31. október 2007

Hversdagsmatur


Mig langar að biðja ykkur um að deila með mér uppskriftum að einföldum hversdagsmat.


Mín sérgrein er: Egg á brauði.


Hráefni: Egg, brauð, ostur, tómatsósa


Brauðið ristað (ekki of mikið), eggið spælt á pönnu, helst báðumegin en auðvitað eftir smekk. Ostur skorinn í sneiðar og settur á brauðið og eggið þar ofaná. Tómatsósu smurt yfir.


Fljótlegt, einfalt og alveg ágætis matur.


Lumið þið á einhverju svona einföldum en góðum mat? Endilega deilið með okkur hinum.

Ein góð minning af strætó.

Ég á eina góða minningu um strætó. Það var þannig þegar ég var í menntaskóla að þá gekk maður í og úr skólanum. Mig minnir að þetta hafi verið svona 15 mín labb og áætla að leiðin hafi verið rúmlega kílómeter.

Einn daginn var veðrið mjög slæmt, svona gamaldags óveður. Snjókoma, rok og auðvitað hálka svo varla var stætt á gangstéttunum. Ég var að labba heim úr skólanum og barðist á móti vindi, var ágætlega klædd en samt orðið kalt og eins og snjókarl vegna ofankomunnar. Þá gerist það að strætó stoppar við hliðina á mér og bílstjórinn býður mér far. Honum greinilega finnst ómögulegt að láta nokkurn mann ganga í þessu veðri og aumkvar sig yfir mig. Þetta var bara svo fallega gert af honum. Ætli svona strætóbílstjórar finnist enn í dag?

27. október 2007

Mynd í Fréttablaðinu í dag

Myndin er frá árinu 1931 þegar stytta Hannesar Hafstein var afhjúpuð við Stjórnarráðið. Það sem mér finnst athyglivert og gaman að sjá eru hjólin við grindverkið. Ætli þau séu á nöglum? Einhvernvegin finnst mér það ólíkegt. En menn hafa ekki vílað fyrir sér að hjóla þrátt fyrir snjóinn.

23. október 2007

ALÞJÓÐA HÁSTAFADAGURINN VAR Í GÆR

HANN HEFUR SÍNA EIGIN SÍÐU OG ALLT. SKOÐIÐ BARA HÉR.

JÁ ÞAÐ ER MARGT SKEMMTILEGT TIL Í HEIMINUM.

22. október 2007

Eyrún er komin með nýtt blogg.

Kíkið á síðuna hennar og verið ófeimin að skrifa komment hjá henni.

Smellið hér til að hoppa beint á síðuna hennar.

21. október 2007

Gestabækur


Þær geta verið margskonar. Gestabókin í brúðkaupinu mínu og Elíasar var svolítið sérstök. Gestir skrifuðu nöfn sín á hvítt lín sem mér var gert að sauma út. Línið yrði síðar að dúk sem hægt væri að nota við hátíðleg tækifæri.


Það hefur nú gengið svona og svona að sauma þessi nöfn og nú 14 árum síðar eru enn rúmlega 30 nöfn eftir. En nú skal setja kraft í saumaskapinn og takmarkið er að ljúka við dúkinn fyrir 15 ára afmælið.


Var að ljúka við að sauma eitt nafn áðan og gleymdi mér í smá stund við að skoða nöfnin. Er fyrst núna að átta mig á því hversu skemmtileg þessi gestabók er.

20. október 2007

Skemmtilegur vinnustaður

Á þessu mikla flísatímabili sem er hér á heimilinu hef ég nokkrum sinnum skotist í Húsasmiðjuna til að kaupa ábót á flísar. Og þegar svoleiðis er keypt þarf að fara í vörumiðstöðina hjá þeim sem er staðsett í Holtagörðum.



Í fyrsta skiptið sem ég fór í vörumiðstöðina hitti ég fyrir fúlan starfsmann en eftir þann hafa allir verið glaðlegir og kátir og maður fær það sterklega á tilfinninguna að þetta sé skemmtilegur vinnustaður (hef örugglega hitt sérstaklega illa á þennan fúla). Starfsandinn virðist vera einstaklega líflegur og góður.

Mann langar að fara þarna aftur og aftur og aftur... eða allavega þá er þetta ekki einn af þessum stöðum sem mann langar helst aldrei að þurfa að koma á aftur



Annars ganga flísalagnir bara nokkuð vel og bráðum sér fyrir endann á þessu öllu saman. Draumurinn er að komast í sturtu heima hjá sér um næstu helgi.

12. október 2007

Er vinstri umferð í Reykjavík?

