30. apríl 2008

Hlaupafréttir

Á síðasta ári var skorað á mig að taka þátt í 10km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Ég tók áskoruninni og er núna að undirbúa mig undir hlaupið með því að hlaupa heim úr vinnunni. Í gær skildi ég hjólið eftir í vinnunni og skokkaði/labbaði heim. Gekk betur núna en í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta og ég var í 35 mín á leiðinni 4,5 km (sem gera 7,7 km/klst).

Í morgun skokk-labbaði ég svo aftur í vinnuna. Það er ótrúlegt hvað þolið kemur fljótt því núna var það ekki mæðin sem háði mér heldur þreyta í fótunum (þeir greinilega ekki búnir að jafna sig eftir gærdaginn).

En það sem pirrar mig mest við þetta allt saman er hversu hrikaleg rauð ég verð í framan. Tók tímann í gær eftir að ég kom heim hversu lengi andlitið er að ná eðlilegum húðlit aftur. Eftir 1 klst var næstum eðlilegum húðlit náð en þó var enn roði í kinnum. Það tók allt í allt 1 og hálfa klst þar til ekki var lengur hægt að sjá rautt.

Ætli þetta lagist með þjálfun? Eða er þetta bara eitthvað sem maður verður að lifa við?

28. apríl 2008

Rykmaurar

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að birta þessa grein sem er að finna á heimasíðu asma- og ofnæmisfélagsins.


"Rykmaurar á Íslandi
Snemma á níunda áratug síðustu aldar fóru fram rannsóknir á heysjúkdómum bænda hér á landi. Í aðdraganda þeirra rannsókna voru m.a. athugaðir hugsanlegir ofnæmisvakar í heyryki. Þá fundust einar 19 tegundir heymaura; sumar hverjar í miklu magni (13). Má gera því skóna að heymaurarnir hafi borist hingað til lands með heyi sem landnámsmenn fluttu með sér til að fóðra búpeninginn á leiðinni yfir hafið. Einnig kom í ljós að heymaurarnir voru aðal ofnæmisvaldar í sveitunum (14). Heymaurar eru náskyldir rykmaurum og ofnæmi fyrir einum þeirra, Lepidoglyphus destructor, hefur talsvert verið kannað í Reykjavík og nágrenni (15). Ofnæmi fyrir þessum heymaurum er miklu algengara en ofnæmi fyrir rykmaurum meðal sveitafólks en þetta snýst alveg við í þéttbýli (14,15).
Á síðastliðnu ári fór fram mjög víðtæk rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu í þeim tilgangi m. a. að athuga hvaða rykmaurar væru þar og í hvað miklu magni (16). Óhætt er að segja að niðurstöðurnar komu verulega á óvart. Í rúmum 210 einstaklinga fundust samanlagt 2 rykmaura. Það hefði mátt ætla að þarna hefðu átt sér stað einhver óskiljanleg mistök, því hvergi annars staðar sem leitað hefur verið að rykmauraum hefur fundist jan lítið af þeim. En það vildi svo til að úr rúmum þessara einstaklinga voru líka tekin sýni sem rannsökuð voru fyrir mótefnavökum frá rykmaurum og það fannst heldur ekki marktækt magn af þeim"

Jarðgerð

Fyrsta "uppskeran" úr jarðgerðarkassanum okkar var tekin á laugardag. Það var ótrúlega gaman að sjá og upplifa hvernig þetta virkar. Því þó maður viti að grænmeti, kaffikorgur, lauf, hey og fleira komi til með að breytast í mold með tímanum þá er magnað að sjá það í reynd.

Við keyptum fyrri endurvinnslutunnuna í fyrra vor og var hún orðin full seinnipart sumars svo við keyptum aðra.
Það var úr fyrri tunnunni sem tekið var á laugardaginn. Þá fór ég einmitt í Garðheima og keypti sigti og fötu til verksins því enn eru greinar og svona stærri hlutir sem ekki eru að fullu jarðgerð og fengu að fara aftur efst í tunnuna.

Moldin sem við höfum búið til með þessari aðferð var dökk og falleg. Það voru hvorki meira né minna en 3 og hálf fata sem kom úr tunnunni.

Ein fatan fór í matjurtargarðinn minn og hinar í beðin. Ég mæli eindregið með því að menn komi sér upp svona tunnum það fer ekki mikið fyrir þessu og það er minni lykt af þessum tunnum en af ruslatunnunum. Svo er ekki mikil vinna við þær heldur.

25. apríl 2008

25. apríl 2008

Í dag eiga foreldrar mínir 39 ára brúðkaupsafmæli. Það er ekkert smá. Til hamingju mamma og pabbi!


En svo er hér smá plöntumont og fyrirspurn.
Fyrri myndin er tekin 23. mars sl. og þá má sjá litla papriku að myndast hægramegin á plöntunni og þar sem hún greinist er eitthvað mitt á milli þess að vera blóm og paprika að myndast.
Sú seinni er tekin í morgun (25. apríl þið afsakið hvað hún er dökk). Þar er það sem var parika að myndast orðin stór og myndarleg paprika en hin er ennþá frekar lítil. Ætli sú stærri taki upp alla næringuna frá hinni áður en hún nær út í þá grein.















Og nú langar mig að fá upplýsingar frá plöntufróðu fólki. Ætli það sé óhætt að umpotta þessari plöntu? Hún er í allt of litlum potti og ég þarf orðið að vökva hana næstum daglega til að hún ofþorni ekki.

Eplatrén mín frá í fyrra eru frekar orðin væskilslega neðri hlutinn á þeim, blöðin orðin meira eða minna sölnuð. En á toppnum eru komin ný og falleg blöð.

Til hægri á myndunum báðum er svo sítrónutré. Það vex ótrúlega hægt miðað við bæði eplatrén og paprikutrén. En þeim var öllum sáð síðasta sumar.

Og að lokum. Teljarinn minn er staddur í nr. 6959 vantar bara 41 upp í 7000. Alltaf svo gaman að nálgast svona heilar tölur. Spennandi að sjá hvursu langan tíma það tekur að komast upp í þá tölu.
Ta ta ta tammm.....

21. apríl 2008

8 hjólreiðamenn

Hjólreiðamönnum fjölgar ört á morgnana nú þegar farið er að hlýna. Sá 8 í morgun. Einn á svona skrítnu hjóli þar sem hjólreiðamaðurinn liggur á bakinu, frekar fyndið að sjá.

28. mars 2008

Hjólað í vinnuna

Hjólaði í vinnuna í fyrsta skiptið á þessu ári. Oh, það er bara svo dásamlegt að hjóla.

26. mars 2008

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavík síðdegis spyr á visi.is: "Á Reykjavíkurflugvöllur að víkja fyrir íbúabyggð?" og svarmöguleikarnir eru þrír:
-Já, að hluta
-Já, alveg
-Nei.

Fyrir ekki svo löngu hefði ég ekki hikað við að svara þessu "já, alveg". En það var þegar eini valmöguleikinn var að flytja hann til Keflavíkur. Nú er ég á þeirri skoðun að frekar vil ég hafa hann þarna áfram heldur en að færa hann með miklum tilkostnaði í um nokkra kílómetra, annað hvort upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker. Báðir þeir möguleikar eru ómögulegir að mínu mati og þá er betra að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Svo ég vil ekki svara "já, alveg" og valda þeim misskilningi að þar með sé mér alveg sama hvert hann er fluttur.

