18. desember 2021

Hjólað fyrir jól

Desember hófst með kuldakasti. Fyrstu tvær vikurnar var snjór og frost. Svo fór að rigna og veðurspáin sýnir ekki annað en rigningu áfram og spáð er rauðum jólum.

Strava hefur tekið saman skráða hreyfingu á árinum sem er að líða og hér er niðustaðan úr því (tekið saman 17. desember 2021):


Eitthvað smá brot af þessu er labb, en hjólið er mitt aðal samgöngutæki og því er þetta mest hjólreiðar. Ég mun svo gera mína eigin samantekt þegar árið er liðið.

Strava bætti við möguleikanum að skrá hjólaferðina sem samgöngur (commute) á árinu og var ég fyrst voða dugleg að bæta því við, en þar sem svo til allar mínar ferðir eru samgöngur þá fannst mér of mikið vesen að vera alltaf að bæta því við. Vonandi getur maður í framtíðinni haft samgöngur sem aðalval og þá frekar merkt sérstaklega ef ferðin er ekki þannig. 

Hjólið fékk jólaskreytingu í gær. Aðal ástæðan fyrir því er að í vinnuni var efnt til jólaljósagöngu (jólaballið var fellt niður út af covid og úr varð mjög skemmtilegur göngutúr, fundum jólasveina og allt) við Hafravatn og við keyptum okkur rafhlöðudrifin jólaljós til að skreyta okkur með. 

Svo eftir gönguna fannst mér tilvalið að setja eina seríuna á hjólið. Nú eru þessi ljós ekki ætluð til útinotkunar, en ég pakkaði rafhlöðu pakkanum inn í plast og hjólið er ekki haft úti nema í þau skipti sem ég skrepp inn í búð eða slíkt. Vona að ljósin endist allavega fram að jólum. Ljósin virðast allavega kæta aðra vegfarendur því tveir einstaklingar, sem ég þekki ekki neitt, minntust á hvað hjólið væri fallegt og jólalegt og öll fórum við brosandi frá þeim samskiptum.


8. desember 2021

Varð vitni að því í morgun þegar ekið var á hjólandi vegfaranda

Viðkomandi var rétt á undan mér að gatnamótum Skeiðarvogs og Sæbrautar. Ég er appelsínugula örin, sá sem ekið var á er græna örin og bíllinn er bláa örin. Græni var rétt á undan mér að götunni og ekki annað að sjá en að ökumaður bílsins væri að stoppa fyrir þeim græna og ég rétt á eftir velti fyrir mér hvort viðkomandi hleypi mér yfir líka þegar ökumaður tekur af stað og ekur á afturdekkið á hjólinu með þeim afleiðingum að hjólið dettur. Sem betur fer voru allir á lítilli ferð og ekki leit út fyrir að skemmdir eða meiðsli hafi átt sér stað. En slíkt kemur þó oft ekki í ljós fyrr en nokkru seinna.



En hvers vegna gerðist þetta? Það sem ég held að hafi gerst er að ökumaður bílsins hafi alls ekkert verið að stoppa fyrir okkur á hjólunum, heldur verið að fylgjast með hvort bíll væri að koma frá Kleppsmýrarvegi og í raun aldrei athugað hvort einhver væri að fara yfir götuna frá stígnum.

Þessar fráreinar sem hleypa ökumönnum framhjá ljósum eru stórhættulegar fyrir okkur sem ekki ferðumst í bíl. Borgin hefur verið að eyða þeim út (við litla hrifningu margra en við sem hjólum/göngum erum ánægð), en það er samt allt of mikið af þessu ennþá.

4. desember 2021

Hjólað í nóvember 2021

Hjólaði samtals 160 km í mánuðinum þar af 110 til og frá vinnu. Hjólaði 17 af 22 vinnudögum. Tók mér 3 daga í orlof og 2 veikindadaga.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 7 á hjóli, 2 á hlaupahjóli og 12 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 12 á hjóli en fæstir voru 3.

Heildar talning í mánuðinum var: 116 á hjóli, 40 á hlaupahjóli og 211 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum). En kortið hefur lítið breyst frá október þar sem ég hjóla mest alltaf sömu leiðina til og frá vinnu og svo í heimsókn til dóttur.


Það svo ánægjulegt að segja frá því breyting hefur orðið á snjóhreinsun á leiðinni sem ég fer frá því ég skrifaði þessa færslu 20. nóvember sl.: 

Fyrsti snjórinn. Sjóhreinsun á minni leið.

Búturinn sem ég kvarta undna að sé undanskilinn snjóhreinsun hefur nú verið hreinsaður og fær sömu þjónustu og aðrar aðalleiðir. Mjög svo ánægjuleg breyting.

