8. júlí 2007

Hjólað í veðurblíðunni

Mikið vildi ég óska að svona veður eins og var síðustu 2 vikurnar væri venjulegt sumarveður á Íslandinu okkar. Því hvað er dásamlegra en sól og hiti.

Ég og dömurnar mínar nýttum okkur góða veðrið um síðustu helgi til að hjóla inn í Kópavog til mömmu og pabba.

Þetta var alveg yndislegur hjólatúr sem tók u.þ.b. klst með stoppum hér og þar til að hvíla sig og njóta veðurblíðunnar.

Myndirnar segja fleira en mörg orð.







29. júní 2007

Símaskráin á pappírsformi


Óskaplega er hún nú úrelt greiið. Prófaði af ganni mínu að fletta aðeins í henni. Sjá hvort ég gæti fundið hana vinkonu mína sem býr úti á landi (já Inga það ert þú - og þú ert ekki í kránni).

Hef aldrei skilið af hverju þarf að skipta upp landinu í svæði. Það bara flækir málin. Betra væri að hafa alla í einni súpu og svo getur hvert svæði fyrir sig gefið út bækur af sínu svæði ef þeir vilja hafa það svoleiðis. Þoli ekki þá sjaldan ég þarf að fletta upp í þessari blessuðu bók að byrja á því að finna landsvæðið sem umræðir og svo þar undir bæinn/kaupstaðinn og þá loksins er hægt að leita eftir nafni.

Sem betur fer er til vefur sem heitir ja.is

28. júní 2007

Keðjuverkun (Critical Mass)

Rakst á þetta á bloggi sem ég skoða af og til. Ákvað að skella þessu hér inn.

Allir sem vettlingi, hjóli, hjóla/línuskautum eða hjólabrettum geta valdið mæta í Glæsibæ fyrir klukkan 12 á hádegi á föstudaginn. Fréttatilkynning hér:

Keðjuverkun eða Critical Mass er viðburður sem vanalega er haldinn seinasta föstudag í hverjum mánuði í borgum og bæjum víðsvegar um heiminn þar sem reiðhjólafólk, og jafnvel hjólabretta-, hjólaskauta- og línuskautafólk fjölmenna göturnar.

Hver hefur sínar ástæður fyrir því að vera með en algengt er að fólk vilji vekja athygli á hjólum sem samgöngumáta í stað bíla og fá fleiri til að hjóla. Eða einfaldlega hjóla saman og skemmta sér í góðra vina hópi.

Fyrsta „keðjuverkunin“ á Íslandi verður haldin föstudaginn 29. júní kl. 12. Hjólað verður frá Glæsibæ að Ráðhúsinu um Laugaveg. Áætlunin er að halda atburðinn mánaðarlega.

27. júní 2007

Gamlir kunningjar

Fór fram hjá gömlum kunningja í gær morgun.


Þannig var að í nokkur ár hjóluðum við á móti hvort öðru á hverjum morgni. Þetta var þegar ég hjólaði alltaf Suðurlandsbrautina. Við vorum farin að heilsast svona á öðru ári (við Íslendingar erum ekkert of fljót að hleypa öðru fólki að).

Síðan kom að því að of margir voru farnir að hjóla þessa leið og kominn var tími til að finna aðra leið. Þá fór ég að hjóla Miklubrautina (eða dekkjasprengileiðina vegna allra glerbrotanna sem voru á þeirri leið). Það skemmtilega var að þessi kunningi minn, sem ég hef í mesta lagi sagt "Góðan daginn" við hafði greinilega fengið sömu hugmynd og var farin að hjóla þessa sömu leið. Svo enn hjóluðum við á móti hvort öðru og heilsuðumst.

Það kom svo að því eftir ótrúlega margar dekkjasprengingar að ég fékk nóg af umræddri leið. Á síðasta ári fór ég lang oftast Sæbrautina (5 km) og stundum Nauthólsvíkina (10 km, þegar ég er í extra góðu hjólastuði) eða Suðurlandsbrautina (4,5 þegar ég er löt) og ég man ekki til þess að hafa hjólað á móti manninum á síðasta ári.

En í gærmorgun var ég stemmd fyrir Miklubrautina og viti menn - þarna var hann. Við náðum hvorugt að átta okkur fyrr en akkúrat á þeirri sekúndu sem við mættumst, en það var eitthvað svo gaman að rekast svona á gamlan kunningja.

22. júní 2007

Er einhver sem veit...

Matjurtargarðurinn gengur glimrandi vel. Fengum okkur í gær salat með radísum og káli úr garðinum. Grænmeti bragðast alltaf best þegar maður ræktar það sjálfur.

En nú er spurningin. Á að hafa plastið yfir garðinum í allt sumar eða er kominn tími til að taka það af?

Nú eru kartöflugrösin vel sprottinn og farin að nálgast toppinn á "gróðurhúsinu" en gulræturnar eru ekki nærri tilbúnar þó grösin af þeim líti ágætlega út. Radísurnar eru eins og fyrr sagði lengra á veg komnar og kálið er alveg hægt að nota þó það eigi líklega eftir að stækka töluvert meira.

Er ekki einhver fróður þarna úti sem getur sagt mér til?

7. júní 2007

Endurnýjun lagna

Það er svo skemmtilegt núna að verið er að klæða afrennslislögnina hjá okkur. Þetta hefur gengið svona upp og ofan. Aðalvandamálið er þó samskiptaleysi milli verktaka og verkkaupa.

Samþykkt var að fara í þessar framkvæmdir á húsfundi. Verð gefið upp og sagt að verktaki gæti hafið störf svo til strax. Einnig var tilkynnt að einn dag væri ekki hægt að nota vatn í búðunum því þann dag væri verið að blása n.k. hulsu inn í lögnina til klæðningar, en auðvitað fengjum við að vita það með fyrirvara.

Jú, jú gott og blessað. Það er ljóst að kominn var tími á þessar framkvæmdir. Lagnirnar voru í upphafi stíflaðar af möl, sem ver hreynsuð út til að hægt væri að mynda lagnirnar. Og sagt að ef ekkert væri aðgert mundu þær fyllast aftur með tíð og tíma.

En nú líður og bíður og ekkert gerist.

Síðan einn daginn hringja dæturnar í mig og er mikið niðri fyrir, verið er að grafa upp beðið okkar fyrir framan hús. Enginn látinn vita, bara mætt á staðinn og hafist handa.

Og þannig var það líka í gærmorgun, þegar einn nágranninn bankaði uppá og sagði að í dag ætti að klæða lögninga og ekki mætti nota vatn þann daginn! Þetta var um kl. 8.30, og fengum við hálftíma frest til að bursta tennur og annað nauðsynlegt áður en vatnsbannið tæki gildi.
Þetta var nú helst til of stuttur fyrirvari að okkar mati. En auðvitað viljum við að þessu verki ljúki sem fyrst svo við tuðum bara okkar á milli.

Í gær var mikill dagur. Hrund að ljúka grunnskólanum og um kvöldið var heljarinnar útskriftarveisla á vegum skólans í sal hér í hverfinu. Nýbygginging er ekki að fullu tilbúin til að taka við svona hófi. Hún fékk líka að vita að hún hefur fengið inngöngu í Klassísla listdansskólann næsta vetur. Við seldum hornsófann okkar (í gegnum Barnaland.is) og við flúðum húsið vegna vatnsbanns og fnyks af völdum þessarar lagnaklæðningar.

Fnykurinn er eitthvað í átt við bensínlykt, en bara ágengari. Og á endanum ákváðum við að ekki væri hægt að sofa í þessu og fengum að kúra á dýnum hjá tengdaforeldrunum.

Eitthvað bilaði hjá lagnamönnum í gær og þeir náðu ekki að ljúka verkinu, en ætla að koma í dag og vonandi gengur allt vel 0g við getum farið að lifa eðlilegu lífi aftur.