Svarmöguleikarnir hefðu mátt vera:

-Já og flytja hann til Keflavíkur
-Já og flytja hann innan Reykjavíkur
-Nei

og þá hefði ég getað svarað án vandræða.
En það er rétt að taka fram að ég fer afar sjaldan innanlands með flugi, líklegast u.þ.b. 1x á hverjum 5 árum. Og það er svo að ég fer oftar til útlanda í flugvél heldur en innanlands og finnst það ekki tiltökumál að fara til Keflavíkur til þess.

23. mars 2008

Plöntur og vor


Mikið er vorið spennandi og skemmtilegur tími.


Sólin sést oftar og maður meira að segja finnur hita frá henni. Allar pottaplöntunar eru farnar að taka við sér. Paprikuplanta frá síðasta sumri blómstraði 4 eða 5 blómum og lofar góðri uppskeru, nú eru 3 blóm eftir og 2 paprikur farnar að myndast. Ég bjóst svo sem ekki við því að þessar plöntur lifðu af veturinn en gaf þeim tækifæri. Epla trén líta ekkert allt of vel út. Blöðin hafa svolítið skrælnað í vetur (sjá vinstra megin við paprikutrét) en það verður spennandi að fylgjast með þeim og sjá hvort þau taki við sér líka.


Pottaplanta sem við höfum átt í nokkur ár og mér finnst alltaf vera eins er farin að bæta við sig nýjum öngum (sjáið þetta ljósgræna það er allt nýtt).
Síðan setti ég fullt af sumarblómafræjum í mold og bíð spennt eftir að sjá hvort og hvenær þau láta á sér kræla.

20. mars 2008

Afsláttur af heilsuþjónustu.

Kaupþing sendi okkur bækling um daginn þar sem tilkynnt er að við séum komin í "Vöxt Gull" og þar með fáum við betri þjónustu en aðrir sem ekki eru í þessum hópi. Síðan er tíundað hvað okkur er boðið uppá.

Við erum heppin að hafa fæðst á Íslandi því hér er gott að búa.
Hvers vegna? Jú, við höfum aðgang að þjónustu sem okkur finnst orðið sjálfsögð en er það ekki allstaðar í heiminum. Öll börn fara í skóla. Heilsugæslan er aðgengileg öllum og almennt höfum við það gott.
Hvers vegna? Jú það er vegna þess að við áttuðum okkur nokkuð snemma á því að það borgar sig að hugsa um heildina. Við borgum skatta af launum okkar til að fjármagna þá þjónustu sem við teljum nauðsynlega.
Ég vil halda áfram að borga skattana mína til að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég vil að allur almenningur hafi aðgang að henni og að áfram þyki sjálfsagt að lækna þann sem er veikur án þess að hugsa um hvort viðkomandi hafi efni á að borga fyrir þjónustuna.

Þess vegna verð ég óróleg þegar tákn um annað koma fram. Og þá er ég komin aftur að bæklingnum frá Kaupþingi. Þar er mér boðin afsláttur af mánaðargjaldi af Velferðarþjónustu á vegum Heilsuverndarstöðvarinnar. Þennan afslátt fæ ég sem sagt af því ég er í þessari tilteknu þjónustu hjá bankanum mínum.

Þetta er hvorki stórvægilegt eða eitthvað sem eitt og sér grefur undan heilbrigðisþjónustunni fyrir almenning. En í mínum huga er þetta skref í þá átt að hafi maður pening geti maður greitt sig framar í röðina. Og það er skref sem ég er ekki tilbúin að taka. Þegar kemur að heilsu þá á sá veikasti að hafa forgang en ekki sá sem á mesta peninginn.

18. mars 2008

16. mars 2008



Þá hefur yngsta barnið verið fermt. Sjáið bara þennan föngulega hóp.

Hún Eyrún mín stóð sig eins og hetja í fermingarveislunni og bæði hélt smá ræður og söng fyrir gestina. Og gerði það vel.

12. mars 2008

Tilhlökkun

Bráðum kemur betri tíð

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Halldór Laxness


Litla flugan

Lækur tifar létt um máða steina.
Lítil fjóla grær við skriðufót.
Bláskel liggur brotin milli hleina.
Í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga
Ég inn um gluggann þreytti flugið mitt.
Og þó ég ei til annars mætti duga
Ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

Sigurður Elíasson

6. mars 2008

Plöntur



Litlu vitlausu haustlaukarnir mínir virðast halda, þrátt fyrir snjó og kulda að nú sé komið vor. Vonandi þola þeir veðrið sem er í boði hjá okkur.




Síðan er það aumingja plantan mín í eldhúsglugganum. Þar var nefninlega þannig einn daginn að ég þurfti að lofta vel úr eldhúsinu og galopnaði gluggann. En úti var frostgaddur og ég hafði ekki vit á því að fjarlægja plöntuna úr glugganum. Verð ég ekki bara að klippa burtu kalna hlutann?
Þessi planta hjá mér vex bara sem ein lengja, engir angar út hér eða þar. En hún hefur hingað til verið svo falleg og þrifist vel í glugganum.

3. mars 2008

Líkamsrækt

5 km frá heimili til vinnu. Ferðatími:
Með bíl 10 mín
Á hjóli 15-20
Með strætó 30-35 mín
Gangandi 45-55 mín
Hlaupandi á eftir að ná upp þoli til að reyna það, kannski eitthvað svipað og strætó?

Ég er alltaf að ákveða hluti í eitt skipti fyrir öll, en svo er nú misjafnt hver lokadagsetning er á þessum ákvörðunum...

Tók t.d. þá ákvörðun að fara nú að sprikkla heima hjá mér - ætti að geta það heima án þess að borga fyrir það eins og einhverstaðar annarsstaðar fyrir pening. Síðasti neysludagur á þeirri ákvörðun var daginn eftir.
Og nú hef ég tekið þá ákvörðun að labba heim úr vinnunni í stað þess að taka stræó.
Kostir: Byggir upp þol, fínasta hreyfing, spara mér 1 stk strætómiða á dag.
Gallar: Kem heim 15 mín seinna en ef ég tæki strætó.

Hef hingað til gert þetta ca. einusinni til tvisvar í viku, en afhverju ekki bara alla dagana? Þar til það verður hjólafært allavega.

Jæja sjáum til hver loka dagsetningin á þessari ákvörðun verður.

28. febrúar 2008

Fallin

Facebook hefur náð mér aftur.



Byrjaði allt með tölvupósti þar sem mér var tjáð að stór bróðir hefði keypt mig á Facebook. Ég auðvitað alveg bara HVAÐ???



Fór svo að skoða þetta aðeins. Þá er þetta svona meira að kaupa myndina, maður getur víst sett fleiri en eina mynd á sölulista. Engir alvöru peningar í boði, bara svona facebook viðskipti.



Síðan þá hafa nokkrir keypt myndina mína. Það er svolítið gaman að fylgjast með þessu. Fór að lokum sjálf að kaupa og á nú nokkra ættingja mína og einn gaur sem hefur keypt mig 2x.

