29. júní 2017

Annar hjólatúr á frídegi

 Fór í hjólatúr um slóðir sem ég er vanalega ekki mikið að hjóla um.  Hér er kort af leiðinni.
 Tölulegar staðreyndir um túrinn.
Hér er ég komin úr Kópavoginum og á leið upp Álftaneshæðina.  Þarna (til vinstri) er stígur sem var ekki kominn síðast þegar ég hjólaði þarna um, en þá fór maður inn í hverfið og á götuna.  Þessi stígur er kærkominn.  En jafnframt galli að það er ekkert útsýni af honum bara grænar girðingar sitthvoru megin.
Hér er ég í Garðabænum á göngubrú, en ég næ ekki að átta mig á því hvort myndin er tekin í átt að Hafnarfirði eða Kópavogi.  Þarna var ég aðeins tínd og vissi ekki alveg hvaða leið ég átti að fara.

 Þess vegna var mjög kærkomið að sjá þetta skilti sem sýnir göngu og hjólaleiðir á svæðinu.


Svo rakst ég á frænda minn Jón Bjarna, en hann var á leið til vinnu.  Gaman að því.

Mig hefur lengi langað að hjóla þennan stíg.  Hef horft á hann löngunar augum í hvert skipti sem ég hef ekið fram hjá honum í bíl (þetta er þar sem IKEA er bara hinumegin við veginn). Og loksins rættist sá draumur.

Kópavogur.  Mjög svo kjánalegt að það er engin tenging yfir í stíginn sem er hinumegin við götuna.  Greinilegt þó að margir fara þarna um þar sem kantsteinninn hefur látið verulega á sjá.


14. júní 2017

"Hjólað í vinnuna" á frídegi

Ákvað að fara í hjólatúr um gamlar slóðir í dag þar sem ég er í fríi.  Fór þennan hring réttsælis.  Veðrið var fínt, skýjað og lítill vindur, hitinn á mælinum heima um 8°C.

Stoppaði aðeins við gamla vinnustaðinn til að smella af mynd.  Þetta var góður vinnustaður og það var ljómandi fínt að hjóla þangað.

Var búin að ákveða að hjóla í fyrsta skipti eftir nýja hjólastígsbútnum við Sæbraut en þá er hann lokaður ennþá með moldarhrúgum hér og þar (sem virðast settar þar í þeim eina tilgangi að gera stíginn ónothæfan.  Svo jómfrúarferðin eftir þeim stíg bíður betri tíma.


Aðeins lengra eftir stígnum er verið að búa til útskot sem ég ímynda mér að verði með bekkjum til að sitja á og njóta útsýnisins.  Þarna er oft ansi magnað sjónarspil þegar nótt breytist í dag og öfugt, eða þegar norðurljósin leika um himininn.
Einu sinni (fyrir mörgum árum) sendi ég ábendingu til Reykjavíkurborgar um að setja lýsingu á stíginn (sem verið er að gera núna).  Það er ansi dimmt á stígnum þarna í dimmasta skammdeginu þar sem götulýsingin nær ekki bakvið skólphreinsistöðina.  En það sem tapast við ljósið er norðurljósasýnin og þess vegna var ég eiginlega búin að skipta um skoðun um að rétt væri að setja lýsingu þarna.  Stundum þegar ljósin léku um himininn stoppaði ég, slökkti ljósin á hjólinu og naut sýningarinnar.

Á leiðinni (var um 45 mín að hjóla) taldi ég 51 á hjóli.  Fæstir af þeim voru í "einkennisbúningi hjólara" (skærum jakka eða endurskinsvesti og þröngum svörtum hjólabuxum) heldur í hversdagslegum fötum og var ég mjög ánægð að sjá það.  Þetta er öfugt við þá sem ég mæti á morgnana þegar ég hjóla í vinnuna í gegnum Elliðaárdalinn.  En hver og einn verður að fá að hafa sinn stíl og þó það henti mér best að vera á borgarhjóli og í venjulegum fötum þá veit ég að mörgum finnst skemmtilegt að klæða sig uppá fyrir tilefnið og þá hafa þeir það þannig.

Það er gott að hefja daginn á hjólatúr, hvernig sem maður kýs að klæða sig.

