13. nóvember 2006

Þeim tókst hið ómögulega


Að vekja mig með afmælissöng í morgun. Og til þess að ná þessu markmiði sínu vöknuðu þau (réttara sagt þær) kl. 6!!! Stelpurnar mínar sem varla er hægt að toga á fætur fyrir kl. 8

En það get ég sagt ykkur að þetta var algjörlega dásamlegt. Þó söngurinn hefði verið svolítið ryðgaður, en það er víst ekki við öðru að búast á þessum tíma dags.
Á meðfylgjandi mynd er afmælisgjöfin mín. Te, sérvalið af Eyrúnu með appelsínu og hindberjabragði, ég hlakka mikið til að smakka það. Tebolli og undirskál sem fær einnig sína prufukeyrslu í dag með nýja teinu. Og fallegast afmæliskort sem ég man eftir að hafa fengið, hannað af dætrum mínum.
Sem sagt dagurinn hófst bara nokkuð vel.
ps. ég sé að myndavélin er ekki með rétta dagsetningu, þetta þarf að laga.

10. nóvember 2006

Stormviðvörun


Veðurspáin í gær var hrikaleg, vindur allt upp í 45 m/s í hviðum og jafnvel meiri. Búist við vindhraða upp á 25 m/s og þvílík rigning sem fylgja átti.
Menn fóru í háttinn með kvíðahnút í maganum. Eru þakplöturnar nógu vel festar niður, hvað með ruslafötur, hjól og grill?
Kemst maður í vinnu í fyrramálið? Á að senda börnin í skólann?

Ekki laust við vonbrygði í morgun þegar varla heyrðist í vindinum. Jú hugsanlega er vindáttin þannig að við finnum ekki fyrir henni. Mbl segir að vindur sé 15 m/s það er nú töluvert (hef miðað við 8 m/s sem hámark upp á hjólerí, sá samt hjólreiðamann á leið til vinnu í morgun - hetja eða vitleysingur?).

Það er einhver rómantík við óveður. Í óveðri situr maður inni í hlýjunni, uppi í sófa við kertaljós með heitt kakó og hlustar á vindinn blása eða horfir á uppáhalds myndina sína sem maður á enn á videóspólu ef ekki er rafmagnslaust.

Ákvað engu að síður að halda stelpunum heima í dag. Var ofboðslega á báðum áttum en rökstuddi verknaðinn með því að skólinn er byggingasvæði nú um stundir og eru það ekki einmitt staðirnir til að forðast þegar allra veðra er von?

Myndin tekin af www.mbl.is

9. nóvember 2006

Látnir bíða í tvö ár

Einhvernvegin svona var fyrirsögn á frétt í Blaðinu í gær. Ég las þetta aftur og aftur því ég á það til að bæta inn í orðum og stöfum þegar ég les fyrirsagnir sem breytir þeim algjörlega og hélt ég væri að því líka í þetta skiptið.

Það sem ég skildi ekki var hvers vegna dáði fólk ætti að bíða og þá eftir hverju?

2. nóvember 2006

Að losa sig við drauga.

Hef haft þá nokkra á bakinu í allt of langan tíma. En nú í dag með 2 símtölum tókst mér að losna við einn og minnka annan.

Við hjónin hófum í vor að stunda ræktina af miklum móð - eeeh... svona allavega í upphafi. Síðan förum við til útlanda... og svo hófst skólinn hjá dætrunum... og almennt amstur... og þá er ekki lengur pláss fyrir þennan lið í lífinu og við ákveðum að segja upp samningi þeim er gerður var.
Eftir að hafa haft uppsagnardrauginn á bakinu í nokkurn tíma tókst mér að láta verða af því að fara á staðinn og segja þessu upp. En það sem gleymdist var að fá kvittun fyrir öllu saman. Svo draugurinn hékk enn á bakinu.
En loksins hringdi ég á staðinn. Nú, þá er það illgeranlegt að útbúa pappír og senda í pósti, menn eiga að mæta á staðinn fyrir svona nokkuð!
Ég segi ok og dröslast áfram með drauginn.
Það er skrítið með svona drauga hvað þeir eiga það til að stækka því lengur sem þeir fá að hanga. En aldrei kom ég mér á staðinn til að losa mig við hann og draugurinn heldur áfram að stækka og pirra mig (því draugar eru duglegir við svoleiðis).
Síðan loksins kom að því áðan að mér fannst kominn tími til að losna við hann endanlega og ég hringdi aftur. Þá allt í einu er ekkert mál að senda viðeigandi pappíra í pósti.

Og púff, draugurinn hvarf.

Og þá hugsar maður, afhverju var ég ekki löngu búin að þessu?

31. október 2006

Orð dagsins.

Stundum eru orð að þvælast fyrir og hér eru dæmi um orð eða orðalag sem pirrar mig þessa stundina.

"Ákveðin vonbrigði" Hvað er átt við með þessu? Geta vonbrigði verið ákveðin? Svo þegar maður notar þessi tvö orð saman þá er maður í raun að meina nokkurskonar vonbrigði - ekki satt?

"Mútuþægni" Las í blaðinu um daginn að maður væri ásakaður um mútuþægni. Mér líkar ákaflega illa við þetta orð því það dregur athyglina frá því sem verið er að tala um. Miklu skýrara er að segja að maðurinn hafi verið ásakaður um að þyggja mútur.

"Verg þjóðarframleiðsla" Hvað þýðir þetta eiginlega? Og svo er orðið "verg" svo hræðilega ljótt eitthvað.

26. október 2006

Helga, blessa þessi jól


Í gær var kóræfing. Fyrsta kóræfingin þar sem lagið hans pabba var æft í raddsetningu sem ég og Arnar bróðir gerðum fyrir afmælið hans pabba. Þetta er sem sagt lagið sem fjölskyldukórinn söng í afmælinu við texta sem Eyrún og ég sömdum.

Textinn sem nú var notaður er sá sem lagið var upphaflega samið við eða jólakveðja frá Bjarna (Minnu maður). Mér tókst að skella inn textanum við lagið og prenta það út fyrir kóræfinguna í gær (með töluverðum vandærðum og mikilli hjálp frá Elíasi því tæknin var að stríða mér). En svo vantaði titil á verkið. Textinn endar á því að drottinn er beðinn um að helga og blessa jólin og fannst mér tilvalið að nota það sem titil. Það var svo ekki fyrr en á æfingunni að menn spurðu: "Hver er þessi Helga?" sem ég áttaði mig á mistökunum.

25. október 2006

Gaman að blogga

Það er nú meiri bloggletin í manni.

En það er skemmst frá því að segja að ég hjóla enn í vinnuna. Það hefur verið blessunarlega þurrt undanfarið þó kuldinn bíti. Í morgun ákvað ég að fara í Kraftgallanum því það var svo skelfilega kalt í gærmorgun, en nú er ég ekki viss um að ég vilji hjóla í honum heim aftur...
Svona fer nú tískan með mann.
Ræddum það einmitt í matarboði um daginn hversu dásamlegt það var þegar Kraftgallarnir voru í tísku. Nema ég sé með þessu að koma umræddum göllum aftur í tísku, er að sjálfsögðu einstaklega glæsileg í gallanum.

hmmm... hvað fleira?

Jú þeir veiða hvalina. Enginn virðist vita af hverju því markaðurinn fyrir kjötið er víst ekki til staðar. Ekki er þetta undir yfirskini vísindaveiða ef ég er að skilja rétt. Er þetta til að draga athyglina frá botnvörpuveiðum? Menn úti í hinum stóra heimi eru farnir að fordæma þesskonar veiðar, segja þær rústa botninum og sjávarlífi þar sem þær eru stundaðar. Samtök eru að setja sig í stellingar að fordæma þessar veiðiaðferðir og þar sem við notum þessa aðferð mjög mikið hefði bann gríðarlega mikil áhrif hér á landi. Og hvað ger menn þá? Jú fara að veiða hval. Og allir gleyma togurunum og gráta aumingja hvalina.

17. október 2006

Þolinmæði þrautir vinnur allar - eða hvað?

Fór með Eyrúnu í röntgenmyndatöku á baki. Áttum tíma kl. 13.00 og vorum komnar rétt rúmlega (hræðilegt að fá stæði við Landspítalann). Talaði við dömuna í afgreiðlsunni og hún vísaði okkur til sætis.

Nú er maður vanur því að þurfa að bíða á læknastofum. Man ekki eftir því atviki að það hafi ekki gerst og venjulega pakkar maður þolinmæðinni með í töskuna þegar farið er í þessar heimsóknir. Við Eyrún tókum líka með okkur spilastokk í þetta skiptið og spiluðum rommí, ólsen-ólsen, sprite og tveggjamanna vist (eða Rússa eins og það kallaðsti þegar ég var yngri).