24. febrúar 2008

Júróvisíón

Horfði á þáttinn í gær þar sem framlag Íslands til júróvisión var valið. Skemmti mér bara nokkuð vel. Hefði mátt sleppa viðtölunum við mæður flytjenda, þó þær kæmu allar vel fyrir var það einfaldlega ekki skemmtilegt eða fróðlegt. Og hvað er með þessa spurningu um hvenær fólk byrjaði að syngja? Vitið þið um einhvern sem aldrei söng neitt fyrr en hann varð 10 ára og þá allt í einu opnar munninn og út streymir þessi líka fallegi söngur?

Var að heyra u.þ.b. tvo þriðja af lögunum í fyrsta skipti og fannst þau misskemmtileg.

En svona er mitt álit:

1. In your dream eftir Davið Olgeirsson.
Skemmtilegt og grípandi lag. Mætti mín vegna alveg fara áfram. Fannst söngurinn þó ekki alveg nógu öruggur.

2. Gef mér von eftir Guðmund Jónsson í flutning Páls Rósinkrans.
Var að heyra lagið í fyrsta skipti og fannst það ekkert spes. Ég er kannski ekkert of hrifin af gospeltónlist.

3. This is my life eftir Örlyg Smára í flutningi Friðriks Ómars og Regínu Óskar.
Hmmm... þetta lag vann og þau tvö eru Eurovisionformkökur. Jú, jú allt í lagi lag. Eitt af þeim sem ég var að heyra í fyrsta skiptið. Grípandi og hressilegt. Eurovision slagari.

4. Don't wake my up eftir Möggu Stínu í flutningi Ragnheiðar Gröndal.
Ekki spurning, mitt uppáhaldslag í keppninni. Var að heyra það í fyrsta skipti líka og féll kylliflöt. Algjörlega tónlist eftir mínu höfði. Ég meira að segja kaus lagið!

5. Ho, ho, ho we say hey, hey, hey eftir Barða Jónsson.
Get sagt að ég var mjög fegin að þetta lag fer ekki út.

6. Hvað var það sem þú sást í honum eftir Magnús Eiríksson í flutningi Baggalúts.
Krúttlegt lag og krúttlegur flutningur. Svolítið gamaldags og eitt af þessum lögum sem manni finnst maður hafa heyrt áður og getur sungið með við fystu hlustun.

7. Núna veit ég eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur í flutningi Magna og Birgittu Haukdal.
Að mínu mati var þetta lag þarna bara út af flytjendunum. En ég var að heyra þetta lag líka í fyrsta skitpið, kannski batnar það eftir því sem maður heyrir það oftar.

8. Hvar ertu nú eftir Dr.Gunna í flutningi Dr. Spock.
Úff. Flipp og húmor. Sniðugt sjó, en ekki skemmtilegt lag. Líka mjög fegin að þetta lag fór ekki áfram.

16. febrúar 2008

Leitinni lokið.


Enn og aftur kemur barnaland.is til bjargar. Setti inn auglýsingu í gær þar sem ég óskaði eftir hamstrabúri og fékk svar í gærkvöldi. Núna er búrið komið heim og nýr meðlimur í fjölskylduna, dverghamsturinn Loppa.

7. febrúar 2008

Snjómokstur.

Það er sem mig minni að ég hafi áður skrifað um ástríðu mína á snjómokstri hér á skobara. Ef nokkkur snjókorn falla af himun er ég komin út með skófluna að moka.

Það hafa gefist nokkur tækifæri nú í vetur til að halda skóflunni á lofti, en þó verður að segjast að hingað til hafa "gæðin" á snjónum ekki verið sem best þ.e. snjórinn er helst til of léttur í sér og fýkur svo til strax aftur til baka yfir það sem mokað var (sem mætti ætla að væri ánægulegt því það þýðir meiri mokstur en ánægjan felst í því að sjá mun fyrir og eftir).

Svo í morgun... ahhh í morgun.... Fallegur snjór yfir öllu, þykkur, lokkandi...

Einmitt sama daginn og ég hef enga orku nema til að skipta um stöð í sjónvarpinu. Ég þarf að hýrast inni með hita, beinverki, kvef og hálsbólgu. Ó mig auma.

6. febrúar 2008

Þjónustugjald smjónustugjald

Það var nú bara þannig að ég var í minni venjubundinni heimsókn í heimabankann fyrir vinnuna þegar augun rekast í það að búið er að draga heilar níutíukrónur af reikningnum í þjónustugjald.

Þar sem ég er einlægur mótmælandi hverskonar óþarfa gjalda tók ég upp símtólið og hringdi í bankann. Stúlkan sem ég talaði við taldi líklegast að þetta væri kostnaður vegna sendinga á kvittunum en ekki vildi ég kannast við að hafa beðið um kvittanasendingu svo hún ætlaði að athuga þetta betur og hafa svo aftur samband. Sem hún og gerði en hafði enn enga skýringu á þessu gjaldi. Þá fór ég fram á að gjaldið yrði bakfært. Stúlkugreiið hafði greinilega ekki heimild til að veita slíkan afslátt af ósanngjörnum gjöldum svo hún ætlaði að kanna málið enn frekar.

Í morgun fékk ég aftur upphringingu þar sem mér er tjáð að gjaldið verði endurgreitt inn á reikninginn, en enn og aftur engin skýring gefin á því hvers vegna í upphafi þetta var dregið af reikningnum.

Hvursu margir ætli láti svona gjaldtöku fram hjá sér fara?

1. febrúar 2008

Endurfundir.

Er að fara að hitta þetta fólk og fleiri á morgun. Verður gaman að sjá hvort við höfum breyst svo mikið að maður þekkist ekki aftur.

Ætlum að skoða gömlu skólana okkar en það eru orðin nokkur ár síðan ég steig fæti þangað inn.

29. janúar 2008

Hlýnun jarðar verður að kólnun

Frétt á visir.is um niðurstöður rússnenskra vísindamanna um að ísöld sé á næsta leiti.

Svona hefst greinin: "Þegar á næsta ári mun hlýnun jarðar byrja að snúast við. Og eftir nokkra áratugi hefst lítil ísöld sem mun vara í 45-65 ár. Hún mun valda fimbulkulda um mestallan heiminn."

Lesið hér

18. janúar 2008

Klakatré



Síðastliðið sumar fékk Hrund birkitréshríslu að gjöf frá Vinnuskólanum. Verð reyndar að segja að mér þykir sú gjöf ákaflega vanhugsuð því hvar á að planta þessari hríslu? Þó við séum með ágætis garð þá er ekki pláss fyrir fleiri birkitré að mínu mati (og það eru ekki endilega allir með aðgang að garði). Svo næstum dó aumingja hríslan því hún gleymdist í nokkra daga og var orðin nokkuð þurr þegar henni var skellt í blómapott.
Hún fékk fljótlega að fara út í garð og kemur til með að vera þar fram á næsta vor þegar það kemur í ljós hvort hún hafi lifað þetta allt saman af.
En í gær rekur Eyrún augun í plöntuna og þá er hún komin með þessa fallegu klakabrynju.

16. janúar 2008

Vá hvað efni í lopapeysu er ódýrt!

Þá er komið að því. Ég er að byrja að prjóna peysu á sjálfa mig. Ákvað að prjóna lopapeysu sem er hneppt (ekki rennd Hrund og Inga).

Fór í gær og keypti lopann og varð ekkert smá hissa þegar kom að því að borga. Efnið í heila peysu kostar ekki nema 1.540 kr (það á auðvitað eftir að koma í ljós hvort það dugir í heila peysu). Það er nú bara þannig að ég prjónaði peysu á Hrund á síðasta ári og garnið í hana kostaði 6 eða 7 þúsund krónur.