3. júní 2017

Hvaða hjól á ég að fá mér?

Ég er að skoða að fá mér nýtt hjól þar sem hjólinu mínu var stolið fyrr í mánuðinum.  Hjólið þarf helst að uppfylla nokkrar kröfur eins og t.d. að hægt sé að hjóla á því allan ársins hring (verður að vera hægt að setja undir það nagladekk), að maður sitji uppréttur, að það sé fallegt, að hægt sé að vera með körfu framan á stýrinu og böglabera aftaná.
Hjólið sem ég missti uppfyllti allt þetta nema það fyrst og það var stærsti gallinn við hjólið sem að öðru leiti var svo til fullkomið.

Nú hef ég skoðað tvö hjól, annað í Hjólaspretti og hitt í Markinu.  Þau uppfylla bæði flest skilyrðin sem ég set, en svo kíkti ég inn á heimasíðu Berlinar reiðhjólaverslunar og hjólin þar eru svo falleg.

Fyrst fór ég í Hjólasprett í Hafnarfirði og þar skoðaði ég þetta hjól:

Það er á breiðari dekkjum en mitt hjól var á og það er hægt að setja undir það nagladekk.  Mér finnst það allt í lagi í útliti (en er ekki heilluð upp úr skónum).  Gírarnir eru innbyggðir og það er kostur, mig minnir að þeir séu 8, það kemur fullbúið með ljósum og bögglabera sem er líka plús.

Svo fór ég í Markið og skoðaði þetta hjól:
Það er eins með það og hjólið frá Hjólaspretti, það er fallegt en ekki að heilla mig upp úr skónum.  Dekkin eru jafn breið og á hjólinu frá Hjólaspretti og hægt að setja nagladekk undir.  Það kemur líka fullbúið með ljósum og bögglabera.

Svo er það hjólin frá Berlin:
 Þetta hjól er næstum 2x dýrara en hin hjólin, en sjáið hvað það er miklu fallegra!  Þetta er hjól sem ég er heilluð af.  Það er hægt að fá það í næstum hvaða lit sem er.  En ég á eftir að fara að skoða hjá þeim og veit ekki hvort það er hægt að setja undir þau nagladekk.

Fjöldi gíra er ekki eitthvað sem skiptir mig öllu máli, þeir verða að vera til staðar og líklega duga 8 gírar til að hjóla allan ársins hring (lendi reyndar af og til í því á veturnar að gírarnir frjósi og þá er bara hjóla á þeim eina gír), en ég veit að ég hef ekkert með 21 gír að gera.  Á vetarahjólinu (sem er 21 gíra) var ég svo til alveg hætt að nota annað en miðjutannhjólið að framan.  Fór aldrei í það léttasta og bara af og til í það þyngsta.

Hjólað í maí 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 338 km, þar af 326 km til og frá vinnu og 12 km annað. 
Sá að meðaltali 21 aðra á hjóli á leið minni til vinnu en eins og á hverju ári þá er átakið "Hjólað í vinnuna"haldið í maí og maður sér verulegan mun á fjölda hjólandi um leið og átakið hefst 

Hjólaði 16 af 21 vinnudegi, 3 daga var ég í fríi og 2 var það mikið rok að ég ákvað að skilja hjólið eftir heima.

Það var mikið áfall þegar hjólinu mínu var stolið í byrjun mánaðarins (sjá eldri færslu). Ég hef fengið það bætt úr tryggingunum en er enn að melta það hvernig hjól ég fæ mér í staðin.  Mig langar mikið í fallegt borgarhjól aftur, en ég þarf að geta hjólað á þvi allan ársins hring og er hrædd við að vera á mjórri dekkjum á veturna. Hef notað hjól eiginmannsins á veturnar sem er trek-hjól á breiðum dekkjum.  Það hjól er orðið lúið og vil ætlum að losa okkur við það.  Hann keypti sér hinsvegar nýtt sumarhjól frá útlöndum (fallegt 6 gíra hjol) sem er á enn mjórri dekkjum en hjólið mitt var á (þessu sem var stolið) svo ekki get ég notað það í vetur.  Ég hingsvegar hjóla á því núna þar til ég tek ákvörðun um nýtt hjól handa mér.Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...