Þegar hálftími er liðinn er okkur farið að leiðast biðin, en eigum þó eftir smá þolinmæði í töskunni, erum stillar og höldum áfram að spila.
Tíu mínútum seinna erum við enn nokkuð þolinmóðar en þó farið að gæta pirrings og farið að ganga á varabyrgðirnar.
Enn bíðum við í tíu mínútúr en þá fáum við líka nóg af biðinni og ég fer loksins að afgreiðsluborðinu aftur.
Kemur þá í ljós að gleymst hafði að láta vita af því að við værum komnar!

Og það sorglega við þetta allt saman er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir mig.

13. október 2006

Gamlir kunningjar




















Munið þið eftir þeim þessum? Þeir eru alveg jafn skemmtilegir í dag og þeir voru þá, nema bara í alveg skelfilega hallærislegum fötum. Var þetta í alvörunni flott? Allt svo vítt og stórt. Tímabilið var samt draumur prjónarans því víðar prjónapeysur voru greinilega inn á þessum tíma. Sjáið t.d. peysuna sem dr. Huxtable er í á þessari mynd:

12. október 2006

Hversu oft á dag ferð þú inn í svefnherbergið þitt?

Komumst að því í gær að Elías fer ekki inn í svefnherbergið okkar nema bara þegar hann fer að sofa.

Þannig var að í gær tók ég mér frídag og ákvað að breyta í svefnherberginu með hjálp dætranna. Við sögðum Elíasi ekki frá neinu og svo biðum við og biðum eftir því að hann færi inn í herbergið og sægi herlegheitin. Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar stelpurnar voru að undirbúa háttinn að Eyrún gafst upp og lokkaði pabba sinn inn í herbergið með klækjum.

Skrítið þetta því mér finnst ég alltaf vera að skottast inn og út úr umræddu herbergi til að ná í hitt og þetta og svoleiðis.

Hvernig er þetta hjá þér, svo ég forvitnist aðeins?

10. október 2006

Póstllistar.

Að skrá sig út af póstlistum getur verið meira en að segja það. Nýverið tók ég upp nýtt netfang og er að losa mig við það gamla og einn liðurinn í því er að skrá sig út af þeim póstlistum sem senda á gamla netfangið. Þetta eru allt innlendir póstlistar og hefur gengið þjáningalaust fyrir sig fyrir utan einn.

Það sem um ræðir er Flugfélag Íslands.
Þeir eru með þennan fína hnapp neðst í póstinum sem býður upp á útsrkáningu og allt virðist voða fínt. En alltaf fæ ég póst.
Nú er það svo ef ég smelli á linkinn og set inn netfangið þá segir kerfið mér að netfangið sé ekki á skrá - samt fæ ég póst.
Ég sendi þeim póst beint með yfirlýsingu á óánægju með að vera ekki farin af listanum, en enn fæ ég póst.

O, jæja þurfti bara aðeins að pústa út um þetta. Þeir mega svo sem halda áfram að senda póst og geta fyllt pósthólfið ásamt spam póstinum sem daglega flæðir inn. Ég er komin með nýtt netfang og er laus við þetta allt. <>

3. október 2006

Ábending til kartöflubænda


Nú finnst mér kominn tími til að þið stærðarflokkið kartöflurnar í pokana.

Það er alltaf þannig að síðustu kartöflurnar í pokanum eru þessar risastóru og þessar pínulitlu, sem leiðir til þess að síðasta soðningin er bæði ofsoðin og of lítið soðin.

Það væri meira að setja hægt að verðleggja kartöflurnar eftir stærð. Vinsælasta stærðin hlýtur þá að vera dýrari og þessi sem selst minna ódýrari.

Hvað finnst ykkur? Væri þetta ekki vel reynandi?

Kveðja, fra kartöfluætu.

29. september 2006

Myrkur milli 22 og 22.30, eða hvað?


Sú frábæra hugmynd að myrkva höfuðborgarsvæðið og nærsveitir varð að veruleika í gær.

Við fjölskylda höfðum mikið hlakkað til og vorum ákveðin í að fara í göngutúr um hverfið og enda uppi á göngubrú yfir Miklubrautina til að sjá þegar ljósin væru kveikt aftur.

Við vorum tilbúin rétt fyrir kl. 10. Hrund meira að segja kom heim af skólaballi til að vera með. Eyrún var mjög spennt og tók uppáhalds tækið sitt, hlaupahjólið með í för. Þegar ljósin voru slökkt stóðum við í garðinum fyrir framan húsið og sáum ljósin slokkna. En þá komu fyrstu vonbrigðin, ekki nema u.þ.b. helmingur nágrannanna hafði slökkt ljósin inni hjá sér eða útiljósin.

Jæja svo lögðum við af stað og sáum jú að menn voru að átta sig og ljós slökknuðu hér og þar í húsum í kring og myrkrið varð töluvert. T.d. heimtaði Eyrún að fá lýsingu á gangstéttina (með vasaljósi) til að sjá hvert hún væri að hlaupahjóla.

Við mættum nokkrum dökkum verum á leiðinni og allir heilsuðu (er það vegna þessara sérstöku aðstæðna eða voru bara þeir á gangi sem almennt heilsa ókunnugum sem þeir mæta á götu?). Þetta var stemming, en ótrúlegt samt hversu mikið var af ljósum. Ég hafði búist við svo til algjöru myrkri.

Hinu megin við Geldinganesið er iðnaðarsvæði, Ingvar Helgason ofl. þvíumlíkt þar voru engin ljós slökk og ekki hægt að sjá mun fyrir og eftir. Í Breiðholtinu var líka mjög mikið af ljósum, en þó hægt að sjá mun. Ég var líka svo hissa á því hversu mikil umferð var. En það er líklegast viðeigandi að bílaþjóðin njóti myrkursins í bíltúr.

Það var flott að sjá ljósin koma aftur. Við fylgdumst vel með tímanum og vorum eins tilbúin og hægt var að vera. Svo kveiknuðu þau lína eftir línu. Fyrst kom lítill blossi og svo ljós.

Það var síðan mjög gaman að ganga sömu leiðina til baka í fullri lýsingu og sjá muninn.

Á meðfylgjandi mynd eru Hrund og Eyrún standandi uppi á steini í Steinahlíð (leikskólalóð), á bak við þær eru ljósastaurar sem sjást auðvitað ekki því það er slökkt á þeim.

Hvað gerðuð þið meðan ljósin voru slökkt?

27. september 2006

Gamlar myndir, en samt ekki svo gamlar

Við skönnuðum inn myndir og hér eru nokkrar. Gæðin eru svo sem ekkert til að hrópa húrra yfir (gamall skanni) en það er samt gaman að þessu.



Þórhallur og Annel Helgi, ó þeir eru bara svo sætir. Þessi mynd er tekin á ættarmóti. Helga móðursystir er á bak við þá.


Hérna eru ég og Inga vinkona þegar við vorum alveg eins. Þarna erum við í apaskinnsbuxunum sem við áttum alveg eins, vorum með alveg eins hárgreiðslu og merkilegt nokk vorum jafn háar!


Hérna eru mamma og Daði (takið eftir blaðinu sem mamma heldur á).



Og að lokum Arnar og Daði, sem á einmitt afmæli í dag. Til hamingju með daginn Daði!!!


26. september 2006

Skrítið.

Fyrir u.þ.b. viku í þegar ég var alveg að sofna fann ég fyrir þessum svakalega verk í einni tönninni þegar ég beit saman. Og ég hugsaði að ég yrði að fara til tannlæknis að láta kíkja á þetta.
Morguninn eftir - ekkert. Og ég átta mig á því að mig var að dreyma.

Næstu nótt gerist það sama og ég hugsa að þetta sé ekki hægt nú verði ég að fara til tannlæknis þó ég finni ekki neitt fyrir neinu morguninn eftir. Daginn eftir finn ég auðvitað ekki fyrir neinu og sé enga ástæðu til að fara til tannlæknis.

Svona hefur þetta gengið síðan þá. Mér finnst ég vera að sofna eða að vakna (þið vitið svona mitt á milli svenfs og vöku) og alltaf þessi verkur í sömu tönninni og alveg hræðilega sárt.

Í nótt var hann öðruvísi og mildari. En samt sem áður, enn einn tannpínudraumurinn.

Skrítið

24. september 2006

Erfiður dagur.

Í gærmorgun kl. 10 átti Eyrún að mæta í söngtíma svo ég vakti hana kl. 9. Þetta var svona pínu súr morgun þar sem hún nennti ekki á fætur og var í vandræðum með hvaða föt hún ætti að fara í og var alltaf að kalla á mig, en ég sat og sötraði teið mitt og var ekkert allt of tilbúin að hlaupa í hvert skipti sem hún kallaði. Þetta endaði með því að ég æsti mig. Loksins kom hún fram og fékk sér að borða með mér, en ennþá var óleyst málið með fötin.

