22. nóvember 2013

Saga af of sterku hjólaljósi.



Það er ekki gott að láta kalla athugasemd á sig, sérstaklega þegar hún kemur frá aðila sem átti hlut í sökinni.
Best að útskýra betur.  Í morgun var ég að hjóla í vinnuna eins og venjulega eftir stígnum við Sæbraut.  Þar eru enn leifar af málaðri línu sem aðskilur hjólandi frá gangandi (hún er að hverfa og eftir því sem ég best veit á ekki að endurnýja hana heldur á hægri umferð að gilda á stígnum).  En ég er að hjóla vinstra megin á stígnum (eins og línan segir til um) til vinnu og þarf að víkja fyrir þeim sem koma hjólandi á móti. 
Á hverju morgni mæti ég nokkrum á hjóli og hef það fyrir reglu að víkja tímanlega svo það sé skýrt að ég sjái viðkomandi og mér finnst það vera góð regla.  Undantekning er auðvitað ef gangandi eru á stígnum, þá þarf að taka sérstakt tillit til þeirra.  En það sem gerist nú í morgun er að hjól kemur á móti mér með það sterkt framljós að það útilokar sýn hjá mér og ég sé ekki tvo skokkara sem eru á stígnum á milli okkar, ekki fyrr en þeir víkja fyrir mér og fara fyrir geislann á ljósinu á hjólinu sem kemur á móti.  Ég sem sagt er búin að víkja yfir á hægri helming stígsins mjög tímanlega og það veldur því að skokkararnir fara næstum fyrir hjólið hjá þeim sem kemur á móti - til að víkja fyrir mér.  Honum bregður og skipar mér (þegar hann fer framhjá) að vera á hjólastígnum.  Augljóslega áttar hann sig ekki á því að hjólaljósið hjá honum er það sterkt að það útilokar sýn hjá þeim sem koma á móti, við sjáum hvorki fram eða aftur fyrir hjólið hjá honum.
Ég reyndi að garga eitthvað til baka, en það var ekkert vit í því (er bara ekki svona fljót að hugsa) og engin leið fyrir viðkomandi hjólara að ná út úr því þeim upplýsingum að hann er með allt of sterkt ljós fyrir innanbæjarakstur.  Eftir sat ég með vonda tilfinningu.  En get ég eitthvað lært af þessu?  Það er allavega ljóst að ég mun ekki víkja svona tímalega aftur þega ég mæti hjóli með þetta sterkt framljós.

21. nóvember 2013

Borgin sendi íbúum viðvörun vegna gróðurs

Í haust fengum við bréf inn um lúguna frá Reykjavíkurborg þar sem okkur er bent á að gróður af lóð okkar vaxi inn á stétt/stíg og að greinar á stórum trjám séu fyrir tækjum sem sjá um hreinsun á stígum.
Mín fyrstu viðbrögð voru að hlaupa út á götu til að skoða málið, og jú það var þarna ein grein sem slútti niður og einhverjar stungust út í gegnum grindverkið og það var líklega ástæðan fyrir þessum skrifum.  Næstu helgi fórum við og söguðum og klipptum.

Svo í gær kom annað bréf sem hefst svona:  "Í ljós hefur komið að ekki hefur verið orðið við áskorun veghaldara þess efnis að gróður sem fer yfir lóðarmörk hafi verið klipptur,..." og aðeins seinna "Því tilkynnist hér með að búast má við að gróður verði klipptur á næstunni án frekari fyrirvara á kostnað lóðarhafa..."

Og nú var mér brugðið.  Hvað í ósköpunum geta þeir verið að tala um?  Hér er mynd tekin af vefnum, ég setti gulan hring utan um greinina sem við söguðum.  Mín niðurstaða er að menn hljóta að hafa farið númeravillt.  En ekki vil ég samt greiða fyrir lóðahreinsun hjá einhverjum öðrum  svo ég hringdi í þjónustuverið hjá Reykjavíkurborg og vona að allt endi nú vel.

Ég vil í lokin taka fram að ég er ánægð með þetta framtak hjá borginni að benda íbúum á að gróður þurfi að snyrta því oft hefur maður pirrast yfir gróðri sem er að yfirtaka stíga og stéttar.