1. júní 2007

Hjólafréttir

Fyrir ári síðan hófst tilraunaverkefnið "Að hjólin eru bílarnir - fyrir fullorðna". Þar sem þáttakendur skuldbundu sig til að fara alfarið eftir umferðarreglum á hjólfákum sínum.

Þetta var erfiðara en leit út í fyrstu. Að bíða á rauðu ljósi þegar engin umferð er á götunni virkar oft kjánalega þegar setið er á hjólfák, sérstaklega þegar aðrir hjólreiðamenn þeysa framhjá. Einnig uppgötvaðist það að sum ljós breytast ekki hversu lengi sem beðið er, nema bíll komi og bíði líka. Eins og þau ljós eru sniðug, fyrir bílaumferð þar sem umferð er róleg þá eru þau hundleiðinleg fyrir hjólreiðamann sem vill fara eftir umferðarreglunum.

Síðan er það þetta að hjóla ekki á móti einstefnu. Þetta er ómögulegt þurfi viðkomandi að fara fram hjá Hlemmi frá vestri til austurs. Þar þurftu þáttakendur ætíð að brjóta reglur leiksins.

Og nú þegar verkefnið er yfirstaðið er niðurstaðan sú að það borgar sig enganvegin fyrir hjólreiðamenn að fara eftir þessum reglum, nema við miklar umferðagötur. Og það að fara ekki eftir reglunum styttir hjólreiða tímann um 1 mín á hvern farinn km.

En þó er beygur í mönnum yfir því að með þessu sé verið að ala upp það að reglur meigi brjóta. Og í gærmorgun þegar vitnaðist að bíll fór yfir á rauðu ljósi þar sem engin önnur bílaumferð var á svæðinu gat hjólreiðamaðurinn ekki annað en hugsað; "Ætli ökumaðurinn sé hjólreiðamaður?"

25. maí 2007

Krapi og éljagangur er á Holtavörðuheiði.


Ekki alveg það sem óskað var eftir. Ætlaði mér norður í dag, en er komin á sumardekkin. Veðrið ekki beinlínis upp á það besta.

Vonandi batnar þetta þegar líður á daginn.

Nú fylgist maður grannt með þessari síðu.

23. maí 2007

Eplatréð mitt og Eyrúnar

Fyrir næstum 3 vikum síðan settum við Eyrún niður 6 eplasteina, 1 í hvern pott. Rúmri viku seinna var ekkert farið að gerast og ég læt Eyrúnu vita að tími sé kominn til að gefa þessa steina upp á bátinn. Eyrún er ekki sammála því og vill að við bíðum lengur, allavega fram yfir næstu helgi þar á eftir. Og viti menn á sunnudeginum sést í eitthvað lítið grænt í einum pottinum.




Svona var það 16.5.2007











Og tveimur dögum seinna, 18.5.2007








Og svo í dag.








Það er svo ótrúlegt að sjá hvað það vex hratt. Sé fyrir mér að bráðum verðum við komin með stórt og fallegt eplatré.

16. maí 2007

Auðkennislyklar




Jæja, þeir eru strax farnir að klikka. Mikið er ég núna sammála henni Svanhildi Hólm þar sem hún kvartar undan umræddum lykli. Ég hef sem betur fer ekki enn fengið mitt eintak fyrir minn persónulega banka, en nota þetta í vinnunni - bjakk, bjakk. Finnst þetta bara svo vitlaust.

14. maí 2007

Enn meira leikjanet.


Kann einhver að leysa þessa þraut? Ég var að verða vitlaus í gær við að reyna. Það sem á að gera er að tengja öll húsin við rafmagn, hita og vatn og meiga línurnar ekki skarast.

11. maí 2007

Kosningar

Fyrir þá sem ekki eru búnir að ákveða sig hvað þeir ætla að kjósa þá er þessi síða hjálpleg. Þarna svararðu nokkrum spurningum og færð svo upp prósentulega séð hvaða flokkur hentar þér best.

Vonbrigði

Á vef Orkuveitunnar er reiknivél sem reiknar út sparnað við að hjóla í stað þess að aka bíl. Þetta er sett upp í tengslum við Hjólað í vinnuna átakið sem er í gangi núna.

Að sjálfsögðu setti ég inn mína vegalengd og bíltegundina sem ég skil eftir heima. Og varð fyrir miklum vonbrigðum. Hélt ég væri að spara svo óskaplega mikið og eyða svo hrikalega miklum kaloríum. En í raun eru þetta ekki nema 130 kr (í bensínkostnað, ekki reiknað með öðrum rekstrarkostnaði við að eiga bíl) og 380 caloríur á dag.

Ég hélt þetta væri svo miklu, miklu meira í alla staði. Ég spara meiri pening á því að sleppa því að taka strætó!

Ég reiknaði út sumarið mitt frá byrjun maí til september loka og gerði ráð fyrir sumarorlofinu.
Sparnaður við að hjóla í stað þess að vera á bíl u.þ.b. kr. 10.000,-
Sparnaður við að hjóla í stað þess að taka strætó u.þ.b. kr. 20.000,- (græna- og gulakortið keypt því sumarið er frekar sundurslitið í ár).
Vá hvað það er dýrt að taka strætó.

Svo auðvitað held ég áfram að hjóla af því það er svo gaman og ég er að spara helling í strætókostnað.

8. maí 2007

"Að vera út' að aka"

Ætti frekar að vera út' að ganga.

Gangandi vegfarendur eru almennt í sínum eigin heimi, þekki þetta af eigin reynslu. Hugurinn reikar, það fer lítil hugsun í athöfnina sjálfa -að ganga- og áður en maður veit af er hugurinn kominn á flug.

Bara þessi litla staðreynd ætti að vera nóg rök til að aðskilja göngu- og hjólastíga.

Á sumum stígum er reynt að aðskilja þetta tvennt með málaðri línu, en mjög algengt er að menn misskilji línuna og eru röngu megin (mikið til túristar hefur mér fundist, greinilega finnst þeim rökréttara að hjólandi umferð fái meira pláss).

Annað sem gerist þegar við göngum og erum í okkar eigin heimi, við svingum um gangséttina.

Það ætti ekki að blanda saman gangandi og hjólandi, bíður hættunni heim. Vonandi fáum við hjólastíga flótlega sem eru aðskildir frá gangandi umferð og bílaumferð (eða allavega þannig að bílar komist auðveldlega framhjá hjólandi umferð).

Og að lokum. Setti hraðamet á hjólinu í dag. Fór í 34,7 km/klst!

6. maí 2007

Garðurinn minn



Um síðustu helgi bjó ég mér til lítinn matjurtargarð. Það tók u.þ.b. 3 klst að rista upp grasið, grjót- og rótahreinsa og stinga upp moldina. Afraksturinn er beð sem er 100x300 cm að stærð (og töluverðar harðsperrur). Niður í beðið fóru 11 kartöflur, gulrótar- og blómafræ (til skrauts).


Það kom strax í ljós að ekki er nóg að raða steinum í kringum beðið til að forða því frá átroðningi. Svo í gær kíktum við hjónin í Garðheima og keyptum þetta líka svakalega fína míni-gróðurhús sem við settum yfir beðið eftir að búði var að raka það til, bæta við gulrótar-, radísu- og kálfræjum. Nú bíður maður spenntur eftir að allt fari að spretta.


Síðan keyptum við okkur safnkassa undir garðúrgang og svona hitt og þetta úr eldhúsinu. Hefði aldrei trúað því að þetta gæti verið svona gaman. Nú dundar maður sér við að setja ávaxtaafganga, kartöfluhýði og fleira matarkyns í dollu inni í eldhúsi og rölta svo með það af og til út í safntunnu.

4. maí 2007

Jæja Inga þú verður að svara og allir aðrir sem vilja líka.