20. nóvember 2021

Fyrsti snjórinn. Sjóhreinsun á minni leið.

Fyrsti almennilegi snjórinn féll aðfararnótt 18. nóvember.

Breytingin sem hefur orðið á stígakerfi og snjóhreinsun frá því ég hóf að hjóla á veturnar árið 2008 (sjá hér) er stórkostleg. Þvílíkar framfarir. Og þegar nýji sóparinn var tekinn í notkun (held fyrir tveimur árum) varð að mér finnst bylting. Ef maður kemst fljótt á aðalstíg þá er ekkert mál að hjóla þó snjór liggi yfir öllu.  

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá hluta af leiðinni sem ég hjóla til vinnu, merkt með svörtum punktum. Þetta er stígur sem liggur samsíða Sæbraut (byrjar efst og endar neðst) og begir svo og fylgir Suðurlandsbraut. Stígurinn samsíða Sæbraut er sameiginlegur stígur gangandi og hjólandi. Frá staðnum þar sem merkt er Mynd 3 eru stígarnir aðskildir. Setti líka 3 fjólubláa depla og þeir tákna ljósastaura sem eru ljóslausir. Sendi athugasemd til borgarinnar og fékk þau svör að ábendingin hafi verið áframsend til Orku Náttúrunnar. Verður áhugavert að sjá hvort eitthvað verði gert, hef ekki góða reynslu af því að senda þeim ábendingar. Fékk á síðasta ári svar frá þeim vegna ábendinga á þá leið að farið væri reglulega um stígana og ljós lagfærð ef þurfa þykir - og svo gerðist ekki neitt í langan tíma (sjá hér). 


Rauð lína liggur frá Skeiðarvogi að þar sem stendur mynd 3. Hún táknar bút af stígnum sem ekki var hreinsaður fyrir kl. 8. En á borgarvefsja.is má sjá áætlun borgarinnar um hreinsun á stígum og þar er þessi leið sett í fyrsta forgang eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.



Mynd 1. Dásamlega vel hreinsaður stígur. Búið að skafa, salta og líklega sópa líka. Allavega ekki snjóarða á stígnum:


Mynd 2. Stígbúturinn sem er litaður rauður á efsta kortinu. Engin snjóhreinsun hefur átt sér stað. Það var samt allt í lagi að hjóla þetta í þetta skiptið þar sem snjórinn er ekki mjög mikill:



Mynd 3. Stígamót. Stígurinn hægra megin vel hreinsaður, stígur vil vinstri ekki hreinsaður. Báðir þessir stígar eru í forgangi og á að vera lokið við hreinsun á þeim kl. 7:30 skv. korti á borgarvefsjá:


Síðasta myndin sýnir að mér finnst metnaðarleysi hjá þeim sem sér um stígahreinsunina. Þetta var svona allsstaðar þar sem göngu og hjólastígarnir lágu nálægt hvort öðrum. Greinilegt var að hjólastígurinn var hreinsaður á undan. Svo þegar farið er að hreinsa gögnustíginn fer snjórönd yfir á hjólastíginn og skemmir fyrir annars frábærri hreinsun:


 

2. nóvember 2021

Hjólað í október 2021

Hjólaði samtals 188 km í mánuðinum þar af 144 til og frá vinnu. Hjólaði 21 af 21 vinnudögum.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 10 á hjóli, 3 á hlaupahjóli og 11 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 19 á hjóli en fæstir voru 2.

Heildar talning í mánuðinum var: 215 á hjóli, 59 á hlaupahjóli og 240 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum)


23. október 2021

Hjólatalning - tölfræðin mín

 Ég á í excel-skjali hjá mér talningu á þeim sem hjóla á morgnana þegar ég hjóla til vinnu frá árinu 2010.

Fyrir þann tíma skráði ég ekki talninguna. Út frá þessum tölum er ég með meðaltal á því hveru marga ég sé á hjóli á dag í hverjum mánuði. Mér finnst gaman að skoða þessar tölur og því deili ég þeim hér.

Árin 2018 - 2020 var ekki talning af persónulegum ástæðum en talning er hafin aftur og þó leiðin sem ég hjóla sé ekki sú sama og áður og vegalengdin örlítið styttri, þá tel ég þær tölur alveg samanburðarhæfar.

Hér hef ég sett upp í línurit fyrir hvert ár fyrir sig.


Og hér er árið 2021 það sem komið er. Athugið að október er ekki búinn og því gæti talan breyst eitthvað og af því það er október þá er engin talning í nóvember og desember.


