31. desember 2022

Hjólaárið 2022 - tölfræðin

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI

Hjólaði samtals 2.944 km á árinu. Mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 1.657 km og 1.287 km í aðrar ferðir.

En ég hjólaði 205 af 253 vinnudögum ársins. Af þessum 48 vinnudögum sem ekki voru hjólaðir eru óvenju margir vegna ófærðar og veðurs eða 7 dagar (6 í febrúar og 1 í mars), 10 vegna veikinda eða heimavinnu og restin er svo orlof eða aðrar ástæður.

Á árinu voru 64 daga sem ég hjólaði ekki neitt og deilist það svona niður á mánuðina (þetta á við hvort sem það er vinnudagur eða ekki):
í janúar, maí og september hjólaði ég alla vinnudagana í vinnuna. Og yfir árið hjólaði ég 81% af vinnudögum til og frá vinnu. Þetta er leiðin sem ég hjóla til vinnu. Vegalengdin er 4,4 km og nokkurnvegin á jafnsléttu.


Stysta leið sem ég get farið eru 2 km í gegnum Laugardalinn en ég vel þessa leið af ýmsum ástæðum. 

Svo er það stóra hjólið sem ég keypti í ágúst 2021 (sjá um það hér). Á því hef ég hjólað 713 km á árinu. Hjólaði ekkert á því í janúar og febrúar því það var á sumardekkjum og færðin bauð ekki upp á það. Í haust lét ég setja undir það nagladekk og get því hjólað á því yfir veturinn. Hef notað það minna í desember út af kulda og snjó. Ég hef mest notað hjólið til að sækja ömmubarn, en líka í ýmislegt annað og er gott að hafa 

Hér er svo hitakortið mitt á Strava fyrir það sem ég hjólaði á árinu.
TALNING: REIÐHJÓL, HLAUPAHJÓL OG GANGANDI

Á morgnanna á leið minni til vinnu tel ég þá sem ég sé á hjóli, hlaupahjóli (rafskútu) og gangandi. Þetta hef ég gert í mörg á og byrjaði á skrá þessar tölur hjá mér árið 2010. Fyrst voru það bara hjólin, svo bættust gangandi við og núna síðustu 2 ár hlaupahjól.

Hér má sjá samanburð á talningu hjólandi árið 2010 og árið 2022. Dekkri línan er 2022


Það er vert að taka fram að þó svo augljóslega megi sjá líkindi milli talninga þessara ára þá er ég ekki að hjóla sömu leðina í bæði skiptin. Árið 2010 vann ég niðri í miðbæ og leiðin sem ég fór til og frá vinnu aðeins lengri en ég hjóla í dag.

Hér er samanburður milli 2021 og 2022. Þá er sama leiðin hjóluð. Ágúst og september í ár toppa öll árin sem ég hef talið.Hér má sjá tölur yfir flesta og fæsta sem taldir voru eftir mánuðum:Hér eru meðaltal talninga í mánuði árið 2022 eftir ferðamáta:
Blá súla er hjól, rauð er hlaupahjól og grænn eru gangandi.STRAVA SAMANTEKT ÁRIÐ 2022

Athugið að hér er líka tekið með það sem ég hef labbað á árinu.
GRUNN UPPLÝSINGAR

Hjólið er mitt aðal farartæki. Það er orðið þannig að ef ég kemst upp með það þá fer ég á hjólinu þangað sem ég þarf að fara. Ég fæ stundum að heyra það að ég sé svo dugleg að hjóla, það er að mínu mati byggt á misskilningi því þetta tengist ekki dugnaði, heldur því að nota þann ferðamáta sem hentar best og er svo lang, lang, lang skemmtilegastur. Hef líka verið spurð hvort það komi ekki morgnar þar sem ég nenni ekki að hjóla í vinnuna. En ég kannast ekki við það. Frekar að vera hrædd um að það sé ekki hægt að hjóla út af veðri eða færð. En núna er ég það heppin að þegar það gerist (eins og í febrúar á þessu ári) þá get ég labbað í vinnuna.

