28. janúar 2012

Hjólað í vinnuna miðvikudaginn 25. janúar 2012

Það hefur snjóað ansi mikið núna í janúar. Nú þegar hef ég hef ég 3x sleppt því að hjóla í vinnuna vegna veðurs eða færðar. Spurningin er oftast þessi: Get ég treyst því að búið er að skafa stíginn? Ef ekkert eða illa er skafið þá kemst ég ekki áfram á hjólinu. En hinsvegar ef það er búið að moka þá er lítið mál að hjóla. En sem sagt miðvikudaginn 25. janúar hafði snjóað um nóttina og það var pínu streð að komast út götuna hjá mér og upp á Langholtsveginn. En stíguinn niður Alfheimana var allt í lagi og svo mætti ég moksturtæki miðjavegu niður stíginn svo eftir það var dásamlegt að hjóla. Svo komst ég á stíginn við Suðurlandsbrautina en hann er í forgangsmokstri. Vinnuvélarnar höfðu greinilega farið snemma af stað um morguninn því stígurinn hafði verið skafinn (ég var á ferðinni um kl. 7.30), en þar sem það snjóaði ennþá þá var komið u.þ.b. 4cm lag af snó á stíginn. Það svo sem kom ekki að sök. Hér er svo fyrsta myndin sem ég tók á leiðinni (og þið verðið að afsaka myndgæðin en myndirnar eru teknar á símann minn). Ég hafði lagt snemma af stað því það tekur lengri tíma að hjóla í snjónum og ég vildi líka vera undir það búin að færðin væri misjöfn. En hérna stóðst ég ekki mátið að smella af því gatnamótin voru svo óvenjulega vel skafin. Engin hraukar neinstaðar að sjá og unun að hjóla yfir.Þetta er svo stígurinn sem tók við og greinilegt að gatan var skafinn eftir stíginn því snjórinn af götunni hefur farið yfir stíginn. Það er ákaflega ergilegt þegar það gerist. Þetta sést betur á næstu mynd.Á næstu mynd er ég stödd við Kringlumýrarbrautina á leiðinni niður að Sæbraut. Og hér er dæmi um ákaflega illa unnið verk. Hér mætast tveir stígar og það hefur verið mokað af stígnum hægramegin yfir stíginn hjá mér. Stundum er eins og það vanti að menn átti sig á því hvers vegna verið er að skafa stígana.Svo eru það þessi leiðinda hindrunarbrautir sem búið er að koma fyrir við allt of mörg gatnamót. Tækin greinilega komast ekki í gegnum hindrunina og þess vegna safnast snjórinn það fyrir og eina leiðin er að teyma hjólið í gegnum.En svo tók við ákaflega skemmtileg sjón. Einhverjir höfðu leikið sér að því að búa til snjókarla við eitt listaverkið sem stendur við Sæbrautina og þetta eru stærðarinna karlar.Og hér er sjálfur Múmín snáðinn. Þessa mynd tók ég á leiðinni heim.Það hafði snjóað mest allan daginn og líka blásið svo snjóinn skóf í öldur á stíginn við Sæbrautina sem greinilega hafði ekki verið skafinn aftur. En það er eitt helsta vandamálið við vetrarhjólreiðarnar að ekki er skafið aftur yfir stígana þrátt fyrir að það snjói yfir daginn. Svo þó ég komist auðveldlega í vinnuna að morgni þá get ég ekki treyst því að komast eftir sömu stígum heim aftur, eins og var raunin þennan dag og ég teymdi hjólið að Aktu-taktu þar sem Elías kom og sótti mig.

2. janúar 2012

Hjóla- (og skokk) árið 2011

Á árinu hjólaði ég a.m.k 2.897 km og var 187 klst og 48 mínútur að því. En ég skráði ekki niður styttri snattferðir sem ég fór hjólandi.

Eins og í fyrra þá taldi ég og skráði hjá mér þá hjólreiðamenn sem ég sá á morgnana þegar ég hjólaði til vinnu. Og af því tilefni ætla ég hér að setja inn samantekt um þær tölur. Talning á sér stað milli kl. 7:30 og 8:00 þá virka daga sem ég mæti til vinnu. Yfirleitt hjóla ég meðfram Sæbrautinni frá Holtagörðum og að Hörpu og þaðan upp á Skólavörðustíg.

Mesti fjöldi hjólandi sem ég sá á einum morgni voru 32 þann 27. maí. og 12. júlí. Það er nákvæmlega helmingi færri en fjöldametið árið 2010 en almennt sá ég fleiri hjólandi á hverjum degi allt árið.

Að meðaltali sá ég þetta marga hjólreiðamenn á morgnana hvern mánuð:
Janúar – 5 á dag
Febrúar - 5 á dag
Mars - 3 á dag
Apríl - 6 á dag
Maí - 18 á dag
Júní - 10 á dag
Júlí - 11 á dag
Ágúst - 12 á dag
September - 12 á dag
Október - 8 á dag
Nóvember - 5 á dag
Desember - 2 á dag.

Bara í desember kom dagur þar sem ég sá engan hjólreiðamann á leiðinni.
Þeir voru 13 dagarnir sem ég mætti til vinnu en var ekki á hjóli, þar af hef ég merkt 5 vegna veðurs eða færðar. Hér tel ég ekki með að ég gat ekki hjólaði í næstum viku eftir að ég féll af hjólinu og meiddist á öxl (framhjólið lenti í niðurfalli sem var of djúpt og það sást ekki út af snjó. Reykjavíkurborg hækkaði niðurfallið eftir að ég lét þá vita).

Lengst var ég 37 mínútur í vinnuna (venjulegu leiðina sem er 5,7 km). Fljótust var ég rétt rúmar 15 mínútur þessa sömu leið það var 29. júlí og má gera ráð fyrir að ég hafi haft góðan meðvindi.

Samtals hjólaði ég 232 daga af árinu (þarf af 203 til og frá vinnu og smá skottúrar ekki taldir með). Að meðaltali hef ég þá hjólað 12,5 km í hverri ferð.

Síðan var ég eitthvað að berjast við að hlaupa. Mér finnst ekki eins gaman að hlaupa eins og að hjóla, en samt er gaman að finna hlaupaþolið bætast með hverju skiptinu sem maður drífur sig út. Á árinu 2011 hljóp ég samtals 140 km. Ég byrjaði hægt og rólega í mars og hljóp svo 5 km í kvennahlaupinu 4. júní og endaði síðan mitt hlaupa ár á því að hlaupa 10 km á 1 klst og 4 mín í Reykjavíkurmaraþoninu þann 20. ágúst og er bara nokkuð sátt við þann árangur.

Þessar upplýsingar get ég nálgast vegna þess að ég skrái allar mínar hjólaferðir og hlaup inn á síðuna http://www.hlaup.com/ og hún býður upp á og heldur utan um svona tölur fyrir mann. Með smá reikni kúnstum getur maður svo fundið út hitt og þetta í tengslum við það. Frábær síða að mínu mati.

Hér er svo tafla með ýtarlegri upplýsingum varðandi talningu á fjölda hjólreiðmanna á morgnana. Athugið að í júní var ég í þriggja vikna fríi frá vinnu og því er heildarfjöldi hjólandi ekki mikill þann mánuðinn.





Og að lokum

Smellið hér og sjáið samantektina fyrir árið 2010: http://skobara.blogspot.com/2011/01/hjolaari-2010.html

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...