Uppskriftina að peysunni fann ég á www.istex.is og það er þessi hérna, en ég ætla aðeins og breyta henni þ.e. ég nota plötulopa ekki álafoss lopa og ætla að síkka hana svolítið, langar ekki í svona naflasýningarpeysu.

Svo í gærkveldi sat ég sveitt við að reikna út prjónfestu og hlutföll og nú er ég byrjuð. Vona bara að útreikningarnir séu réttir.

12. janúar 2008

Íris Hulda

Þá er búið að skíra litlu bróðurdóttur mína. Hún fékk þetta líka fallega nafn. Mamma sem var skrínarvottur tók næsum bakföll af undrun og gleði þegar Ívar Fannar sagði nafnið hátt og skírt í kirkjunni fyrir alla að heyra, því þarna fékk hún nöfnu.

Presturinn, fyrrum skólafélagi (bæði í Kársnesskóla og Tónlistarskóla Kópavogs) sr. Þorvaldur Víðisson skírði dömuna sem var hin rólegasta yfir þessu öllu saman. Því miður er ég ekki með myndir til að setja með en mér finnst ekki ólíklegt að Arnar bróðir eigi eftir að setja nokkra inn á myndasíðuna sína. Við bíðum bara róleg eftir því.

Ég fékk að spila á orgelið í Kópavogskirkju en þar fór athöfnin fram. Ég spilaði Lagið hennar Ingu sem forspil og það hljómar bara svona ljómandi fallega á orgelið. Svo í lok athafnarinnar söng pabbi lag eftir sjálfan sig við texta sem hann og mamma áttu grunninn að en Helga móðursystir setti í ljóð af alkunnri snilld.

Feðgarnir Ívar og Arnar spiluðu frumsamið lag á gítar og ... ja nú veit ég ekki hvað hljóðfærið sem Ívar Fannar spilaði á heitir en það er hljómborð sem gengur fyrir lofti sem hljóðfæraleikarinn blæs inn í hljómborðið um leið og spilað er.

Falleg athöfn fyrir fallega stúlku.

11. janúar 2008

Óskemmtilegur vekjari.


Vaknaði í morgun við brothljóð úr eldhúsinu. Rauk á fætur og æddi fram og þá kom sama hljóðið aftur. Fyrst datt mér í hug að efriskápur í eldhúsinu hefði gefið sig svo mikil fannst mér lætin vera. Svo grunar mann auðvitað einhvern köttinn. Brandur sannaði sakleysi sitt með því að sitja á ganginu þegar seinni lætin komu svo ekki var það hann.


Það hefur gulur skratti verið að koma inn til okkar á nóttunni til að gæða sér á matnum hans Brands og ég gruna hann stórlega.


Sem betur fer var þetta ekki eins mikið og ég hélt í fyrstu. En núna er ég einum bolla og tveimur undirksálum fátækari og kanínustrákurinn sem átti sér kærustu er orðinn einhleypur.


Þetta kannski kennir mér að hafa eldhúsgluggann ekki galopinn á nóttunni því kötturinn var að flýja út um hann með þessum afleiðingum.

4. janúar 2008

Stórfrétt!!!

Já það er ekkert smá. Því hún Hörn frænka er að fara að syngja í Carnegie Hall þann 27. janúar. Hún fær 10 mínútur á sviðinu og mun án efa verða glæsileg í alla staði.

Þarna er mikil söngkona á ferð en hún fór á kostum í óperunni Systur Angelicu sem Óperustúdíó Íslensku óperunna setti upp á síðasta ári.

Sjá nánar um Carnegie Hall hér.

27. desember 2007

Fimmtudagur 27. desember 2007.

Mætt til vinnu. Skrítin tilfinning, einhvernvegin eins og maður sé hér á vitlausum tíma. Svo mikil ró yfir öllu. Meira að segja klukkan gengur hægar.

18. desember 2007

Jólatónlistin

Þegar ég var lítil þá var það jólaplatan með Silfurkórinum sem kom manni í rétta jólastuðið. Þessi plata var alltaf spiluð fyrir jólin.

Þegar ég fór að búa sjálf átti ég ekki plötu með Silfurkórnum og hún var bara ekki fáanleg og einhvernvegin varð engin ein plata (gleisla eða vínil) sem tók við af Silfurkórnum sem svona aðal jólatónlistin.

En svo bökuðum við piparkökurnar á sunnudaginn og þá eru jólalögin að sjálfsögðu spiluð og þá kom í ljós að við eigum okkar piparkökubakstursjólalög. Þannig var að þegar Hrund var lítil þá tókum við upp á kasettur jólaplötu með Ómari Ragnarssyni og aðra með Hauk Morthens. Báðar kassetturnar eru merktar Hrund svo ég geri ráð fyrir að Eyrún hafi ekki verið fædd, þær eru því líklega síðan 1992 eða 3 mundi ég áætla. Þessar spólur fara aðeins í tækið við svona tækifæri eins og bakstur og skreytingar.

Okkur fannst við hreinlega ekki geta bakað piparkökurnar án þess að hafa þessa tónlist í tækinu og þá upphófst mikill hamagangur við að finna spólurnar. Gaman að uppgötva að við eigum ákveðna jólatónlist sem kemur manni í rétta jólaskapið.

17. desember 2007

Og nú meiga jólin koma.

Piparkökurnar komnar í box. Bara eftir að skreyta með glassúr í öllum regnbogans litum en það gerist í dag.

14. desember 2007

Jólakort

Þegar veðrið er svona eins og það hefur verið eru skilyrði til móttöku á efni frá gerfihnöttum ekki upp á það besta. Í gærkvöldi eftir kveldmat gáfumst við fljótlega upp á að reyna að horfa á sjónvarpið og fórum að föndra.

Eyrúnu langað nú frekar út í sjnóinn en allar vinkonur voru uppteknar og ég var í engu svoleiðis stuði og Hrund er meidd á fæti. Svo allir voru píndir í föndrið (nema Elías auðvitað því hvað kann hann svo sem að föndra?).
En þetta varð svona bara ljómandi skemmtilegt hjá okkur. Það var drifið í jólakortagerð. Ég og Hrund framleiddum og Eyrún skrifaði í kortin ásamt því að teikna snjókarla sem prýða nokkur af kortunum. Við náðum að útbúa og skrifa næstum öll jólakort sem send verða í ár (vonandi er maður ekki að gleyma neinum). Ef þú færð ekki kort frá okkur, en gerðir ráð fyrir því þá er það bara af því að minnið hjá mér er orðið götótt.

13. desember 2007

Ný færsla


Einhverjir eru orðnir leiðir á rusaltunnumyndinni minni og farnir að kvarta undan því hástöfum. Ég segi nú bara ble við því, en kem samt með nýja færslu.

Er ekki einn farin að baka piparkökur fyrir jólin. Það hefur bara ekki fundist nógu langur tími til þess. Keypti samt allt í baksturinn um síðustu helgi. Kannski þetta hafist nú um helgina því eins og allir vita koma ekki jól fyrr en búið er að baka piparkökur a.m.k. einu sinni.

30. nóvember 2007

Fimmtudagsóveður


Skrítið hvernig hann fer alltaf að blása þegar nýbúið er að tæma úr ruslafötunum hjá mér. Þær viljan nefninlega fara á flakk þegar svoleiðis stendur á.

