17. maí 2017

Að komast til og frá vinnu á hjóli

Það er miserfitt að koma sér til og frá vinnu á hjóli.  Áður en vinnan mín flutti var það ekki mikið tiltöku mál (úr Laugardalnum og niður í bæ).  Stundum erfiðara en aðra daga út af veðri en sjaldnast ófært.  Vegalengdin mátuleg og úr nokkrum leiðum að velja.

Síðastliðið sumar flutti vinnan hinsvegar upp á Hólmsheiði.  Vegalengdin hefur tvöfaldast og er að mínu mati ófær á hjóli síðustu 4 km um leið og það er farið að rökkva á ferðatíma.

Sú leið sem ég hef oftast farið er þessi (þegar ég hjóla alla leið):
Þetta eru um 12 km og fyrstu 8 eru mjög fínir, fer um Elliðaárdalinn sem er bæði fallegur og þar eru góðir stígar. En frá Olís í Norðlingaholti hef ég farið eftir þjóðvegi 1, þar er ágætis vegöxl, en mér finnst óþægilegt að hafa bílana á fullri ferð við hliðina á mér og það er þó nokkur umferð stórra bíla (rútur og flutningabílar).  Allra síðasti búturinn finnst mér þó verstur.  Þar er ég á götunni sem er frekar þröng og liggur í hlykkjum sem hindrar útsýni. Hef velt því fyrir mér hvort það gæti verið betra að hjóla á móti umferð þennan síðasta spöl.  Þá sæi ég amk bílana sem eru að koma.  Og það er meiri umferð þarna en ég bjóst við.

Í morgun ákvað ég að prófa aðra leið.  Samstarfsmenn hafa verið að benda á að það séu allskonar leiðir um heiðina.  Ég byrjaði á að skoða "strava heatmap" sem er mjög sniðugt og sýnir hvar þeir sem nota strava (forrit sem heldur utan um hreyfingu manna) ferðast um.  Hér er svæðið mitt á umræddu korti:

Út frá þessu valdið ég mér leið í morgun og hún var þessi:

Ég er á borgarhjóli sem er 6 gíra og á mjóum dekkjum.  Þessi leið er ekki mjög heppileg fyrir það hjól, en er líklega ágætlega fær á fjallahjóli eða amk hjóli á breiðari dekkjum.  Hlekkurinn upp þarna í lokin er svo til allur á malarvegi.  Þessi leið er 2 km lengri en venjulega leiðin en það er ótvíræður kostur að losna við að hafa bílana sér við hlið.
Þessa mynd tók ég þegar ég var komin langleiðina á áfangastað:

Eftir að hafa skoðað leiðina sem ég fór á korti ákvað ég að prófa enn aðra leið heim. Eða þessa leið:
Hún virkaði styttri á kortinu en var það ekki.  Rúmir 14 km eins og leiðin sem ég fór í morgun.  Vegurinn er líka mjög grófur og hentar einstaklega illa hjólinu sem ég var á.
Svo þessi leið verður ekki farin aftur.  En ég gæti vel hugsað mér að fara hina leiðina aftur á öðru hjóli.

3. maí 2017

Í gær var hjólinu mínu stolið.

Vorið 2014 keypti ég mér sumarhjól.  Mig vantaði nýtt hjól og ætlunin var að finna eitthvað sem væri fallegt, nýttist í hjólreiðar allan ársinshring og ég væri ekki borgrandi fram á stýrið á því.  Þetta hjól uppfyllti tvennt af þessu og ég féll algjörlega fyrir því.  

Ég var búin að skoða nokkur hjól, sem voru ágæt en ekki að kveikja neistann, en það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn.  Hjólið er 8 gíra með fram og afturljósum sem knúin eru með því að hjóla.  Eini gallinn við það er að það er ekki hægt að setja nagladekk undir það, plássið milli dekkja og bretta er einfaldlega of lítið.
Hér er styttan af skáldinu Tómasi að virða fyrir sér hjólið og honum líst bara nokkuð vel á held ég.
Við tókum þátt í tweedride eitt árið.  Mamma fékk sér eins hjól og við hekluðum pilsahlífar á hjólin.
Þessa mynd hér fyrir neðan tók dóttir mín á filmumyndavél af mér og hjólinu og mér þykir verulega vænt um þessa mynd.
Og á síðasta ári keypti ég bastkörfu framan á hjólið.


En svo eftir vinnu í gær kom ég að tómum hjólagámi í Mjóddinni.  Ég hafði læst hjólinu við þessa grind, eins og ég hef reyndar gert í allan vetur (var þá á öðru hjóli).
 Lásinn hafði verið slitinn í sundur og var það eina sem var eftir af eigum mínum í hjólagámnum.

 Það er sárt þegar eigur manns eru teknar ófrjálsri hendi.  Ég hef átt gæðastundir á þessu hjóli og hef beðið þess með eftirvæntingu í allan vetur að geta hjólað á því aftur.  Ég held í vonina að hjólið finnist einhversstaðar og skili sér til baka til mín, en mér þykir það samt ólíklegt.


2. maí 2017

Hjólað í apríl 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 182 km, þar af 137 km til og frá vinnu og 45 km annað. 
Sá að meðaltali 8 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.  
Hjólaði 11 af 26 vinnudögum, 5 daga var ég í fríi.
Meðalhraðinn hjá mér til vinnu fyrstu þrjá mánuði ársisn var um 13,5 km/klst en núna í apríl 14,7 km/klst.  Það munar töluvert að stígarnir eru auðir.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...