31. janúar 2013

Hjólað í janúar 2013


Veðurlega séð var janúar frekar mildur. Hitastigið rétt í kringum frostmarkið, en til að kvarta undan einhverju þá var hann helst til of vindasamur og einn morguninn hjólaði ég ekki í vinnuna vegna roksins en lét skutla mér með hjólið og hjólaði svo heim.  Þannig að ég hjólaði alla vinnudaga janúarmánaðar en sleppti einum morgni.

Talning hjólreiðamanna sem ég sé á leið minni til vinnu heldur áfram og ég hef bætt við talningu á heimleiðinni líka. Dóttir mig spurði mig á síðasta ári af hverju ég teldi ekki á heimleiðinni líka og það varð til þess að ég fór að telja þá líka. Ég var alveg viss um að það væru alltaf fleiri á hjóli seinni partinn en annað hefur komið í ljós, og í þessum mánuði hef ég oftar séð fleiri á morgnana eða 13 daga af 22. Og eina skiptið sem ég sá engan á hjóli var einmitt á heimleið 3. janúar en þá var rok og rigning.

Flesta sá ég 22. janúar, þá töldust 18 um morguninn og 11 seinni partinn en það er met þessa mánaðar fyrir báðar ferði og ég sá aldrei færri en 2 að morgni.
Að meðaltali sá ég 6 á hjóli á morgnana og 5 á heimleiðinni.  En það má taka það fram að ég tel líka fólk sem teymir hjólin eða situr á bekk með hjólið hjá sér.

Ég hef verið í vandræðum með afturdekkið síðan fyrir jól og það hefur sprungið ansi oft á því, líklega kominn tími til að fá nýtt dekk en nagladekkin eru á sínum fimmta vetri núna.  Tvisvar hefur allt loft farið úr afturdekkinu á leið til eða frá vinnu. Í fyrra skiptið kom mér það ekki á óvart og var ég því með nýja slöngu meðferðis (var þegar búin að setja 3 bætur á slönguna).  En svo þegar kom gat á nýju slönguna ekki nema viku seinna verð ég að viðurkenna að ég varð frekar pirruð.

Það hefur lítið snjóað það sem af er ári, aðeins tvisvar hef ég skráð hjá mér snjó á stígum.  Það var 2. janúar og mánudaginn 14. janúar og í bæði skiptin var ég engan vegin sátt við hreinsunina á stígnum.  Sérstaklega þann 14.  þá hafði snjóað um helgina en engin tæki send út til að hreinsa fyrr en á mánudagsmorgun og þá höfðu margir troðið niður snjóinn og tækin náðu því ekki upp (eða lögðu sig ekki fram um það) og þvottabrettastemning á stígnum.  Það sem gerði þetta enn meira pirrandi var að gatan við hliðina á var auð og engan snjó þar að sjá.   En Sæbrautin finnst mér ekki spennandi gata að hjóla á og geri ekki nema í neyð (hefur gerst einu sinni í mars 2010 þegar stígurinn var algjörlega ófær af snjó).

Hér má sjá súlurit yfir hvern dag hjá mér á hjólinu í janúar.  Samtals eru þetta 233 km.

22. janúar 2013

Sprungið afturdekk en margir að hjóla og ganga til vinnu.

Það er sprungið á afturdekkinu enn eina ferðina.  Ég er nú þegar búin að setja 3 bætur á slönguna og ætla því í dag að setja nýja slöngu í dekkið.  Mig grunar þó að dekkið sjálft sé sökudólgurinn þó ég finni ekkert innan í því sem stingst út, en af því götin á slöngunni eru öll á næstum sama stað þá gefur það ansi sterka vísbendingu.  Þetta er líka fjórði veturinn sem þessi nagladekk fara undir og þau eru aðeins orðin lúin.

Í morgun byrjaði ég á því að pumpa í afturdekkið og vona að það mundi duga langleiðina í vinnuna því það virtist leka hægt úr dekkinu (pumpaði í dekki í gær áður en ég hjólaði heim og það hélt alla leiðina).  Núna hjólaði ég styðstu hugsanlegu leið í vinnuna (eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi) og náði u.þ.b. hálfa leið áður en mesta loftið var farið úr dekkinu.

Á leiðinni sá ég 18 á hjóli þar af 4 drauga sem ég kalla en það eru þeir sem eru ljóslausir og ég kem ekki auga á endurskynsmerki.  Langflesti hinna voru í fullum skrúða með ljós bæði framan og aftan og í endurskynsvestum sem að mínu mati eru öfgar í hina áttina, en við virðumst vera svolítið annaðhvort eða hér á þessu landi.

En mér þótti ánægjulegt að sjá hversu margir voru annaðhvort hjólandi eða gangandi.  Veðrið í dag er mjög ákjósanlegt, þurrt, 4°c og ekki mikill vindur.  Veturinn hefur verið mildur enn sem komið er hér á höfuðborgarsvæðinu.

