19. júlí 2012

Skemmtilegur ferðamáti?

Bylgjan spyr spurninga á vísi.is á hverjum degi.  Þann 16. júní síðastliðinn var spurt um hvaða ferðamáti fólki finnst skemmtilegastur og niðustaðan kom mér verulega á óvart.  Getur verið að ég hafi misskilið spurninguna? 
Skemmtilegustu ferðamátarnir skv. könnuninni voru bíll og flug (Slóð hér).  Báðir mjög leiðinlegir ferðamátar að mínu mati, sem koma manni hinsvegar oft á skemmtilega staði.  Og getur það ekki einmitt verið það sem fólk átti við þegar það svaraði?
Ég bara neita að trúa því að nokkur hafi virkilega gaman að því að sitja í bíl eða í þrengslum og hávaða í flugvél.

18. júlí 2012

Það sem má laga.

Sendi Reykjavíkurborg ábendingu um daginn vegna þessrar holu (verk nr. 15845 skv. tölvupósti sem ég fékk í kjölfarið).  Verst að ekki var hægt að setja mynd með ábendingunni.  Notaði ábendingarlinkinn sem er á síðunni www.rvk.is og heitir "Borgarlandið.  Fyrir þínar ábendingar."  Ég hef notað þann link til að láta vita af glerbrotum á stígnum sem ég hjóla með góðum árangri og vona að þau bregðist fljótt við og fylli í holuna.


Svo er annað sem hefur angrað mig svolítið.  Það eru hnapparnir sem nota þarf til að komast yfir götur hér og þar.  Þeir eru svo oft "vitlausu megin" á stígnum, þ.e. vinstra megin sem gerir erfitt að halda þeirri góðu reglu að vera hægra megin, sérstaklega ef einhver er að koma á móti.  Svo líka eins og sést á þessari mynd þá er oft töluvert langt í staurinn og þarf ég stundum að fara af hjólinu til að ná í hnappinn.  Ég hugsa nú að þarna nái maður að teygja sig en það er ekki allstaðar þannig.

Og síðast en ekki síst.  Um daginn heyrði ég á tal tveggja drengja á aldrinum 15-20 ára þegar þeir voru nýkomnir yfir götu á móti rauðu ljósi og annar sagði við hinn:  "... á hjóli gilda ekki umferðareglur..."
Vonandi er þetta ekki eitthvað sem menn almennt halda því að sjálfsögðu gilda umferðareglur um alla vegfarendur, sama hvaða ferðamáta þeir velja.

4. júlí 2012

Hjólað í Bolzano/Bozen

Kór Áskirkju skellti sér til Ítalíu. Einn daginn leigðum við Elías okkur hjól og hjóluðum um bæinn. Það var glampandi sól og 35 stiga hiti, okkur fannst vera helst til of heitt en það er alltaf gaman að hjóla.

Fyrsta myndin er tekin í iðnaðarhverfi og er umhverfið mjög ódæmigert fyrir Bolzano þar sem almennt ríkir fegurðin ein.

Á næstu myndum er umhverfið dæmigerðara.  Bolzano hefur þá sérstöðu á Ítalíu að mér skilst að vera með þessa hjólastíga.  Þeir liggja þvers og krus um bæinn og eru mjög góðir.  Þeir liggja líka út fyrir bæinn og við sáum marga hjólandi þegar við sátum í rútu milli staða.


Á þriðju myndinni er nýlistasafnið í Bolzano.  Önnur brúin er fyrir hjól og hin fyrir gangandi.  Þarna er greinilegt að það er útlitið sem skiptir máli því brýrnar liggja báðar í sveig með óþarfa brekku, en þær eru óneitanlega fallegar.

Hér er svo næstum því teikning af hjólaleiðinni, en ég gleymdi í byrjun að ég væri með garmininn á mér og svo af og til gleymdist að kvekja á honum aftur eftir stopp. 

Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...