27. mars 2007

Tónleikar sem enginn má missa af.




Kór Áskirkju flytur Jóhannesarpassíu J.S.Bach, BWv 245, í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Flytjendur eru Kór Áskirkju ásamt kammersveit
– konsertmeistari Hjörleifur Valsson.
einsöngvarar Ágúst Ólafsson barítón, Bergþór Pálsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Jóhanna Ósk Valsdóttir, messósópran.
Stjórnandi er Kári Þormar

Tónleikarnir hefjast kl: 17. báða dagana.

Miðaverð kr. 3.000.
Forsala er hjá 12 Tónum og kirkjuverði í Áskirkju.

Kór Áskirkju hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2001 þegar Kári Þormar tók við starfi organista og kórstjóra í Áskirkju.
Kórinn hefur haldið fjölda tónleika, aðalega í Áskirkju en einnig komið fram á sumartónleikum í Mývatnssveit og í Akureyrarkirkju. Síðastliðinn vetur hélt Kór Áskirkju ásamt Hljómeyki, tónleika á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju þar sem kórarnir frumfluttu hér á landi messu í G – dúr eftir Francis Poulenc og hlutu mikið lof gagnrýnanda fyrir flutningin en verkið þykir meðal kröfuhörðustu kórverka.
Árið 2004 hljóðritaði kórinn diskinn Það er óskaland íslenskt, en sá diskur hlaut einróma lof gagnrýnenda og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2004.
Kór Áskirkju hefur mest fengist við a-capella tónlist en einnig kórverk fyrir hljómsveit og kór, svo sem: Messu eftir Mozart í B- dúr KV 275 – Gloriu Vivaldi og Jólaóratoríu eftir Saint Saens.

Nú ætlar kórinn, í rökréttu og metnaðarfullu framhaldi af því sem undan er gengið, að flytja eitt af stórvirkjum kirkjutónbókmenntanna, Jóhannesarpassíu J.S. Bach í Fossvogskirkju á Skírdag 5. apríl og Föstudaginn langa 6. apríl.
Kór Áskirkju fær til liðs við sig 18 manna kammersveit undir forystu Hjörleifs Valssonar, og einsöngvarana Ágúst Ólafson, Bergþór Pálsson, Eyjólf Eyjólfsson, Gunnar Guðbjörnsson, Jóhönnu Ósk Valsdóttur og Hallveigu Rúnarsdóttur.

23. mars 2007

Meira leikjanet.is


Rakst á enn einn frábærann leikinn á Leikjanet.is. Hann heitir Planarity.
Það sem á að gera hér er að raða bláu-punktunum þannig upp að línurnar á milli þeirra skerast ekki. Þetta hefst svona einfalt eins og á meðfygljandi mynd, en verður fljótlega töluvert snúnara.
Minnir helst á þegar leyst er úr garnaflækju. Virkar á stundum ómögulegt en er svo ótrúlega gaman þegar vel tekst til.
Áhugasömum bent á að smella á nafn leiksins hér að ofan og prófa sjálfir.

21. mars 2007

Ó MÆ GOD

Skattskýrslan maður, ég steingleymdi henni.

Úbbs, best að kíkja á þetta í dag eftir vinnu.

Ætlaði svo mikið að klára hana um helgina.

Sætuefnið Aspartam


Það er nú svo að mín tilfinning er að sætuefni séu ekki eins frábær og menn hafa haldið. Og þegar maður hefur svona tilfinningu þá er ánægjulegt að fá staðfestingu á því frá fræðingum.

Rakst á grein í gær um skaðsemi sætuefnisins Aspartam. Greinin er skrifuð af manni sem hefur menntatitilinn Osteópati, B.Sc. (hons), hvað sem það nú táknar. Og þið getið nálgast hana hér.

Það dregur örlítið úr ánægjunni hversu mikil áhersla er lögð á samsæriskenningu og finnst mér það jafnvel draga úr trúverðugleika þess sem verið er að fjalla um. Það er eitthvað við samsæriskenningar, bæði geta þær verið mjög spennandi en líka eitthvað svo klikk.

Á vísindavef Háskóla Íslands er eftirfarandi spurningu svarað: "Hvaða skaðleg áhrif hefur sætuefnið aspartam á líkamann?" Í svarinu kemur fram að ekki hafi verið sýnt fram á skaðsemi efnisins. Menn hafi verið látnir drekka 12-30 gosflöskur með efninu í, en ekki hafi komið annað fram en höfuðverkur hjá sumum. En samt er tekið fram að ekki sé vitað um langtímaáhrif neyslu á efninu. Sá sem svarar er prófessor í læknisfræði við HÍ.

Eftir lestur greinarinnar hef ég farið að lesa utan á umbúðir eins og t.d. á tyggjóinu sem ég japla og oftar en ekki er þetta Aspartam í þessum vörum. Hmmm, á maður eitthvað að fara að spekúlegar í þessu nánar???

Enn einn texta fann ég sem segir svo til það saman og prófessorinn, bara ekki eins formlega sett fram (smellið hér til að sjá). Þar hafa menn svo sett inn komment og er eitt þeira bara svo fyndið að ég smelli því hér í lokin hjá mér (samsæriskenning í sínu ýktasta formi)

"Getu þú bent mér á "allar þessar rannsóknir" eða ertu að endurtaka eitthvað sem að þú "last á internetinu". Vissuð þið líka að Rumsfeld kom því gegn að allt drykkjarvatn er flúortbætt til þess losa sig við byrgðir af flúor sem hann vissi ekki hvað hann átti að gera við, einnig er það við flúor að hann brýtur niður sjálfsvilja okkar og lætur okkur vera undirgefin núverandi BNA stjórn, það var einnig lítil kjarnorkusprengja sem að grandaði tvíburaturnunum og frímurararnir vissu af þessu og settu leynileg skilaboð á dollarann þar sem (ef að þú brýtur hann rétt samann) þú sérð turnana falla."