1. janúar 2013

Hjóla- (og skokk) árið 2012

Á árinu hjólaði ég a.m.k 2.988, en ég skráði ekki niður styttri snattferðir sem ég fór hjólandi.

Eins og í fyrra þá taldi ég og skráði hjá mér þá hjólreiðamenn sem ég sá á morgnana þegar ég hjólaði til vinnu. Og af því tilefni ætla ég hér að setja inn samantekt um þær tölur. Talning á sér stað milli kl. 7:30 og 8:00 þá virka daga sem ég mæti til vinnu.  Yfirleitt hjóla ég meðfram Sæbrautinni frá Holtagörðum og að Hörpu og þaðan upp á Skólavörðustíg.
Mesti fjöldi hjólandi sem ég sá á einum morgni voru 32 þann 16. maí. Þegar kaffitjaldið var við Sæbraut í tilefni átaksins hjólað í vinnuna.  Það er nákvæmlega sama og fjöldametið árið 2011.

meðaltali sá ég þetta marga hjólreiðamenn á morgnana hvern mánuð:
Janúar       2 á dag (fjöldamet mánaðarins 4)
Febrúar     4 á dag (fjöldamet mánaðarins  9)
Mars         5 á dag (fjöldamet mánaðarins 25)
Apríl        10 á dag (fjöldamet mánaðarins 18)
Maí          18 á dag (fjöldamet mánaðarins 32)
Júní         14 á dag (fjöldamet mánaðarins 18)
Júlí          16 á dag (fjöldamet mánaðarins 27)
Ágúst       14 á dag (fjöldamet mánaðarins 20)
September 9 á dag (fjöldamet mánaðarins 15)
Október      8 á dag (fjöldamet mánaðarins 12)
Nóvember  6 á dag (fjöldamet mánaðarins  12)
Desember  4 á dag (fjöldamet mánaðarins 8)

Bara í janúar kom dagur þar sem ég sá engan hjólreiðamann á leiðinni. Þeir voru 43 vinnudagarnir sem ég hjólaði ekki í vinnuna, þar af hef ég merkt 5 vegna veðurs eða færðar, 4 veikindadagar, einu sinni skokkaði ég í vinnuna og einu sinni var sprungið á afturdekkinu þegar ég fór út í skúr að sækja það, restin af dögunum eru orlof eða annarskonarfrí.

Samtals hjólaði ég 481 ferðir á árinu (þarf af 416 til og frá vinnu en smá skottúrar eru ekki taldir með).   meðaltali hef ég þá hjólað 6,2 km í hverri ferð.

Síðan var ég eitthvað aðeins að hlaupa líka.  Mér finnst ekki eins gaman að hlaupa eins og að hjóla, en samt er góð tilfinning að finna hlaupaþolið bætast með hverju skiptinu sem maður drífur sig út. Á árinu 2012 hljóp ég samtals 131 km.  Ég byrjaði hægt og rólega í mars og hljóp svo 5 km í kvennahlaupinu 16. júní og endaði síðan mitt hlaupa ár á því að hlaupa 10 km á 1 klst og 1 mín í Reykjavíkurmaraþoninu þann 18. ágúst og er bara mjög sátt við þann árangur.

Þessar upplýsingar get ég nálgast vegna þess að ég skrái allar mínar hjólaferðir og hlaup inn á síðuna
http://www.runkeeper.com/ og hún býður upp á og heldur utan um ýmsar tölur fyrir mann. Með smá reikni kúnstum getur maður svo fundið út hitt og þetta í tengslum við það. Ágætis síða að mínu mati, en ég sakna þó nokkura samantekta sem hægt var að nálgast á hlaup.com en sú síða var tekin niður í ár eftir árás tölvuhakkara.

Hér er samanburður milli ára á meðaltali fjölda hjólreiðamanna hvern dag eftir máuðnum
 
Svo eru hér súlurit tekin úr Runkeeper.  Hér táknar hver súla einn dag af árinu og hversu margir kílómetrar eru hjólaðir þann daginn.  Af því ég hjóla mest til og frá vinnu þá kemur þessi ákveðna lína inn, en svo stundum skíst maður eitthvað í hádeginu eða eftir vinnu og þá eru súlurnar augljóslega lengri.  Og eitthvað fór ég í hjólatúra í fríinu mínu, þó mér finnist ég aldrei gera nóg af því.

Hér er svo heildarkílómetrafjöldi á hvern mánuð

Og hér getur að líta heildarkílómetrafjölda á vikudaga og það er ljóst að ég er duglegust að hjóla á mánudögum
 
Bæti einni myndinni við í viðbót (3.1.2013).  Hér er heildar fjöldi af hjólreiðamönnum sem ég hef komið auga á á leið minni til vinnu í hverjum mánuði bæði árið 2011 og 2012.


Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...