Fimmtánmínútur í 10 fór hún að kvarta undan verk í vinstra auganu. Auðvitað gerði ég lítið úr verknum og kvatti hana til að klæða sig í það sem við höfðum ákveðið því nú þyrftum við að leggja af stað. En verkurinn ágerðist og ekki klæddi hún sig í. 5 mín fyrir 10 sendi ég kennaranum sms um að hún kæmi ekki í söngtímann. Stuttu seinna vaknaði Elías út af kveininu í Eyrúnu og við ákváðum að gefa henni verkjalyf, hálfa paratabs sem hingað til hefur virkað ágætlega á hana.

En verkurinn hættir ekki heldur færir sig aftur eftir höfðinu og ágerist bara. Kl. hálf ellefu er orðið ljóst að taflan virkar ekki og við hringjum í læknavaktina. Þar er okkur ráðlagt að gefa henni hinn helminginn af verkjatöflunni, en við værum velkomin á staðinn ef okkur finnst þörf á.

15 mín seinna er eina breytingin sú að verkurinn hefur versnað. Það er þá sem ég fer með hana á bráðamóttökuna í Borgarspítalanum. Okkur er vísað beint inn á stofu þar sem Eyrún leggst í rúmið. Hún er kveinandi allan tímann og greinilega með mikla verki.
Og nú tekur við skelfilegur tími.

Fyrst kemur hjúkrunarfræðingur til að mæla blóðþrýsting og hita, það er allt eðlilegt þar. Síðan eftir svolitla stund kemur læknir og skoðar hana - kannar reflexa og skoðar í augun og fleira þannig. Hann fer fram aftur. Og við bíðum. Eyrún er grátandi af verkjum, en þegar starfsfólkið kemur inn harkar hún af sér og lætur ekki sjást eins vel hversu illa henni líður. Stundum er eins og hún sé að sofna, augun verða þung en bara í smá stund. Þær stundir fannst mér óhuggulegastar.

En loksins fær hún verkjalyf (eftir að læknirninn hefur ráðfært sig við barnaspítalann). Þeir telja að þetta sé mígreni. Síðan gerist það að annar handleggurinn á henni dofnar upp, fyrst fingurnir og svo færist það upp, það kemur líka skrítin tilfinning í fótinn sömu megin. Ég fer fram og næ í starfsfólk. Þau telja þetta vera vegna oföndunar og ráðleggja henni rólega öndun. Dofinn virðist minnka en hún kvartar líka yfir svima. Þá kemur í hana mikið eyrðarleysi og hún neita að liggja, kvartar um kulda, flökurleika, hungur og að þurfa á klósettið. Eftir að hafa setið í smá stund stendur hún upp og gengur um gólfið mjög eyrðarlaus og með skrítið jafnvægi (stendur uppi en virðist að því komin að detta). Þarna var hún mjög ólík sjáfri sér, það var ekki hægt að ræða við hana og annaðhvort virkaði hún mjög þreytt eða hún heimtaði að komast heim og að fá að borða. Höfuðverkurinn virðist hafa minnkað en henni er flökurt.

Við náum sambandi við starfsfólk sem ætlar að koma með eitthvað handa henni að borða. 10 mín seinna er enginn kominn svo ég fer fram og næ á lækninn. Hann segist ætla að bjarga þessu. Ég fer aftur til Eyrúnar sem heldur áfram að vafra um gólfið. Magaverkurinn ágerist og endar með því að hún kastar upp. Fljótlega þar á eftir kemur ristaðbrauð og djús sem hún hámar í sig. Og þá er hún allt í einu verkjalaus, finnur hvorki fyrir höfuð- eða magaverk og þvílík sæla. Hún borðar eina brauðsneið á mettíma, en þá fer hún aftur að finna fyrir magaverk. Og nú vill hún virkilega komast heim. Hún borðar hálfa brauðsneið í viðbót. Stuttu seinna fáum við grænt ljóst frá lækninum (um heimferð) og hann gefur okkur upp nöfn á barnataugalæknum á barnaspítalanum til að fara með hana til ef þetta heldur áfram eða gerist aftur.

Þegar heim er komið er Elías búin að finna á netinu nákvæma lýsingu á þessu hjá henni, þrátt fyrir að við vorum ekki í símasambandi þar sem ég gleymdi símanum mínum heima. Þetta er ákv. tegund af migreni sem kallast "Cluster Headaches", eina sem passar ekki við lýsinguna er rennsli úr augum og nefi. Allt annað: hefst í auga og færir sig aftureftir höfði, dofi í líkama öðrumegin, þung drjúpandi augnlok, eyrðarleysi, flökurleiki.

Klukkan var um 2 þegar við komum heim. Ég var búin að tæma hjá mér alla orku og sofnaði og svaf til 3, Elías sofnaði með Eyrúnu og svaf til 4, Eyrún sjálf svaf til 5 en þá var hún líka svo til laus við alla verki, fann fyrir óþægindum í höfði ef hún beigði sig fram.

Fjúff þetta var erfiður dagur.

20. september 2006

Hjólafréttir

Vegna fjölda áskoranna set ég hér inn hjólafréttir.

Hjólreiðamönnum á morgnana fer ört fækkandi og voru ekki taldir nema 6 á þessum fögru fararskjótum í morgun og merkilegt nokk fleira kvenfólk en karlmenn.

Síðan af því það er svo gaman að spara og svo ekki sé minnst á að græða þá læt ég fylgja hérna með hluta af klausu sem var í Fréttablaðinu í gær. Rætt var við Pálma Frey Randversson, sérfræðing í samgöngumálum hjá umhverfissviði:

"Hve mikið sparast við að hjóla 5 kílómetra í vinnu á hverjum degi?
"Ég áætla að sparnaðurinn yrði um 20 þúsund á mánuði eða 240 þúsund á ári. Síðan getur þetta líka verið spurning um að spara einn bíl á heimilinu og þá eru upphæðirnar mun hærri því rekstur á bíl kostar um 600-700 þúsund á ári.""

Ég er svolítið forvitin að vita hvernig þessar 20 þús. kr eru fengnar, ég veit að það kostar ekki þessa upphæð að taka strætó á mánuð (nema kannski ef þú borgar almennt fargjald en kaupir ekki kort). Nema verið sé að miða við bensínsparnað?

19. september 2006

Svona getur þetta verið stundum.

Ég hef ekkert að segja. Segi það nú bara samt.

(undir áhrifum frá þessari síðu sem ég fann í gegnum bloggið hennar Þorkötlu, já það er nýtt blogg þar!!!)

13. september 2006

Freyja



Sætur hundur sem Inga á. Við heimsóttum hana í júlí á þessu ári og þá leit hún svona út.

Núna er hún svona stór

11. september 2006

Afmæli.

Það vantar ekki afmælin í september það er á hreinu.

Okkur var boðið í þetta líka fína afmæli í gær. Það var haldið í Mosfellsdalnum og var bara svona skemmtilegt. Verst hvað veðrið var leiðinlegt því umhverfið bauð upp á margskonar útiveru, en það er ekki á allt kosið.

Svo á föstudaginn höldum við afmælisveislu fyrir dætur okkar báðar. Við ætlum okkur aðeins aftur í tímann og hafa kók í glerflöskum og pylsur. Nokkrir hafa stungið upp á lakkrísrörum, prins póló og súkkulaðiköku.
Ahh já afmælin í gamla daga... Muniði eftir prins póló ögnum fljótandi í kókinu? Eða lakkrísröri gegnsósa af kóki?
Já allt var betra í gamla daga.

7. september 2006

Þröngsýni þeirra sem trúa á guð og þeirra sem eru trúlausir.


Þeir sem trúa á guð virðast eiga afskaplega erfitt með að skilja að hægt sé að vera trúlaus.
Oft hafa prestar minnst á það í stólræðum sínum og lesið það úr biblíunni að trúlausir menn séu ekki nema hálfir menn og alls ekki góðir menn.

Aftan á Fréttablaðinu í dag viðrar Jón Gnarr svipaða hugmynd og orðar hana svo:

"... Það er ekki hægt að segja að Guð sé ekki til. Það er beinlínis heimskt, vegna þess að það kemur frá sjónarhóli þröngsýni, sem ekki sér heildarmyndina alla. Þar að auki er það hrokafullt og merki um vanþroska þess sem ekki getur sett sig í spor annarra, skortur á óhlutdrægri og skapandi hugsun. Ef Guð er ekki til þá er listin ekki heldur til. ..."

Oft er ég sammála því sem Jón segir en ekki í dag.

Ég trúi ekki á guð. Ég reyni að virða þá sem trúa, þó ég geti ómögulega skilið trúna. Ég er ein af fáum Íslendingum sem mæta reglulega í messu en það hefur ekki dugað til að frelsa mig eða fengið mig til að skilja trúna á guð.
Hvers vegna trúir fólk á guð? Ég bara veit ekki.
Hvers vegna er fólk trúlaust? Af því að trúin er svo út í hött.

