15. desember 2008

Piparkökuturninn





Í upphafi baksturs sagði ég sem svo: "Stelpur eigum við ekki bara að gera lítið og sætt piparkökuhús í ár?"

Útkoman varð svo stærsta piparkökuhús sem við höfum nokkurntíman gert.

Til samanburðar er hér mynd af húsinu sem við gerðum í fyrra.

Hrund hannaði piparkökubílinn, kemur skemmtilega út.

13. desember 2008

Snjórinn



Jæja, var að moka snjóinn. Mikið verður allt fallegt klætt hvítum snjó.


Hrund og Brandur fögnuðu próflokum í gær með því að búa til pínulítinn snjókarl. Mér skilst að Brandur hafi nú meira verið í því að veiða hendurnar af karlinum heldur en að hjálpa til, en svona eru kettir.


Hinum árlega piparkökubakstri er lokið og í dag ætlum við að skreyta og setja saman piparkökuhúsið okkar sem er með frekar óvenjulega sniði í ár, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Set inn mynd þegar það er komið saman.
Það fór svo mikið deig í piparkökuhúsið að við ákváðum að hnoða í nýtt deig til að eiga eitthvað af piparkökum til átu líka. Það endaði auðvitað þannig að við erum með allt of mikið af kökum (ef það er hægt).


Það gengur vel að hjóla í snjónum ef frá er talið óhapp sem ég varð fyrir á leiðinni heim um daginn. Þá ætlaði ég að hjóla á götunni eins og ég geri oft, nema hvað að gatan hafði verið söltuð og var snjórinn á henni orðinn n.k. saltpækill - eða drullulitað slabb. Sem betur fer var ekki umferð um götuna því ég gjörsamlega missti stjórn á hjólinu. Mér tókst að halda mér á hjólinu en það svingaði stjórnlaust um götuna og endaði ég á öfugum vegarhelmingi með mikinn hjartslátt og ónotatilfinningu. Af þessu hef ég lært að forðast saltaðar götur og passa mig extra vel þar sem ég þarf að fara yfir götur sem hafa verið saltaðar. Naglarnir hafa greinilega ekkert að segja við þessar aðstæður. Ég endaði á því að hjóla á gangséttinni sem við þessa tilteknu götu er mjög mjó en ég komst heil heim. Það er verst þar sem gangséttin er nálægt götunni og saltslabbið gusast upp á gangséttina en það getur verið mjög varasamt. Ekki datt mér í hug að saltið gæti verið svona hrikalegt.
.
En jólin nálgast og ég ætla mér að gera svakalega margt núna um helgina til að undirbúa jólin. Því eins og venjulega æðir tíminn áfram og einhvernvegin hleypur frá mér. Jólin koma nú samt þó ég hafi aldrei komist alveg yfir allt sem ég ætla mér að gera, en það er líka allt í lagi. Því það sem skiptir máli er ekki hvort búið er að þurrka úr öllum skápum og skúra öll gólf eða annað í þeim dúr.

5. desember 2008

Hitt og þetta og þó mest jólaundirbúningur



Útgáfutónleikarnir tókust vonum framar, full kirkja og góð stemming (diskurinn er til sölu hjá mér).



Svo nú er að fara að undirbúa jólin. Jóladagatalið gengur ekki vel hjá mér í ár. Er einstaklega andlaus eitthvað. Stelpurnar tóku sig til einn daginn og útbjuggu hvor fyrir aðra (án þess að hin vissi af), það kom nokkuð skemmtilega út.



Svo er það piparkökubaksturinn, ætlunin er að hnoða í deigið í dag og baka á morgun, ætli eitt stk hús verði bakað líka (set inn mynd þegar það er komið upp). Þetta er eina smákökusortin sem ég baka fyrir jólin. Aðrar smáköku hafa bara dagað uppi óétnar í fínu kökuboxi, svo það er alveg eins gott að sleppa því að baka þær. Það er svo mikið annarskonar framboð af allskonar sætindum og fíneríi. En ef Bjartur les þetta þá er mjög líklegt að eitt eða tvö kryddbrauð verði bökuð á laugardaginn og hann er velkominn til að taka eitt með sér ef hann kíkir í heimsókn ;)



Mig langar líka svo mikið til að steikja laufabrauð, hef aldrei gert það heima. Það var alltaf hittst í Vogaskóla þegar stelpurnar voru minni og laufabrauð skorið og steikt. En svo var skólaeldhúsið rifið og nokkkur ár tók að byggja nýtt og þessi hefð datt niður. Við söknum þess og því langar mig að spreyta mig á þessu heima. Sjáum til hvort eitthvað verði af því í ár.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...