18. nóvember 2013

Snjór í Reykjavík


Ætlaði varla að trúa því hvað ég sá marga á hjóli í morgun.  Færðin var frekar erfið enda hafði snjóað um helgina og sumstaðar ekkert verið skafið.  Ég þurfti að snúa við  og fara til baka aftur yfir Sæbraut þar sem ég komst ekki áfram á stígnum út af snjónum, ég bara spólaði (sá þó för eftir 5 eða 6 hjól svo einhverjir geta hjólað í þessu).  Fór sem sagt aftur til baka yfir Sæbrautina og hjólaði í staðin strætó leiðina fram hjá Laugarásbíói og áfram á götunni að Íslandsbanka og fór þar yfir Sæbrautina aftur.  Stígurinn þar hafði eitthvað verið skafinn um helgina og svo þegar komið var fram hjá Kringlumýrarbrautinni var enn minni snjór, þó ekki geti ég sagt að það hafi verið greiðfært eða það væri augljóst að búið væri að skafa.  En það voru för eftir dekk af snjóruðningstæki svo það hafði einhverntíman farið þar um.

En þrátt fyrir þessa erfiðu færð sá ég 14 á hjóli.  Þar af einn ljóslausan, en flestir aðrir eru í fullum skrúða, þ.e. með ljós og í endurskinsvestum eða sambærilegu.  Ég var 12 mínútum lengur á leiðinni en venjulega (og þar sem ég er venjulega um 20 mín þá er það töluverð aukning).

Ætli borgin sé búin að breyta hreinsiáætlun út af Suðurlandsbraut-Laugavegur hjólastígnum og að nú sé hann í aðalforgang en ekki lengur stígurinn við Sæbraut frá Kringlumýrarbraut að Hörpu?

14. nóvember 2013

Ljósin á hjólinu

Núna þegar alveg er myrkvað á morgnana skipta ljósin miklu máli.  Maður sér nokkuð margar útgáfur af ljósum sem notuð eru og er það mín persónulega skoðun að blikkljós vekja mesta athygli og fyrr en stöðug ljós (þó ég sé sjálf ekki með blikkandi ljós að framan, en hugsa alltaf af ég ætti nú kannski að fá mér eitt slíkt og hafa með stöðuga ljósinu).

En það er eitt hjól sem ég mæti af og til á morgnana sem er með rautt blikkandi ljós bæði að framan og aftan og það er verulega óþægilegt að mæta því.  Af því að maður gerir ráð fyrir því að rautt blikkandi ljós sé aftan á hjóli og það ruglar skynjunina hjá manni og seinkar vitundinni um að hjólið færist að en ekki frá.  Þetta er bara vont, vona að viðkomandi fái sér hvítt ljós til að hafa framan á hjólinu fljótlega.

1. nóvember 2013

Október 2013

Hjólaði samtals 351 km í mánuðinum. Þar af 245 til og frá vinnu og 106 í annarskonar erindi (mest ferðir á kóræfingu).
Hjólaði alla 23 vinnudagana í mánuðinum til og frá vinnu.
Sá að meðaltali 11 á hjóli á dag til vinnu og 15 á heimleiðinni. Mest taldi ég 18 til vinnu og 35 á heimleiðinni og fæst voru það 3 til vinnu og 6 á leiðinni heim.  Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu margir eru enn að hjóla og hvað menn eru fljótir að draga fram hjólið um leið og hlýnar aðeins eða sólin lætur sjá sig.  En þegar ég taldi þessa 35 á heimleiðinni þá var hvorki sól eða hlýtt.  En ég fór Suðurlandsbrautina og síðan í gegnum Laugardalinn og þar voru margir á ferli, sérstaklega í Laugardalnum þar sem margir krakkar voru að fara til og frá tómstundum á hjólunum sínum.
Veturinn er genginn í garð og hitinn almennt um frostmark á morgnana.  Það er myrkur þegar ég legg af stað og þegar hitastigið er um -3° eða meira þá borgar sig að vera með tvöfalda vettlinga en það fann ég út einn morguninn þegar ég mér fannst fingurnir vera að detta af vegna kulda.  Skrítið hvernig maður virðist verða að læra þetta upp á nýtt hvert einasta haust.
Nagladekkin fóru undir hjólið að kvöldi 7. október.  Þá var spáð snjókomu daginn eftir sem gekk eftir en snjórinn var farinn seinni part dags síðan þá hefur varla verið þörf á nöglunum.  En marrið í þeim lætur aðra vegfarendur vita af því að ég er að nálgast og er það vel. Fólk virðist almennt ekki heyra í bjöllunni, kannski er ég ekki nógu ákveðin á hringingunum eða hringi ekki nógu oft?
En það er alltaf jafn yndislegt að hjóla.  Flesta daga hefur veðrið verið milt þó einhverja daga inn á milli hafi blásið hressilega.  Þá er málið að finna sér skjólbetri leið, leggja fyrr af stað og njólta þess að hafa orkuna sem þarf til að berjast á móti vindinum - nú eða njóta þess að hafa hann í bakið og láta hann ýta sér áfram.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...