6. september 2006

Speki dagsins.

Alveg eins og maður á ekki að fara svangur í matvörubúð á ekki að fara í of þröngum buxum í buxnabúð.

5. september 2006

Draumur hjólreiðamanns

Mér fanns sem ég væri á nýja hjólinu mínu að hjóla í vinnuna í kolniða myrkri. Það var svo dimmt að ekki sást fram fyrir stýrið.
Og þá fannst mér sem yfir mig kæmi óþol og ergelsi yfir að hafa ekki keypt lukt á hjólið til að vísa vegin við svona aðstæður.
Einnig hafði ég sterka tilfinningunni fyrir því að gatan væri stráð glerbrotum, enda fór líka svo að það sprakk á framdekkinu. Ég vissi að ég væri með bætur og nýju pumpuna mína en engu að síður var þetta frekar óheppilegt.

Hver getur ráðið þennan draum?

4. september 2006

Afmælisveisla.


Afmælisveislan tókst vonum framar. Við fengum draumaveður og þess vegna var farið út um leið og búið var að snæða veisluföng.

Á myndinni sjáið þið afmælisbarnið fyrir framan veisluborðið (það tekur ekki nema klst að setja þessar krullur í hana bæ þe vei).

Við buðum upp á kornflexkökur, snúða, súkkulaðiköku, pavlou (marens kaka), kók, sprite, vatn, klaka með rifsberjum í og það sem sló algjörlega í gegn, frosin rifsber sem virkuðu eins og klaki (og var líka frábærlega flott í glasi). Og það er gaman frá því að segja að Pavloan og Pæjukakan (súkkulaðikaka) passa svo vel saman því í aðra þeirra fara 8 eggjahvítur og í hina 7 eggjarauður.

Síðan var farið í hvern leikinn á fætur öðrum t.d. spiladans (allir dansa í miðjunni og þegar tónlistin stoppar fara menn í hornin (hvert horn merkt t.d hjarta, spaði, tígull og lauf) og þá er dregið spil - t.d. spaði. Þeir sem eru í spaðahorninu detta þá út. Svo höfðum við getraun sem var þannig að glerkukka var fyllt af glerperlum og menn áttu að giska á hversu margar perlur væru í krukkunni.

Þetta var fyrsta afmæli sem við höldum þar sem veitt voru verðlaun. Það er eitthvað sem ég hef alltaf verið mikið á móti, og aumingja Eyrún hefur þurft að líða fyrir því þetta viðgengst í flestöllum afmælum í bekknum. Svo ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og hafa verðlaun. En auðvitað svindlaði ég smá því á endanum voru allir komnir með verðlaun þó þau væru ekki eins. Við sem sagt slúttuðum veislunni á því að spila Bingó og það var þar sem allir fengu verðlaun.

1. september 2006

Blogghringurinn

Ákvað að breyta út af venjulegum blogghring, sem annars er að verða eitt af morgunrútínunum hjá mér. Mínir nánustu bloggarar hafa verið óduglegir í sumar en eru þó að vakna til lífsins einn og einn. Nokkrir eru dottnir eða að detta úr hringnum mínum og fá ekki heimsókn nema 1x í viku eða sjaldnar, vona samt að þeir fari að taka við sér því þeir eru skemmtilegir skrifarar, sem er ástæðan fyrir því að ég kíki enn inn til þeirra.

Fór í smá ævintýraferð þar sem ég fiktaði mig áfram með hinn og þennan likinn. Það getur verið gaman sérstaklega ef maður hefur smá tíma (sem ég hef nú kannski ekki, er svolítið að stelast).
Það er gaman að sjá hvað bloggið er fjölbreytilegt. Rakst svo sem ekki á neitt extra áhugavert í þetta skiptið.

En vonandi fara allir hinir sofandi bloggarar í blogghringnum mínum að vakna og skrifa og skrifa því þá er svo gaman hjá mér að skoða og skoða.
Vil jafnfram þakka þeim sem eru vaknaðir því án þeirra hefði áhuginn líklegast dofnað algjörlega og horfið.

31. ágúst 2006


Það er svo leiðinlegt að sumarið er að vera búið. Auðvitað er haustið fallegur tími, en ég finn bara fyrir kvíða fyrir kuldanum og því að geta ekki lengur hjólað. En hver veit kannski er kemur smá meiri hiti til okkar í september.

Nú fer í hönd mikill afmælistími í minni fjölskyldu. Á sunnudaginn verður haldið æfmælisboð (eins og við skrifuðum óvart á boðskortin og enginn tók eftir) þar sem 15 stelpur (ef allar komast) verða samankomnar í litlu, litlu íbúðinni minni. Ef veður verður gott hendum við stelpunum auðvitað út í garð í leiki. En ef allt fer á versta veg og það rignir eldi og brennisteini þá verðum við inni. Svo það væri frábært að fá uppástungur um leiki (þetta eru 12 ára skvettur) eða þrautir sem þurfa ekki mikið pláss en eru ótrúlega skemmtilegir.

29. ágúst 2006

Að taka eftir því sem manni hentar.

Matvæla og/eða næringarfræðingar eru duglegir að senda frá sér upplýsingar um hvað er hollt fyrir mann og hvað ekki. Einnig eru blaðamenn duglegir að taka þessar upplýsingar og setja í dagblöðin. Þetta og hitt er krabbameinsvaldandi og það sem var heilnæmt og gott í síðustu viku er allt í einu orðið varasamt í dag og öfugt. Maður er löngu hættur að taka mark á þessum upplýsingum sem virðast fara hver upp á móti annari.

En í dag, loksins kom frá þeim eitthvað af viti. Í öllum dagblöðum sem ég fletti í dag var grein um það að te er í raun allra meina bót. 3-4 bollar á dag og þú getur hugsanlega komið í veg fyrir leiðindasjúkdóma. Sagt var að te-ið væri jafnvel betra en vatn!!!

Það er ekki af því að þessar upplýsingar henti mér...

18. ágúst 2006

Ferðalag frh.

Sumarhús í Danmörku. Vorum 15 í þremur íbúðum í strandbænum Lökken. Veðrið lék við okkur og flestir brunnu smá, sumir þó meira.
Ég fór í fyrsta skipti á æfinni almennilega í sjóinn, hef alltaf verið vaðari - veit núna að það er svo miklu miklu skemmtilegra að vera á kafi og henda sér með öldunum. Verst hvað sjórinn bragðast illa.

Fårup sommerland. Ótrúlega skemmtilegur staður. Þar er þrautabraut sem er svo til endalaus, hjólabátar, allskonar tæki og leiksvæði. Við fórum í rússibanann sem var verið að byggja síðast þegar við komum þarna. Hann heitir Fálkinn og er svona svakalega skemmtilegur. Síðan er vatnaland, en við komumst ekki í það.

Dýragarðurinn í Aalborg. Alltaf gaman að sjá dýrin.

Hjörring þar sem hægt er að fá pizzu með eggi, baunum og ég veit ekki hverju á Ítölskum/Mexikóskum veitingastað.

Síðan París. Fyrst Disneyland þar sem við gistum á fínu hóteli þar sem börnin eru aðalatriðið og allt er svo glæsilegt og fínt. Og garðurinn sjálfur með milljón verslunum út um allt sem allar selja sama varninginn (líka ein á hótelinu). Mína mús, Mikki mús og Guffi skiptust á að heimsækja hótelið á morgnana og þá gátu börnin fengið eiginhandaráritun og mynd af sér með þeim.

Sundlaugin inni á hótelinu með þeirri furðulegustu búningsaðstöðu sem ég man eftir að hafa upplifað. Karlar og konur í sömu aðstöðu. Pínulitlir búningsklefar til að skipta úr fötum yfir í sundföt. Skápar til að setja fötin í, en enginn staður fyrir handklæði. Sameiginlegar sturtur sem mjög margir nýttu sér ekki. Sundlaugin var skemmtileg en yfirfull (útilaugin lokuð vegna veðurs).
Disneyland garðurinn er svo stór. Við sáum það eftir fyrsta daginn (3-4 klst labb út og suður) að við urðum að skipuleggja okkur. Ákveða hvað við vildum sjá og reyna - náðum c.a. 1/3 af því sem okkur langaði til. Sumt fráhrindandi vegna langra biðraða (þú getur keypt þér fastpass sem kemur þér fram fyrir í röðinni - annars hátt í klst bið).

Ætluðum okkur 2 daga inni í miðborg Parísar til að sjá og skoða það helsta. Vegna rigningar (þvílíkur úrhellir) hrökluðumst við heim á hótel fyrri daginn. Náðum samt einum yndislegum degi, skoðuðum Notre Dame og sáum Effelturninn. Áttuðum okkur á því daginn eftir þegar við biðum eftir flugi heim að það var brúðkaupsdagurinn okkar.