Aðeins rýnt í tölurnar:

Í maí á hverju ári er átakið Hjólað í vinnuna og hefur það augljós áhrif á fjölda hjólandi. 

Ég mundi giska á að árin 2011 og 2017 hafi vorið verið kalt því talningin fram að maí er mjög svipuð en tekur svo stökk. 

Júlí er líklega vinsæll orlofsmánuður því talan á það til að detta niður þá.

Ég er spennt að sjá hvernig talningin í nóvember og desember kemur út í ár því 2016 og 2017 eru fleiri að hjóla allt árið þar sem talningin minnkar ekki mikið þá mánuði, eins og árin á undan. Ætli það verði eins núna?

Nýtt:

Í ár hef ég bætt við talningu á gangandi og hlaupahjólum/rafskútum og hér eru meðaltalstölur fyrir hvern ferðamáta eftir mánuðum. Sami fyrirvari og áður með október sem enn er vika eftir af.



2. október 2021

Hjólað í september 2021

Hjólaði samtals 291 km í mánuðinum þar af 155 til og frá vinnu. Hjólaði 22 af 22 vinnudögum.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 12 á hjóli, 3 á hlaupahjóli og 15 gangandi.
Fjóldamet mánaðrins er 21 á hjóli en fæstir voru 4.

Heildar talning í mánuðinum var: 256 á hjóli, 60 á hlaupahjóli og 319 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum)



Nagladekkin fóru undir hjólið 23. september og það mátti varla seinna vera því nokkra morgna eftir það hefur verið ísing á stígum.

Hér má sjá skáningu september mánaðar:




1. september 2021

Hjólað í ágúst 2021

Hjólaði samtals 232 km í mánuðinum þar af 105 til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 21 vinnudögum, var í orlofi þá daga sem vantar uppá. 

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 16 á hjóli, 4 á hlaupahjóli og 15 gangandi.

Heildar talning í mánuðinum var: 233 á hjóli, 63 á hlaupahjóli og 223 gangandi.

Og svona lítur hitakortið mitt út (sleppi slaufunni upp að Gljúfrasteini frá í sumar, hægt að sjá hana í fyrri færslum)




Það skemmtilegasta sem gerðist í þessum mánuði er að ég keypti mér nýtt hjól. Mig hefur í nokkurn tíma dreymt um að eiga svokallað nytjahjól. Og ég skoðaði og prófaði tvö. Eitt Kristjaníju hjól á þremur dekkjum sem var notað en í mjög góðu ástandi og svo annað glænýtt á tveimur dekkjum. Bæði hjólin voru með rafmótor. Ég féll strax fyrir nýja hjólinu, það er ótrúlega meðfærilegt. Danska hjólið fannst mér skrítið að hjóla á, en það var meira en helmingi ódýrara en nýja hjólið svo eftir svolítinn umhugsunartíma var ákveðið að bjóða í það - ég hlyti að geta vanist því hugsaði ég. En þá var það selt.
Svo ég reyndi að sannfæra mig um að ég þyrfti ekkert svona hjól... það væri mesta vitleysa að vera láta sig dreyma um þetta. Og tvær vikur liðu, en mér gekk ekkert að taka hugann af hjólinu og líklega hjálpaði ekki til að ég hjóla framhjá búðinni á hverjum degi þar sem því var stillt út í glugga. Og til að gera langa sögu stutta þá var farið í búðina og hjólið keypt og ég get sagt ykkur að þetta bara svo skemmtilegt. Ömmu krútti finnst alls ekki leiðinlegt að sitja í og mér finnst súper gaman að hjóla á því.






1. ágúst 2021

Hjólað í júlí 2021

Hjólaði samtals 266 km í mánuðinum þar af 62 til og frá vinnu. Hjólaði 9 af 22 vinnudögum, var í orlofi þá daga sem vantar uppá. 

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 10 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 11 gangandi.

Heildar talning í mánuðinum var: 91 á hjóli, 12 á hlaupahjóli og 102 gangandi.


Hér má sjá hvernig "hitakortið" stendur eftir mánuðinn.



Fór í nokkra hjólatúra og þessi stendur algjörlega uppúr:


Þarna hjólaði ég með pabba og Logan upp að Gljúfrasteini. Við heimsóttum Halldór Laxness og Guðnýju (skoðuðum sem sagt safnið) og röltum eftir það niður að ánni og snæddum nesti. Tókum síðan lengri leiðina heim.



Hér er líka skemmtilegur hjólatúr sem ég fór með Eyrúnu og Logan. Reyndar var útsýnið ekkert þar sem þoka og líklega gosmóða lá yfir öllu. Meira að segja Esjan var hulin og eins og hún væri bara ekki á sínum stað.


