13. júlí 2008

Fyrsta langa halupið skv. hlaupaplani.

Jæja, nú er ég aldeilis stolt af mér. Skokkaði heila 7 km í morgun án þess að taka labbikafla.


Veðrið var mjög svo ákjósanlegt og ég fór af stað með það í huga að fara 3 km án þess að labba en þegar því markmiði var náð var ég í það góðu formi að ég ákvað að bæta við 1 km og sjá svo til
og þannig var það út hlaupið. Eftir 6 km var ég farin að finna fyrir þreytu í hægra lærinu en fannst ómögulegt að fara að labba þegar aðeins 1 km var eftir.

Leiðin sem ég fór plottaði ég út frá Borgarvefsjá. Það sést svo sem ekki vel á þessu korti hvert ég fer. Í grófum dráttum byrja ég að að skokka niður að Sæbraut og yfir hana, yfir Elliðaárnar og undir Miklubraut. Aftur yfir Elliðaár á hitastokkum (held þeir séu það amk). Inn fyrstu undirgöng undir Sæbraut og stígurinn eltur og yfir göngubrúna yfir Miklubraut. Síðan meðfram Suðurlandsbraut alveg að Reykjavíkurvegi og niður hann smá spöl og síðan inn í Laugardalinn. Framhjá Glæsibæ og fljótlega eftir það var ég komin 7 km. Það sem vantaði uppá til að komast heim labbaði ég bara.

Garmin tækið mitt er yndislegt. Fyrir hlaupið set ég inn hversu langt ég ætla að hlaupa og hversu lengi (er með plan frá Öddu sem er frábært) og síðan þegar ég hleyp (skokka) af stað þá er tækið með ímyndaðan kall sem hleypur með mér og ég keppi við. Ef ég er á undan honum þá spilar tækið stutt sigurlag þegar vegalegnd er náð.


Neðra línuritið sýnir eitthvað sem kallast pace og efri línan hraðann.

Ég er virkilega ánægð með árangurinn og er mjög svo bjartsýn á það að ná lokatakmarkinu 23. ágúst og jafnvel á sæmilegum tíma.

10. júlí 2008

Maiskorn


Það er staðreynd að mér finnst maiskorn vera gott. Hef keypt mér frosna kornið og smurt með smjöri, pakkað inn í álpappí og hitað á grillinu - namm, namm.

En um daginn keypti ég í Bónus einn kornstöngul ferskann í grænmetisdeildinni. Mig hefur langað til að prófa það því einhver sagði mér að það væri lang, lang, lang best þannig.

Það varð töluverð reykistefna við kassann þegar við greiddum því enginn virtist vita hvernig ætti að koma þessari vöru í verð. En að lokum tókst það, seinna þegar ég skoðaði strimilinn var mér heldur bilt við því þessi eini stöngull sem ég keypti kostaði 151 kr!!!

Um kvöldið var svo grillað og þá er ekkert annað gert við maisstöngulinn enn að setja hann beint á grillið (settum hann á efrigrindina) og snúa reglulega.
Og síðan var smakkað. Og það er engin lygi sem mér var sögð því þetta er lang, lang, lang, lang besta kornið sem ég hef smakkað. Ég mun kaupa mér svona aftur þó það sé svona dýrt.

8. júlí 2008

Afstæði vegalengda.

Um helgina ók ég Sæbrautina með Hrund mér við hlið og var í leiðinni að sýna henni hvar ég hjóla á morgnana. Og það er nú bara þannig að þessi vegalengd er miklu, miklu lengri þegar setið er í bíl heldur en að hjóla hana. Skrítið.

En í ljós þess er ekki undarlegt að þeir sem næstum aldrei stíga á hjól mikli fyrir sér vegalengdir og telji það óvinnandi veg að hjóla þær. Ég segi prófið að hjóla þetta og þið munið sjá að ekki bara er þetta styttra en þið haldið þið eruð líka fljótari í förum og hafið minna fyrir því en nokkurntíman er hægt að ímynda sér. Þið sem hjólið eruð þið ekki sammála?

<> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <>

Síðan er skemst frá því að segja að tómatplantan hefur aftur vaxið um 3 cm á síðasta sólarhring. Og talandi um plöntur, Arnar ertu þarna ennþá? (Sjá komment á síðustu bloggfærslu).

