En nú vildi svo til að í síðustu viku lá ég veik heima og þá gafst mér tækifæri til að fylgjast með paralympics sem nú standa yfir eða ólypmíuleikum fatlaðra sem mikið er sýnt frá á BBC (þó þeir fylgist aðallega með sínu fólki og þeirra afrekum, skiljanlega). Það er alveg jafn spennandi að fyljgast með þeim og sjá allar þessar íþróttir sem ekki sjást að jafnaði í sjónvarpi eins og hjólastólakörfubolti, fótbolti blindra, kapp á hjólastólum, hjólreiðar og sund svo eitthvað sé nefnt.
Íþróttamennirnir eru flokkaðir eftir fötlun og það tekur smá tíma að átta sig á því öllu saman. Sundmenn eru t.d. flokkaðir sem S5 til S10. Því hærri tala því minni fötlun. Blindir sundmenn eru flokkaðir S11 til S13. S11 eru algjörlega blindir en S13 eru með einhverja sjón þó lítil sé.
Mikið hefur verið sýnt frá sundinu enda eiga bretar marga góða sundmenn og þeir hafa unnið til nokkurra gullverðlauna á þessu móti. Við eigum einn sundmann á mótinu Eyþór Þrastarson en hann er flokkaður sem S11, en því miður hef ég ekki séð hann í keppni. Eyþór komst áfram í úrslit og varð þar áttundi í mark. Frábær árangur, hann jafnvel bætti sitt eigið met í undankeppninni. Ég hef séð nokkrar keppnir þar sem blindir synda en þeir eru með hjálparmenn á báðum bökkum sem halda á stöngum til að pikka í sundmanninn þegar hann kemur að bakkanum til að láta vita hvenær bakkanum er náð. Hvernig er annað hægt en að dást að þessu fólki? Eða handalausu sundmennirnir sem þurfa að skella höfðinu í bakkann til að staðfesta að þeir séu komnir í mark.
Miklar væntingar voru til íþróttamannsins David Weir en hann hefur staðið sig mjög vel undanfarið í kappi á hjólastólum. Honum hefur ekki tekist að næla í gullverðlaun á þessu móti ennþá en er komin með eitt silfur og eitt brons. Hann mun keppa í dag í 400m vegalengd, verður spennandi að sjá hvort hann nær gullinu þar.

