28. mars 2008

Hjólað í vinnuna

Hjólaði í vinnuna í fyrsta skiptið á þessu ári. Oh, það er bara svo dásamlegt að hjóla.

26. mars 2008

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavík síðdegis spyr á visi.is: "Á Reykjavíkurflugvöllur að víkja fyrir íbúabyggð?" og svarmöguleikarnir eru þrír:
-Já, að hluta
-Já, alveg
-Nei.

Fyrir ekki svo löngu hefði ég ekki hikað við að svara þessu "já, alveg". En það var þegar eini valmöguleikinn var að flytja hann til Keflavíkur. Nú er ég á þeirri skoðun að frekar vil ég hafa hann þarna áfram heldur en að færa hann með miklum tilkostnaði í um nokkra kílómetra, annað hvort upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker. Báðir þeir möguleikar eru ómögulegir að mínu mati og þá er betra að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Svo ég vil ekki svara "já, alveg" og valda þeim misskilningi að þar með sé mér alveg sama hvert hann er fluttur.

Svarmöguleikarnir hefðu mátt vera:

-Já og flytja hann til Keflavíkur
-Já og flytja hann innan Reykjavíkur
-Nei

og þá hefði ég getað svarað án vandræða.
En það er rétt að taka fram að ég fer afar sjaldan innanlands með flugi, líklegast u.þ.b. 1x á hverjum 5 árum. Og það er svo að ég fer oftar til útlanda í flugvél heldur en innanlands og finnst það ekki tiltökumál að fara til Keflavíkur til þess.

23. mars 2008

Plöntur og vor


Mikið er vorið spennandi og skemmtilegur tími.


Sólin sést oftar og maður meira að segja finnur hita frá henni. Allar pottaplöntunar eru farnar að taka við sér. Paprikuplanta frá síðasta sumri blómstraði 4 eða 5 blómum og lofar góðri uppskeru, nú eru 3 blóm eftir og 2 paprikur farnar að myndast. Ég bjóst svo sem ekki við því að þessar plöntur lifðu af veturinn en gaf þeim tækifæri. Epla trén líta ekkert allt of vel út. Blöðin hafa svolítið skrælnað í vetur (sjá vinstra megin við paprikutrét) en það verður spennandi að fylgjast með þeim og sjá hvort þau taki við sér líka.


Pottaplanta sem við höfum átt í nokkur ár og mér finnst alltaf vera eins er farin að bæta við sig nýjum öngum (sjáið þetta ljósgræna það er allt nýtt).
Síðan setti ég fullt af sumarblómafræjum í mold og bíð spennt eftir að sjá hvort og hvenær þau láta á sér kræla.

20. mars 2008

Afsláttur af heilsuþjónustu.

Kaupþing sendi okkur bækling um daginn þar sem tilkynnt er að við séum komin í "Vöxt Gull" og þar með fáum við betri þjónustu en aðrir sem ekki eru í þessum hópi. Síðan er tíundað hvað okkur er boðið uppá.

Við erum heppin að hafa fæðst á Íslandi því hér er gott að búa.
Hvers vegna? Jú, við höfum aðgang að þjónustu sem okkur finnst orðið sjálfsögð en er það ekki allstaðar í heiminum. Öll börn fara í skóla. Heilsugæslan er aðgengileg öllum og almennt höfum við það gott.
Hvers vegna? Jú það er vegna þess að við áttuðum okkur nokkuð snemma á því að það borgar sig að hugsa um heildina. Við borgum skatta af launum okkar til að fjármagna þá þjónustu sem við teljum nauðsynlega.
Ég vil halda áfram að borga skattana mína til að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég vil að allur almenningur hafi aðgang að henni og að áfram þyki sjálfsagt að lækna þann sem er veikur án þess að hugsa um hvort viðkomandi hafi efni á að borga fyrir þjónustuna.

Þess vegna verð ég óróleg þegar tákn um annað koma fram. Og þá er ég komin aftur að bæklingnum frá Kaupþingi. Þar er mér boðin afsláttur af mánaðargjaldi af Velferðarþjónustu á vegum Heilsuverndarstöðvarinnar. Þennan afslátt fæ ég sem sagt af því ég er í þessari tilteknu þjónustu hjá bankanum mínum.

Þetta er hvorki stórvægilegt eða eitthvað sem eitt og sér grefur undan heilbrigðisþjónustunni fyrir almenning. En í mínum huga er þetta skref í þá átt að hafi maður pening geti maður greitt sig framar í röðina. Og það er skref sem ég er ekki tilbúin að taka. Þegar kemur að heilsu þá á sá veikasti að hafa forgang en ekki sá sem á mesta peninginn.

18. mars 2008

16. mars 2008Þá hefur yngsta barnið verið fermt. Sjáið bara þennan föngulega hóp.

Hún Eyrún mín stóð sig eins og hetja í fermingarveislunni og bæði hélt smá ræður og söng fyrir gestina. Og gerði það vel.

12. mars 2008

Tilhlökkun

Bráðum kemur betri tíð

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Halldór Laxness


Litla flugan

Lækur tifar létt um máða steina.
Lítil fjóla grær við skriðufót.
Bláskel liggur brotin milli hleina.
Í bænum hvílir íturvaxin snót.

Ef ég væri orðin lítil fluga
Ég inn um gluggann þreytti flugið mitt.
Og þó ég ei til annars mætti duga
Ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

Sigurður Elíasson

6. mars 2008

PlönturLitlu vitlausu haustlaukarnir mínir virðast halda, þrátt fyrir snjó og kulda að nú sé komið vor. Vonandi þola þeir veðrið sem er í boði hjá okkur.
Síðan er það aumingja plantan mín í eldhúsglugganum. Þar var nefninlega þannig einn daginn að ég þurfti að lofta vel úr eldhúsinu og galopnaði gluggann. En úti var frostgaddur og ég hafði ekki vit á því að fjarlægja plöntuna úr glugganum. Verð ég ekki bara að klippa burtu kalna hlutann?
Þessi planta hjá mér vex bara sem ein lengja, engir angar út hér eða þar. En hún hefur hingað til verið svo falleg og þrifist vel í glugganum.

3. mars 2008

Líkamsrækt

5 km frá heimili til vinnu. Ferðatími:
Með bíl 10 mín
Á hjóli 15-20
Með strætó 30-35 mín
Gangandi 45-55 mín
Hlaupandi á eftir að ná upp þoli til að reyna það, kannski eitthvað svipað og strætó?

Ég er alltaf að ákveða hluti í eitt skipti fyrir öll, en svo er nú misjafnt hver lokadagsetning er á þessum ákvörðunum...

Tók t.d. þá ákvörðun að fara nú að sprikkla heima hjá mér - ætti að geta það heima án þess að borga fyrir það eins og einhverstaðar annarsstaðar fyrir pening. Síðasti neysludagur á þeirri ákvörðun var daginn eftir.
Og nú hef ég tekið þá ákvörðun að labba heim úr vinnunni í stað þess að taka stræó.
Kostir: Byggir upp þol, fínasta hreyfing, spara mér 1 stk strætómiða á dag.
Gallar: Kem heim 15 mín seinna en ef ég tæki strætó.

Hef hingað til gert þetta ca. einusinni til tvisvar í viku, en afhverju ekki bara alla dagana? Þar til það verður hjólafært allavega.

Jæja sjáum til hver loka dagsetningin á þessari ákvörðun verður.

Hjólað í apríl 2022

Hjólaði samtals 203 km í mánuðinum þar af 122  til og frá vinnu. Hjólaði 15 af 17 vinnudögum mánaðarins, páskarnir voru núna í apríl og tók ...