Nokkrir klukkutímar á Strikinu í Kaupmannahöfn áður en við flugum heim til Íslands.

17. ágúst 2006

1. ágúst 2006

Til hamingju með daginn!



Bróðursonur minn er tvítugur í dag!

Hér er ein lítil saga úr minningabankanum mínum af Annel Helga. Einu sinni þegar hann var á leikskóla var haldin hátið sem hans deild tók þátt í með því að syngja nokkur lög. Öll börnin stóðu stillt og prúð í hóp uppi á sviði og sungu. Loka lagið var "Ryksugan á fullu". Þetta lag var greinilega í uppáhaldi hjá Annel sem rokkaði það upp, tók luftgitar og allt. Flottur!
Einhversstaðar á ég þennan atburð til á videóupptöku, gaman væri að grafa hana upp.

Ps. myndinni er stolið af hans eigin síðu, vona að það sé í lagi.

19. júlí 2006

13. júlí 2006

Póstlistar og hjól


Ég á það stundum til að skrá mig hér og þar í von um gróða og vinninga. Ekki langt síðan ég var á póstlista sem kallaðist Plúsinn þar sem ég fékk allskonar tilboð og svoleiðis sem einhvernvegin heilluðu mig ekki en möguleikinn á því að verða dregin út og fá vinning hélt mér við efnið í u.þ.b. mánuð en þá líka gafst ég upp á auglýsingaflóðinu og skráði mig út.

Núna er ég á póstlista hjá visir.is. En í morgun varð ég frekar móðguð út í þá. Ég var sem sagt komin með nýjan póst frá þeim þar sem spurt er hvort ég vilji fara í bíó. Jú, jú mér finnst oftast gaman í bíó svo ég smellti á "já takk" hnappinn og þá kemur upp þessi mynd hér til hliðar. Nema hvað að glöggir lesendur taka líklegast eftir því að neðst á myndinni stendur orðrétt: "VINNINGSHAFAR FÁ SENT SMS 12. JÚLÍ". Hvað er skrítið við það? Jú í dag er 13. júlí!!! Þá er að athuga hvernær pósturinn barst og það er 12. júlí kl. 23:21. Þetta er bara móðgun og nóg til þess að ég skrái mig út af þessum umrædda lista.

Svo er það hjól og aftur hjól. Mig langar í nýtt hjól og hef verið að skoða aðeins í kringum mig og reyna að afla mér upplýsinga um hvaða hjól henta mér og minni notkun. Fór í 3 hjólabúðir í vikunni til að reyna að átta mig.
-Fyrst var það GÁP sem selja Mongoose hjól þar var þjónustan hræðileg. Þrír ungir strákar við afgreiðslu sem gerðu kannaski sitt besta en einhvernvegin fékk ég það á tilfinninguna að ég væri eiginlega bara fyrir. Sá þar hjól sem mér leist ágætlega á en mig langar ekkert sérstaklega að fara þangað aftur.
-Næst fór ég í Markið, þar eru seld Giant hjól (hún Hrund mín á einmitt hjól frá þeim). Þar var líka strákur í afgreiðslunni en sá var með meiri þjónustulund og/eða reynslu. Byrjaði á því að leiða mig að dömulegasta hjóli sem ég hef nokkurn tíman séð með fótbremsum og allt. En svo öðru hjóli sem mér leist nokkuð vel á.
-Að lokum fór ég í Útilíf en eftir að hafa sveimað þar í kringum hjólin í töluverðan tíma án þess að sjá starfsmann á lausu ákvað ég að nóg væri komið og fór heim. Hjólin þar voru mörg hver með þá stærstu hnakka sem ég hef á æfi minni séð, örugglega mjög þægilegt en ákaflega eitthvað furðulegt í sjón.
Næsta skref er að fara og prófa þau hjól sem mér leist á og átta sig á því hvort þau virka fyrir mig.
Gamla hjólið mitt er Wheeler og ég vildi helst fá annað svoleiðis því það hefur reynst mér ákaflega vel, en eftir því sem ég best veit þá eru þau ekki seld hér lengur.

5. júlí 2006

Í gær og í dag

Í gær eldaði Elías þennan dýrindis kjúklingarétt með ólífum, sveppum, tómatgumsi og fleiru. Þessu fylgdi svo hvítlauksbrauð sem samanstóð af ristuðu fransbrauði og bráðnu hvítlaukssméri. Svona líka ótrúlega gott allt saman.

Í dag er ég að farast úr hvítlauksþynnku. Er með óbragð í munni og efast ekki um andardrátturinn sé eitthvað í sömu áttina. Þá er eina ráðið að japla tyggjó og annað sem getur dregið úr ósköpunum.

30. júní 2006

Nenni þessu ekki!

Það er föstudagur, hálftími eftir af vinnudeginum og sólin skín inn um gluggann.
Hvernig á maður að geta unnið við þessar aðstæður?

27. júní 2006

Hmmm???

Stundum gerast skrítnir hlutir. Ég var vitni að því fyrir 2 eða 3 árum að strætóbílstjóri opnaði hurðina hjá sér til þess að arga á hjólreiðamann að drulla sér upp á gangstétt (viðkomandi hjólaði sem sagt á götunni).
Og í gærmorgun argaði gangandi vegfarandi á mig að ég ætti að hjóla á götunni (ég var á gangstéttinni).
Þetta sýnir að engin leið er að þóknast öllum.
Skrítið samt að gera svona - arga á fólk. Hlýtur að vera uppsafnaður pirringur sem allt í einu springur.

22. júní 2006

Komin heim frá Kanada


Þetta var mjög skemmtileg ferð. Við fengum gott veður allan tímann, rigndi 2x en í annað skiptið vorum við á hátíðarkvöldverði og í hitt skiptið í rútu svo það kom ekki að sök.

Farið var yfir ótrúlegar vegalengdir á hverjum einasta degi, landið er svo stórt. Við flugum til Minnesota, gistum í Alexandriu á leiðinni til Kanada og vorum í Winnipeg í 5 nætur. Við heimsóttum við Gimli, Hecla island, Rivertown og fleiri staði, allstaðar hittum við vestur Íslendinga sem töluðu íslensku og kunnu ættjarðarlögin sem við sungum.

Ef þið hafið áhuga á að skoða fleiri myndir þá hef ég sett þær inn hér.

6. júní 2006

Hitt og þetta

Nú er sumarið komið. Skólarnir að fara í frí og við tekur letilíf hjá krökkunum sem þau hafa hlakkað til lengi (þar til vinnan hefst). Þurfa ekki að fara fram úr rúminu fyrr en þau vilja sjálf og svoleiðis. Þetta leiðir af sér að ég get sofið næstum hálftíma lengur á morgnana sem er gott. Kannski næ ég þá líka að vaka hálftíma lengur á kvöldin?!?

Rúntaði norður á Skagaströnd um helgina til að sjá hvernig hún vinkona mín hefur komið sér fyrir. Heillaðist algjörlega af staðnum og húsinu hennar. Veðrið var mjög gott og við fórum rúnt um plássið og það var virkilega fallegt í sólinni. Svo sátum við í garðinum og nutum sólarinnar.

Sem betur fer fór ég í gegnum Hvalfjarðargöngin áður en áreksturinn varð. Það er of dimmt í þessum göngum. Það er skrítið að við sem eigum allt þetta ódýra og umhverfisvæna rafmagn getum ekki lýst upp göngin betur. Er ekki meiri innkoma vegna ganganna en gert var ráð fyrir? Má ekki nota eitthvað af þeim peningum í lýsingu? Heyrði í fréttunum að vegna kvartana frá nokkrum vegfarendum (ekki hefur mér dottið í hug að kvarta þó ég hugsi um þetta í hvert skipti sem ég fer göngin) að þá eigi að bæta lýsingu við sitthvorn endann á göngunum. Það er bara ekki nóg. Á maður að kvarta?

Eftir viku verð ég í Kanada. Er að verða pínu spennt - mest spennandi er að vita hvort nýja vegabréfið mitt komist í mínar hendur áður en lagt verður af stað. Við lendum nefnilega í hinu mikla USA landi. Þetta kemur allt saman í ljós er líða fer á vikuna.

Í framhaldi af því er rétt að auglýsa opna æfingu sem verður í Kópavogskirkju annaðkvöld (miðvikudagskvöldið 7. júní) kl. 20.00 þar sem sungið verður yfir lögin sem flutt verða í Kanada. En á efnisskránni eru ættjarðarljóð, sálmar og aðrar íslenskar perlur.

24. maí 2006

Breytingar

Um helgina flyst ein elsta og besta vinkona mín út á land. Í staðin fyrir að geta farið til hennar á 10 mín mun það taka mig 3-4 klst að komast til hennar. Við höfum hittst vikulega í töluvert langan tíma og haft það kósí við prjónaskap, sjónvarpsgláp og kjaftagang. Mikið á ég eftir að sakna þeirra stunda.

