29. september 2007

27. september 2007

Rífandi gangur.

Mikil aukning í innlitum á bloggið mitt síðan ruslpóstbloggið var sett inn. Vanalega 2-5 innlit á dag en er komin með tæp 40 innlit á 3 dögum! Það er þreföldun á innlitum.

Gætu orðin "viagra" og "penis" haft eitthvað með þetta að gera? Ja, maður bara svona spyr.

24. september 2007

Ruslpóstur gerir hann upp á milli kynja?

Hi Bjarney did you ever ask yourself is my penis big enough...

Svona hljómaði upphaf af ruslpósti sem ég fékk um daginn. Svo fæ ég af og til tilboð um viagra á góðum prís.

Er þetta nafnið mitt eða fá allir svona póst? (Þið vitið Barney - Bjarney)

Það var misskilningur í gamladaga þegar ég fór til systranna á Stykkishólmi eitt sumarið þannig að þær héldu að ég væri strákur og höfðu gert ráð fyrir mér sem strák. Var bara að velta fyrir mér hvort ruslpóstútsendarar væru að gera þessi sömu mistök.

19. september 2007

Verðmerkingar


Heyrði viðtal við formann félags verslunarrekenda á Akureyri (hann var titlaður eitthvað á þá leið). Verið var að velta fyrir sér verðmerkingum í búðargluggum á Íslandi og þá aðallega afhverju þær vanti á mörgum stöðum.

Taldi formaðurinn aðal ástæðu þess að verslanir verðmerktu ekki í búðargluggum væri sú trú að með því næðist að lokka fólk inn í búðina til að forvitnast um verðið.

Þetta finnst mér vera algjörlega út í hött. Þá sjaldan að ég fer í búðarráp þá yfirleitt sneiði ég framhjá þessum búðum einfaldlega vegna þess að í mínum kolli eru þetta dýrubúðirnar (og þá á ég við þessar rándýru með peysur sem kosta frá 15 þús).

Það hefur komið fyrir að ég í forvitni álpast inn í eina og eina óverðmerktabúð og þá er það yfirleitt eingöngu til að staðfesta þessa trú hjá mér.

Hvað finnst ykkur, hafið þið þessa tilfinningu líka með óverðmerktubúðirnar?

13. september 2007

Ísland - Norður Írland


Af því að ég trúi á og treysti okkar frábæru veðurfræðingum þá hjólaði ég ekki í vinnuna í gær sem leiddi til þess að ég tók strætó heim kl. 16.

Á biðstöðinni var allt krökkt af norður Írum sem voru meira en lítið í góðu skapi. Höfðu greinilega farið á pöbbinn og skemmt sér þar í nokkurn tíma, allavega nokkrir þeirra. Og það vildi ekki betur til en svo að þeir tóku sama vagn og ég. Og alla leiðina frá Lækjartorgi að Laugardalslaug (og strætó fer auðvitað ekki beinustu leið) sungu þeir stuðningslög og voru með kvatningarhróp. Það fól meðal annars í sér hopp, að standa upp, klappa saman lófum og berja í rúður.

Það má samt ekki misskilja það þannig að þeir hafi verið með skrílslæti beinlínis þ.e. þeir voru ekki að ógna okkur fáu íslensku hræðum sem voru í vagninum. Heldur var stemmingin hjá þeim svona gífurleg fyrir leikinn. Ég stóðst ekki mátið og tók upp svolítið af söngnum hjá þeim. En því miður hef ég ekki þá tækni að geta tekið upptökuna úr símanum mínum og sett inn hér, en áhugasamir geta haft samband og þá er aldrei að vita nema ég leyfi einum og einum að heyra.

2. september 2007

Skagaströnd

Ein lagði kerling af stað á vit ævintýranna. Það var snemma morguns og nóttin hafði verið óróleg af völdum tilhlökkunar og kvíða því kerling hafði aldrei áður tekið sér sambærilegt ferðalag á hendur.

Nauðsynjum hafði verið pakkað daginn áður fyrir þriggja daga ferð. Aldrei þessu vant var ekki ofpakkað af aukafatnaði eða mat en það var af illri nauðsyn frekar er vilja. Hún kom töskunum tveimur, bakpoka og hliðartösku fyrir á farskjóta sínum. Bakpokinn í körfuna og hliðartaskan á bögglaberann og síðan hjólaði hún af stað.

Fyrsti hluti ferðarinnar var vel þekktur, um 5 km leið að umferðarmiðstöðinni þar sem langferðabíll tæki við kerlingu ef hún aðeins reiddi fram fé í óhóflegu magni – að því henni fannst. Kerling hafði hjólað þá leið oft og mörgum sinnum.

Að sjálfsögðu var hún mætt vel snemma til öryggis og þurfti að bíða nokkra stund áður en rétti langferðabíllinn birtist. En þegar hann loksins gerði það var bílstjórinn svo vænn að koma farskjóta hennar fyrir í farangursrými bifreiðarinnar og inn fór kerling og fann sér sæti. Fljótlega hófst annar hluti ferðarinnar en það var 4 klst ferð um landið ekið eftir þjóðvegi eitt að mestu með stoppum á um klst. fresti. Kerlingu leiddist ferðin ekki enda hafði hún bæði með sér SuDoKu bók og lesefni til að stytta stundirnar.

