31. janúar 2021

Hjólað í janúar

Janúar hefur verið snjóléttur og frekar kaldur í Reykjavík. 2x lét ég kuldann hafa áhrif á mig og sleppti því að hjóla.  Ég vinn heima aðra hvora viku en tók strax þá ákvörðun að hjóla samt í vinnuna þá daga sem ég er heima, fer þá bara í hring.  En þessa tvo daga tók letipúkinn yfirhöndina og ég lét það eftir honum að sleppa hjólinu.

Talningar eru einnig hafnar aftur á morgnana á leið í vinnu og hef ég bætt við að telja líka hlaupahjól og gangandi. Vegalengdin til vinnu er um 4,5 km (fer örlítið lengri leið af því það eru ekki nema 2 km til vinnu og það er bara svo stutt) og þegar ég vinn heima þá fer ég um 6 km hring, en talning er bara á fyrstu 4 km til að halda tölfræðinni á svipuðum slóðum.

Hér koma tölur janúar mánaðar:

Hjólaið stamtals 229 km í mánuðinum þar af 107 til og frá vinnu. Hjólaði 17 af 20 vinnudögum

Sá að meðaltali á dag: 6 á hjóli, engann á hlaupahjóli og 7 gangandi.
Heildar talning í mánuðinum var: 106 á hjóli, 6 á hlaupahjóli og 125 gangandi.


Eitt hefur angrað mig síðan í nóvember en það eru ljóslausir ljósastaurar á leiðinni minni. Ég sendi on þessa mynd seinnihlutann í nóvember því mér var farið að blöskra fjöldi staura sem voru ljóslausir. Rauðar doppur sýna u.þ.b. hvaða staurar þetta eru. Fékk strax svar til baka um að þau sæu um ansi marga staura og það væri farið yfir þetta í hverjum mánuði.


10. janúar var ekki enn komið ljós á staurana svo ég sendi þeim aftur og fékk svör til baka um að þetta væri augljóslega ekki eins og þau vildu hafa það.  Síðan þá hafa staurarnir í græna hringnum fengið ljós.  Þessir sem eru í bláahringnum veit ég ekki stöðuna á, allir hinir eru enn ljóslausir. Þetta þykir mér vera frekar lélegt, en vonandi fara menn að koma sér í málið.

Þegar ég skoða tölurnar mínar síðastliðin 10 ár eða svo þá er þessi km fjöldi í janúar í lægri kantinum. Áður hjólaði ég líka lengri leið til og frá vinnu. Fjöldi hjólandi er hinsvegar í hærri kantinum og leyfi ég mér að halda því fram að það séu skýr merki þess að það hafi bæst í hóp þeirra sem velja hjólið sem samgöngutæki Hlakka til að halda áfram að hjóla og safna tölum og talningum.

Uppfærsla 3.2.2020. Það eru líka komin ljós á staurana í bláa hringnum

5. desember 2020

 

Endomondo.  Forritið sem ég hef notað síðastliðin rúm 7 ár til að halda utan um hreyfinguna mína, aðalegga hjólerí er núna að hætta og ég hef fært mig yfir til Strava frá og með 1. desember 2020.

Við höfum átt góðar stundir saman og ég endomondo og hér er smá yfirlit.

Fyrsta skráning: 18. apríl 2013. 5,66 km – 21 mín og 6 sek – 16,1 km/klst meðalhraði.  Hjólað til vinnu.


Síðasta skráning: 29. nóvember 2020. 8,31 km – 38 mín og 54 sek – 12,82 km/klst meðalhraði.  Hjólað heim úr Kópavoginum, var í morgunkaffi hjá mömmu og pabba.Í heildina hef ég ferðast rétt u.þ.b. hálfann hnöttinn á þessum tíma skv. þessari fínu mynd hér:


 

En ef ég tek bara samgönguhjólreiðar þá lítur þetta svona út:


En samgönguhjólreiðavalmöguleikinn var einmitt ein af ástæðunum fyrir því að ég valdi Endomondo í apríl 2013.  Á þessum rúmu 7 árum hef ég varið 1 mánuði, 17 dögum og 21 klst í að hjóla til og frá, aðallega vinnu en líka í heimsóknir, á tónleika og í verslanir.

