26. júní 2008

Sumarkveðja.

Sæl og blessuð öll sömul.

Frá mér er allt gott að frétta þó dagarnir séu helst til of stuttir nú um stundir. Það er svo margt sem mann langar að gera og annað sem þarf að gera og eilíf togstreita þar á milli. Eins og þið þekkið.

Við erum öll meira og minna í vinnunni þessa dagana og fáum ekki frí saman fyrr en í lok júlí, en þá verður gaman.

Garðurinn okkar er mjög svo blómlegur núna því í gær plöntuðum við Hrund út fullt af sumarblómum sem okkur áskotnaðist. Sum eru meiri dekurblóm en önnur og þurfa vökvun næstum því á hverjum degi. Vonandi getum við sinnt þeim sem skildi.

Eplatrén sem við settum út í garð (í potti) í vor af því þau voru farin að ofspretta í glugganum hafa séð fífil sinn fegri. Þau eru núna eiginlega bara stönglar með nokkrum laufblöðum efst.

Af paprikutrjám er allt gott að frétta. Þau halda áfram að blómstra og nú eru 3 paprikur að vaxa. Við höfum nú þegar uppskorið 2 paprikur, ágætlega stórar og mjög svo ljúffengar.

Síðan hafa stelpurnar verið að setja inn myndir á myndasamkeppni mbl.is. Þetta eru Eyrúnar myndir og hér eru myndir frá Hrund (smellið á nöfnin þeirra).

Eyrún er komin með nýtt hjól og stefnt er á að hjóla eitthvað saman öll fjölskyldan þó ekki sé búið að ákveða hvert eða hvenær.

Sem sagt allt í lukkunnar velstandi hjá mér og mínum.

Kveðja, Bjarney

15. júní 2008

7 km labb, skokk og hjól.

Ég og Hrund fórum í gær að heiman, Hrund hjólandi og ég á tveimur jafnfljótum. Stefnan var á Kópavoginn.


Bláa línan sýnir hraða.

Græna línan sýnir hvort farið er upp eða niður í landslaginu (eða elevation) í metrum talið en þar sem ég tók ekki með mælistikuna fyrir þá línu segir hún kannski ekki mikið.

Fyrstu 3 km fór ég á góðu og jöfnu skokki sem sést svo fallega á línuritinu hinu fyrra en ég klippti í sundur línuritið til að það sæist betur.

Veðrið var mjög gott til hreyfinga, enn nokkuð skýjað og léttur vindur. Fljótlega eftir þessa 3 km fórum við Hrund að prófa nýjar leiðir. Stundum er gaman að fara ókannaðar slóðir (þá á ég við slóðir sem ég hef ekki sjálf farið) og við ákváðum að fara til vinstri í stað hægri þar sem stígurinn í Fossvogi greinist.
Þá vorum við komnar á þennan líka fallega skógarstíg, sem því miður endaði í uppgreftri og vinnusvæði. Svo við fórum aðeins til baka (höfðum séð ótrúlega girnilega brú örlítið fyrr sem leiddi lengra inn í skógarsvæðið) og héldum ferð okkar áfram um ókannaðar slóðir. Sá stígur endaði sem mjög þröngur slóði og við lyftum hjólinu yfir hlið (sem kom aðeins seinna í ljós að var óþarfi) til að komast út á Kringlumýrarbrautina.
Síðan vorum við svo bjartsýnar að telja að við kæmumst í gegnum vinnusvæðið þar sem verið er að búa til nýjan veg hjá Lundi, en það reyndist blindgata og enn og aftur snérum við við.
Það er ástæðan fyrir því hversu upp og niður seinni helmingurinn af ferðinni er.
En ferðalagið var mjög skemmtilegt.
Í lokin má sjá hækkunina við það að fara inn í Kópavoginn og upp á hálsinn að listasafninu og síðan lækknunina aftur á áfangastað.

11. júní 2008

Nýr linkur

Var að skrá mig á síðu sem heitir hlaup.is (nýr linkur hér við hliðina).