Hef núna 2x sett farg í tunnurnar og hefði þurft að gera það í gær líka en hafði ekki vit á því. Þetta hefur leitt til þess að tunnulokið af annarri tunnunni er farið veg allrar veraldar (er það ekki sagt svona annars?).

Ertu orðinn leið(ur) á ökuföntum í götunni þinni?

Hér er lausnin.

22. nóvember 2007

Paprikan mín


Það sem einu sinni var bara lítið fræ hefur stækkað og borið ávöx. Og nú er hann að roðna svona líka fallega.

15. nóvember 2007

Áhugamál


Fór á foreldrafund í gærkvöldi. Það var hressandi. Langt síðan ég fór síðast á svona fund þar sem allir voru áhugasamir og flestir buðu sig fram til að gera eitthvað.


Við vorum með óskalista frá bekknum um það sem þau langar að gera. Á listanum var allt milli himins og jarðar t.d. Laser-tag, verslunarferð, jólaföndur, skautar, skíði ofl. en það sem vakti áhuga hjá mér var Origami sem er fremur óvenjulegt á svona lista. En það kveikti eitthvað hjá mér því ég hef alltaf haft gaman að því að fikta með pappír. Og þá fann ég þessa síðu, þarna eru allskonar pappírsfígúrur og sýnt hvernig á að búa þær til. Ég á eftir að prófa og veit þess vegna ekki hversu góðar útskýringarnar eru.
Ps. teljarinn í 5.499. Ert þú nr. 5.500?

14. nóvember 2007

Rannsóknir og mataræði.

Enn ein rannsóknin sem gengur þvert á það sem áður hefur verið sagt. Þetta stendur í Fréttablaðinu í dag:



"Fita í mat ekki hættulegust
Það er ekki fitan í matnum, sem veldur kransæðasjúkdómum, heldur skortur á trefjaríkum ávöxtum og grænmeti. Að þessu er komist í nýrri sænskri læknisfræðirannsókn.


Það er ekki fitan í matnum, sem veldur kransæðasjúkdómum, heldur skortur á trefjaríkum ávöxtum og grænmeti. Að þessu er komist í nýrri sænskri læknisfræðirannsókn.


Rannsóknin, sem vísindamenn við háskólann í Lundi stýrðu, er byggð á rannsókn á mataræði og lífsstíl 28.000 Malmöbúa.


"Við höfum komist að því að fita í mat hefur ekki bein áhrif á kransæðasjúkdóma. Aftur á móti er það skortur á trefjum í fæðunni sem leiðir til slíkra sjúkdóma, hefur Politiken.dk eftir Margréti Leósdóttur, einum vísindamannanna að baki rannsókninni."



Nú veit ég ekkert um áræðanleika þessarar könnunar eða hvernig hún var framkvæmd eða á hvað löngum tíma. En finnst ykkur ekki magnað hvað svona rannsóknir geta stangast á?

Nú taldi maður það vera svo að búið væri að sanna sambandið milli fituáts og kransæðastíflu. Er þá eitthvað að marka þetta með góða og vonda fitu? Getur verið að það skipti mestu máli og sé best fyrir mann að borða fjölbreytt fæði og hreifa sig reglulega - eða á kannski eftir að sýna fram á það með rannsókn að þetta allt saman skipti ekki máli?



Ég sá þátt um feitasta mann í heimi. Hann var auðvitað ótrúlega feitur og gat varla hreyft sig, var ef ég man rétt rúmlega fertugur. Hafði ekki komið út úr húsi í 5 ár eða meira. Og ég gat ekki annað en hugsað hvernig stendur á því að þessi maður er enn á lífi? Því samkvæmt öllu því sem manni er kennt ætti ekki að vera hægt að lifa svona lífi án þess að deyja úr hjartaáfalli eða kransæðastíflu eða einhverju álíka.

13. nóvember 2007

Afmæli.


Já, enn og aftur er kominn afmælisdagurinn minn. Og aftur tekst fjölskyldunni minni að vekja mig með söng (þau vöknuðu kl. 6 til að vera á undan mér, takk fyrir) og afmælisgjöfum. Alveg frábært!


Hér eru nokkur viskubrot úr bók sem ég fékk frá stórabróður:


"Resist no temptation: A guilty conscience is more honorable than regret" - Anonymous


"Every now and then, a woman has to indulge herself" - Anonymous


"Ever notice that the whisper of temtation can be heard farther than the loudest call to duty?" - Earl Wilson


"I generally avoid temptation unless I can't resist it" - Mae West


"Everything tempts the woman who fears temptation" - French proverb


"Most people want to be delivered from tepmtation, but would like it to keep in touch" - Robert Orben

31. október 2007

Hversdagsmatur


Mig langar að biðja ykkur um að deila með mér uppskriftum að einföldum hversdagsmat.


Mín sérgrein er: Egg á brauði.


Hráefni: Egg, brauð, ostur, tómatsósa


Brauðið ristað (ekki of mikið), eggið spælt á pönnu, helst báðumegin en auðvitað eftir smekk. Ostur skorinn í sneiðar og settur á brauðið og eggið þar ofaná. Tómatsósu smurt yfir.


Fljótlegt, einfalt og alveg ágætis matur.


Lumið þið á einhverju svona einföldum en góðum mat? Endilega deilið með okkur hinum.

Ein góð minning af strætó.

Ég á eina góða minningu um strætó. Það var þannig þegar ég var í menntaskóla að þá gekk maður í og úr skólanum. Mig minnir að þetta hafi verið svona 15 mín labb og áætla að leiðin hafi verið rúmlega kílómeter.

Einn daginn var veðrið mjög slæmt, svona gamaldags óveður. Snjókoma, rok og auðvitað hálka svo varla var stætt á gangstéttunum. Ég var að labba heim úr skólanum og barðist á móti vindi, var ágætlega klædd en samt orðið kalt og eins og snjókarl vegna ofankomunnar. Þá gerist það að strætó stoppar við hliðina á mér og bílstjórinn býður mér far. Honum greinilega finnst ómögulegt að láta nokkurn mann ganga í þessu veðri og aumkvar sig yfir mig. Þetta var bara svo fallega gert af honum. Ætli svona strætóbílstjórar finnist enn í dag?

27. október 2007

Mynd í Fréttablaðinu í dag

Myndin er frá árinu 1931 þegar stytta Hannesar Hafstein var afhjúpuð við Stjórnarráðið. Það sem mér finnst athyglivert og gaman að sjá eru hjólin við grindverkið. Ætli þau séu á nöglum? Einhvernvegin finnst mér það ólíkegt. En menn hafa ekki vílað fyrir sér að hjóla þrátt fyrir snjóinn.

23. október 2007

ALÞJÓÐA HÁSTAFADAGURINN VAR Í GÆR

HANN HEFUR SÍNA EIGIN SÍÐU OG ALLT. SKOÐIÐ BARA HÉR.

JÁ ÞAÐ ER MARGT SKEMMTILEGT TIL Í HEIMINUM.

22. október 2007

Eyrún er komin með nýtt blogg.

Kíkið á síðuna hennar og verið ófeimin að skrifa komment hjá henni.

Smellið hér til að hoppa beint á síðuna hennar.

21. október 2007

Gestabækur


Þær geta verið margskonar. Gestabókin í brúðkaupinu mínu og Elíasar var svolítið sérstök. Gestir skrifuðu nöfn sín á hvítt lín sem mér var gert að sauma út. Línið yrði síðar að dúk sem hægt væri að nota við hátíðleg tækifæri.