Ég er ekki alveg eins dugleg að hjóla í hringi, þ.e. hjóla til að hjóla, en samt þetta er rétt rúm vika skv. þessari mynd:

Það kemur mér á óvart samt að ég hef gengið oftar og lengur en ég hef hjólað í hringi.  Mér finnst ég fara svo sjaldan út að labba.  En þetta er bæði samgöngulabb og líka labb í hringi.


Hér er annarskonar yfrlit eftir árum. Síðastliðin 3 ár hef ég verið að dunda við jóga æfingar og einnig verið duglegri að labba, eins og sjá má hér:En nú kveð ég Endomondo og hef frá 1. desember síðastliðnum notað Strava. Vona að það verði farsæl samskipti í mörg mörg ár.

1. febrúar 2018

Hjólað í janúar frá árinu 2010 til og með 2018

Nú eru kaflaskil í mínu lífi.  Í gær lauk 20 ára starfi í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu.  Öll þessi ár hef ég hjólað til og frá vinnu, fyrst aðeins á sumrin en svo kom að því að mig langaði ekki að leggja hjólinu þegar kominn var vetur og þá voru keypt nagladekk undir hjólið.  Ég fór þá líka á kynningu á vetrarhjólreiðum hjá Fjallahjólaklúbbnum sem var fróðlegt og gott fyrir byrjanda að fara á.

Ég bý nálægt Laugardalnum og var lengst af að vinna niðri í bær.  Leiðin til vinnu 5 til 6 km eftir því hvaða leið ég valdi er mjög svo temmileg vegalengd.  Um mitt ár 2016 flutti vinnustaðurinn upp á Hólmsheiði og við það lengdist leiðin til vinnu um 100%.  Ég hjólaði til að byrja með alla leið.  En mér leið aldrei vel á þjóðveginum frá Norðlingaholti og svo eftir Nesjavallaleiðinni svo ég hætti að hjóla alla leið og fékk far frá Olís í Norðlingaholti og svo þegar vetraði hjólaði ég inn í Mjódd og fékk far þaðan.

En allan þennan tíma hef ég talið þá sem ég sé á hjóli og árið 2010 fór ég að skrá það hjá mér ásamt því að ég var farin að nota Garminúr til að halda utan um vegalengdir og slíkt.

Og af því að janúar var að ljúka þá hef ég tekið saman tölur sem ég á yfir janúar mánuði frá 2010 til og með 2018.

Fyrst er hér mynd úr excel-skjalinu mínu, þetta er janúar 2018:
Svo er hér tafla og samantekt yfir fjölda hjólandi sem ég sá á leið minni til vinnu á morgnana.  Ég mætti í vinnu kl. 8 og var því á ferðinni snemma morguns.Og hér eru súlurit yfir það sama, fyrst heildartölur:


og svo meðaltal:


Og að lokum skráning yfir þá virku daga sem ég skildi hjólið eftir heima og hver ástæðan væri fyrir því.  Það kom mér verulega á óvart þegar ég fór að hjóla á veturnar hversu fáa daga ég mat það sem svo að veðrið eða færð væri of slæm til að hjóla.  Árið 2010 vantar hér inn þar sem ég var ekki farin að skrá hjá mér þá hversvegna hjólið var skilið eftir heima.

Hjólað í janúar 2018

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 201 km, 177 til og frá vinnu og 24 km annað. Var að jafna mig eftir veikindi í 2 daga, einn dag hjólaði ég ekki vegna veðurs og einn dag var ég á bíl af því það var síðasti vinnudagurinn á vinnustað sem ég hef starfað á í 20 ár.  Hjólaði því 18 af22 vinnudögum.

Sá að meðaltali 9 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.