1. Miðnafnið þitt:
2. Aldur:
3. Single or Taken:
4. Uppáhalds bíómynd:
5. Uppáhalds lag:
6. Uppáhaldshljómsveit:
7. Dirty or Clean:
8. Tattoo eða göt:
9. Þekkjumst við persónulega?
10. Hver er tilgangurinn með lífinu?
11. Myndiru bakka mig upp í slagsmálum?
12. Myndiru þaga yfir leyndarmáli ef það skipti mig máli?
13. Besta minningin þín um okkur?
14. Myndir þú gefa mér nýra?
15. Segðu eitthvað skrýtið um þig:
16. Myndir þú hugsa um mig ef ég væri veik/ur?
17. Getum við hist og bakað köku?
18. Hefuru heyrt kjaftasögu um mig nýlega?
19. Talaru eða hefuru talað illa um mig?
20. Finnst þér ég góð manneskja?
21. Myndir þú kerya með mér hringinn í kringum landið?
22. Finnst þér ég aðlaðandi?
23. Hverju myndiru vilja breyta í mínu fari?
24. Í hverju sefuru?
25. Kæmiru í heimsókn af tilefnislausu, bara til að chilla?
26. Myndir þú koma á stefnumót ef ég myndi bjóða þér?
27. Ef ég ætti einn dag ólifaðann, hvað myndum við gera?

27. apríl 2007

Er ekki kominn tími á hjólafréttir?


Mætti ekki nema 3 hjólurum á leið minni í vinnuna í morgun og allir í mínu eigin hverfi. Frekar öfugsnúið því venjulega eru flestir niðri í miðbæ. En svona er lífið stundum á hvolfi.


Tókst í gær að leysa úr vanda sem hefur plagaði mig lengi. Þannig er að hnakkurinn á hjólinu mínu seig alltaf niður og stoppaði svo í ákveðinni hæð c.a. 5 cm neðar er æskilegt var. Í þessari lágu stöðu var hann pikkfastur, en í bestu stöðu var hægt að snúa honum í hringi og allt.


Svo í gær þegar ég pantaði tíma fyrir hjólið í uppherslu og almennt tékk (fékk tíma eftir 2 viikur, þetta er bara eins og að panta læknatíma) og sagði frá þessum vanda mínum var strákurinn sem ég talaði við ekki að skilja þetta, en minntist eitthvað á að herða á...


U.þ.b. hálftíma síðar kveiknaði ljós (maður á auðvitað ekki að segja frá þessu en mitt heilabú er bara ekki fljótvirkara en þetta). Þannig að þegar ég kom heim var verkfærakistan tekin fram og fundinn sexkantur í viðeigandi stærð og hnakkurinn festur í bestu stöðu. Tók ekki nema 5 mín. Af hverju í ósköpunum hafði mér ekki dottið þetta í hug? Búin að vera að bölsóta þessu í hverri einustu hjólaferð.


Þá er bara eftir að leysa vandann með bleytuna í hnakknum sjálfum. Það er nefninlega saumur aftan á honum sem hleypir regnvatni bæði inn og út. Hingað til hefur það verið leyst með plastpoka (eftir fyrsta rassbleytudag í vinnunni) en það er bara svo ljótt. Ef einhver veit um einfalt og gott ráð við þessu endilega látið mig vita.

24. apríl 2007

Ný regla í tungumálinu.

Legg til að ný regla verði sett í íslenskufræðin. Hún er sú að nöfn fyrirtækja séu undanskilin beygingum í tali og skrifi manna.

Til eru fyrirtæki eins og Spölur ehf og það er bara ekkert einfalt mál að beygja þetta nafn. Það er eitthvað afkárlegt við beygja fyrirtækjanöfn. Þó nöfnin beygist eðiliega. T.d. Margt smátt ehf. Ég var að tala við þennan eða hinn frá Mörgu smáu... það passar eitthvað svo illa.

Samkvæmt nýju reglunni þá verður þetta svona: "Ég var að tala við þennan eða hinn frá Margt smátt... "

Stundum þegar hlustað er á fréttir (eða aðra sem tala "rétt") áttar maður sig ekki strax á því hvaða fyrirtæki verið er að tala um þegar búið er að snúa nafninu eftir kúnstarinnarreglum tungunnar og afbjaga þannig nöfn þeirra.

Og hana nú. Að lokum legg ég til að ibbsilonið verðu tekið úr málinu líka til að létta mér lífið.

Kv. Bjarnei

21. apríl 2007

Ahhhh...

Nú get ég andað léttar og þið hin líka. Þau undur og stórmerki gerðust að í dag keypti ég mér tvennar buxur hvorki meira né minna. Það er hin ótrúlega frábæra búð ZikZak sem á heiðurinn að því að hafa buxur í minni stærð og lengd og ekki nóg með það heldur er umrædd búð í göngufæri frá heimili mínu.

Það er ótrúlegt hvað framkvæmt er í dag.


Þetta er skemmtigarður rétt við Berlín í Þýskalandi. Þeir lofa að aldrei rigni og þar sem þetta er innandyra geta þeir líklega staðið við loforði. Hægt er að kaupa gistingu á staðum bæði í tjaldi (rúm í tjaldinu) og á hóteli. Er nokkuð annað en að skellasér. Þetta er heimasíðan þeirra.

19. apríl 2007

Gleðilegt sumar!


Í dag er fæðingardagur Gundýjar ömmu. Þá er vel við hæfi að lyfta glasi (helst fyllt með sherry eða port víni) og segja (og nú vona ég að ég fari rétt með):


Skál fyrir okkar áagrund og lukkunnar leiði.

Lifi Íslands litfríð sprund.

Húrra!

17. apríl 2007

Buxnafréttir og hjálparbeiðni

Ekki gengur vel að finna nýjar buxur í stað þeirra sem gáfu upp andann rétt fyrir helgi. Dró eldra afkvæmið með mér í Kringluna um helgina og þá var mátað og mátað. Í nokkrum búðum eru ekki seldar buxur í minni stærð (ég sem hélt ég væri svo grönn). Í einni búð fundust buxur sem pössuðu um mittið en þær voru allt of stuttar!!! Ótrúlegt!.

Rölti Laugaveginn í hádeginu og kíkti í búðina þar sem mínar fyrrverandi uppáhaldsbuxur voru keyptar. Þar voru ekki til nema 2 gerðir af buxum en verðið allt í lagi 4.999kr... en því miður passa ekki.

Svo mig vantar hjálp!!! Plís hvar er hægt að kaupa buxur í eðlilegri stærð á þokkalegu verði?

Augnfréttir

Fór til læknis í gær og þá var aftur tekin mynd af augnbotnunum. Og nú sagði læknir að eins og hann hefði haldið síðast (???talaði þá um að ekkert væri hægt að sjá) þá væri augljóst þegar myndirnar eru bornar saman að það er þroti eða bjúgur í augnbotninum. Og að hann er á undanhaldi.

Þetta er allt saman sem sagt á réttir leið og allar líkur til að ég verði næstum jafn góð og fyrir. Málið er samt að þetta skilur eftir sig ör og getur því eitthvað dregið úr sjóninni varanlega. Það er ekki þekkt afhverju þetta gerist eða hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Svo er nú það.

13. apríl 2007

NNNNEEEEeeiiiiii...


Var að taka eftir því að það er komið gat á bestu og svo til einu buxurnar mínar.


Ónei það táknar aðeins eitt, að ég verð að fara í búð og finna mér nýjar buxur.


Arghh!


Veit fátt leiðinlegra eða erfiðara verkefni. Einu sinni var það þannig að ég átti í mesta basli með að finna buxur sem væru nógu síðar en mátulegar í mittið (þ.e. ekki of víðar). Nú hefur þetta snúist við. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að finna nógu síðar buxur lengur, en þær vilja vera helst til of þröngar í mittið.