Við höfum þekkst í hvorki meira né minna en 25 ár - vá!!!

En í staðin koma helgarferðir sem verða ekki leiðinlegar. Það verður gaman að geta prjónað alla helgina eða púslað heilt púsluspil (ekki bara að byrja eða enda). Kannski við dustum rykið af stimpildótinu. Jafnvel gönguferðir um sveitina (eða borgina) á góðviðrisdögum með nesti og nýja skó.

Já, já heimurinn ferst ekki þó eitthvað breytist...

18. maí 2006

Leyndarmál



Í trúnaði var sagt frá og loforð tekið um að það færi ekki lengra. Best væri að gaspra ekki um hlutina og maður á ekki að vera að bera svona sögur út!

Sá sem segir svona hluti gengur gegn öllu því sem hann er að segja. Einhversstaðar frá kemur vitneskjan - ekki ólíklegt að hún hafi verið sögð í trúnaði, bara okkar á milli (þið vitið).

Daginn eftir vitnast það að sama frásögnin var sögð af sama manni í 7 manna hóp. Til lítils var þá að biðja um þetta loforð.

Svona gerir maður bara ekki, nema auðvitað að heimildin sé góð og/eða manni er illa við þann sem um er rætt - ekki satt?

17. maí 2006

Regndropi.

Dropi féll af himnum og beint á nefið á mér. Þetta var fyrir nokkrum dögum síðan, ég hef hugsað um hann af og til síðan. Spáðu í því þvílíka útreikninga og pælingar hefði þurft til að gera þetta viljandi. Það var ekki beinlínis rigning, bara svona dropi og dropi á stangli. Hversu langa vegalengd var hann búin að ferðast áður en lendingu var náð? Hvaðan kemur hann upphaflega?

Segjum að maður sé í loftbelg og sleppi nokkrum dropum hverjar eru líkurnar á því að einn af þeim lendi á nefinu á manni á ferð einhversstaðar fyrir neðan?

9. maí 2006

Hjólafréttir

Það hefur orðið gríðarleg aukning á hjólreiðamönnum á götum/gangstéttum borgarinnar. Hvort sem það er nú veðrinu eða átakinu Hjólað í vinnuna að kenna, nema hvoru tveggja sé. Liðið mitt féll hratt niður listann á fyrstu dögunum vorum á fyrsta degi í 6 sæti en erum núna í 44 m.v. daga en í 25 sæti m.v. kílómetrafjölda (erum í flokkum 10-29).

Í morgun var met fjöldi hjólreiðamanna á leið minni til vinnu en talin voru alls 28 stk. Í gær voru það 22, sem þá var met ársins. Miðað við að í síðustu viku voru tölurnar 8-14 þá er þetta töluverð aukning.

Eins og þetta er nú allt saman skemmtilegt og ég gæti skrifað um þetta miklu, miklu lengri pistil þá hef ég verk að vinna og verð því miður að snúa mér að því núna. Meira seinna - ég lofa.

3. maí 2006

Á hvaða aldri ertu?

Eftir því sem ég verð eldri er erfiðara með að meta aldur fólks. Mér finnst fólk sem er eldra en ég (þá á ég við a.m.k. 10 árum eldri) allltaf verða unglegra og unglegra og þeir sem eru yngir krakkalegri og krakkalegri. En er það er aldurshópurinn plús/mínus 10 ár við minn aldur sem er svo flókinn. Ég er alltaf að reka mig á það að álíta þennan eða hinn vera "miklu eldri en ég" en svo þegar til kemur er sá eða sú jafnaldir eða jafnvel yngri. Eða sem getur verið enn pínlegra þegar maður kastar því fram "þú ert á mínum aldri" og viðkomandi er 5-10 árum yngri.

Í barnaskóla var þetta einfaldara. Þá var auðvelt að greina 1. bekking frá 2. bekkingi eða krakka úr 5 bekk. Og allir sem lokið höfðu barnaskólanum voru gamlir. Punktur og basta!

2. maí 2006



Á leiðninni í vinnuna datt mér svo margt skemmtilegt í hug að skrifa hér en núna þegar ég gef mér smá tíma þá er eins og allt sé horfið.

Vorum í gær að skoða hótel nálægt Disneylandi í París því þangað ætlum við í sumar eftir að hafa verið viku í dýrðinni í Danaveldi. Við ætlum okkur 2 daga í garðinn og 2 daga í borgina. Þetta verður þannig að við ættum að ná að sjá þetta allra frægasta eins og Effelturninn, Monu Lisu og Notre Dam.

"Hjólað í vinnuna" hefst í dag og í fyrsta skipið tek ég þátt. Náði að skrapa saman í lágmarksfjölda hér í vinnunni (sem eru 3) og þá erum við 2 sem hjólum og 1 strætóandi. Gaman að sjá hvernig okkur gengur. Ég er nú þegar búin að hjóla 7 km í dag og á þá eftir að fara heim aftur (5 km).

28. apríl 2006

Ótrúlega góður morgunmatur

Síðan úr örófi alda hef ég fengið mér te og brauðsneið í morgunmat.

En í morgun varð breyting á og það sem ég fékk mér var svo gott að ég verð að deila því með ykkur.

Ab mjólk
Kornflex
Smátt skorið epli
Smátt skorin vínber

Fyrsta smakk er súrt (þið vitið Ab mjólkin er þannig) en svo tekur yfir þetta yndislega bragð af vínberjum og eplum og kornfelxið gefur undirtón.

Te-ið fékk svo að fylgja sem eftirmatur.

26. apríl 2006

Raunasaga úr Vogunum


Var með einhver smávegis ónot í maganum í gær. Hélt að það væri kvíði því við Elías höfðum planað að fara í ræktina saman og þar sem við höfum aldrei gert nokkuð slíkt áður var ég kvíðin. Jæja við fórum en magaverkurinn ekki og það sem verra var að hann ágerðist.
Í framhaldi af því var kvöldið miður skemmtilegt og nóttin líka. Þessu öllu saman fylgdi mikill hiti og kuldi og almenn vanlíðan sem endaði í þeim hápunkti að kastað var upp. En vellíðanin sem kom þar á eftir er ótrúleg. Hitinn og kuldinn hvarf. Maginn hætti að kvarta. Mér fannst ég svífa, einungis fyrir þær sakir að vanlíðanin var horfin og svo náði svefninn yfirhöndinni.

Í dag er ég heima, enn með smávægileg ónot í maganum og þreytu í kroppnum því ég var alltaf að vakna í nótt. Fer líklegast ekki í ræktina í dag (fengum 3gja daga reynslupassa, sem ætlunin var að nýta).

16. apríl 2006

Gleðilega páska!




Og hér kemur páskaþraut dætra minna. Ef þið viljið finna út vísbendingu um hvar páskaeggin þeirra voru falin leysið þrautina. Þetta er gert með því að lita reiti og tengja saman tölustafi.
1 = viðkomandi reitur litaður.
2 = 2 reitir litaðir báðir merktir með tölustafnum 2.
3 = 3 reitir litaðir (einn auður reitur milli tölustafanna)

Línurnar sem litaðar eru geta legið í hlykkjum en gæta þarf að fara ekki yfir línu sem áður hefur verið lituð. Góða skemmtun.

11. apríl 2006

Smellið á "hér"

Kíkið á þessa síðu hér, mér hefur alltaf fundist hún skemmtileg.

Svo ef þið hafið gaman að sudoku að þá eru hér nokkrar svoleiðis og fleiri skemmtilegar þrautir.

7. apríl 2006

Könnun á nagladekkjanotkun


Síðastliðna þrjá morgna hef ég stytt mér biðina eftir strætó með því að telja bíla eftir því hvort þeir eru á nagladekkjum eða ekki. Talningin fer þannig fram að ef bíll á nagladekkjum ekur framhjá þá er 1 ef annar án nagla kemur næst er ég aftur komin niður í 0. Talningin tók c.a. 5 mínútur í hvert skipti. Niðurstöður er þessar:

Miðvikudagur 15 fleiri á ónegldum dekkjum
Fimmtudagur 2 fleiri á ónegldum dekkjum
Föstudagur 10 fleiri á ónegldum dekkjum

Hvað má svo lesa úr þessari könnun?

Jú ég hef greinilega óskaplega gaman að því að telja...

5. apríl 2006

Hver getur unnið Elías í Buzz?

Keyptum okkur Playstation tölvu fyrir jól og leikurinn Buzz fylgdi með í kaupbæti. Þetta væri ekki fréttnæmt nema af því að Elías svoleiðis burstar okkur stelpurnar alltaf í þessum leik (tel of mikinn sálmasöng hafa truflað getu mína á þessu tónlistarsviði). Það er helst að Hrund og Eyrún hafi eitthvað í hann þegar eingöngu er farið í nýlega tónlist. Við getum illa sætt okkur við þetta og kallinn er að verða helst til of ánægður með sig, svo okkur bráðvantar einhvern til að veita honum samkeppni. Helst horfi ég til bræðra minna sérstaklega þeirra yngir þar sem þeir telja sig tónlistarlega þenkjandi (Þórhallur prúf mí rong). Legg til að sett verði upp keppni um páskana til að koma Elíasi niður á jörðina aftur.

