31. október 2006

Orð dagsins.

Stundum eru orð að þvælast fyrir og hér eru dæmi um orð eða orðalag sem pirrar mig þessa stundina.

"Ákveðin vonbrigði" Hvað er átt við með þessu? Geta vonbrigði verið ákveðin? Svo þegar maður notar þessi tvö orð saman þá er maður í raun að meina nokkurskonar vonbrigði - ekki satt?

"Mútuþægni" Las í blaðinu um daginn að maður væri ásakaður um mútuþægni. Mér líkar ákaflega illa við þetta orð því það dregur athyglina frá því sem verið er að tala um. Miklu skýrara er að segja að maðurinn hafi verið ásakaður um að þyggja mútur.

"Verg þjóðarframleiðsla" Hvað þýðir þetta eiginlega? Og svo er orðið "verg" svo hræðilega ljótt eitthvað.

26. október 2006

Helga, blessa þessi jól


Í gær var kóræfing. Fyrsta kóræfingin þar sem lagið hans pabba var æft í raddsetningu sem ég og Arnar bróðir gerðum fyrir afmælið hans pabba. Þetta er sem sagt lagið sem fjölskyldukórinn söng í afmælinu við texta sem Eyrún og ég sömdum.

Textinn sem nú var notaður er sá sem lagið var upphaflega samið við eða jólakveðja frá Bjarna (Minnu maður). Mér tókst að skella inn textanum við lagið og prenta það út fyrir kóræfinguna í gær (með töluverðum vandærðum og mikilli hjálp frá Elíasi því tæknin var að stríða mér). En svo vantaði titil á verkið. Textinn endar á því að drottinn er beðinn um að helga og blessa jólin og fannst mér tilvalið að nota það sem titil. Það var svo ekki fyrr en á æfingunni að menn spurðu: "Hver er þessi Helga?" sem ég áttaði mig á mistökunum.

25. október 2006

Gaman að blogga

Það er nú meiri bloggletin í manni.

En það er skemmst frá því að segja að ég hjóla enn í vinnuna. Það hefur verið blessunarlega þurrt undanfarið þó kuldinn bíti. Í morgun ákvað ég að fara í Kraftgallanum því það var svo skelfilega kalt í gærmorgun, en nú er ég ekki viss um að ég vilji hjóla í honum heim aftur...
Svona fer nú tískan með mann.
Ræddum það einmitt í matarboði um daginn hversu dásamlegt það var þegar Kraftgallarnir voru í tísku. Nema ég sé með þessu að koma umræddum göllum aftur í tísku, er að sjálfsögðu einstaklega glæsileg í gallanum.

hmmm... hvað fleira?

Jú þeir veiða hvalina. Enginn virðist vita af hverju því markaðurinn fyrir kjötið er víst ekki til staðar. Ekki er þetta undir yfirskini vísindaveiða ef ég er að skilja rétt. Er þetta til að draga athyglina frá botnvörpuveiðum? Menn úti í hinum stóra heimi eru farnir að fordæma þesskonar veiðar, segja þær rústa botninum og sjávarlífi þar sem þær eru stundaðar. Samtök eru að setja sig í stellingar að fordæma þessar veiðiaðferðir og þar sem við notum þessa aðferð mjög mikið hefði bann gríðarlega mikil áhrif hér á landi. Og hvað ger menn þá? Jú fara að veiða hval. Og allir gleyma togurunum og gráta aumingja hvalina.

17. október 2006

Þolinmæði þrautir vinnur allar - eða hvað?

Fór með Eyrúnu í röntgenmyndatöku á baki. Áttum tíma kl. 13.00 og vorum komnar rétt rúmlega (hræðilegt að fá stæði við Landspítalann). Talaði við dömuna í afgreiðlsunni og hún vísaði okkur til sætis.

Nú er maður vanur því að þurfa að bíða á læknastofum. Man ekki eftir því atviki að það hafi ekki gerst og venjulega pakkar maður þolinmæðinni með í töskuna þegar farið er í þessar heimsóknir. Við Eyrún tókum líka með okkur spilastokk í þetta skiptið og spiluðum rommí, ólsen-ólsen, sprite og tveggjamanna vist (eða Rússa eins og það kallaðsti þegar ég var yngri).