12. apríl 2007

Sjónin

Hvað er meira hversdagslegt og sjálfsagt en að sjá og nota augun?
Það er ekki fyrr en sjónin klikkar að maður áttar sig á því hversu miklu máli hún skiptir. En það skrítna er að þegar allt verður eðlilegt aftur þá gleymist fljótt hvernig það var að sjá ekki vel og aftur verður hversdaglegt að sjá vel. Af öllu fólki ætti ég kannski að vera meðvituð um þetta þar sem ég hef ekki nema þetta eina auga að hlaupa uppá (vegna fæðingagalla). En það er nú bara ekki þannig.

Ég er núna í þriðja skiptið að upplifa töluvert tap á sjón, sem ætti að ganga til baka eins og í hin 2 skiptin (og ég tel mig sjá betur í dag en í gær).

Þetta gerðist fyrst árið 1998. Þá var ég í nýju starfi og þurfti að taka mér viku veikindafrí. Fyrstu einkennin eru lítill blettur fyrir því sem ég horfi á. T.d. við lestur þá sé ég ekki stafinn sem ég horfi beint á en bara stafina sitthvoru megin. Síðan verð ég viðkvæm fyrir ljósi og bletturinn stækkar og verður að flekki (tilfinning svipuð því og þunn slæða sé fyrir andlitinu) Ég fór að sjálfsögðu til augnlæknis og hann taldi sig sjá bólgu í augnbotninum rétt við sjóntaugina. Hann ráðlagði algjöra hvíld og enga áreynslu á augað. Ferðir til augnlæknisins urðu svo til daglegur viðburður. Sjónin versnaði í 2-3 daga en fór þá að skána aftur.

Næst kom þetta fyrir árið 2002 eða 2003 (árið sem Anna vinkona gifti sig). Það byrjaði eins en varði nokkrum dögum lengur í þetta skiptið og sjónin varð verri. Þá fór ég til annars augnlæknis líka og hann sendi mig í æðamyndatöku á auganu. Það er gert þannig að litarefni er sprautað í æð og myndir teknar um leið og það flæðir í augað. Læknirinn taldi sig sjá leyfar eða ör eftir bólgur en ekkert meira en það. Aftur lagaðist sjónin og varð eins góð og hún hafði verið fyrir.

Svo fyrir rétt rúmri viku síðan hófst ferlið aftur. Miðvikudaginn fyrir páska áttaði ég mig á því að ég var farin að horfa fram og til baka til að sjá það sem ég var að skrifa og ákvað þá að ekki væri ráðlegt að vera í vinnunni og fór heim. Páskarnir fóru að mestu leiti í hvíld (eftir tónleikana auðvitað á skírdag og föstudaginn langa). En sjónin var alltaf jafn slæm. Á þriðjudaginn fór ég til augnlæknis og hann taldi sig aftur sjá bólgu/þrota í augnbotninum, en nú væri komið nýtt tæki sem tekur n.k. sneiðmyndir af auganu og með því væri hægt að sjá augnbotninn betur en áður. Tími var bókaður og ég fór á augndeild Landspítalans þar sem umræddar myndir voru teknar. En á þeim sést ekki neitt.
Hvað þá? Ekkert bara að bíða. Þetta hlýtur að lagast núna eins og það gerði síðast. Það á að taka myndir aftur n.k. mánudag og bera saman við hinar fyrri (sama hvort mér verður batnað eða ekki).

Ég er mætt í vinnuna því eins og ég sagði áðan þá finnst mér ég vera betri en áður og læknarnir telja að það skaði ekki sjónina að nota augað. En ég á enn erfitt með að sjá andlit í meira en 5 metra fjarlægð og að lesa smáan texta. Þó hef ég fulla trú á því að allt verð gott aftur sem fyrr. Ég bara tek því rólega og loka augunum af of til og hvíli mig.

27. mars 2007

Tónleikar sem enginn má missa af.




Kór Áskirkju flytur Jóhannesarpassíu J.S.Bach, BWv 245, í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Flytjendur eru Kór Áskirkju ásamt kammersveit
– konsertmeistari Hjörleifur Valsson.
einsöngvarar Ágúst Ólafsson barítón, Bergþór Pálsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir, messósópran.
Stjórnandi er Kári Þormar

Tónleikarnir hefjast kl: 17. báða dagana.

Miðaverð kr. 3.000.
Forsala er hjá 12 Tónum og kirkjuverði í Áskirkju.

Kór Áskirkju hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2001 þegar Kári Þormar tók við starfi organista og kórstjóra í Áskirkju.
Kórinn hefur haldið fjölda tónleika, aðalega í Áskirkju en einnig komið fram á sumartónleikum í Mývatnssveit og í Akureyrarkirkju. Síðastliðinn vetur hélt Kór Áskirkju ásamt Hljómeyki, tónleika á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju þar sem kórarnir frumfluttu hér á landi messu í G – dúr eftir Francis Poulenc og hlutu mikið lof gagnrýnanda fyrir flutningin en verkið þykir meðal kröfuhörðustu kórverka.
Árið 2004 hljóðritaði kórinn diskinn Það er óskaland íslenskt, en sá diskur hlaut einróma lof gagnrýnenda og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004.
Kór Áskirkju hefur mest fengist við a-capella tónlist en einnig kórverk fyrir hljómsveit og kór, svo sem: Messu eftir Mozart í B- dúr KV 275 – Gloriu Vivaldi og Jólaóratoríu eftir Saint Saens.

Nú ætlar kórinn, í rökréttu og metnaðarfullu framhaldi af því sem undan er gengið, að flytja eitt af stórvirkjum kirkjutónbókmenntanna, Jóhannesarpassíu J.S. Bach í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Kór Áskirkju fær til liðs við sig 18 manna kammersveit undir forystu Hjörleifs Valssonar, og einsöngvarana Ágúst Ólafson, Bergþór Pálsson, Eyjólf Eyjólfsson, Gunnar Guðbjörnsson, Jóhönnu Ósk Valsdóttur og Hallveigu Rúnarsdóttur.

23. mars 2007

Meira leikjanet.is


Rakst á enn einn frábærann leikinn á Leikjanet.is. Hann heitir Planarity.
Það sem á að gera hér er að raða bláu-punktunum þannig upp að línurnar á milli þeirra skerast ekki. Þetta hefst svona einfalt eins og á meðfygljandi mynd, en verður fljótlega töluvert snúnara.
Minnir helst á þegar leyst er úr garnaflækju. Virkar á stundum ómögulegt en er svo ótrúlega gaman þegar vel tekst til.
Áhugasömum bent á að smella á nafn leiksins hér að ofan og prófa sjálfir.

21. mars 2007

Ó MÆ GOD

Skattskýrslan maður, ég steingleymdi henni.

Úbbs, best að kíkja á þetta í dag eftir vinnu.

Ætlaði svo mikið að klára hana um helgina.

Sætuefnið Aspartam


Það er nú svo að mín tilfinning er að sætuefni séu ekki eins frábær og menn hafa haldið. Og þegar maður hefur svona tilfinningu þá er ánægjulegt að fá staðfestingu á því frá fræðingum.

Rakst á grein í gær um skaðsemi sætuefnisins Aspartam. Greinin er skrifuð af manni sem hefur menntatitilinn Osteópati, B.Sc. (hons), hvað sem það nú táknar. Og þið getið nálgast hana hér.

Það dregur örlítið úr ánægjunni hversu mikil áhersla er lögð á samsæriskenningu og finnst mér það jafnvel draga úr trúverðugleika þess sem verið er að fjalla um. Það er eitthvað við samsæriskenningar, bæði geta þær verið mjög spennandi en líka eitthvað svo klikk.

Á vísindavef Háskóla Íslands er eftirfarandi spurningu svarað: "Hvaða skaðleg áhrif hefur sætuefnið aspartam á líkamann?" Í svarinu kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á skaðsemi efnisins. Menn hafi verið látnir drekka 12-30 gosflöskur með efninu í, en ekki hafi komið annað fram en höfuðverkur hjá sumum. En samt er tekið fram að ekki sé vitað um langtímaáhrif neyslu á efninu. Sá sem svarar er prófessor í læknisfræði við HÍ.