Svo setjið ykkur í stellingar bræður ég treysti á ykkur!

4. apríl 2006

Ballettsýning ársins


Í kvöld ætlar Hrund mín að dansa ásamt öðrum nemendum í ballettskóla Eddu Scheving á vorsýningu í Borgarleikhúsinu. Það er alltaf mjög gaman að sjá þessar sýningar og hversu mikið þeim hefur farið fram frá því á síðasta ári.

Glöggir menn sjá að önnur stúlkan frá hægri á meðfylgjandi mynd er einmitt Hrund í dansi frá því á síðasta ári. Takið eftir því hvað hún ber sig vel stelpan. Ég er að rifna úr stolti og hlakka mikið til kvöldsins. Þetta eru 3 sýningar í allt á sama deginum og það er töluvert krefjandi en án efa mjög gaman líka.

2. apríl 2006

Nýr bloggari

Nú hefur yngri dóttir mín bæst í hóp bloggara. Bjóðum hana velkomna. Það væri gaman ef þið skrifuðuð eitthvað fallegt í gestabókina hennar og/eða í kommentin.

31. mars 2006

Má ekki bregðast aðdáendum.

Þið eruð svo dásamlega dugleg að kíkja á síðuna mína, ég bara tárast.

Hitti Ingu vinkonu mína og dóttur hennar í hádeginu því við ætluðum að borða saman. Ég hafði mælt með Pizza67 í Tryggvagötu. Hef farið þangað með bræðrum mínum í hádegsihlaðborð og líkað vel. En viti menn, þó við finnum stæði beint fyrir utan og allt þá dugar það ekki til því staðurinn er þar ekki lengur. American style opnar hér stendur í glugganum. En það er ekki okkar siður að kvarta og kveina svo við bara fórum á Hlölla í staðinn og rúntuðum svo niður á höfn, fundum gott stæði þar og snæddum í rólegheitunum. Mjög svo ljúft.

30. mars 2006

Óggisslegaflott

Setti teljara á síðuna mína (alveg neðst). Núna verðið þið öll að vera dugleg að kíkja svo tölurnar hlaðist inn.

29. mars 2006

Engar hjólafréttir

Það er einhver skræfa inní mér sem er svo hrædd um að detta enn einu sinni. Og hún skipaði mér að taka strætó í vinnuna bæði í gær og í morgun - það gætu nefnilega verið hálkublettir sjáðu til. Sá samt fullt af hjólreiðamönnum sem líklegast hafa ekki þessa sömu skræfu og ég.

27. mars 2006

Hjólafréttir


Á miðvikudaginn síðasta kom tengdapabbi með hjólin okkar úr geymslu. Í gær fór ég með hjólið mitt á bensínstöð og pumpaði í dekkin (af því að fína pumpan sem ég keypti mér virkar ekki nema bara stundum) og svona almennt athugaði hvort allt virkaði eins og það á að gera.
Í morgun hjólaði ég í vinnuna. Að sjálfsögðu var ískaldur mótvindur og þolið fyrir löngu farið, þurfti að fara niður í 3 gír upp smá brekku og meðalhraðinn hefur verið ca. 10 km/klst. (meðalhraðinn síðasta sumar var 15 km/klst).

Sá ekki nema 4 aðra hjólalinga á leiðinni og einn skokkara. Því miður var ég svo upptekin af því að hjóla að ég tók ekki eftir hitastiginu en finnst líklegt að það hafi verið nálægt frostmarkinu.

25. mars 2006

Lisa Ekdal


Þegar ég frétti að Lisa Ekdal ætlaði aftur að halda tónleika hér á landi ákvað ég að láta ekki happ úr hendi sleppa. Ég missti af tónleikum hennar síðast og ætlaði ekki að gera það aftur. Mjög snemma keypti ég mér miða á besta stað í salnum (og þeim dýrasta). Svo loksins, loksins kom að tónleika deginum.

Fyrri hluti tónleikanna einkenndist af bið. Fyrst var beðið í hálftíma eftir KK og Ellen Kristjánsdóttur en þau hituðu upp fyrir Lisu og gerðu það vel þegar þau loksins komu á svið. Ætli þau hafi ekki sungið í 15-20 mín og þá tók við önnur hálftíma bið. Maður fann fyrir pirringi í salnum. Svo heyrði ég konu nokkru fyrir framan mig segja að það væri hlé. Starfsfólkið niðri hafði sagt þetta við hana þegar hún, eins og nokkuð margir fleiri fóru að pissa eða bæta á glösin hjá sér.
En svo loksins kom að því. Fyrst komu tveir strákslánar á sviðið og spiluðu á sitthvort rafmagnspíanóið. Sviðið var skemmtilega upp sett og lýsingin góð. Á bak við þau var tjald og myndin á því var eins og þau væru stödd í höll einhversstaðar. Eftir dágott forspil kom Lisa og fór að syngja. Ég þekkti ekki fyrsta lagið en maðurinn við hliðina á mér fílaði það í tætlur. Síðan söng hún "Benen i kors" sem ég og stelpurnar mínar köllum stressedei og pressedei (skrifað eins og sagt). Mér fannst sérstaklega áhrifamikið þegar hún söng "Du sålde våra hjärta". Ég hef líklegast þekk u.þ.b. annað hvort lag á tónleikunum öllum og langar mikið að eignast nýjasta diskinn hennar "Pärlor av glas".
Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og hefði viljað hafa þá helmingi lengri. Var svolítið sár yfir því að hún var ekki klöppuð upp nema einu sinni. Prógrammið var vel skipulagt og rann árennslulaust í gegn engin bið meðan skipt var um hljóðfæri allir með á hreinu hvaða lag kom næst og svoleiðis.

Það var upplifun að sjá hana í eigin persónu því hingað til hef ég bara séð ljósmyndir af henni og þær hafa allar verið svo allt öðruvísi en hún er (að minnsta kosti eins og ég upplifði hana).

Það var ótrúlega gaman að heyra hana syngja lögin sem ég hef bæði hlustað á og sungið með í gegnum tíðina, það eru líklegast um 5 ár frá því Daði gaf mér fyrsta diskinn hennar í jólagjöf og síðan 2 aðra.

Sem sagt virkilega skemmtileg upplifun.


22. mars 2006

Á síðustu stundu.

Einu sinni var ég stundvís og einu sinni var ég skipulögð. Þetta virðist allt vera gufað upp. Hjá mér ríkir svokallað skipulagt kaós. Jú ég veit hvað hlutirnir eru - oftast og ég veit hvenær ég þarf að gera hitt og þetta, en kem mér yfirleitt ekki til þess fyrr en á síðustu stundu.

Í gær var síðasti dagur til að skila skattframtali. Við hjónin höfum talað um það okkar á milli síðustu vikuna að drífa nú í þessu en fyrst í gær fórum við að draga fram skjölin sem til þarf og finna skattskýrsluna frá síðasta ári til að hafa upp á veflyklinum okkar. Jú, jú þetta var svo sem allt á sínum stað nema hvað að veflykillinn virkar ekki! Og hvað gerir maður þá? Jú sækir um frest og nýjan veflykil. En af hverju í ósköpunum erum við ekki löngu búin að þessu?

21. mars 2006

Fegurð



Stóð mig að því um daginn að dæma söngvara úr leik í American Idol af því hann hefur ekki lúkkið með sér. Útlitsdýrkunin hefur náð að síast inn í kollinn á mér án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Ég hef alltaf talið mig vera yfir það hafin að láta útlitið hafa áhrif á mig, en greinilega hefur eitthvað látið undan.

20. mars 2006

Sykur eða sætuefni

Það er kominn tími fyrir mig að blogga þar sem nokkuð er síðan ég setti inn bloggið hér á undan. En þá er spurningin hvað á að skrifa um.

Mig langaði að setja inn texta um það hvernig ég þoli ekki þessi sætuefni sem er troðið í allt í dag. Mér finnst þau bragðvond, eitthvað eftirbragð sem hentar mér illa. Og ég vil ekki trúa því að þau séu eitthvað betri en sykurinn, nema þú sért með sykursýki auðvitað. En svo fannst mér ég ekki hafa nóg efni í svoleiðis tuð-grein og er hætt við það.

Ok, en hvað á ég þá að skrifa um? Jú ég fer á tónleika á föstudaginn með Lisu Ekdal í Háskólabíói. Keypti miðann fyrir svo löngu síðan að ég var næstum búin að gleyma þeim. Það verður örugglega gaman, mér finnst hún frábær tónlistarmaður og lögin hennar yndisleg. Hlakka mikið til.