Í dag ætla ég svo í fyrsta skipti að fara eftir hlaupaprógrammi sem ég fékk hjá Öddu. Mjög spennandi. Þetta eru ekki nema 2 km sem ég mun fara og töluvert hægar en ég er vön. Ætla samt svona í upphafi að fara alveg eftir prógramminu og sjá svo til hvort ég breyti því eitthvað eða hvort það virki vel bara eins og það er.
Eins og áður hefur komið fram þá er ég að stefna á 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar. Það eru ekki nema rétt tæpar 7 vikur í atburðinn og því kominn tími til að taka þessu alvarlega.
En ég er líka að berjast við of lítið járn í blóðinu og þrjóskast við að tala járntöflur. Mín trú er nefnilega sú að með réttu mataræði sé hægt að laga þetta og háma þess vegna í mig suðusúkkulaði, cheerios gulan og fleira sem á að vera járnríkt. Fékk mér meira að segja sardínur í gær en þær hef ég ekki getað borðað síðan silfurskottur sáust fyrst í íbúðinni hjá mér, en mér fannst ég vera að éta silfurskottur en ekki sardínur á þeim tíma.

7. júlí 2008

Plöntur og hjól

Snemma í sumar settum við niður tómatfræ úr kirsuberjatómat. Tvær plöntur komu upp, en önnur dó fljótlega eftir að hún var sett í sér pott. Hin lifir góðu lífi og það er ótrúlegt hvað hún sprettur. Í gærmorgun brá ég reglustriku á hana og þá var hún 23 cm á hæð.


Í morgun gerð ég það sama og þá er hún orðin 27 cm. Hefur hækkað um 4 cm á einum sólarhring. Það kalla ég bara nokkuð gott, en hinsvegar er spurning hversu lengi hún kemst fyrir hjá okkur með þessu áframhaldi.








Svo er það þannig að við erum með tvö barnahjól sem við viljum gjarnan koma frá okkur. Þau eru bæði á 24 tommu dekkjum en stellin eru mis stór. Nú veit ég ekki hvernig stellstærð er mæld svo ég mældi frá jörðu upp á stýri og á Trek hjólinu er hæðin 34 tommur og 36 tommur á því græna.
Þau þarfnast bæði viðhalds þar sem þau hafa staðið óhreyfð í nokkurn tíma og voru úti í allan vetur. Láttu mig vita ef þú hefur áhuga.

3. júlí 2008

Íþróttafréttir

Á þriðjudaginn var 1. júlí 2008 var á Rás 1 viðtal við mann að nafni Hrafnkell í þættinum Dr. Rúv. Var hann spurður að því hvers vegna ekki væri sýnt meira af íþróttum s.s. skautadansi, dýfingum, fimleikum ofl. slíku í fréttaþáttum sjónvarps.
Svörin voru óskýr og ég fékk á tilfinninguna að ástæða væri sú að þeir sem kaupa inn efnið finnist þetta ekki vera áhugavert.

Þetta vakti mig til umhugsunar. Því þannig er að íþróttafréttir eins og þær eru í dag eru fréttir sem ég forðast af því þar er ekki efni sem höfðar til mín á nokkurn hátt. Boltaíþróttir finnst mér ekki skemmtilegt að horfa á (hvort sem það er karla eða kvennalið) en þær fá stærstan hluta af fréttunum. Síðan kemur golf, bílaíþróttir (einnig leiðinlegt) og stundum tennis eða sund (allt í lagi, getur verið gaman að horfa á).
Eins er með dagblöðin. Þau eru nú flest farin að hafa sérblað með þessum fréttum svo auðvelt er að hoppa yfir þær fréttir og það er einmitt það sem ég geri.

Og nú velti ég fyrir mér. Er þetta ekki óplægður akur? Það gæti komið mér til að horfa á íþróttafréttir ef myndir af skautadansi, dýfingum eða fimleikum væru sýndar oftar. Ég er ekki að biðja um beinar útsendingar (ekki viss um að ég gæfi mér tíma í að horfa á það) heldur frekar sýnishorn af því sem er að gerast. Er það ekki hagur íþróttafrétta að sem flestir horfi á þær?

1. júlí 2008

Hjólafréttir



Þetta er uppáhalds leiðin mín í og úr vinnu þessa dagana (myndir fengnar úr Borgarvefsjá). Stígakerfið meðfram Sæbrautinni er orðið nokkuð gott og ekki mikil umferð annarra en hjólandi a.m.k. helming leiðarinnar.

Og hér kemur smá af tölum sem ég tileinka Ingu vinkonu. Leiðin er tæpir 7 km (allt í allt en öll leiðin sem ég fer er ekki á kortinu) og ég er u.þ.b. 20 mín að hjóla hana. Meðalhraði 20 km/klst og hámarkshraðinn rétt rúmlega 30 km/klst.

