21. október 2014

Fyrsti snjór vetrarins


Þessu var nú spáð svo það kom ekki sérlega á óvart, en alltaf er nýfallinn snjórinn jafn falleg sjón.
Fór fyrstu ferð á vetrarhjólinu í gær (já nú er maður orðin svona flottur á því að eiga sumar- og vetrarhjól).

Í morgun lagði ég svo af stað nokkuð fyrr en venjulega ef færðin væri slæm.  Finn að ég treysti ekki hjólinu alveg og nagladekkjunum, en það er oft þannig í fyrsta snjó og hálku.  En ég var ekki mikið lengur en venjulega í vinnuna og þó ekki væri búið að skafa nema hluta af leiðinni þá kom það ekki að sök, enda snjórinn ekki það mikill og alls ekki þungur.

3. október 2014

Fagur morgun

Fegurðin nær þó engan vegin að skila sér í þessari mynd.  En öll leiðin til vinnu í morgun var eitt  listaverk sama hvert var litið.  Sjórinn hvítfyssandi, birtan, glampinn af sólaruppkomunni á húsunum.  Allt var fagurt.  En í morgun var mótvindur og það var svolítið puð að komast í vinnuna (mér fannst það nokkuð fyndið eftir að hafa skrifað í gær langan pistil um hvernig ég er eiginlega alltaf með meðvind).  En maður hefur ekkert nema gott af áreynslunni og roðinn í andlitinu hjaðnar eftir smá stund.

2. október 2014

Hjólafréttir - eða svoleiðis.

Það eru mikil forréttindi að hafa tækifæri og getu til að hjóla til og frá vinnu.  Ég hef hjólað í vinnuna að staðaldri síðan 1998, fyrst bara á sumrin alveg þar til að eitt haustið að ég gat ekki hugsað mér að hætta að hjóla.  Þá voru keypt nagladekk undir hjólið og ég bjó mig undir mikil átök um veturinn.  Þetta var árið 2008 (sjá hér skrif frá mér um efnið).  Eitthvað var minna um átökin en ég bjóst við og kom mér á óvart hversu auðvelt og gaman var að hjóla yfir veturinn.  Auðvitað komu daga þar sem ég sleppti því að hjóla vegna veðurs og færðar en þeir voru miklu færri en ég átti von á.

En að árinu í ár.  157 daga af þessu ári hef ég hjólað í vinnuna.  Hef því samtals sleppt því að hjóla 28 daga (mest orlofs dagar) þar sem vinnudagar þessa árs fram til lok september mánaðar voru 185.  Samtals er kílómetrafjöldi ársins orðinn 2.355 (þar af 1.718 til og frá vinnu)

Stundum skrái ég hjá mér athugasemdir um veðrið og ég ákvað að telja saman þá daga sem ég skráði eitthvað um mótvind, meðvind og stillt veður.

11 sinnum mótvindur, 20 sinnum meðvindur og 30 sinnum stillt veður

ég veit, þetta eru ekki nema 61 dagur af 157 sem ég hef hjólað en oftar fannst mér ekki ástæða til að segja eitthvað um vindinn.  Ég er heppin með það að vindáttin er ríkjandi með mér á morgnana og snýst oft yfir daginn og er með mér heim aftur, en auðvitað er það ekki alltaf og þá tekst maður við mótvindinn (þegar ekki er logn altsvo). 

Í vor keypti ég mér fallegt hjól hjá Kríu.  Mig hefur langað í svona borgarhjól ansi lengi enda er ég mikill aðdáandi danska og hollenska stílsins og hef gaman að því að horfa á hin og þessi myndbönd af hjólreiðum þaðan.  Mikið hlakka ég til þegar við förum að nálgast hjólamenninguna þar, því ég hef fulla trú á því að það gerist.  Menn eru að vakna og sjá og skilja að hjólreiðar eru frábær samgöngumáti.  Menn hafa ranghugmyndir um að það sé erfitt að hjóla í Reykjavík út af veðri og brekkum en það er ekki rétt.  Og vona ég svo heitt og innilega að fleiri haldi áfram að bætast við þann fjölda sem dregur fram hjólin til að skjótast hingað og þangað og þannig smám saman aukist hjólamenningin.

En svolítið um mínara hjólreiðar, ég bý í 104 og vinn í 101.  Leiðin sem ég hjóla oftast er tæpir 6 km hvora leið en ég get valið úr nokkrum leiðum eftir veðri, vindum og færð.  Að meðaltali er ég 20 mín á leið í vinnuna og er aðeins fljótari á sumrin en á veturnar.

Og nú fer að koma sá tími að ég verð að leggja nýja fína hjólinu mínu yfir veturinn því það er svo mikið borgarhjól að ekki komast nagladekk undir það.  Upphaflega var ætlunin að ég mundi nota gamla hjólið mitt til yfir veturinn, en mér til mikillar hrellingar þá á ég ekki samleið með því hjóli lengur (sjá hér) en þá vill svo vel til að minn ektamaður á hjól sem hann notar ekki mikið og aldrei yfir vetrartímann og nú eru vetrardekkin mín komin undir það hjól og er líklegt að bráðlega verði skipt um hjól, allavega var hitastigið á mælinum heima í morgun ekki nema rétt yfir frostmarki.

1. október 2014

Hjólað í september 2014

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 297 km, þar af 235 km til og frá vinnu og 62 km annað.  
Hjólaði 21 af 22 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, tók 1 orlofsdag.
Sá að meðaltali 16 á hjóli á dag til vinnu og 15 frá vinnu. Mest taldi ég 25 til vinnu og 34 á heimleiðinni.  

Tvo síðustu daga september komu lægðir upp að landinu með roki og rigningu (fólk beðið að festa lausa hluti).  En ég hjólaði samt (skoðaði www.belgingur.is til að sjá vindátt), fór leið sem er skjólbetri og styttri en Sæbrautin þ.e. í gegnum Laugardalinn og svo Suðurlandsbraut-Laugarvegur.  Fékk ég þennan fína meðvind báða dagana.  Sá þó ekki nema einn annan á hjóli fyrri daginn, 29. sept (um morguninn).

Hér má sjá samanburð milli ára á meðtaltali talninga á hjólandi* sem ég tel fyrir hvern mánuð.
Hér eru tölur frá endomondo.  Inni í þessu er líka labb (þó ekki mikið, ég er greinilega meira fyrir það að hjóla).  En þetta eru tölur frá því ég byrjaði að skrá hreyfingu mína hjá þeim.

* Á morgnana tel ég alla sem ég sé á hjóli á meðan ég hjóla til vinnu og skrái hjá mér. Finn svo út meðaltal fyrir hvern mánuð og það eru tölurnar sem birtast í línuritinu. Ég er á ferðinni milli 7:30 og 8:00 og fer lang oftast meðfram Sæbrautinni en á þó líka til að fara um Laugardalinn og meðfram Suðurlandsbraut og Laugarvegi og örsjaldan meðfram Miklubraut.

 Bætt við 7.10.2014:

Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...