Á Blönduósi fór kerling út og tók farskjótann með sér því lengri átti ferðin ekki að vera með bifreið. Hefst hér þriðji og síðasti hluti ferðarinnar þann daginn. Eftir að hafa símað til þeirra sem biðu og þeirra sem skildir voru eftir var enn lagt af stað og nú á fáknum fríða. Fyrst var farið um 1 km leið meðfram þjóðvegi eitt, ekki langur spotti en að mestu upp í móti. Síðan tók við 21 km leið um svo til ókannaðar slóðir. Auðvitað hafði kerling farið þennan spota áður en aldrei á þessu farartæki. Gæti hún þetta? Hvað var hún búin að koma sér í? Enn og aftur lagði hún af stað með kvíða og tilhlökkun sem ferðafélaga.

Veðrið var fínt. Hitastigið mátulegt fyrir svona ferðalag, aðeins mótvindur en ekkert til að hafa áhyggjur af. Áætlaður ferðatími var einn og hálfur til tveir klukkutímar. Hafði þeim sem biðu verið gefin fyrirmæli um að leyfilegt væri að hafa áhyggjur ef kerling væri ekki komin á leiðarenda eftir tvær klst.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk vel að mestu leiti. Á leiðinni voru bæði langar og stuttar brekkur og þær lágu bæði upp og niður. Umhverfið var fagurt en kerling hefur nýlega uppgötvað einmitt hversu fagurt þetta land er sem hún býr á. Fyrstu 5 km voru erfiðastir en eftir það var fannst henni hún vera komin að mestu yfir mæði og þreytu í vöðvum.

Umferðin um veginn var meiri en hún hafði búist við. Í eitt skiptið þegar stór bíll kom á móti feykti vindurinn sem honum fylgir suðandi flugu í eyra kerlingar og festist hún í eyrnablöðkunni (ekki í hlustinni) og suðaði þar. Kerlingu brá mikið við þetta og var næstum dottin af reiðskjótanum en náði einhvern veginn að halda jafnvæginu og losa sig við fluguna.

Um miðja vegu tók hún sér smávægilega hvíld og fór út í vegkant. Tími var kominn til að gæða sér á nesti. Ummm þetta var yndislegt. Því hvað er betra en að sitja í okkar fallegu náttúru í fínu veðri? Eftir að hafa snætt örlítið af harðfiski, nokkra súkkulaðibita og drukkið hreint og gott vatn var kominn tími til að halda ferðinni áfram. Var kerlingu litið upp í hlíðina fyrir ofan sig og sér þar hóp af nautgripum sem standa í hnapp og stara öll á hana. Hún hlær með sjálfri sér að forvitni þeirra og fer að taka saman dótið sitt. Sér hún þá útundan sér að dýrin eru komin á hreyfingu og eru greinilega á leiðinni niður hlíðina í átt að henni. Hún er ekki alveg viss um að henni lítist svo vel á þetta lengur og fer aðeins að flýta sér með fráganginn og kemur sér upp á veg. Það er aðeins lítil ræfilsleg girðing sem skilur á milli hennar og þessara stóru klaufdýra. Um leið og kerling stígur upp á fák sinn eru fyrstu dýrin komin niður að girðingu og um leið og hún stígur pedalana fara dýrin að hlaupa og hún biður í hljóði að girðingin haldi. En engin ástæða var fyrir þessum áhyggjum þvi dýrin eltu eingöngu eins langt og girðingin leyfði.

Við Höskuldsstaði lenti kerling í hremmingum og þurfti að takast á við hræðslu sem hefur hrjáð hana frá barnæsku. Fyrst heyrist hundgá og síðan koma tveir svartir grimmilegir hundar hlaupandi niður eftir heimreiðinni. Hjartað fór á fullt, allir vöðvar spenntust upp og það eina sem komst að í kolli kerlu var að stíga pedalana eins hratt og líkaminn leyfði bara ef hún gæti losnað við þennan ófögnuð. Einungis annar hundurinn elti - eða hljóp með er réttara að segja því hann var við hliðina á hjólinu geltandi og beraði sínar beittu tennur. Að lokum gafst óargadýrið upp og yfirgaf kerlu og hjólfák hennar. Dálitlum spöl seinna taldi kerling sér vera óhætt að stoppa örlitla stund og jafna sig á þessari óþægilegu lífsreynslu.

Að lokum komst hún á leiðarenda. Henni fannst það dásamleg tilfinning að hjóla inn í litla bæinn og hitta þá sem biðu. Sæl og ánægð með að hafa látið gamlan draum rætast um að fara um langan veg á uppáhaldsfarartækinu. Þessum hluta ferðalagsins var lokið en við tók yndislegur og skemmtilegur tími. Móttökurnar voru að venju góðar og það sem eftir var degi var kjaftað, púslað, prjónað og fleira sem kerling og hennar gestgjafi hafa mjög gaman að. Prinsinn á heimilinu vék úr rúmi fyrir kerlu sem kunni vel að meta þægindin og svaf eins og engill sem var gott því næsti dagur beið með ný og spennandi ævintýri.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...