Á þessari mynd ætti Gróttuviti að sjást en hann var líka hulinn þokumóðu:



1. júlí 2021

Hjólað í júní 2021

Hjólaði samtals 242 km í mánuðinum þar af 127 til og frá vinnu. Hjólaði 18 af 21 vinnudögum. 

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 13 á hjóli, 3 á hlaupahjóli og 11 gangandi.

Heildar talning í mánuðinum var: 241 á hjóli, 58 á hlaupahjóli og 192 gangandi.


Hitakortið mitt á Strava lítur svona út núna:



Í eitt skipti fór í ég hjólatúr um hverfið með það að markmiði að bæta línum á kortið. Mig langði út að hjóla, nennti ekki langt og þetta er útkoman:



Nokkrum sinnum hef ég sótt ömmustrákinn á leikskólann og oft notum við tækifærið og stoppum einhversstaðar á leiðinni til að gæða okkur á t.d. rúsínum eins og á þessari mynd og skoða líf, gróður og umhverfið almennt. Ómetanlegur tími sem við fáum þarna saman.



Svo prófaði ég glænýjan stíg í mánuðinum sem verið er að vinna við. Hann er í Grafarvoginum utanverðum. Það var búið að malbika allan stíginn þegar ég fór um hann en greinilega eftir að fínpússa og ganga frá. En flottur stígur og fallegt umhverfi. Léttir líka leiðina ef ætlunin er að fara í Skemmtigarðinn t.d. því maður losnar við töluverða brekku.














4. júní 2021

Hjólað í maí 2021

 Hjólaði samtals 257 km í mánuðinum þar af 135 til og frá vinnu. Hjólaði 18 af 19 vinnudögum. 

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 20 á hjóli, 4 á hlaupahjóli og 11 gangandi.

Heildar talning í mánuðinum var: 361 á hjóli, 65 á hlaupahjóli og 202 gangandi.

Þetta er töluverð aukning í fjölda hjólandi og þeirra sem ferðast á hlaupahjóli, en mjög svipaður fjöldi gangandi og í síðasta mánuði. Átakið Hjólað í vinnuna stóð yfir tímabilðið 5. maí til og með 25. maí. Veðrið hafði leikið við höfuðborgarsvæðið alveg frá 26. apríl og þá strax varð töluverð fjölgun á fólki á stígunum og enn bætti í þegar átakið hófst.

Nokkrum línum bætt við hitakortið á Strava í mánuðinum, það er gaman að því.




1. maí 2021

Hjólað og labbað í apríl

Hjólaði samtals 187 km í mánuðinum þar af 88 til og frá vinnu. Hjólaði 13 af 18 vinnudögum. Hjólið fór á verkstæði eftir vinnu 13. apríl. Þá voru nagladekkin tekin undan því og sumardekkin undir og almenn yfirferð. Fékk nýja bremsuklossa og smurningu og stillingu á gírum og svona almennt viðhald. Svo á meðan hjólið var í viðgerð labbaði ég í vinnuna, fyrir utan einn dag sem ég var á bíl. Tvo daga eftir að hjólið kom af verkstæðinu var snjóföl og möguleiki á hálku svo ég skildi hjólið eftir heima og labbaði.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði eða labbaði til vinnu): 11 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 13 gangandi.
Heildar talning í mánuðinum var: 188 á hjóli, 22 á hlaupahjóli og 213 gangandi.

Þeim fer ört fjölgandi sem eru í talningahópnum mínum og síðustu vikuna í apríl var mikil aukning enda er vor í lofti og sólin hefur verið að sýna sig.

Hitakortið í Strava heldur áfram að stækka og mér finnst ákaflega gaman að bæta línum við það.



1. apríl 2021

Hjólað í mars

Hjólaði samtals 157 km í mánuðinum þar af 121 til og frá vinnu. Hjólaði 18 af 23 vinnudögum. Byrjaði mánuðinn að jafna mig eftir veikindi og missti því út heila viku sem er leiðinlegt, en lítið við að gera.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 8 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 9 gangandi.
Heildar talning í mánuðinum var: 150 á hjóli, 11 á hlaupahjóli og 157 gangandi.

Veðrið í mars var almennt gott. Komu nokkrir ansi kaldir dagar en það er nú eðlilegt í mars.Varla sást snjór og ekki mikil úrkoma.

Hitakortið á Strava hefur ekki mikið breyst frá síðasta mánuði. Leiðin til og frá vinnu orðin skarpari af því það hjóla ég oftast.Hef enn ekki farið út fyrir höfuðborgarsvæðið, enda er ég lang mest í samgönguhjólreiðum og hjólið mitt er borgarhjól og hentar ekkert sérlega vel utan malbiks.