Þegar hálftími er liðinn er okkur farið að leiðast biðin, en eigum þó eftir smá þolinmæði í töskunni, erum stillar og höldum áfram að spila.
Tíu mínútum seinna erum við enn nokkuð þolinmóðar en þó farið að gæta pirrings og farið að ganga á varabyrgðirnar.
Enn bíðum við í tíu mínútúr en þá fáum við líka nóg af biðinni og ég fer loksins að afgreiðsluborðinu aftur.
Kemur þá í ljós að gleymst hafði að láta vita af því að við værum komnar!

Og það sorglega við þetta allt saman er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir mig.

13. október 2006

Gamlir kunningjar




















Munið þið eftir þeim þessum? Þeir eru alveg jafn skemmtilegir í dag og þeir voru þá, nema bara í alveg skelfilega hallærislegum fötum. Var þetta í alvörunni flott? Allt svo vítt og stórt. Tímabilið var samt draumur prjónarans því víðar prjónapeysur voru greinilega inn á þessum tíma. Sjáið t.d. peysuna sem dr. Huxtable er í á þessari mynd:

12. október 2006

Hversu oft á dag ferð þú inn í svefnherbergið þitt?

Komumst að því í gær að Elías fer ekki inn í svefnherbergið okkar nema bara þegar hann fer að sofa.

Þannig var að í gær tók ég mér frídag og ákvað að breyta í svefnherberginu með hjálp dætranna. Við sögðum Elíasi ekki frá neinu og svo biðum við og biðum eftir því að hann færi inn í herbergið og sægi herlegheitin. Það var ekki fyrr en um kvöldið þegar stelpurnar voru að undirbúa háttinn að Eyrún gafst upp og lokkaði pabba sinn inn í herbergið með klækjum.

Skrítið þetta því mér finnst ég alltaf vera að skottast inn og út úr umræddu herbergi til að ná í hitt og þetta og svoleiðis.

Hvernig er þetta hjá þér, svo ég forvitnist aðeins?

10. október 2006

Póstllistar.

Að skrá sig út af póstlistum getur verið meira en að segja það. Nýverið tók ég upp nýtt netfang og er að losa mig við það gamla og einn liðurinn í því er að skrá sig út af þeim póstlistum sem senda á gamla netfangið. Þetta eru allt innlendir póstlistar og hefur gengið þjáningalaust fyrir sig fyrir utan einn.

Það sem um ræðir er Flugfélag Íslands.
Þeir eru með þennan fína hnapp neðst í póstinum sem býður upp á útsrkáningu og allt virðist voða fínt. En alltaf fæ ég póst.
Nú er það svo ef ég smelli á linkinn og set inn netfangið þá segir kerfið mér að netfangið sé ekki á skrá - samt fæ ég póst.
Ég sendi þeim póst beint með yfirlýsingu á óánægju með að vera ekki farin af listanum, en enn fæ ég póst.

O, jæja þurfti bara aðeins að pústa út um þetta. Þeir mega svo sem halda áfram að senda póst og geta fyllt pósthólfið ásamt spam póstinum sem daglega flæðir inn. Ég er komin með nýtt netfang og er laus við þetta allt. <>

3. október 2006

Ábending til kartöflubænda


Nú finnst mér kominn tími til að þið stærðarflokkið kartöflurnar í pokana.

Það er alltaf þannig að síðustu kartöflurnar í pokanum eru þessar risastóru og þessar pínulitlu, sem leiðir til þess að síðasta soðningin er bæði ofsoðin og of lítið soðin.

Það væri meira að setja hægt að verðleggja kartöflurnar eftir stærð. Vinsælasta stærðin hlýtur þá að vera dýrari og þessi sem selst minna ódýrari.

Hvað finnst ykkur? Væri þetta ekki vel reynandi?

Kveðja, fra kartöfluætu.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...