Hér skráir maður inn þá hreyfingu sem maður stundar og hlaup.is heldur utan um heildartölur og annað skemmtilegt. Verið ófeimin að kíkja á síðuna.

Þar er líka hægt að sjá hvað aðrir eru að gera. Virkar voða sniðugt.

7. júní 2008

Kvennahlaupið


Í grenjandi rigningu í Garðabæ á Garðatorgi var lagt af stað í kvennahlaupið kl. 14 í dag. Þær allra duglegustu lögðu af stað korteri fyrr í 10 km hlaupið.

Ég sjálf hljóp 5 km en Eyrún og mamma fóru 2 km. Hrund gat ekki tekið þátt því strax eftir upphitunina fór hjartað hennar af stað í oftakt sem er vandamál sem hún hefur þurft að glíma við. Hún er á töflum sem eiga að koma í veg fyrir þetta, en þær virka bara ekki alltaf.

Það var góð stemning á staðnum þrátt fyrir bleytuna. Á vef Sjóva má sjá myndir frá hlaupunum víða um land. Því miður engin mynd af mér og mínu fólki.

Og þá koma staðreyndirnar. Hlaupaleiðin mín var nokkuð strembin að mínu mati. Brekkur bæði upp og niður. Ég var 33 mín. og 44 sek. að fara leiðina og er bara nokkuð sátt við það.
Myndin sýnir hvernig nýja fína tækið mitt teiknar upp hlaupið. Uppi er leiðin sem hlaupin var. Blágræni punkturinn sýnir u.þ.b. upphaf hlaupsins sem svo endar á sömu götu og niður í krókinn. Línuritið sýnir svo hraðann.
Meðalhraðinn hjá mér var 8.7 km/klst. Hámarkshraðinn 13,2 km/klst.
Virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu þrátt fyrir rigninguna. Við vorum holdvotar eftir hlaupið þrátt fyrir regnfötin því manni hitnar við hlaupið og þá verður að renna frá. Ég var líka í lopapeysunni minni svo mér varð ansi heitt.

4. júní 2008

Villtar jurtir

Fór í gær á einstaklega áhugavert námskeið um villtar jurtir og nýtingu þeirra. Það var Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem bauð upp á námskeiðið. Við fórum þrjár saman ég, mamma og Minna frækna og í Keflavíkinni var Hildur móðursystir ein af þeim sem kom þessu námskeiði á koppinn.

Í upphafi hélt grasalæknir fyrirlestur um hinar og þessar jurtir og hvaða virkni þær hafa og hvernig best sé að meðhöndla þær.
Síðan var stigið upp í rútu og ekið um Suðurnesin og stoppað á 3 stöðum og jurtir skoðaðar og tíndar. Við vorum helst til of snemma á ferðinni fyrir sumar plöntur í það minnsta en fundum þó margar mjög fallegar og kröftugar plöntur.
Á eftir hvert stopp voru jurtir settar í hitabrúsa með heitu vatni í til að úbúa te sem var drukkið í lok ferðarinna.

Ég og mamma vorum með brúsa og í hann settum við lauf af túnfífli, haugarfa, maríustakk, vallhumal og eitthvað fleira og úr því varð þetta líka ljómandi góða te sem án efa hefur gert okkur mikið gott.

Þegar heim var komið breiddi ég úr þeim plöntum sem ég átti til á handklæði inni í eldhúsi til þurrkunar. Þá hef ég mestan áhuga á brenninetlunni því hún á að vera svo góð fyrir blóðið (bæði hreinsandi og aukandi). En brenninetluna verður að þurrka áður en hægt er að neyta hennar. Svo er hún víst frekar römm á bragðið svo best er að hafa fleiri jurtir með í teinu.

Þetta finnst mér allt saman vera ákaflega spennandi og skemmtilegt. Læt svo fylgja hér með tvær heimasíður sem Hildur móðursystir benti á og eru svona ansi skemmtilegar og fróðlegar.

Viskubrunnur - Galdralýsingar á Ströndum
Náttúra

Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...