Svo til gamans er hér samanburður á talningum mínum á 10 ára tímabili.
Til útskýringar þá vann ég áður niður í miðbæ og hjólaði u.þ.b. 5 km til og frá vinnu. Í dag hjóla ég u.þ.b. 4 km til vinnu. Ég er að hjóla á svipuðum tíma og mæti til vinnu kl. 8. Árið 2019 vantar í samaburðinn en það ár voru ekki talningar.


6. mars 2021

Hjólað í febrúar

Hjólaði samtals 154 km í mánuðinum þar af 104 til og frá vinnu. Hjólaði 16 af 20 vinnudögum. Endaði mánuðinn í veikindum og missti því út næstum heila viku sem var mikið svekkelsi.

Sá að meðaltali á dag (þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 6 á hjóli, engann á hlaupahjóli og 10 gangandi.
Heildar talning í mánuðinum var: 96 á hjóli, 4 á hlaupahjóli og 146 gangandi.

Nú er komin smá reynsla á Strava. Ég er ekkert endilega ástfangin af því forriti. Fyrir mig er það of íþrótta-keppnis miðað, en það heldur utan umhreyfinguna mína og það er það sem ég vil.

Það allra skemmtilegasta við Strava er hitakortið (heatmap). Og svona lítur mitt út núna:


Augljóslega hjóla ég mest til og frá vinnu og svo er morgunkaffið á sunnudögum hjá mömmu og pabba að koma strerkt inn. Hlakka til að bæta við línum á þetta kort.



31. janúar 2021

Hjólað í janúar

Janúar hefur verið snjóléttur og frekar kaldur í Reykjavík. 2x lét ég kuldann hafa áhrif á mig og sleppti því að hjóla.  Ég vinn heima aðra hvora viku en tók strax þá ákvörðun að hjóla samt í vinnuna þá daga sem ég er heima, fer þá bara í hring.  En þessa tvo daga tók letipúkinn yfirhöndina og ég lét það eftir honum að sleppa hjólinu.

Talningar eru einnig hafnar aftur á morgnana á leið í vinnu og hef ég bætt við að telja líka hlaupahjól og gangandi. Vegalengdin til vinnu er um 4,5 km (fer örlítið lengri leið af því það eru ekki nema 2 km til vinnu og það er bara svo stutt) og þegar ég vinn heima þá fer ég um 6 km hring, en talning er bara á fyrstu 4 km til að halda tölfræðinni á svipuðum slóðum.

Hér koma tölur janúar mánaðar:

Hjólaið stamtals 229 km í mánuðinum þar af 107 til og frá vinnu. Hjólaði 17 af 20 vinnudögum

Sá að meðaltali á dag: 6 á hjóli, engann á hlaupahjóli og 7 gangandi.
Heildar talning í mánuðinum var: 106 á hjóli, 6 á hlaupahjóli og 125 gangandi.


Eitt hefur angrað mig síðan í nóvember en það eru ljóslausir ljósastaurar á leiðinni minni. Ég sendi on þessa mynd seinnihlutann í nóvember því mér var farið að blöskra fjöldi staura sem voru ljóslausir. Rauðar doppur sýna u.þ.b. hvaða staurar þetta eru. Fékk strax svar til baka um að þau sæu um ansi marga staura og það væri farið yfir þetta í hverjum mánuði.


10. janúar var ekki enn komið ljós á staurana svo ég sendi þeim aftur og fékk svör til baka um að þetta væri augljóslega ekki eins og þau vildu hafa það.  Síðan þá hafa staurarnir í græna hringnum fengið ljós.  Þessir sem eru í bláahringnum veit ég ekki stöðuna á, allir hinir eru enn ljóslausir. Þetta þykir mér vera frekar lélegt, en vonandi fara menn að koma sér í málið.

Þegar ég skoða tölurnar mínar síðastliðin 10 ár eða svo þá er þessi km fjöldi í janúar í lægri kantinum. Áður hjólaði ég líka lengri leið til og frá vinnu. Fjöldi hjólandi er hinsvegar í hærri kantinum og leyfi ég mér að halda því fram að það séu skýr merki þess að það hafi bæst í hóp þeirra sem velja hjólið sem samgöngutæki Hlakka til að halda áfram að hjóla og safna tölum og talningum.

Uppfærsla 3.2.2021. Það eru líka komin ljós á staurana í bláa hringnum

Uppfærsla 13.3.2021. Staurarnir tveir neðst á myndinni (hjá tölunni 2) líka komnir með ljós.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...