Eftir lestur greinarinnar hef ég farið að lesa utan á umbúðir eins og t.d. á tyggjóinu sem ég japla og oftar en ekki er þetta Aspartam í þessum vörum. Hmmm, á maður eitthvað að fara að spekúlegar í þessu nánar???

Enn einn texta fann ég sem segir svo til það saman og prófessorinn, bara ekki eins formlega sett fram (smellið hér til að sjá). Þar hafa menn svo sett inn komment og er eitt þeira bara svo fyndið að ég smelli því hér í lokin hjá mér (samsæriskenning í sínu ýktasta formi)

"Getu þú bent mér á "allar þessar rannsóknir" eða ertu að endurtaka eitthvað sem að þú "last á internetinu". Vissuð þið líka að Rumsfeld kom því gegn að allt drykkjarvatn er flúortbætt til þess losa sig við byrgðir af flúor sem hann vissi ekki hvað hann átti að gera við, einnig er það við flúor að hann brýtur niður sjálfsvilja okkar og lætur okkur vera undirgefin núverandi BNA stjórn, það var einnig lítil kjarnorkusprengja sem að grandaði tvíburaturnunum og frímurararnir vissu af þessu og settu leynileg skilaboð á dollarann þar sem (ef að þú brýtur hann rétt samann) þú sérð turnana falla."

20. mars 2007

Kynleg vandræði

Þar sem ég er nú alin upp af henni mömmu minni þá blundar í mér kvenréttindaeitthvað og á ég það til að móðgast ógurlega til handa mínu kyni þegar á það er hallað.

En um daginn heyrði ég viðtal við háskólamann í útvarpinu og sem talaði um að í máli og ræðu væri það í raun karlkynið sem á væri hallað. Þannig er að kvenkyn í tungumálinu er nýjasta kynið. Áður var til samkyn (allt lifandi) og hvorukyn (dauðir hlutir).

Í tungumálinu í dag eru ýmis orð sem eingöngu eiga við kvenkyn, en karlmenn sitja eftir í samkyninu og eiga ekki sín eigin orð sem eingöngu vísa til þeirra sem karlkyns. Tekin voru dæmi um orð eins og "sá", "hann", "þeir", "allir".

Dæmi: "Sá hlær best sem síðast hlær" hér getur hvort sem er verið að tala um karlmenn sem kvenmenn og "Þeir sem hlustuðu... " er dæmi um það saman.

Og nú er svo komið að frásagnir geta orðið til vandræða því ekki vill maður alltaf vera að skrifa hann/hún, þeir/þær þ.e.a.s. báðr kynmyndirnar því það er bara kjánalegt. Eru karlmenn ekki sármóðgaðir yfir þessu?

Áhugasömum er bent á Víðsjá á Rás1 mánudaginn 12. mars sl.

15. mars 2007

Pöntun á vöru í síma.

Fyrirtæki: Fyrirtækið góðan dag.
Ég: Góðan dag. Bjarney heiti ég hringi frá Fyrirtækinu-sem-ég-vinn-hjá, ég ætla að panta hjá ykkur.
Fyrirtæki: Já, sæl. ...


Og nú spyr ég, hvað meinar viðkomandi þegar hann segir "sæl"? Man hann eftir mér frá því ég pantaði síðast og finnst gaman að heyra í mér aftur?
Þetta virðist vera það nýjasta í símsvörun og móttöku pantana núna.

Persónulega nota ég þetta orð ekki nema ég þekki viðkomandi eða er farin að kannast ágætlega við hann. Mér finnst pínu skrítið að nota þetta við hvern sem er.
Fyrst hélt ég að mín fötlun við að muna eftir fólki væri sökudólgurinn og remdist við að átta mig á hvern ég væri að tala við, en er nú komin á það að þetta sé almennt notað hvort sem viðkomandi man eftir mér eða ekki.

6. mars 2007

Óhreinn þvottur - hreinn þvottur.

Undur og stórmerki gerðust í gær þegar við keyptum okkur þurrkara.

Við eiginlega neyddumst til þess því það hefur ekki verið hægt að hengja upp þvott í þurrkherberginu í 2 vikur vegna klóakfnyks og báðar þvottakörfurnar okkar orðnar yfirfullar. Ekki það að við höfum eitthvað á móti þurrkurum sem slíkum, það hefur bara ekki verið þörf á honum fyrr. En þvílíkt undra tæki. Settum auðvitað prufukeyrslu í gang í gærkvöldi og handklæðin komu svona ljómandi mjúk og mátulega þurr út úr apparatinu eftir rúman klukkutíma.

Og nú verður þvegið maður minn. Þessi elska tekur 7 kg sem ætti að vera u.þ.b. 1 og 1/2 þvottavél. Þannig að 3 vélar á dag þar til allt er orðið hreynt hljómar vel í mín eyru.
Já nú er gaman að þvo.

5. mars 2007

127% hækkun

Aumingja bankinn minn er svo fátækur og illa staddur að hann þarf að hækka Tilkynninga- og greiðslugjald á láninu mínu um 127%! Á greiðsluseðlinum með gjalddaga 1.2.2007 var þetta gjald kr. 225 og er nú á seðlinum 1.3.2007 kr. 510.

Hagnaðurinn á síðast ári var auðvitað ekki nema 85,3 milljarðarkróna (eftir skatt) svo það er skiljanlegt að þetta er nauðsynleg gjaldtaka.

Ég spurðist fyrir í dag hvers vegna þetta væri. Svarið var að þjónustustigið hefði hækkað og þetta væri til að koma til móts við kostnað!!! Þjónustustig hvað???? Algjörlega óskiljanlegt að mínu mati. Mér var einnig sagt að það væri ekki nokkur leið að minnka eða komast hjá þessari gjaldtöku með því t.d. að hætta að fá seðilinn sendann heim og hafa hann bara í heimabankanum eða með einhverjum öðrum ráðum.

Ef það væri ekki svona dýrt að skipta um banka þá mundi ég gera það á stundinni. Svo skilur ríkisstjórnin ekkert í því af hverju menn skipta ekki oftar um banka hér á landi. GÆTI ÞAÐ KANNSKI HAFT EITTHVAÐ AÐ GERA MEÐ STIMPILGJÖLD OG ÞESS HÁTTAR LÁNTÖKUKOSTNAÐ? Ég bara spyr...

Rússnensk auglýsingatækni



Á skiltinu stendur að hann hafi orðið svona brúnn á því að fara á ákveðna sólbaðsstofu og menn kvattir til að prófa sjálfir.

28. febrúar 2007

Leikjanet.is

Þessi síða er auðvita bara frábær. Hef fundið þar fullt af skemmtilegum leikjum sem stytta mér stundir meðan beðið er í síma (þú ert númer 25 í röðinni...) eða bara ef manni leiðist og vill ekki gera neitt sem "þarf" að gera.

Hér eru nokkrir sem ég hef gaman að:

Grow cube er leikur þar sem rökhugsun fær að njóta sín. Leikurinn felst í því að setja rétta hluti út á kubbinn á réttum tíma. Ef allt er gert í réttri röð þá vex og blómstrar líf á kubbnum.

Mahjongg. Þessi er klassíkur. Ég er að berjast við hann um þessar mundir. Fyrst byrjaði ég á Red Dragon, full af sjálfstrausti, því ég er ógeðslega klár. En varð að játa mig ekki eins klára og ég hélt og er að berjast við Cloud-Normal eftir að hafa lokið hinum tveimur stigum á undan.

Connect2 er nokkuð skemmtilegur. Þarna er unnið í kapp við tímann og þarf að finna allar samstæður áður en tíminn rennur út (bara til að fá upp nýtt borð með því sama, er samt gaman að honum).

Jamm þetta eru sem sagt þeir leikir sem ég mæli með í augnablikinu.

