22. febrúar 2015

Peysa verður til.

Byrjaði á þessari peysu 3. febrúar.  Hún er í stærð XS og er á bróðurdótturmína sem býr í Danmörku.  Það er u.þ.b. klst vinna milli mynda.



Viðbót 26.2.2015.  Og hér er mynd af eiganda peysunnar, ansi fín bara.

13. febrúar 2015

Gleðilegan "vetrar-hjólaði í vinnuna dag"!!!

Hjólaði í vinnuna í dag eins og aðra daga.  Veðrið er stillt og kalt (-6°C á mælinum heima).  Ekkert snjóaði í nótt svo stígarnir voru enn svo gott sem lausir við snó eftir mokstur gærdagsins.

Nema hvað að í dag er Winter Bike To Work Day.  Einhver út í heimi ákvað að einmitt þessi dagur í dag skyldi vera slíkur og ásamt öðrum setti af stað vefsíðu þar sem fólk allstaðar í heiminum getur skráð sig og heitið því að hjóla til vinnu í dag.  Þetta tókst svo vel (ekki fyrsta árið sem þetta er gert þó það sé í fyrsta skiptið sem ég veit af því) að vefsíðan ítrekað þoldi ekki álagið og var oft óaðgengileg.  Allavega þá er þáttakan góð og hér er kort sem sýnir fjölda þáttakanda (best að smella á myndina þá opnast stærri).
Á leið minni til vinnu sá ég 4 aðra á hjóli.  Ég fór mína uppáhaldsleið meðfram Sæbrautinni (en hún hefur oft í vetur verið illfær og því hef ég hjólað meira meðfram Suðurlandsbraut).  Nýji hjólastígurinn frá Kringlumýrarbraut að ljósunum rétt hjá Hörpu var næstum alveg auður þ.e. það sást vel í malbikið - vel gert hjá þeim sem sér um að hreinsa þann stíg.

10. febrúar 2015

Með vindinn í bakið á heimleiðinni, ekki allir svo heppnir í éljaganginum.  Mætti 6 á hjóli.

4. febrúar 2015

Hjólið sem ég hlakka svo til að taka fram

Get varla beðið eftir því að snjórinn og klakinn fari svo ég geti tekið þetta hjól aftur í notkun.  Mér finnst svo mikið skemmtilegra að hjóla á þvi, en því miður er ekki hægt að setja undir það nagladekk svo ég verð að bíða aðeins lengur.

3. febrúar 2015

Snór og kuldi

Það sem af er vetri hefur verið óvenju vetrarlegt (ef svo má segja).  Framan af var hann mildur og í nóvember var vorlegt en svo 30. nóv brast á með óveðri og síðan þá hefur hver stormurinn á fætur öðrum komið yfir landið og snjó varla tekið upp.

Í gær þegar ég hjólaði heim var kalt (mótvindur) en umhverfið yndislega fallegt.  Sólin skein á skjannahvíta Esju og Akrafjall og hafið var blágrátt og allt vann þetta saman við að skapa mikla fegurð.  Svo ég stoppaði og tók mynd, en hún nær þó enganvegin að fanga fegurðina.

Í morgun var 10 stiga frost, en alveg stillt.  Bætti legghlífum við hlífðarfötin mín.  Mér varð kalt á tánum enda er ég svolítið  að pjattrófast og hjóla í skóm sem eru lítið fóðraðir og ekkert rúm fyrir auka sokka, en það hefur sloppið til því ég er ekki að hjóla nema í um 20 mín.  Mér varð um tíma líka aðeins kalt á fingrunum, þó er ég í tvöföldum vettlingum (ullarvettlingar úr barnaull) innanundir og lopavettlingar (létt lopi) utanyfir.  Þetta hefur reynst mér vel í vetur en það var einstaklega kalt í morgun.  Um hálsinn hef ég kraga sem ég prjónaði úr einbandi og hún hefur reynst mér einstaklega vel í svona kulda til að hafa fyrir vitunum.  Áður var ég með buff (er ekki viss úr hvaða efni, gæti verið bómulblanda) og það stíflaðist alltaf út af andgufum og frosti.  Einbandið er það gisið að það stíflast ekki en heldur samt vel hita.  Undir lopahúfunni er ég svo með buff (svona venjulegt) því það hleypir ekki vindi í gegn eins og húfan.  Í morgun sá ég engan annan á hjóli.