Hinsvegar er leiðin ekki gallalaus. Og gulu punktarnir á fyrstu myndinni sýna staði sem ég kalla stundum þrautabrautir. Það eru aðallega staðir þar sem maður fer yfir götur. Ég hef númerað þá og ætla að koma mínum kvörtunum á framfræri í númera röð.

1. Hér kem ég niður frá Skeiðarvoginum og er beygjan inn á stíginn við Sæbraut ansi kröpp og blind. Þ.e. ekki auðvelt að sjá hvort einhver er að koma eftir stígnum. Það eru nokkrir svona blindir staði milli punkta 1 og 2. Marga þeirra væri auðvelt að laga með því að klippa gróðurinn (spurning hvort maður eigi að taka trjáklippur með sér einn morguninn). Svo er einn staður milli punkta 1 og 2 þar sem húsagata fer yfir stíginn og endar hinumegin við hann. Þetta er augljóslega varasamt því á þessum kafla er maður á góðum hraða og ef bíll er að aka inn í botninn á götunni á sama tíma og ég kem á fullri ferð... gæti orðið ljótt.

2. Sannkölluð þrautabraut. Grænu punktarnir sýna leiðina sem ég verð að fara til að komast milli stíga því hérna endar stígurinn og annar tekur við hinumegin við Sæbrautina.

Það eru gönguljós allan hringinn á þessum gatnamótum og leðinlegast er að fara yfir Sæbrautina sjálfa því ljósin eru tvískipt og virka þannig að það er engin leið að komast yfir báðahelmingana á sömu ljósum. Það verður ansi oft til þess að maður fer yfir á móti rauðum kalli og það pirrar mig að þurfa að grípa til lögbrota svona snemma morguns.

Nú tekur við ágætis kafli. Það eina er að verið er að byggja á einum stað en búin hefu verið til ágætis varaleið framhjá sem tefur ekki mikið, þó ekki sé nokkur leið til að mæta öðrum þar, hvorki hjólandi eða gangandi.

3. Hér er beygja að bensínstöð og er umkvörtunarefni mitt svegjan sem kemur á stíginn. Ég skil að ætlast er til að við hægjum á ferðinni þegar kemur að svona stöðum en það er einum of að senda mann í hvarf frá götunni plús að umferðin er aðeins úr einni átt og ætti því að vera viðráðanlegri að fylgjast með fyrir okkur stígafólkið. Kantsteinninn er helst til of hár þarna til að fara niður af honum beint, eins og maður gerir stundum við svipaðar aðstæður.


4. Of miklar sveigjur á brautinni yfir götuna og sérstaklega þegar komið er yfir götuna og á stíginn aftur, hef 2x næstum farið út fyrir stíginn sem er ekki gott þarna þar sem nokkuð hár kantur er og almennt frekar varasamt.
5. Sama og 4.

Milli punkta 5 og 6 er fínt að hjóla. Þarna hefur þó umferð um stíginn aukist og þá sérstaklega gangandi /skokkandi vegfarenda. Það getur verið varasamt. Stígurinn er tvískiptur þ.e. lína skilur að hjólahluta og gangandihluta. En mikið hefur verið skrifað um gallan við það kerfi svo ég læt það vera. Nema að það virðist vera tilhneging hjá gangandi /skokkandi að vera alveg við þessa umræddu línu sem minnkar hjólasvæðið (sem er ekki of mikið fyrir) og getur verið stórhættulegt.

6. Sólfarið. Inn á myndina setti ég bleika línu (vona að hún sjáist) sem er beintenging milli hjólalínanna. Þarna er hjólabrautin klippt af til að koma fyrir stæðum. Fyrir utan þá hættu sem það getur skapað ef hjólreiðamaður er ekki með athyglina algjörlega við stíginn og passar sig að færa sig inn á "gangadi" hlutann af stígnum til að steypast ekki fram af kantinum þá er þarna líka minnkað svæðið sem umferð kemst um. Einmitt þar sem hópar fólks á það til að vera að skoða listaverkið. Og fólk í hópum er að gera allt annað en að fylgjast með því hvort einhverjir þurfi að komast framhjá. Þessi litli bútur getur því verið mikil hindrun og töf fyrir þann sem vill komast heim (því það eru sjaldan hópar þarna fyrir kl 8 á morgnana).
Það þyrfti frekar að auka gangstéttaplássið þarna heldur en að minnka það eins og gert er.
En á heildina litið er þessi leið nokkuð góð, bæði skemmtileg og falleg. Hún er einnig ein sú öruggasta af þeim sem ég get valið úr og með fæstum hindrunum.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...