Ég er alveg hætt að hjóla hratt eða hafa það sem markmið að komast á sem stystum tíma þangað sem ég er að fara. Yfirleitt er ég samt fljótari á staðinn en ég geri ráð fyrir.

Allt sem ég hjóla er skráð í Strava, líka stutt skuttl í búð eða hvað sem er. Lang mest er ég að hjóla til að koma mér milli staða en ég á líka til að hjóla bara til að hjóla. Hef ekki nennt að merkja færslur sem samgöngur í Strava, vildi að hægt væri að snúa því við þannig að færslur væru sjálfkrafa merktar sem samgöngur nema annað væri tekið fram.

31.12.2022 kl. 12:20 Færslan uppfærð af því ég skrapp í heimstókn í morgun.

Hjólað í desember 2022

Hjólaði samtals 231 km í mánuðinum þar af 129 til og frá vinnu. Hjólaði 17 af 21 vinnudögum til vinnu, en ég tók mér 2 daga í orlof og náði mér svo í veikindi líka. Í mánuðinum voru 8 daga þar sem ég hjólaði ekki neitt.

Hjólaði 52 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 180 á venjulega hjólinu. 

Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 621 kr. (hjólið var keypt í ágúst árið 2021).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 7 á hjóli, 1 á hlaupahjóli/rafskútu og 8 gangandi.

Desember hefur verið mjög kaldur (sá kaldasti síðan mælingar hófust) og um miðjann mánuðinn kom snjórinn og það í nokkru magni svo samgöngur trufluðust. Það var lán í óláni hjá mér að ég veiktist einmitt þegar snjórinn kom svo ég hjólaði ekki þá daga sem mesta ófærðin var.

Hjólaði í tvö jólaboð. Annað í Grafarvogi og hinn rétt við Korpúlfsstaði (úr Laugardalnum). Kom mér á óvart hversu vel snjórinn var hreinsaður þá daga. Þurfti bara á einum stað að draga hjólið í gegnum skafl þar sem tengistígur var ekki hreinsaður.

Hér eru svo nokkrar myndir teknar núna í desember.


3. desember 2022

Hjólað í nóvember 2022

Hjólaði samtals 256 km í mánuðinum þar af 151 til og frá vinnu. Hjólaði 19 af 22 vinnudögum til vinnu, en ég tók mér 3 daga í orlof. Í mánuðinum voru 7 daga þar sem ég hjólaði ekki neitt.

Hjólaði 84 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 172 á venjulega hjólinu. 

Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 660 kr. (hjólið var keypt í ágúst árið 2021).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 9 á hjóli, 2 á hlaupahjóli/rafskútu og 10 gangandi.


Nóvember í ár var mjög dimmur. Rigndi töluvert en oftast stillt veður og hiti um 6°C, þó það hafi verið hálkublettir allavega einn morguninn.

Með skemmtilegri hjólatúrum mánaðarins voru þegar ég og dóttir mig skruppum í afmæli niður í bæ. Það er í annað skipti sem hún situr í hjá mér á stóra-hjólinu. Þurfti aðeins að mixa hlífina sem er yfir boxinu svo það væri pláss fyrir hana. Hlífin er greinilega bara hugsuð fyrir börn en þar sem það var rigning þá var betra fyrir farþegann að hafa hlíf.


Svo sótti ég ömmubarn á leikskólann. Það var frá mörgu að segja eftir skemmtilegan dag í leikskólanum, verst hvað nagladekkin gefa frá sér mikið hljóð því það er erfirðara að eiga samræður undir þeim söng. Á myndinni er einmitt verið að segja eina sögu.


1. nóvember 2022

Hjólað í október 2022

Hjólaði samtals 241 km í mánuðinum þar af 155 til og frá vinnu. Hjólaði 19 af 21 vinnudögum til vinnu, en mér tókst að ná mér í pest og var því heima 2 daga. Eins er ég farin að telja hversu marga daga í mánuðinum ég hjóla barasta ekki neitt og í október voru það 4 dagar.

Hjólaði 60 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 181 á venjulega hjólinu. 

Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 735 kr. (hjólið var keypt í ágúst á síðasta ári).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 11 á hjóli, 4 á hlaupahjóli/rafskútu og 14 gangandi.