Það hefur nú gengið svona og svona að sauma þessi nöfn og nú 14 árum síðar eru enn rúmlega 30 nöfn eftir. En nú skal setja kraft í saumaskapinn og takmarkið er að ljúka við dúkinn fyrir 15 ára afmælið.


Var að ljúka við að sauma eitt nafn áðan og gleymdi mér í smá stund við að skoða nöfnin. Er fyrst núna að átta mig á því hversu skemmtileg þessi gestabók er.

20. október 2007

Skemmtilegur vinnustaður

Á þessu mikla flísatímabili sem er hér á heimilinu hef ég nokkrum sinnum skotist í Húsasmiðjuna til að kaupa ábót á flísar. Og þegar svoleiðis er keypt þarf að fara í vörumiðstöðina hjá þeim sem er staðsett í Holtagörðum.



Í fyrsta skiptið sem ég fór í vörumiðstöðina hitti ég fyrir fúlan starfsmann en eftir þann hafa allir verið glaðlegir og kátir og maður fær það sterklega á tilfinninguna að þetta sé skemmtilegur vinnustaður (hef örugglega hitt sérstaklega illa á þennan fúla). Starfsandinn virðist vera einstaklega líflegur og góður.

Mann langar að fara þarna aftur og aftur og aftur... eða allavega þá er þetta ekki einn af þessum stöðum sem mann langar helst aldrei að þurfa að koma á aftur



Annars ganga flísalagnir bara nokkuð vel og bráðum sér fyrir endann á þessu öllu saman. Draumurinn er að komast í sturtu heima hjá sér um næstu helgi.

12. október 2007

Er vinstri umferð í Reykjavík?

Skoðið þessa myndasýningu. Það er nákvæmlega þetta sem mig hefur langaði til að gera á þeim leiðum sem ég fer dags daglega. Taka myndir og benda á það sem þarf að laga til að auka öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda í Reykjavík.

11. október 2007

Hjólað frahjá Hlemmi.



Að hjóla er góð skemmtun og líka heilsusamlegt, en ekki alltaf það öruggasta. Þá á ég við þegar ekki er gert ráð fyrir hjólandi umferð í gatnakerfi.

Sú leið sem um þessar mundir er vinsæl hjá mér að hjóla heim liggur framhjá Hlemmi. Þá er ég að fara frá vestri til austurs, eða frá vinstri til hægri á myndinni. Leiðin mín er merkt með fjólubláum deplum. Vandamálið er að það er ekki svo auðvelt að komast þessa leið og fara eftir umferðarreglum og hagkvæmnisreglum.

Hluti af leiðinni er bleikari en annar og er það vegna þess að á horni Laugavegar og Snorrabrautar er skilti við gangastéttina sem segir að umferð hjóla sé bönnuð. Auðvitað fer maður ekkert eftir því en það er samt að naga mig og pirra.
Eftir þann ólöglegabút er komð að Hlemmi sjálfum og þar er auðvitað nokkuð um gangandi fólk sem hugsar ekki út í að reiðhjól gætu átt leið framhjá og er því ávallt fyrir.
Aðrar leiðir eru að fara yfir Laugarveginn og beygja til hægri inn Hverfisgötuna (leið merkt grænum punktum á kortinu). En þar tekur ekki betra við. Jú það er smá gangstéttarbleðill vinstramegin við götuna sem nær alla leið, en hann er bara svo mjór að engin leið er að mæta nokkrum manni og síðan þröngar krappar beygjur fyrir horn sem eru mjög varasamar.
Hvað er þá eftir? Jú, hægt væri að fara til baka eftir að búið er að þvera Snorrabrautina á gönguljósum og hjóla inn Njálsgötuna (leið merkt gulum punktum á kortinu). Ekki er hægt að fara beint yfir götuna þar sem grindverk hamla för. En þá er farið í aksturstefnu og reglum nokkurnvegin fylgt. Þessa leið hef ég ekki prófað, því hvaða heilvita maður fer til baka??? Kannski ég prófi hana í dag og kem með komment um þá reynslu.

10. október 2007

Flísar

Fyrst voru teknar flísarna sem voru á veggjunum.



Síðan kom 3 daga þurrktímabil því veggirnir voru blautir


















Eftir þurrktímabilið var borinn grunnur á vegginn og síðan einhverskonar þéttkvoða.



Og þá var loksins hægt að leggja flísar.



En þar með var björninn ekki unninn því bakslag kom á verkið þegar taka átti réttskeiðina (spítuna undan flísunum). Þá losnaði ein flísin og þéttiefnið ásamt grunni kom af veggnum hægra megin. Þá þurfti að grunna og þétta aftur, gaman gaman.
Hér er Elías að skafa allt það lausa í burtu, sem var nú sem betur fer ekki allur veggurinn, en nóg samt.



Og nú er þetta farið að ganga betur. Einn veggur orðinn þakinn flísum og sá næsti vel á veg kominn.

8. október 2007

Fleiri fallegar myndir frá Eskifirði.



Hitt og þetta

Ætlaði varla að trúa mínum eigin augum á leiðinni til vinnu í morgun. Sá hvorki fleiri né færri en 11 aðra hjólarar. Það er töluverður fjöldi á þessum árstíma og miðað við síðustu viku, bara ansi hreint margir. Það var örlítið frosthéla hér og þar á stígunum á leiðinni en sem betur fer engin óhöpp.

Til ykkar íslenskusénía. Af hverju segir maður "fraus" en ekki "frostnaði" ?
Dæmi: Það fraus í nótt.

Flísalagnir í sturtunni eru farnar að ganga ágætlega eftir afleita byrjun. Næstum einn heill veggur orðinn flísalagður og líklegast (vonandi) verður hægt að byrja á þeim næsta í kvöld.
Þetta hófst allt fyrir rúmri viku þegar flísarnar sem fyrir voru voru rifnar niður. Þá kom í ljós að veggirnir voru gegnsósa af vatni frá c.a mittishæð og niðurúr. Það tók 3 sólarhringa að þurrka veggina nægilega mikið til að hægt væri að grunna og mála á þá þéttiefni einhverskonar. Síðan voru fleiri þvælur og vesen sem drógu verkið aftur næstum á byrjunarreit.
En eins og sagði í upphafi þá er þetta loksins farið að ganga betur.

1. október 2007

Nóg að gera um helgina.

Fór í kórferðalag austur á land á laugardagsmorgun. Flogið til Egilsstaða og þaðan farið beint að skoða Kárahnjúkavirkjunina. Landslagið þarna er hrikalegt og fallegt í senn. En ekki skil ég hvernig starfsmenn og fjölskyldur þeirra hafa farið að því að halda geðheilsu þarna uppi á veturnar. Vinnubúðirnar eru á afskaplega hráslagalegu og drungalegu svæði. Myndin er af stærstu stíflunni af þremur. Kárahnjúkurinn sjálfur er til vinstri á myndinni og glöggir menn sjá tröllkerlingu sem hefur dagað uppi á leið í hellinn sinn.