2. febrúar 2015

Borgarvefsjá

Vefsíðan Borgarvefsjá er með silldar tæki hjá sér sem heitir lifandi gögn og þar undir er hægt að velja að sjá "Snjóhreinsun göngu- og hjólaleiða" og er hægt að velja um 4 möguleika þar:  Síðasta klst., síðustu 2 klst, síðustu 4 klst og síðustu 8 klst.  Nema hvað að mitt hverfi, Laugardalur og þar um kring virðist ekki senda inn upplýsingar.
Það snjóaði í allan gærdag, ekkert mikið í heldina sen samt nóg til að tefja för á hjóli ef ekkert er búin að skafa og þá mundi nú muna mikið um það að geta séð þessar upplýsingar inni á Borgarvefsjánni.

Svo ég sendi athugasemd til þeirra um að þessi gögn vantaði með ósk um að það væri lagað.  Vonandi verður hægt að koma þessum gögnum inn þarna eins og annarsstaðar.

Hér er mynd tekin af síðunni snemma í morgun.  Ég veit að búið var að hreinsa stíginn við Langholtsveg og niður Álfheimana því þá leið fór ég til vinnu.  En það er áberandi ekkert rautt í kringum Laugardalinn.

1. febrúar 2015

Hjólað í janúar 2015.

Í mánuðinum hjólaði ég samtals 254 km, þar af 183 km til og frá vinnu og 71 km annað.  

Hjólaði 18 af 21 vinnudögum mánaðarins til og frá vinnu, var veik í einn dag og og svo voru tveir dagar sem ég hjólaði ekki vegna veðurs.  Það hefur verið snjór eða klaki allan janúar, að einum morgni undanskildum þegar rigningin náði að hreinsa af stígunum og ég fékk vor-löngunartilfinningu á leiðinni til vinnu.   Svo snjóaði yfir daginn og allt var orðið hvítt aftur á heimleið.
 
Sá að meðaltali 5 á hjóli á dag til og frá vinnu. Mest taldi ég 10 til vinnu og 7 á heimleiðinni.  Hjólaði fyrripart mánaðarins niður Álfheimana, eftir Suðurlandsbraut og svo Laugaveg.  Sá stígur er í forgangi í snjóhreinsun og var nokkuð vel hreinsaður plús það að stór hluti af nýja hjólastígnum frá Kringlumýrarbraut og að Fíladelfíu er upphitaður.  Seinnipartinn mánaðarins fór ég svo mína uppáhalds leið meðfram Sæbrautinni þar sem færð og veður var orðið betra.

Meðalferðahraði í mánuðinum var 13 km/klst til vinnu og 12 km/klst heim.  Ég er yfirleitt aðeins lengur heim, það er örlítið upp í móti þó ekki neitt til að tala um.  Og meðal ferðatími var 21 mín til vinnu og 23 mín heim.

Þetta er samanburður milli ára og sýnir meðaltal taldra manna á hjóli á leið minni til vinnu.  Líkleg skýring á fækkun núna er veðurfarið.  Fyrrihluta mánaðarins var færðin ansi misjöfn,



Svona er staðan hjá endomondo síðan ég hóf að skrá hreyfinguna mína þar.  Þetta eru að sjálfsögðu nokkuð óþarfa upplýsingar en mér finnst gaman að þeim engu að síður.



Verð að viðurkenna að ég er mikið farin að hlakka til að geta lagt vetrarhjólinu og farið aftur á sumarhjólið sem ég keypti mér í fyrra vor.  Það er svo miklu skemmtilegra að hjóla á því, en því miður er ekki hægt að setja nagladekk undir það og þess vegna verður það að bíða í skúrnum þar til snjórinn og hálkan eru á bak og burt.

Viðbót 2.2.2015, tölvupóstur frá endomondo:

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...