Nagladekk fóru undir stóra-hjólið 19. október svo nú þarf ég ekki að leggja því í vetur.

Hér eru svo nokkrar hjólatengdar október myndir:


Nýju undirgöngin hjá Sprengisandi. Hjólaði í gegnum þau í fyrsta skipti


Nagadekkin ansi gróf undir stóra-hjólinu, enda heyrist vel í þeim.

Mikið um lauf þetta haustið (eins og önnur haust)

Teppi undir og yfir svo farþeganum verði ekki kalt1. október 2022

Hjólað í september 2022

Hjólaði samtals 349 km í mánuðinum þar af 198 til og frá vinnu. 

Hjólaði 131 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 218 á venjulega hjólinu. 

Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 800 kr. (hjólið var keypt í ágúst á síðasta ári).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 18 á hjóli, 4 á hlaupahjóli/rafskútu og 15 gangandi.

Nagladekkin fóru undir hversdagshjólið 20. september.

Einn af skemmtilegri hjólatúrum mánaðarins var þegar ég skuttlaði stelpunni minni upp í Breiðholt. Þar sem við erum ekki vel kunnar staðháttum á stígakerfum sem liggja upp í Breiðholt fórum við aðeins lengri leið en hefði þurft. Hjólið höndlaði þetta vel. Það er gefið upp að hámarks þyngd sem boxið ber sé 60 kg og við vorum alveg í efstu mörkum þeirra þyngdatakmarkana. Brekkurnar upp í Breiðholtið eru ansi brattar og notaði ég kröfutugustu hjálparstillinguna til að komast upp þær en þurfti engu að síður að puða töluvert með sjálf.

Þetta er leiðin sem við fórum:


Og svona vorum við alla leiðina, skæl brosandi því það var gaman að vera saman og þetta er fáránlega skemmtilegur ferðamáti
Hér er svo hjólið þó á þessari mynd sé annarskonar farangur í því.

3. september 2022

Hjólað í ágúst 2022

Hjólaði samtals 257 km í mánuðinum þar af 99 til og frá vinnu. 

Hjólaði 80 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 177 á venjulega hjólinu. Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 991 kr. (hjólið var keypt í ágúst á síðasta ári).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 20 á hjóli, 5 á hlaupahjóli/rafskútu og 14 gangandi,

Svo eru hér nokkrar myndir teknar á hjólarúntum í mánuðinum


 

1. ágúst 2022

Hjólað í júlí 2022

Hjólaði samtals 177 km í mánuðinum þar af 85 til og frá vinnu. Ekki varð nú jafn mikið úr hjólaferðum þennan mánuðinn eins og ég hafði vonað. Síðustu tvær vikur mánaðarins var ég í orlofi. Fór af landi brott í nokkra daga og kom heim með Covid19 og er enn að ná upp orku eftir það.

Hjólaði 62 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 114 á venjulega hjólinu. Hef leikið mér að því að reikna út hvað hver km hjólaður á rafhjólinu kosti miðað við hvað hjólið kostaði í upphafi. í upphafi þessa árs var hver hjólaður km á kr. 3.333 en er núna kominn niður í 1.162 kr. (hjólið var keypt í ágúst á síðasta ári).

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 12 á hjóli, 5 á hlaupahjóli/rafskútu og 13 gangandi, 

2. júlí 2022

Hjólað í júní 2022

Hjólaði samtals 305 km í mánuðinum þar af 128 til og frá vinnu. Hjólaði alla vinnudaga mánaðarins til vinnu fyrir utan eina viku sem ég var í orlofi.

Hjólaði 86 km á stóra hjólinu sem er með rafmótor og 219 á venjulega hjólinu.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 15 á hjóli, 5 á hlaupahjóli/rafskútu og 12 gangandi, 

Á 17. júní hjólaði ég með ömmustrák niður í bæ. Við lögðum hjólinu í bílastæðakjallaranum í Hörpu og röltum svo um bæinn.


Hér má svo sjá hvað ég hef hjólað það sem af er þessu ári.Hjólaárið 2022 - tölfræðin

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 2.944 km á árinu. Mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 1.657 km og 1.287 km í aðrar ferðir. ...