Væri gaman að fá ábendingar um skemmtilega leiki.

20. febrúar 2007

Á batavegi

Jæja nú er ég öll að skríða saman. Auðvitað er kvefið enn að plaga mig, en þá er það nefspreyið sem bjargar lífinu (og skapinu).

Hérna eru nokkrar, ja, skondnar myndir. Við vonum að sjálf sögðu að enginn hafi slasast þarna.

16. febrúar 2007

Veikindi

Er á 3. ja degi í veikindum núna. Með kvefpest. Er lítið búin að gera annað en liggja uppi í sófa, snýta mér og glápa á sjónvarpið. Verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið notarlegt að gera ekkert annað og hafa góða afsökun fyrir því.

Stundum hef ég tekið mér einn og einn frídag sem á að vera bara fyrir mig í afslöppun, en einhvernvegin fara þeir í annaðhvort í samviskubit yfir því að vera ekki að setja í þvottavél eða taka til eða eitthvað annað sem nauðsynlega þarf að gera eða það er einmitt það sem þessir frídagar fara í.

Nú er ég veik og hef ekki orku í þvottavél eða þrif og ligg þess vegna bara undir sæng og slappa af.

En nú er komið nóg af svo góðu samt sem áður og kominn tími til að hrista þessa pest af sér, enda komin helgi. Það er ekkert vit í því að vera veikur um helgi.

8. febrúar 2007

Breiðasta brosið


Í gær horfði ég á sjónvarpsþátt sem ég hef gaman að. Hann kallast Heroes og er að mörgu leiti frábær.
EN það er eitt atriði sem pirrar mig við hann og marga þætti og bíómyndir í dag og þið hljótið að hafa tekið eftir þessu.
Það eru allir með svo allt of hvítar tennur.
Nú er ég ekki að segj að gular tennur séu fallegar, en þegar tennur eru orðnar óeðlilega hvítar og allir eru með þessar skjannahvítu tennur þá er eitthvað ekki í lagi.
Man eftir að hafa séð ódýrann sjónvarpsþátt (eða sjónvarpsmynd) sem átti að gerast átjánhundruð og eitthvað. Faðirinn í myndinn var pípureykingamaður og bæði húð og rödd hans gáfu til kynna reykingar svo til alla æfi. En þegar hann brosti voru tennurnar skjanna hvítar. Þetta var í svo hrópandi ósamræmi við persónuna að ég gat ekki annað en látið það pirra mig.
Mér finnst menn (og þá er ég að tala bæði um karla og konur) vera komnir yfir strikið með að hvíta tennur sínar.

7. febrúar 2007

Stimpilgjöld

Átti ekki að fella þessi gjöld niður?

Vitið þið eitthvað um málið. Ég reyndi að finna eitthvað á vefnum en fann ósköp fátt merkilegt. Það sem ég fann var t.d. framboðsræður og blogg stjórnmálamanna og svo umræðu á Alþingi frá 1984. Sem greinilega leiddi ekkert af sér.
Var ekki svo mikil umræða um þetta á síðasta ári, eða er ég að rugla?

Endilega uppfræðið mig.

6. febrúar 2007

Auðkennislykill


Þetta apparat er ekki til góðs fyrir almenning.

Menn týna, glata og skemma.
Er sem betur fer ekki farin að nota þetta heima fyrir, bara í vinnunni. En bankinn minn er stöðugt með hótanir um að nú sé byrjað að loka á almenning og að verið sé að senda þessa lykla út til viðskiptavina og bla bla bla...

1. febrúar 2007

Uppgötvun

Var að fatta að ekki þarf lengur að vera með óskaplegt vesen til að kommenta hjá öðrum. Nóg að nota "Google/Blogger, Sign with your Google Account".

Þvílíkur léttir!

31. janúar 2007

Margt er skrítið í heiminum.

Töluvert hefur verið skrifað um önd nokkra í blöðunum undanfarið.

Þessi önd var skotin af veiðimanni og sett í ískap. Síðan þegar átti að elda hana kom í ljós að hún var enn á lífi og þá er rokið upp til handa og fóta til að lífga hana við aftur. Lífgunartilraunir heppnuðust vel og nú er hún komin í einhverskonar friðland því hún er ófleyg og getur því ekki bjargað sér af sjálfsdáðum.

Er ekki í lagi með fólk?

23. janúar 2007

Áslákur í álögum.

Það er óskaplega gott að lesa svolítið þegar komið er upp í rúm á kvöldin, svona rétt á meðan sængin er að hitna.
Stundum vantar eitthvað að lesa og þá er farið í bókahilluna og reynt að finna eitthvað lesefni.

Þetta átti sér einmitt stað í síðustu viku. Þá er alltaf spurningin hvaða bók á að velja. Bækurnar í bókaskápnum eru mest barna- og unglingabækur, margar mjög góðar en flestar búið að lesa oftar en tvisvar eða þrisvar eins og t.d. Ronja ræningjadóttir og Bróðir minn Ljónshjarta.

En nú fannst bók sem ekki hafði verið lesin áður. Hún ber titilinn "Áslákur í álögum" eftir Dóra Jónsson. Bókin er gefin út 1952 og er saga af hortugum og frekum borgarsták sem fer í sveitina til afa og ömmu og verður þar að manni. Sveitarómantíkin er allsráðandi og lesandinn kemst að því að allir hafa gott af því að fara í sveitina og læra þar á lífið. En allra skemmtilegast er þó texti aftan á bókinni, þar stendur:

"Þetta er óvenju góð unglingasaga! Jafnaldrar Láka og Línu munu lesa hana í spretti og hrópa einum rómi: "Mættum við fá meira að heyra!""

22. janúar 2007

22. janúar 2007

Varð fyrir mjög svo taugatrekkjandi upplifun fyrir helgi. Ég fór með dóttur minni í 10-11 í Glæsibæ því það vantaði eitthvað í nesti daginn eftir. Við vorum báðar léttar í skapi og flissuðum svolítið eins og ungpíum sæmir.

Þegar við gengum út var þar maður hálfur ofan í ruslatunnu, greinilega að skipta um ruslapoka. Um leið og við göngum framhjá stendur hann upp og segir eitthvað við okkur. Við stoppum til að heyra hvað maðurinn segir því hann var greinielga að tala við okkur.
Þá stendur hann þarna, starir á okkur mjög svo illilegur á svip og hreytir í okkur ókvæðisorðum á ensku svo ljótum að ég vil ekki endurtaka þau. Okkur bregður og við svona hálfvegis frjósum og erum að ekki alveg að skilja hvað gengur hér á (höfum án efa verið ansi bjánalegar í framan). En maðurinn heldur áfram og einblína á okkur og fara með bölbænir.

Á endanum þríf ég í dóttur mína og við strunsum út, inn í bíl og af stað. Þá sjáum við að maðurinn kemur út á eftir okkur og skimar um stæðið eins og hann sé að leita að okkur eða eitthvað.

Við vorum í léttu sjokki eftir þetta. Ekki alveg að skilja hvað eiginlega geriðst eða hvað manninum gekk til. Gæti verið að hann hafi haldið okkur vera að hlæja að sér og brugðist svona illilega við?

Af einhverjum ástæðum minnti þetta mig á bókina Thinner sem ég las fyrir töluvert mörgum árum og er eftir Stephen King. Og ónotatilfinningin vildi bara ekki hverfa.

18. janúar 2007

Vetur - sumar.

Mikið andskoti er kalt úti.

Ég verð samt að vera sammála útvarpsþulinum frá í morgun að það er fínt að hafa vetur þegar það er vetur og sumar á sumrin.

Þetta er víst svolítið innbyggt í okkur Íslendingana (veit ekki með alla hina) að trúa því að ef veturinn er kaldur og snjóþungur þá verði sumarið hlýtt og gott í staðinn. Þess vegna situr maður nú og er glaður í hjarta sínu með kuldann því hann lofar því að sumarið verði gott í staðin.

