20. desember 2012

Jólin eru að koma

Skrítið kominn 20. desember og við ekki enn farin að baka piparkökur fyrir jólin.  Nú þegar frumburðurinn er í Háskóla og sú yngri langt komin með menntaskólann og ég að dandalast í tveimur kórum þá er ekki mikill tími aflögu til piparkökugerðar.  Kannski við skellum í kökur og hús um helgina - vonandi því það er bara skrítið að vera ekki með piparkökur um jólin.

Í gærkvöldi söng ég á tvennum jólatónleikum.  Fyrst kl. 20 í Áskirkju og svo kl. 22 í Dómkirkjunni.  Notarleg og hátíðleg stemming á báðum stöðum.  Þó fannst mér toppurinn að syngja "Heims um ból" í lokin í Dómkirkjunni haldandi á logandi kerti og kórinn dreifður um kirkjuna.

Svo hlakka ég til að smakka Írsku-jólakökuna á aðfangadag.  Kakan er bökuð mánuði fyrir jól og vökvuð með brandy í viku áður en marsípan og sykurhjúpur er svo settur yfir hana.  En hér er mynd af kökunni í ár.

9. desember 2012

Leyndarmál

Það kom mér á óvart fyrir 6 vikum hversu erfitt ég átti með að halda leyndarmál sem mér var þá trúað fyrir.  Þannig er að kór Áskirkju var að undirbúa og æfa Messias eftir Handel sem flytja átti í Hörpu 5. og 6. desember.  En á æfingu fyrir ca. 6 vikum var okkur sagt að við þyrftum að læra Halleluja kórinn utanbókar því við mundum taka þá í gjörningi (svo kallað flash mob) í Kringlunni þann 7. desember.
Þetta er hugmynd frá Sinfóníuhljómsveit Íslands að nokkurskonar jólakorti frá þeim.
En við máttum ekki segja neinum frá því það átti ekki að fréttast út því þá væri tilgangnum ekki náð.  Þetta á að líta út fyrir að vera spontant og eins og að spretta fram af tilvlijun.

Og það var hrikalega erfitt að mega ekki segja öllum frá.  Ég reyndar sprakk á limminu og sagði Elíasi frá, en líka þurfti ég hann til að hjálpa með við að ná stelpunum okkar í Kringluna á þessum tíma svo þær fengju að upplifa þetta með okkur.  Og það tókst.  Ég mætti beint úr vinnunni og Elíasi tókst að draga stelpurnar með (þær eru báðar í próflestri og geta hugsað sér eitthvað meira uppbyggjandi en að fara í Kringluna á föstudegi rétt fyrir jól).  Það leit nú út fyrir að þau næðu ekki í tíma því umferðin var mjög hæg.  Það passaði akkúrat þegar við komum að blómatorginu að kontrabassinn var að byrja að leika fyrstu nóturnar og smám saman tíndust hin hljóðfærin að.

Hér er svo upptaka af þessu:


Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...