15. júní 2012

Meira um hjólastæði

Þetta er mjög gott hjólastæði að mínu mati, hér er hjólið ekki að dettta (ég hef a.m.k. aldrei upplifað það).  Það er staðsett í Austurstræti fyrir framan Arion banka.  Það mættu vera fleiri svona hjólastæði í borginni.

13. júní 2012

Tæknin.

Í gær hætti garmin-inn minn að virka, neitaði að fara í gang þegar ég vildi kveikja á honum fyrir heimferð úr vinnu.
Ekkert virkaði til að koma lífi í hann að nýju, hvorki að setja hann í hleðslu eða tengja við tölvu, né nokkuð annað sem við reynum.  Svo ég verð að horfast í augu við staðreyndir að hann virkar ekki lengur.

Ég keypti mér þessa græju vorið 2008 og er það í raun mjög ólíklt mér þar sem tækið var frekar dýrt (kostaði þá um 40.000 kr).  En ég hef notað það svo til á hverjum degi síðan.
Það var skrítin tilfinning að hjóla heim úr vinnu án hans.  Svo hafði ég planað að fara út og skokka en fyrstu viðbrögð voru að það væri ekki hægt af því ég hefði ekki garmin-inn.  En auðvitað er það bara bull og ég skokkaði án tækisins.

En ég ætla að kaupa mér nýtt svona tæki og er að skoða hvað er í boði.  Ég notaði auðvitað aldrei alla fídusana í þessu tæki, en var samt búin að setja inn þannig að það pípti eftir ákveðna vegalengd (ekki sú sama í hlaupi og hjóli) og svo bara þetta venjulega, hraða, vegalengd o.þ.h.

7. júní 2012

Fleiri myndir af hjólastæðum við Hörpu

 Þessi hjólastæði eru við starfsmannainnganginn.  Þau eru í raun eins og hin, bara upp við vegg og virka alveg jafn illa.

Svo ég lagði hjólinu mínu við grindverkið í staðinn og það er bara mjög fint.

Gróðurhúsið

Þetta gróðurhús kom til okkar eftir krókaleiðum.  Mér skilst að Minna frænka hafi fengið það gefið fyrir a.m.k. ári síðan. Og í vor ætluðu þau að setja það saman með hjálp barna og tengdabarna, en þá kom í ljós að allar festingar vantaði.  Þau fundu þó út hverjir selja svona hús hér á landi og búið var að merkja við í bæklingnum hvað það var sem vantaði.

Eitthvað varð þó til þess að þau ákváðu að þetta væri ekki gróðurhúsið fyrir þau og þannig fengu mamma mín og pabbi það í hendurnar.  Þeim fannst þetta heldur ekki vera fyrir þau svo okkur var boðið að fá það ef við vildum.  Og við sögðum já.
Eftir að hafa útvegað okkur festingarnar þá var ekki mikið mál að setja það saman.  En Elías þurfti reyndar að sníða nokkrar plötur sem ekki voru til hjá heildsalanum.  En grindin komst saman.

Þá var að ákveða staðsetningu og það tók nokkurn tíma og voru nokkrir staðir prófaðir.  En þegar endanleg staðsetning var ákveðin voru grafnar holur, rammi smíðaður og staurar steyptir niður í holurnar sem festir voru í rammann.  Síðan fór grindin þar ofaná og það flottasta af öllu var að þetta smellpassaði. 
Þá var kominn tími til að setja "glerið" (sem í raun var plast) í húsið.  En það gerðum við einmitt í góða veðrinu sem var í síðustu viku.

Allt glerið var með gulri plastfilmu á sem þurfti að fjarlægja, og það var mjög svo leiðinlegt og erfitt að ná því af.  En það gekk nú samt.  Ég er svona kapp klædd af því að ég hafði sólbrunnið daginn áður og Hrund hafði tekið sólarvörnina með sér til Marokkó.
Hér er svo húsið næstum alveg tilbúið, bara eftir að setja glerið í hurðina og laga festingarnar fyrir gluggann í þakinu.
Hér er húsið full búið og tómatplöntur komnar í mold í botni þess og eitthvað af sumarblómum í ræktun í pottum inni í húsinu.
Ég hlakka mikið til næsta vors að koma til grænmeti og sumarblómum í húsinu.  En í ár (og í fyrra) var ég með svalagróðurhús í láni frá mágkonu minni (það er núna inni í húsinu) og þó lítið væri var ótrúlega mikið hægt að rækta þar inni.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...