27. júní 2010

Endurbættur pallur

Úbbs, myndirnar eru í öfugri röð, við vorum sem sagt að smíða þennan pall en ekki að taka hann í sundur.









26. júní 2010

Á dauða mínum átti ég fyrr von en að ég hefði gaman að því að lesa Halldór Laxness

En svona geta hlutrnir breyst. Það var þannig að við pabbi vorum að ræða bókalestur snemma á þessu ári og ég sagði honum frá því að ég gæti bara ekki lesið verk eftir Halldór. Jú ég hefði farið í gegnum Íslandsklukkuna í skóla en ekki skilið hana. Svo hafi ég 2x reynt að lesa Kristnihald undir jökli en í bæði skiftin gefist upp komin inn í hálfa bók. Þess vegna var ég búin að ákveða að þetta væru bara ekki bókmenntir fyrir mig. Pabba fannst þetta ekki hægt þar sem hann heldur mikið upp á nóbelskáldið og lánaði mér Innansveitarkronikuna sem hann sagði vera fínustu bók og góð fyrir byrjendur. Ég fékk bókina lánaða svona meira til að gleðja föður minn en af löngun til að lesa. Síðan hefur bókin fengið að liggja í bókabunka í gluggakistunni hjá mér.

En þar kom að því að mig vantaði bók að lesa úti í sólinni og þá greip ég Innansveitarkronikuna. Ég gerði mér ekki miklar vonir og ekki byrjaði það vel því ég misskildi fyrstu setninguna og varð að lesa hana aftur til að skilja. Hún er svona:
"Þegar þjóðhetja Íslands og höfuðskáld Egill Skallagrímsson hafði um skeið bygt haug sinn í Mosfellsdal nær þjóðbraut þar sem heitir í Tjaldanesi af því ferðamenn tjalda þar, þá kom kristni í landið."
Það var þetta orðala að byggja haug sem tók tíma að átta sig á. Ég sá manninn fyrir mér puða við að byggja eitthvað en í stað þess lá hann dauður og heygður.
Eftir að hafa komist yfir þessa fyrstu hindrun átti ég barasta erfitt með að leggja bókina frá mér. Og það kom mér verulega á óvart að upplifa það um kvöldið þegar ég las fyrir svefninn að ég fór út í að lesa "bara einn kafla í viðbót" eins og maður gerir stundum með bækur sem fanga mann og les þá aðeins of lengi.

Líklegast hef ég hingað til ekki haft þroskann til að skilja skrifin hjá Halldóri.
Svo er hér ein setning úr bókinni sem mig langar að setja hér inn því hún er snilld:
"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrri skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

10. júní 2010

Hitt og þetta




Það er svo margt að gera þessa dagana. Mikið um breytingar. Báðar stelpurnar mínar útskrifuðust nú í vor, önnur úr grunnskóla og hin úr menntaskóla. Báðar svo yndislega frábærar og dásamlegir einstaklingar.






Hrund er að fara til Parísar á dansnámskeið í fjórar vikur, hún sem hefur aldrei verið í burtu frá okkur lengur en í viku í senn. Og allt stefnir í að hún fari svo út aftur í haust í meira dansnám. Eyrún er ekki búin að fá svör frá framhaldsskólunum sem hún sótti um svo það er enn óljóst hvort hún kemst inn í þá. Inntöku reglur breyttust, tilgangurinn með breytingunni var að reyna að koma öllum í framhaldsskóla í haust sem sækja um, nema hvað að þær takmarka einnig að krakkarnir komist í aðra skóla en sína hverfaskóla. En við sjáum hvað verður.





Mánudag og þriðjudag tók ég mér frí frá vinnu. Á mánudaginn fór ég í fjöruferð með nornunum í fjölskyldunni. Tilgangurinn að hittast og kíkja á plöntulífið í fjörunni. Við hittumst upp á Kjalarnesi heima hjá Minnu sem býr þar í paradís rétt við sjóinn. Sólin skein í heiði og við áttum yndislega stund hlaupandi léttfættar um ströndina og tánum aðeins díft í sjóinn.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...