Eftir að hafa séð bæði stíflurnar og stöðvarhúsið (fengum harðkúluhatta og skærgul vesti og skrifuðum undir að við værum þarna á okkar eigin ábyrgð) var farið aftur á Egilsstaði til að sækja nokkar kórfélaga sem komu með seinna flugi. Og síðan var ekið sem leið lá á Eskifjörð og að sjálfsögðu farið beint í kirkjuna til að prófa hljóminn og ýmislegt.
Þaðan var farið á Neskaupsstað þar sem kórstjórinn býr og bauð hann í kvöldmat. Það var ekið yfir Oddskarð í svarta þoku og mikill léttir að koma inn í göngin, sem eru einbreið en vel upplýst.
Kvöldið endaði síðan með akstri til baka yfir á Eskifjörð þar sem hluti kórsins svaf á gistiheimili.
Í gærmorgun vökuðum við í blíðskaparveðri. Sólin skein og umhverfið var töfrandi fagurt. Seinni myndin er af Eskifirði, tekin frá gistiheimilinu sem er rétt fyrir utan bæinn.
Þann daginn var sungið við messu og svo tónleikar.
Á meðan á þessu stóð hjá mér var Elías heima að rífa flísarnar af sturtuveggjum og gólfi. Þá kom í ljós að veggir og gólf voru gegnsósa af vatni og er verið að þurrka það upp núna áður en hægt verður að leggja nýtt lag af flísum þar á. Því fylgir raki og lykt sem hvorutveggja er fremur hvimleitt, en vonandi tekur það ekki of langan tíma.

29. september 2007

27. september 2007

Rífandi gangur.

Mikil aukning í innlitum á bloggið mitt síðan ruslpóstbloggið var sett inn. Vanalega 2-5 innlit á dag en er komin með tæp 40 innlit á 3 dögum! Það er þreföldun á innlitum.

Gætu orðin "viagra" og "penis" haft eitthvað með þetta að gera? Ja, maður bara svona spyr.

24. september 2007

Ruslpóstur gerir hann upp á milli kynja?

Hi Bjarney did you ever ask yourself is my penis big enough...

Svona hljómaði upphaf af ruslpósti sem ég fékk um daginn. Svo fæ ég af og til tilboð um viagra á góðum prís.

Er þetta nafnið mitt eða fá allir svona póst? (Þið vitið Barney - Bjarney)

Það var misskilningur í gamladaga þegar ég fór til systranna á Stykkishólmi eitt sumarið þannig að þær héldu að ég væri strákur og höfðu gert ráð fyrir mér sem strák. Var bara að velta fyrir mér hvort ruslpóstútsendarar væru að gera þessi sömu mistök.

19. september 2007

Verðmerkingar


Heyrði viðtal við formann félags verslunarrekenda á Akureyri (hann var titlaður eitthvað á þá leið). Verið var að velta fyrir sér verðmerkingum í búðargluggum á Íslandi og þá aðallega afhverju þær vanti á mörgum stöðum.

Taldi formaðurinn aðal ástæðu þess að verslanir verðmerktu ekki í búðargluggum væri sú trú að með því næðist að lokka fólk inn í búðina til að forvitnast um verðið.

Þetta finnst mér vera algjörlega út í hött. Þá sjaldan að ég fer í búðarráp þá yfirleitt sneiði ég framhjá þessum búðum einfaldlega vegna þess að í mínum kolli eru þetta dýrubúðirnar (og þá á ég við þessar rándýru með peysur sem kosta frá 15 þús).

Það hefur komið fyrir að ég í forvitni álpast inn í eina og eina óverðmerktabúð og þá er það yfirleitt eingöngu til að staðfesta þessa trú hjá mér.

Hvað finnst ykkur, hafið þið þessa tilfinningu líka með óverðmerktubúðirnar?

13. september 2007

Ísland - Norður Írland


Af því að ég trúi á og treysti okkar frábæru veðurfræðingum þá hjólaði ég ekki í vinnuna í gær sem leiddi til þess að ég tók strætó heim kl. 16.

Á biðstöðinni var allt krökkt af norður Írum sem voru meira en lítið í góðu skapi. Höfðu greinilega farið á pöbbinn og skemmt sér þar í nokkurn tíma, allavega nokkrir þeirra. Og það vildi ekki betur til en svo að þeir tóku sama vagn og ég. Og alla leiðina frá Lækjartorgi að Laugardalslaug (og strætó fer auðvitað ekki beinustu leið) sungu þeir stuðningslög og voru með kvatningarhróp. Það fól meðal annars í sér hopp, að standa upp, klappa saman lófum og berja í rúður.

Það má samt ekki misskilja það þannig að þeir hafi verið með skrílslæti beinlínis þ.e. þeir voru ekki að ógna okkur fáu íslensku hræðum sem voru í vagninum. Heldur var stemmingin hjá þeim svona gífurleg fyrir leikinn. Ég stóðst ekki mátið og tók upp svolítið af söngnum hjá þeim. En því miður hef ég ekki þá tækni að geta tekið upptökuna úr símanum mínum og sett inn hér, en áhugasamir geta haft samband og þá er aldrei að vita nema ég leyfi einum og einum að heyra.

2. september 2007

Skagaströnd

Ein lagði kerling af stað á vit ævintýranna. Það var snemma morguns og nóttin hafði verið óróleg af völdum tilhlökkunar og kvíða því kerling hafði aldrei áður tekið sér sambærilegt ferðalag á hendur.

Nauðsynjum hafði verið pakkað daginn áður fyrir þriggja daga ferð. Aldrei þessu vant var ekki ofpakkað af aukafatnaði eða mat en það var af illri nauðsyn frekar er vilja. Hún kom töskunum tveimur, bakpoka og hliðartösku fyrir á farskjóta sínum. Bakpokinn í körfuna og hliðartaskan á bögglaberann og síðan hjólaði hún af stað.

Fyrsti hluti ferðarinnar var vel þekktur, um 5 km leið að umferðarmiðstöðinni þar sem langferðabíll tæki við kerlingu ef hún aðeins reiddi fram fé í óhóflegu magni – að því henni fannst. Kerling hafði hjólað þá leið oft og mörgum sinnum.

Að sjálfsögðu var hún mætt vel snemma til öryggis og þurfti að bíða nokkra stund áður en rétti langferðabíllinn birtist. En þegar hann loksins gerði það var bílstjórinn svo vænn að koma farskjóta hennar fyrir í farangursrými bifreiðarinnar og inn fór kerling og fann sér sæti. Fljótlega hófst annar hluti ferðarinnar en það var 4 klst ferð um landið ekið eftir þjóðvegi eitt að mestu með stoppum á um klst. fresti. Kerlingu leiddist ferðin ekki enda hafði hún bæði með sér SuDoKu bók og lesefni til að stytta stundirnar.

Á Blönduósi fór kerling út og tók farskjótann með sér því lengri átti ferðin ekki að vera með bifreið. Hefst hér þriðji og síðasti hluti ferðarinnar þann daginn. Eftir að hafa símað til þeirra sem biðu og þeirra sem skildir voru eftir var enn lagt af stað og nú á fáknum fríða. Fyrst var farið um 1 km leið meðfram þjóðvegi eitt, ekki langur spotti en að mestu upp í móti. Síðan tók við 21 km leið um svo til ókannaðar slóðir. Auðvitað hafði kerling farið þennan spota áður en aldrei á þessu farartæki. Gæti hún þetta? Hvað var hún búin að koma sér í? Enn og aftur lagði hún af stað með kvíða og tilhlökkun sem ferðafélaga.