Svona var aðkoman að hjóli mínu og vinnufélagamíns í lok síðasta dagsins sem ég hjólaði í vinnuna.
Bætt við 6.2.2017:

3. janúar 2018

Hjólaárið 2017

Hjólaði samtals 3.025 km á árinu.  Mest eru þetta ferðir til og frá vinnu eða 2.647 km og 378 í aðrar ferðir.  En ég hjólaði 206 af 250 vinnudögum ársins.  Af þessum 44 vinnudögum sem ekki voru hjólaðir eru 6 vegna ófærðar eða veðurs, 3 vegna veikinda og restin er svo orlof eða aðrar ástæður.

Framundan eru breytingar hjá mér sem gera það að verkum að ekki verður lengur talning á þeim sem ég sé á hjóli á morgnana áleið minni til vinnu. Finnst mér því við hæfi að setja inn línurit sem sýnir ágætlega breytingu á fjölda hjólandi frá því ég hóf að skrá niður þessar talningar mínar árið 2010.  Tölurnar eru meðaltal þeirra sem ég taldi dag hvern á leið minni til vinnu.Hér er taflan með meðaltalstölunum:


Ágúst 2010 hef ég lagfært örlítið þar sem tvo morgna í þeim mánuði sá ég mjög stóra æfingahópa sem skekktu meðaltalið óeðlilega.  Tók ég þær tölur út og fékk við það meðaltalið 11.  
Hér eru svo heildartölurnar fyrir hvern mánuð áður en meðaltalið er reiknað.  Þær tölur eru merkilegar í mínum huga þar sem þær sýna svo vel hversu mikið fleiri eru að hjóla í dag en árið 2010.


Sjáið bara, í janúar 2010 þá tel ég samtals 38 á móti 122 árið 2017.  Apríl talan 2017 skýrist af því að þá tók ég mér nokkra orlofsdaga.  Þess vegna er meðaltal hvers mánaðar betri mælikvarði, en það er engu að síður gaman að sjá hinar tölurnar líka.

2. janúar 2018

Hjólað í desember 2017

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 157 km, 145 til og frá vinnu og 12 km annað. Tók einn frídag og var svo veik 3 daga.  Hjólaði því 15 af19 vinnudögum.

Sá að meðaltali 9 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.


2. desember 2017

Hjólað í nóvember 2017Nóvember mánuður var einstaklega fallegur og gaf ég mér óvenju oft tíma til að stoppa og taka myndir.  Færðin var líka misjöfn og fór ég almennt hægar yfir.  Myndin hér fyrir ofan er tekin í byrjun mánaðarins.

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 218 km, allt til og frá vinnu hjólaði bara ekkert annað í mánuðinum. Sleppti einum degi af því hjólið fór á verkstæði.  Gírarnir frusu fastir og vildi ég láta athuga hvort hægt væri að gera eitthvað í því. Skipt var um vír og hann smurður með efni sem átti að koma í veg fyrir að hann frysi fastur. Það virkaði í nokkra daga en svo festist hann aftur.

Sá að meðaltali 9 aðra á hjóli á leið minni til vinnu

Hér eru svo nokkrar myndir:Framkvæmdir í Elliðaárdal, verið að setja upp ljósastaura


Viðbót 5.12.2017:


31. október 2017

Hjólað í október 2017


Í mánuðinum hjólaði ég samtals 306 km, allt til og frá vinnu hjólaði bara ekkert annað í mánuðinum (það er nú frekar dapurlegt). Sleppti einum degi af því það var rok og annan dag hjólaði ég í Mjódd í stað þess að hjóla upp í Norðlingaholt vegna roks.
Sá að meðaltali 10 aðra á hjóli á leið minni til vinnu.

Viðbót 6.11.2017:

Hjólað í janúar

Janúar hefur verið snjóléttur og frekar kaldur í Reykjavík. 2x lét ég kuldann hafa áhrif á mig og sleppti því að hjóla.  Ég vinn heima aðra ...