11. janúar 2007

Fljótari en strætó!!!

Það er ekki oft sem það er fljótlegra að ganga heim en að taka strætó, sérstaklega þegar vegalengdin sem um ræðir er u.þ.b. 5 km. En það átti við í dag.

Á venjulegum degi er ég komin heim kl. 16.30. Í dag þegar kl. var 16.50 sat ég enn í strætó ekki komin lengra en 1 km nær heimili mínu en áður en sest var upp í strætó. Því tók ég þá ákvörðun að ég nennti þessu ekki lengur, fór út úr vagninum og lagði af stað á tveimur jafnfljótum.

Ég bjóst svo sem ekki við því að vera komin fyrr heim með þessu móti, en allavega var ég að gera eitthvað sem ekki er ógurlega niðurdrepandi og leiðinlegt (eins og að sitja í strætó).

En þegar ég kom heim var strætó enn ekki farinn framhjá mér. Og því var ég fljótari en strætó!

Ástæðan fyrir þessu öllu var auðvitað snjórinn sem kyngt hafði niður mestan part dagsins og olli töfum á allri umferð, plús það að einhver snillingur hafði lagt bílnum sínum út á götu í þröngum miðbænum svo strætó komst ekki framhjá og varð að bíða þar til eigandinn loksins kom (eftir næstum 10 mín)

10. janúar 2007

Ýmislegt að gerast


Förum í dag aftur að skoða íbúðina sem hefur komið í veg fyrir svefn. Síðan seinna í dag koma til okkar íbúðasölumenn til að meta íbúðina okkar. Eftir það förum við í bankann okkar til að vita hvað þeir telja okkur hæf til að fá lánað og þá getum við í alvörunni skipulagt framhaldið.

Við fórum í gær og skoðuðum 59 milljónkr. húsið, bara svona í gamni. Það er mjög flott, en Elías var ekki nógu hrifinn. Helsti gallinn sem ég sé við það er að umferðahávaðinn er mikill þegar verið er úti í garði og það getur hugsanlega truflað innhverfa íhugun við garðstörf (það verður að taka allt með í reikninginn). Maður tekur ekkert eftir umferðinni innandyra. En hugmyndir voru uppi um að leigutekjur af kjallaraíbúð sem fylgir gætu dregið greiðslugetu upp um nokkra tugi milljóna.

Þetta er spennandi maður.

9. janúar 2007

Góður nætursvefn

Nú er það bara svo að þessi íbúð sem við skoðuðum hefur ekki vikið úr huga mér. Hún heldur fyrir mér vöku á kvöldin og vekur mig eldsnemma á morgnana. Eina leiðin til að ná henni út úr systeminu tel ég vera að skoða hana aftur (til að úrskurða endanlega hvort hún er svefnleysisins virði eða ekki). Það er svo margt sem heillar og er spennandi við hana en líka margt sem dregur hana niður.

Best að skoða aftur og þá vonandi, vonandi get ég fengið góðan nætursvefn aftur.

5. janúar 2007

Íbúðavandræði

Það koma tímabil þar sem ég er alveg að gefast upp á þrengslunum í íbúðinni minni. Og þá fer maður að skoða fasteignaauglýsingar.

Svoleiðis tímabil hefur verið núna og í gær fórum við og skoðuðum eina íbúð sem lofaði ansi góðu. Er skráð næstum því 40 m2 stærri en okkar plús það að hún er ekki í kjallara og er með bílskúr. Auðvitað er verðið ekki neitt allt of spennandi (32 milljónir), en kannski væri hægt að toga það eitthvað niður. Þetta er það sem við höfðum í huga. Töldum jafnvel, í einfeldni okkar að þarna væri eignin fundin.

Svo skoðum við hana. Andrúmsloftið í henni er mjög gott. Þetta er timburhús og það marrar í gólfinu (mjög heimilislegt). En hún er of lítil, tilfinningin er að hún sé svipuð að stærð og sú sem við erum í. Eldhús og bað pínu, pínu lítið svefnherbergi og stofa í ágætri stærð en virkar samt voða svipað og það sem við höfum. Vonbrigðin voru gífurleg.

En síðan þá hef ég fundið draumahúsið. Einbýlishús með aukaíbúð í kjallara. Kostar ekki nema 59 milljónir!!! Er ekki einhver þarna úti tilbúinn til að fjármagna kaupin á því húsi handa mér?

4. janúar 2007

4. janúar 2007


Mamma mín á afmæli á morgun og ætlar að kaupa pizzur handa börnum sínum og barnabörnum. Þá verður farið í pakkaleik sem beðið hefur verið eftir á mínu heimili síðan á síðasta ári. En leikurinn felst í því að allir koma með pakka sem búið er að pakka inn eins spennandi og hægt er. Innhald pakkans má ekki kosta mikið enda er það lúkkið á pakkanum sem gildir hér. Síðan eru allir pakkarnir settir á mitt borð og þáttakendur skiptast á að kasta tening. Þegar einhver fær sexu má sá hinn sami velja sér pakka.

Í upphafi er ákveðið hversu lengi leikurinn á að standa yfir og eru 10 - 15 mín ágætis tímatakmörk. Þegar allir pakkar á miðju borði hafa verið valdir er komið að því að stela pökkum frá öðrum þáttakendum. Þegar svo tímatakmörk eru liðin má opna þá pakka sem maður hefur sankað að sér.


Nokkuð skemmtilegur leikur get ég sagt ykkur. Og ekki er síður skemmtilegt að pakka inn gjöfunum.

29. desember 2006

29. desember (nei ekkert dagatal, vantar bara titil)

Hafið þið prófað að tala eins og maður skrifar? Hvet ykkur til að prófa, það krefst einbeitingar að segja alla stafina og kemur auðvitað fáránlega út.

Mér áskotnaðist jóladiskur KK og Ellenar, Jólin eru að koma.
Þau syngja jólalögin á rólegan og einfaldan máta við gítarundirleik. Fyrst fannst mér þetta svolítið kjánalegt, ég gæti svo vel gert þetta sjálf. En nú finnst mér hann bara vera ljúfur og góður. Þarna fá jólalög eins og Bjart er yfir Betlehem, Hin fyrstu jól og Yfir fannhvíta jörð endurnýjun lífdaga. Menn eru almennt orðnir leiðir á sleðabjöllu-rokk-jólalögum hefur mér fundist og þessi diskur mjög gott andsvar við því öllu saman.
Mæli eindregið með diskinum við alla þá sem vilja hlusta á gömlu góðu jólalögin.

Fljúgandi furðuhlutir - eða ský?

Ef þið viljið sjá fleiri sambærilegar myndir smellið hér



27. desember 2006

24. desember

Staðsetning þar sem nýr miði var með annari staðsetningu þar til á endanum þær fundu pakka.

En það sem er skemmtilegra að segja frá er að þegar ég fór á fætur (vakna alltaf fyrst í fjölskyldunni) þá var búið að hengja upp miða í band fyrir framan svefnherbergishurðina okkar. Öðru megin á honum stóð "mamma og pabbi" svo það var augljóst fyrir hvern hann var. Hinumegin var vísbendingin:

Hér er ró og hér er friður.
Hér er gott að setjast niður.
Hugsa sína þyngstu þanka
þar til einhver fer að banka.
Þá er mál og mannasiður
að stana upp og sturta niður.

Og þá tók við löng, löng bið hjá mér eftir hæfilegum tíma til að draga Elías á lappir og elta vísbeninguna. Svo loksins, loksins kom hann á fætur og þá var farið inn á klósett. Þar inni var annar miði sem á stóð öðrumegin "lyklaborð" en hinumegin voru stafir hér og þar á stangli sem ekkert var hægt að lesa úr.

Undir lyklaborðinu var annar miði allur í götum. Þegar sá miði var lagður yfir stafaruglið á fyrri miðanum mátti lesa orðið: plastglös.