Veðrið var fínt. Hitastigið mátulegt fyrir svona ferðalag, aðeins mótvindur en ekkert til að hafa áhyggjur af. Áætlaður ferðatími var einn og hálfur til tveir klukkutímar. Hafði þeim sem biðu verið gefin fyrirmæli um að leyfilegt væri að hafa áhyggjur ef kerling væri ekki komin á leiðarenda eftir tvær klst.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel að mestu leiti. Á leiðinni voru bæði langar og stuttar brekkur og þær lágu bæði upp og niður. Umhverfið var fagurt en kerling hefur nýlega uppgötvað einmitt hversu fagurt þetta land er sem hún býr á. Fyrstu 5 km voru erfiðastir en eftir það var fannst henni hún vera komin að mestu yfir mæði og þreytu í vöðvum.

Umferðin um veginn var meiri en hún hafði búist við. Í eitt skiptið þegar stór bíll kom á móti feykti vindurinn sem honum fylgir suðandi flugu í eyra kerlingar og festist hún í eyrnablöðkunni (ekki í hlustinni) og suðaði þar. Kerlingu brá mikið við þetta og var næstum dottin af reiðskjótanum en náði einhvern veginn að halda jafnvæginu og losa sig við fluguna.

Um miðja vegu tók hún sér smávægilega hvíld og fór út í vegkant. Tími var kominn til að gæða sér á nesti. Ummm þetta var yndislegt. Því hvað er betra en að sitja í okkar fallegu náttúru í fínu veðri? Eftir að hafa snætt örlítið af harðfiski, nokkra súkkulaðibita og drukkið hreint og gott vatn var kominn tími til að halda ferðinni áfram. Var kerlingu litið upp í hlíðina fyrir ofan sig og sér þar hóp af nautgripum sem standa í hnapp og stara öll á hana. Hún hlær með sjálfri sér að forvitni þeirra og fer að taka saman dótið sitt. Sér hún þá útundan sér að dýrin eru komin á hreyfingu og eru greinilega á leiðinni niður hlíðina í átt að henni. Hún er ekki alveg viss um að henni lítist svo vel á þetta lengur og fer aðeins að flýta sér með fráganginn og kemur sér upp á veg. Það er aðeins lítil ræfilsleg girðing sem skilur á milli hennar og þessara stóru klaufdýra. Um leið og kerling stígur upp á fák sinn eru fyrstu dýrin komin niður að girðingu og um leið og hún stígur pedalana fara dýrin að hlaupa og hún biður í hljóði að girðingin haldi. En engin ástæða var fyrir þessum áhyggjum þvi dýrin eltu eingöngu eins langt og girðingin leyfði.

Við Höskuldsstaði lenti kerling í hremmingum og þurfti að takast á við hræðslu sem hefur hrjáð hana frá barnæsku. Fyrst heyrist hundgá og síðan koma tveir svartir grimmilegir hundar hlaupandi niður eftir heimreiðinni. Hjartað fór á fullt, allir vöðvar spenntust upp og það eina sem komst að í kolli kerlu var að stíga pedalana eins hratt og líkaminn leyfði bara ef hún gæti losnað við þennan ófögnuð. Einungis annar hundurinn elti - eða hljóp með er réttara að segja því hann var við hliðina á hjólinu geltandi og beraði sínar beittu tennur. Að lokum gafst óargadýrið upp og yfirgaf kerlu og hjólfák hennar. Dálitlum spöl seinna taldi kerling sér vera óhætt að stoppa örlitla stund og jafna sig á þessari óþægilegu lífsreynslu.

Að lokum komst hún á leiðarenda. Henni fannst það dásamleg tilfinning að hjóla inn í litla bæinn og hitta þá sem biðu. Sæl og ánægð með að hafa látið gamlan draum rætast um að fara um langan veg á uppáhaldsfarartækinu. Þessum hluta ferðalagsins var lokið en við tók yndislegur og skemmtilegur tími. Móttökurnar voru að venju góðar og það sem eftir var degi var kjaftað, púslað, prjónað og fleira sem kerling og hennar gestgjafi hafa mjög gaman að. Prinsinn á heimilinu vék úr rúmi fyrir kerlu sem kunni vel að meta þægindin og svaf eins og engill sem var gott því næsti dagur beið með ný og spennandi ævintýri.

30. ágúst 2007

Uppskera



Tók upp kartöflur í dag.


Setti niður 11 kartöflur í vor. Uppskeran í dag taldist 71 stk. Þar af 11 grænar (kannski nýtt afbrygði) og 28 sem flokkast undir smælki.
Verð að viðurkenna að ég bjóst við meiri uppskeru, en þetta ætti að duga í 2 soðningar plús svo smælkið sem ætlunin er að sjóða í stutta stund og steikja síðan upp úr smjöri. Nammi-namm.

21. ágúst 2007

Eitt hræðilegt augnablik.


Mætti í vinnuna í gær eftir 2 og 1/2 vikna frí. Svo sem allt við það sama. Nema hvað að í eitt hræðilegt augnablik mundi ég ekki lykilorðið í tölvuna hjá mér.

Og hvað er maður án aðgangs að tölvunni?

Svo til öll vinnan fer fram í tölvu. Maður er næstum handalaus án hennar. En sem betur fer varði þetta ástand ekki lengi og lykilorðið læddist inn í huga minn og allt varð gott aftur.

9. ágúst 2007

Dagbækur

Ég hef haldið dagbók síðan ég var 9 ára. Svona var fyrsta færslan mín:

"Það er ekkert mjög gaman í dag mánudaginn 25 febrúar 1980 ég kelmdi mig á vísifingri og það var mjög sárt ég klemdi mig á bíl hurðini klukkan hálf ellefu. ég var að fara til þórhalls að sækja hann. pabbi og mamma Daði og ég
mamma sat undir mér alla leiðina heim og pabbi hélt á mér alla leiðina inn ég er 9 ára og 30 kíló. ég hef líka áður klemt mig á þumalfingrinumm í firra eða hitti firra þá klemdi ég mig á hægri hendini en núna á vinstri enn ég vona að ég klemmi mig ekki aftur."

Fyrstu dagbókina fékk ég líklegast í afmælisgjöf. Hún er klædd gallaefni, með vasa framaná og læst með lás. En lykillinn týndist einhverntíman svo ég endaði með því að klippa í sundur efnið sem hélt henni saman.

Síðan þá hef ég alltaf haldið dagbók. Þó ekki frá degi til dags, heldur bara svona þegar mig langar að skrifa. Ég hef notað bækurnar þegar ég er í leiðu skapi til að úthella sorgum mínum og létta á mér þegar illa hefur legið á mér. En líka til að segja frá skemmtilegum upplifunum og atvikum. Stundum gramsa ég til að finna gamla bók og les yfir gamla færslu. En bókina frá tímabilinu 15-17 ára hef ég ekki getað lesið. Þar er svo til ekkert nema sjálfsvorkun og geglgjuskrif. Ojbara. Kannski á ég eftir að fá meiri húmor fyrir sjálfri mér seinna og get þá lesið þetta.

Ég hlakka mikið til þegar ég eignast draumahúsið mitt því þá ætla ég að fá mér kistur til að setja þessar bækur í og fleiri gull. Í húsinu verður háaloft og þar verða kisturnar og allskonar skemmtilegir hlutir og hægt verður að gleyma sér við að skoða og gramsa.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...