og nú sér maður betur hvað við er að eiga. T.d. komu í ljós 5 eða 6 rótarhnyðjur sem við mundum vilja grafa upp. Svo er steinabeð í garðinum sem einhverntíman hefur verið virkilega fallegt en ég ætla að taka í burtu.

En núna ætlum við að klára innivinnuna og flytja inn og koma okkur fyrir. Svo er hægt dunda sér við að koma garðinum í það horf sem við viljum hafa hann í.

1. ágúst 2009

Drauma- og óskalisti

Fengum lyklana að nýja húsinu á þriðjudag. Erum því byrjuð að mála þar og pakka á gamla staðnum. En það er ýmislegt sem uppá vantar og/eða gaman væri að eiga eða endurnýja og þessvegna varð þessi drauma- og óskalisti til.

Borðstofustólar
Baðskapur
Borð/vinnuborð í eldhúsið
Sófi
Sófaborð
Hjónarúm
Sjónvarp í leikherbergið
Þvottavél
Dyrakarmur úti
Handrið úti
Borðtennisborð
Fataskápur
Sláttuvél
Hjólbörur
Trjáklippur
Sög
Stigi
Stunguskófla
Úðari (þið vitið þetta sem snýst og vökvar garðinn)
Slöngurúlla
Fánastöng
Fáni
Vélsög
Strákústur
Gaffall/forkur (hvað heitir þetta)
Hrífur
Hekkklippur
Garðhúsgögn
Hjólagrind
Tvöfallt gler (þar sem það á við)
Safnkassi
Pallur

Fleira á örugglega eftir að koma í ljós eftir að við erum flutt inn. En þetta er svona það sem ég man eftir núna.

10. júlí 2009

Safnkassinn

Jamm, í 2 daga gerðumst við Elías smiðir og smíðuðum saman safnkassa fyrir garð- og heimilisúrgang með dyggum stuðningi geitungsins Friðriks sem var séstaklega heillaður af lokafrágangi.











Og svo ein mynd af sumarblómunum í beðinu fyrir framan húsið, þau eru bara svo falleg. Ég og Eyrún völdum þau.

9. júlí 2009

Dagur 4 og 5











Eftir þessa miklu keyrslu deginum áður vorum við ekki í mikilli ferðastemningu á degi 4. Planið var að fara að Strandakirkju og svo að sjónum við Þorlákshöfn og kíkja á Eyrarbakka og Stokkseyri. En við enduðum á því að fara bara að Strandakirkju og svo beint í bústað. Við áttum líka von á gestum því Guðlaug mágkona kom með strákana og við grilluðum okkur saman kvöldmat. Krakkarnir fóru í pottinn og eftir matinn upphófst mikill eltingaleikur við kanínu sem vappaði um svæðið en við höfðum séð a.m.k. 2 kanínur á svæðinu.












Dagur 5 sem einnig var sami dagurinn og við skiluðum af okkur bústaðnum var ljómandi fínn. Við fórum hluta af gullna hringnum þ.e. kíktum við hjá Strokki og sáum hann gjósa nokkrum sinnum og fórum síðan að sjá Gullfoss. Á báðum þessum stöðum var allt morandi í ferðamönnum. Ég hef ekki komið að Gullfossi í mörg mörg ár og það hefur mikið breyst. Búið að setja upp palla og stíga út um allt virkilega snyrtilegt og flott.
Ps. minni á að hægt að sjá stærri útgáfu af myndunum með því að smella á þær.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...