20. mars 2007

Kynleg vandræði

Þar sem ég er nú alin upp af henni mömmu minni þá blundar í mér kvenréttindaeitthvað og á ég það til að móðgast ógurlega til handa mínu kyni þegar á það er hallað.

En um daginn heyrði ég viðtal við háskólamann í útvarpinu og sem talaði um að í máli og ræðu væri það í raun karlkynið sem á væri hallað. Þannig er að kvenkyn í tungumálinu er nýjasta kynið. Áður var til samkyn (allt lifandi) og hvorukyn (dauðir hlutir).

Í tungumálinu í dag eru ýmis orð sem eingöngu eiga við kvenkyn, en karlmenn sitja eftir í samkyninu og eiga ekki sín eigin orð sem eingöngu vísa til þeirra sem karlkyns. Tekin voru dæmi um orð eins og "sá", "hann", "þeir", "allir".

Dæmi: "Sá hlær best sem síðast hlær" hér getur hvort sem er verið að tala um karlmenn sem kvenmenn og "Þeir sem hlustuðu... " er dæmi um það saman.

Og nú er svo komið að frásagnir geta orðið til vandræða því ekki vill maður alltaf vera að skrifa hann/hún, þeir/þær þ.e.a.s. báðr kynmyndirnar því það er bara kjánalegt. Eru karlmenn ekki sármóðgaðir yfir þessu?

Áhugasömum er bent á Víðsjá á Rás1 mánudaginn 12. mars sl.

15. mars 2007

Pöntun á vöru í síma.

Fyrirtæki: Fyrirtækið góðan dag.
Ég: Góðan dag. Bjarney heiti ég hringi frá Fyrirtækinu-sem-ég-vinn-hjá, ég ætla að panta hjá ykkur.
Fyrirtæki: Já, sæl. ...


Og nú spyr ég, hvað meinar viðkomandi þegar hann segir "sæl"? Man hann eftir mér frá því ég pantaði síðast og finnst gaman að heyra í mér aftur?
Þetta virðist vera það nýjasta í símsvörun og móttöku pantana núna.

Persónulega nota ég þetta orð ekki nema ég þekki viðkomandi eða er farin að kannast ágætlega við hann. Mér finnst pínu skrítið að nota þetta við hvern sem er.
Fyrst hélt ég að mín fötlun við að muna eftir fólki væri sökudólgurinn og remdist við að átta mig á hvern ég væri að tala við, en er nú komin á það að þetta sé almennt notað hvort sem viðkomandi man eftir mér eða ekki.

6. mars 2007

Óhreinn þvottur - hreinn þvottur.

Undur og stórmerki gerðust í gær þegar við keyptum okkur þurrkara.

Við eiginlega neyddumst til þess því það hefur ekki verið hægt að hengja upp þvott í þurrkherberginu í 2 vikur vegna klóakfnyks og báðar þvottakörfurnar okkar orðnar yfirfullar. Ekki það að við höfum eitthvað á móti þurrkurum sem slíkum, það hefur bara ekki verið þörf á honum fyrr. En þvílíkt undra tæki. Settum auðvitað prufukeyrslu í gang í gærkvöldi og handklæðin komu svona ljómandi mjúk og mátulega þurr út úr apparatinu eftir rúman klukkutíma.

Og nú verður þvegið maður minn. Þessi elska tekur 7 kg sem ætti að vera u.þ.b. 1 og 1/2 þvottavél. Þannig að 3 vélar á dag þar til allt er orðið hreynt hljómar vel í mín eyru.
Já nú er gaman að þvo.

5. mars 2007

127% hækkun

Aumingja bankinn minn er svo fátækur og illa staddur að hann þarf að hækka Tilkynninga- og greiðslugjald á láninu mínu um 127%! Á greiðsluseðlinum með gjalddaga 1.2.2007 var þetta gjald kr. 225 og er nú á seðlinum 1.3.2007 kr. 510.

Hagnaðurinn á síðast ári var auðvitað ekki nema 85,3 milljarðarkróna (eftir skatt) svo það er skiljanlegt að þetta er nauðsynleg gjaldtaka.

Ég spurðist fyrir í dag hvers vegna þetta væri. Svarið var að þjónustustigið hefði hækkað og þetta væri til að koma til móts við kostnað!!! Þjónustustig hvað???? Algjörlega óskiljanlegt að mínu mati. Mér var einnig sagt að það væri ekki nokkur leið að minnka eða komast hjá þessari gjaldtöku með því t.d. að hætta að fá seðilinn sendann heim og hafa hann bara í heimabankanum eða með einhverjum öðrum ráðum.

Ef það væri ekki svona dýrt að skipta um banka þá mundi ég gera það á stundinni. Svo skilur ríkisstjórnin ekkert í því af hverju menn skipta ekki oftar um banka hér á landi. GÆTI ÞAÐ KANNSKI HAFT EITTHVAÐ AÐ GERA MEÐ STIMPILGJÖLD OG ÞESS HÁTTAR LÁNTÖKUKOSTNAÐ? Ég bara spyr...

Rússnensk auglýsingatækni



Á skiltinu stendur að hann hafi orðið svona brúnn á því að fara á ákveðna sólbaðsstofu og menn kvattir til að prófa sjálfir.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...