Og þá loksins komum við að pakka.

Þetta var frábært framtak af stelpunum mínum sem þurftu að leggja það á sig að vakna kl. 5 til að setja þetta upp til að vera öruggar á því að hvorki ég væri vöknuð né Elías enn á fótum.

23. desember 2006

23. desember

Í gátunni eru falin 8 orð sem öll tengjast mat.
Skráðu orðin í rétta röð út frá tölustafnum sem er í reit fyrsta stafs hvers orðs.



22. desember 2006

Upp á stól stendur mín kanna!!!

Það er vísindalega sannað að textinn "upp á stól stendur mín kanna" er réttari en "upp á hól stend ég og kanna".

Í Morgunblaðinu í dag er þetta rakið (og í gær einnig). Þungu fargi er af mér létt. Þessi "upp á hól" texti hefur ekki heillað mig og frekar farið í mínar fínustu.

Í raun er textinn í jólalaginu "Jólasveinar ganga um gólf" samsuða úr tveimur óskildum vísum og þess vegna gengur þetta svona illa upp. En í gamla daga var til eitthvað sem hét könnustóll og þar voru ölkönnur geymdar.

Og hana nú og hopsasa. Vinsamlega hættið að syngja um þennan leiðinda hól.

22. desember

Við lausn krossgátunnar getur verið ágætt að hafa orðabók við hendina.


20. desember 2006

20. desember

Þessi vísa, vina mín
vísbendingu geymir
Bakvið glösin sem eru svo fín
Sitthvað nú sig leynir


(-aulahrollur-, ég átti í svo miklu basli við að berja þessa vísu saman og var komin með algjörlega nóg. Svo ég ákvað að koma henni frá mér, þó ég væri langt því frá sátt við útkomuna)

19. desember 2006

Þetta er helst í fréttum.

Í gær lét mamma skipta um hinn mjaðmaliðinn. Þetta gekk svona glimrandi vel hjá henni og í dag fór hún í fyrsta göngutúrinn á nýja liðnum. Það var svo sem ekki langt, svona u.þ.b. í kringum rúmið. En hún er rosalega dugleg hún mamma mín.

Síðan kemur litli bróðir heim með fjölskylduna á morgun. Þá fæ ég að sjá litlu frænkuna mína hana Abeline Sögu í fyrsta skipti. Hún er víst svona ofboðslega brosmild og skemmtileg, bara eins og við hin öll í þessari fjölskyldu.

Já það er aldeilis nóg að gera þessa dagana.

19. desember

Ependupurvipinnslapa

18. desember 2006

18. desember

Ratleikur:

Brauð

Aftan við sjónvarpið

Undir sófa

Niðri hjá flöskum

Inni í piparkökuhúsi

Rétt hjá jólasveini

Lestu fyrsta staf í hverri vísbendingu.

16. desember 2006

16. desember

Önnur fékk þessar leiðbeiningar:

Snúðu baki í dagatalið
- Vinstri snú
- 2 skref áfram
- 2 hliðarskref til vinstri
- Vinstri snú
- 5 hænufet aftur á bak
- Hægri snú
- 4 skref áfram
- Vinstri snú
- Vinstri snú
- 2 skref áfram
- 1 hænufet áfram
- Vinstri snú
- Opnaðu skápinn!

Hin þessar:

Snúðu baki í dagatalið
- 1 hliðarskref til hægri
- 3 skref áfram
- Vinstri snú
- 4 skref áfram
- 3 hliðarskref til hægri
- Hægri snú
- Hægri snú
- Hægri snú
- 3 skref áfram
- Vinstri snú
- 4 skref áfram
- Vinstri snú
- 2 skref áfram
- Leitaðu!

15. desember 2006

15. desember

Og hvað gerir maður svo þegar vísbendingar vantar?

Jú snýr sér að stærðfræðinni. Auðvitað!



Hrund:

Teiknaðu hornréttan þríhyrning
út frá krossinum.
Finndu skurðpunkt a og c þegar
b = 8.5 cm
c = 10 cm


Eyrún:

Teiknaður hornréttann þríhyrning
út frá krossinum.
Grunnlínan er 13 cm
Horn á vinstrihlið grunnlínu
er 35°.
Finndu skurðpunkt (þar sem línurnar
skerast) hæðar- og langlínu.








Nú veit ég ekki hvort kortið prentast rétt út hjá ykkur, en það á að passa á A4 blað til að allt gangi upp.

14. desember 2006

14. desember


En nú verð ég að viðurkenna að vísbendingabrunnur minn er að verða uppurinn. Allar ábendingar og tillögur vel þegnar á tölvupósti (því stelpurnar lesa þetta hér).

13. desember 2006

Yndisleg kvöldstund




Vegna dagatalsins er hugurinn á stöðugri leit að einhverju ódýru en jafnframt sniðugu til að hafa sem verðlaun, því ekki er hægt að ætlast til að þrautir séu leystar án verðlauna.
Um daginn fæddist hugmynd og á mánudag var kort í verðlaun með þessum texta:
"Þetta kort er boðsmiðið á rafmagnslaust kvöld að [og hér er heimilisfang, óþarfi að gefa það upp hér].
Gildistími 12.12.2006 frá því að búið er að snæða kvöldverð til kl. 22.00.
Þá verður kveikt á kertum og spil dregin fram.
Hlökkum til að eiga þessa stund með ykkur.
Mamma og pabbi."
Í gær var 12.12.2006. Matur var óvenju seint á borðum vegna þess að húsmóðirin var á kóræfingu lengur en venjulega, en tilhlökkun lá í loftinu. Og um kl. 20.00 var kveikt á kertum og öll ljós slökkt, líka jólaseríur og útiljós. Það er ótrúlega magnað að ganga um íbúðina við kertaljós og er ekki annað hægt en að mæla með því að fólk prófi þetta.
Kvöldið heppnaðist frábærlega. Við spiluðum "ólsen, ólsen", "Uno", "sæl amma" og "þjóf".
Ekki skemmdi það fyrir að bóndinn á bænum hafði fjárfest í góðgæti handa öllum. Hrund fékk túnfisksalat, Eyrún Skittles, ég Irish Coffee og hann sjálfur bjór.

13. desember

Í dag fáið þið kæru lesendur ekki að taka þátt í vísbendingunni því hún var á þessa leið:

Eltu bandið (bara annað bandið leiðir að vísbendingu).

Og fest við miðann voru 2 bönd sem leiddu fram og til baka um íbúðina.

12. desember 2006

12. desember

Í dag útbjuggu dæturnar vísbendingar hvor fyrir aðra.

Svona voru vísbendingar frá Eyrúnu:

1. vísbending.
Hér er ró og hér er friður
hér er gott að setjast niður
hugsa sína þyngstu þanka
þar til einhver fer að banka
þá er mál og manna siður
að standa upp og sturta niður!!

2. vísbending.
Hér er þögn
og hér er svart
og rosalega kalt
en mundu að opna mig
sva að birta kemst inn
en ekki loka aftur
því þá verður niða mirkur.

3. vísbending.
Brandur er góður köttur já
en gott að vera lítill
því þar sem hann getur bara verið
en við samt ekki.

4. vísbending.
Stekkjastaur er sagður koma
þetta kvöld og ekki seinna
en er eitthvað á sillu þinni
annað en skórinn sem tillit tánni

5. vísbending
Englakór frá himnahöll
verður alltaf gilltur
en það er minn nú ekki þinn
sem þú leitar að svona seinna

Hrundar vísbendingar voru svona:

1. vísbending
Tölva

2. vísbending.
Hvítt blað með 3 götum og stöfum hér og þar. Það sem átti að gera var að brjóta blaðið saman í miðjunni og legsa í gegnun götin. Þar stóð þá: kók

3. vísbending.
Var af sömu tengun og 2. vísbendingin, nema nú voru götin 4. Orðið sem fékkst var: húfa

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...