En þetta gengur hvorki né rekur hjá mér. Hélt að með því að skrifa bara eitthvað mundi andinn koma yfir mig, en hann er upptekinn við annað í augnablikinu svo ég segi þetta gott í þetta skiptið. Vona að dagurinn verði ykkur góður.

16. mars 2006

Erfist leikfimivanlíðan???

Þegar ég var í skóla var leikfimi sá tími sem ég kveið fyrir. Það sem ég hataði mest voru boltaleikirnir - fótbolti, handbolti, körfubolti, skotbolti... og fleiri slíkir leikir. Mér fannst hins vegar gaman þegar farið var í fimleika, klifra í köðlum og hanga eða ganga á slá eða eitthvað í þá veruna en að sjálfsögðu var það miklu, miklu sjaldnar en boltaleikirnir.

Þegar Hrund var yngri áttum við í mestu vandræðum með hana daginn fyrir leikfimidaga. Þá fékk hún magaverk og átti í vandræðum með svefninn.

Núna er það Eyrún. Reyndar ekki leikfimin heldur sundið. Og það skrítna er að hún er alltaf að suða um að fara í sund en þegar kemur að sundtímum þá er ekki lengur gaman. Og hún fær magaverk og á erfitt með að sofna kvöldið á undan.

Svo nú spyr ég, er þetta arfgengur andskoti?

Eða hef ég einhvernvegin smitað þessari tilfinningu yfir á börnin mín með framkomu eða einhverju gagnvart þessum tímum?

Nú hef ég nýlega áttað mig því að hræðsla við hunda er lærð hegðun hjá mér - því ég hef núna lært að vera ekki hrædd við hunda (guð blessi Discovery Channel). En áður en það kom til hélt ég að það væri í eðli hunda að bíta og með aganum einum væri hægt að hald þeim frá því, þess vegna mundu þeir (hundarnir) nota hvert tækifæri sem gæfist til að bíta mig ef eigendurnir pössuðu ekki upp á þá. Þessi hugmynd um hunda hlýtur að vera einhversstaðar frá komin og þar sem ég ólst ekki upp við hunda ... (foredrar mínir eru t.d. mjög hundahrætt fólk).

En nú velti ég fyrir mér er leikfimivanlíðanin líka lærð ???

14. mars 2006

Loksins að batna



Ræddi við Daða bróður um daginn og hann sagði mér frá einhverju sem kallast ísrigning og þau í Danmörku upplifðu í vetur. Ætli það hafi verið eitthvað svipað og á þessum myndum sem fylgja með blogginu mínu í dag?

Úff, hef kannski ekki alvega náð fullri orku ennþá. Ætla að halla mér aðeins aftur.

10. mars 2006

Flensan bankar uppá.

Heimili mitt er pestarbæli þessa dagana. Báðar dæturnar liggja fyrir með hátt í 40 stiga hita og hósta. Hitinn vill rokkar töluvert og ég dugleg að dæla lyfjum í þær til að halda honum niðri.

Þær hafa ekki orðið svona veikar síðan þær voru pínu litlar, allavega ekki báðar í einu. Nú er bara að bíða og sjá hvort við Elías fáum þetta ekki líka.

7. mars 2006

Kastalinn minn


Ég ætla að sýna ykkur kastalann sem mig langar svo í. Þetta er svona ævintýrakastali með kastalasýki, turnum, og allskonar skúmaskotum. Hann er til sölu og kostar ekki nema 690 þús evrur og er í Þýskalandi. Finnst ykkur hann ekki fallegur?

6. mars 2006

Strætó enn og aftur.

Ég var að enda við að senda kvörtunarbréf til Strætó. Þeir voru enn og aftur að breyta leiðarkerfinu og tóku við það í burtu eina kostinn við nýja kerfið fyrir mig.
Það sem breyttist var að leið S2 fer ekki lengur framhjá mínu hverfi og er þá í einni svipann bæði búið að taka frá mér vagninn sem fer á 10 mín fresti og líka tengingu við Kringlu og Smáralind, svo ekki sé minnst á Kópavogsbrautina mína 4 kæru.
Ég er svo pirruð og sár og svekkt og hissa að ég skuli ekki hafa tekið eftir því að þessar breytingar voru í vændum. Ég vissi að það ætti að fara að breyta kerfinu en taldi mig hafa lesið yfir og skoðað væntanlegar breytingar en samt fór þessi alveg fram hjá mér.

uss fuss puss

"ég er svo reiður, ég er svooo óskaplega reiður... " sagði annaðhvort Karius eða Baktus og nú líður mér þannig líka.

Og svo fékk ég svar frá Strætó sem er eftirfarandi (og ekki til þess fallið að gera mig kátari á nokkurn hátt):
Sæl Bjarney,

Frá því að nýtt leiðakerfi Strætó var tekið í gagnið í júlí á síðastliðnu ári hefur Strætó bs safnað saman athugasemdum, ábendingum og skoðunum farþega, bílstjóra og annarra sem hafa haft skoðun á málefnum Strætó bs. Í gær voru framkvæmdar breytingar á leiðakarfinu sem er ætlað að koma til móts við megnið af þessum athugasemdum og ábendingum og er því um margvíslega þjónustubót að ræða. Leiðakerfi almenningssamgangna verður alltaf málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða. Það er von okkar að sem flestir finni ásættanlegar lausnir fyrir sig í þessu breytta leiðakerfi.

Með kveðju frá Strætó bs.

Ég segi nú bara það sama og áðan uss puss fuss

3. mars 2006

Klukk

Hún Inga vinkona mín klukkaði mig og nú er að standa sig:
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Kópavogur
Reykjavík
Kaupmannahöfn (2,5 mán)
Reykjavík
Fjórar eftirminnilegar bækur:
Mómó
DaVinci lykillinn
Veröld Soffíu
Bróðir minn ljónshjarta
Fjórar góðar bíómyndir:
Mulan Rouge
Scarlet pimpernail
Castaway
A little trip to heaven
Fjórir uppáhalds sjónvarpsþættir:
House
Monk
30 days
Star trek Voyager
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Álaborg
Boston
London
Snæfellsnes
Fjórir uppáhalds veitingastaðir:
Skólabrú
Lækjarbrekka
Caruso
Pizza-Hut
Fernt matarkyns í uppáhaldi:
Smjörsteiktar kartöflur (með nauta snitzeli)
Kjúklingasalatið á Caruso
Franskur kartöfluréttur sem Elías eldaði
Subway bræðingur

Ég klukka og skora á: Arnar bróðir og Þorkötlu frænku að halda þessu áfram.

2. mars 2006

Hmm, fimmtudagur

Í gær lék ég kórstjóra. Það er nokkuð merkileg reynsla. Reyndar er þetta í annað sinn sem ég leik þennan leik, en í fyrsta skiptið var fyrir áramótin. Ég sem sagt leysti af kórstjórann minn á einni æfingu þar sem hún skrapp á skíði til útlanda.

Nú hef ég verið í kór svo til alla mína æfi og ætti því að þekkja svolítið til, amk get ég gagnrýnt þá kórstjóra sem ég hef sungið hjá og fundið að ýmsu. En þegar maður svo stendur fyrir framan hópinn og á að stjórna sjálfur - þá er allt svo allt öðruvísi og töluvert mikið erfiðara. Það er ekki eins einfalt og maður heldur að hlusta á allar raddirnar og heyra út hvort einhver er að syngja vitlaust, það er ekki svo auðvelt að átta sig á því hvort flestir séu búnir að ná línunum sínum nógu vel til að geta sungið með öllum hinum röddunum.
Það er svo ótrúlega margt sem þarf að taka eftir og vera meðvitaður um.

En jafnframt var þetta mjög gaman og ég get vel hugsað mér að gera meira af þessu.

1. mars 2006

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang...

En samt er öskudagur.
Hvað var gert á öskudaginn í (mína) gamla daga? Ég man eftir öskupokunum og títuprónum sem hægt var að begja, það er ekki hægt að gera við títuprjóna nútímans þeir bara brotna. Ég man eftir að hafa saumað öskupoka og spennuni við að reyna að næla þeim í einhverja saklausa borgara. Líklegast hef ég þó aldrei haft áræði í annað en að næla þeim í mömmu og pabba í mesta lagi.

Ég á lítið minningarbrot af þessum degi úr Keflavíkinni. Þannig var að ég er í bíl með Melkorku og Þorkötlu og Siggi Þorkels var við stýrið. Ég man ómögulega hvert við vorum að fara nema það að Siggi þurfti að skjótast til að hitta einhverja menn. Það náðist að næla í hann poka áður en hann hljóp út úr bílnum og inn í eitthvað hús. Og Þetta fannst mér óumræðilega fyndið að þarna skildi skólastjórinn fara á fund með öskupoka hangandi á bakinu ha ha ha...

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...