Skoðið þessa myndasýningu. Það er nákvæmlega þetta sem mig hefur langaði til að gera á þeim leiðum sem ég fer dags daglega. Taka myndir og benda á það sem þarf að laga til að auka öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda í Reykjavík.

11. október 2007

Hjólað frahjá Hlemmi.



Að hjóla er góð skemmtun og líka heilsusamlegt, en ekki alltaf það öruggasta. Þá á ég við þegar ekki er gert ráð fyrir hjólandi umferð í gatnakerfi.

Sú leið sem um þessar mundir er vinsæl hjá mér að hjóla heim liggur framhjá Hlemmi. Þá er ég að fara frá vestri til austurs, eða frá vinstri til hægri á myndinni. Leiðin mín er merkt með fjólubláum deplum. Vandamálið er að það er ekki svo auðvelt að komast þessa leið og fara eftir umferðarreglum og hagkvæmnisreglum.

Hluti af leiðinni er bleikari en annar og er það vegna þess að á horni Laugavegar og Snorrabrautar er skilti við gangastéttina sem segir að umferð hjóla sé bönnuð. Auðvitað fer maður ekkert eftir því en það er samt að naga mig og pirra.
Eftir þann ólöglegabút er komð að Hlemmi sjálfum og þar er auðvitað nokkuð um gangandi fólk sem hugsar ekki út í að reiðhjól gætu átt leið framhjá og er því ávallt fyrir.
Aðrar leiðir eru að fara yfir Laugarveginn og beygja til hægri inn Hverfisgötuna (leið merkt grænum punktum á kortinu). En þar tekur ekki betra við. Jú það er smá gangstéttarbleðill vinstramegin við götuna sem nær alla leið, en hann er bara svo mjór að engin leið er að mæta nokkrum manni og síðan þröngar krappar beygjur fyrir horn sem eru mjög varasamar.
Hvað er þá eftir? Jú, hægt væri að fara til baka eftir að búið er að þvera Snorrabrautina á gönguljósum og hjóla inn Njálsgötuna (leið merkt gulum punktum á kortinu). Ekki er hægt að fara beint yfir götuna þar sem grindverk hamla för. En þá er farið í aksturstefnu og reglum nokkurnvegin fylgt. Þessa leið hef ég ekki prófað, því hvaða heilvita maður fer til baka??? Kannski ég prófi hana í dag og kem með komment um þá reynslu.

10. október 2007

Flísar

Fyrst voru teknar flísarna sem voru á veggjunum.



Síðan kom 3 daga þurrktímabil því veggirnir voru blautir


















Eftir þurrktímabilið var borinn grunnur á vegginn og síðan einhverskonar þéttkvoða.



Og þá var loksins hægt að leggja flísar.



En þar með var björninn ekki unninn því bakslag kom á verkið þegar taka átti réttskeiðina (spítuna undan flísunum). Þá losnaði ein flísin og þéttiefnið ásamt grunni kom af veggnum hægra megin. Þá þurfti að grunna og þétta aftur, gaman gaman.
Hér er Elías að skafa allt það lausa í burtu, sem var nú sem betur fer ekki allur veggurinn, en nóg samt.



Og nú er þetta farið að ganga betur. Einn veggur orðinn þakinn flísum og sá næsti vel á veg kominn.

8. október 2007

Fleiri fallegar myndir frá Eskifirði.



Hitt og þetta

Ætlaði varla að trúa mínum eigin augum á leiðinni til vinnu í morgun. Sá hvorki fleiri né færri en 11 aðra hjólarar. Það er töluverður fjöldi á þessum árstíma og miðað við síðustu viku, bara ansi hreint margir. Það var örlítið frosthéla hér og þar á stígunum á leiðinni en sem betur fer engin óhöpp.

Til ykkar íslenskusénía. Af hverju segir maður "fraus" en ekki "frostnaði" ?
Dæmi: Það fraus í nótt.

Flísalagnir í sturtunni eru farnar að ganga ágætlega eftir afleita byrjun. Næstum einn heill veggur orðinn flísalagður og líklegast (vonandi) verður hægt að byrja á þeim næsta í kvöld.
Þetta hófst allt fyrir rúmri viku þegar flísarnar sem fyrir voru voru rifnar niður. Þá kom í ljós að veggirnir voru gegnsósa af vatni frá c.a mittishæð og niðurúr. Það tók 3 sólarhringa að þurrka veggina nægilega mikið til að hægt væri að grunna og mála á þá þéttiefni einhverskonar. Síðan voru fleiri þvælur og vesen sem drógu verkið aftur næstum á byrjunarreit.
En eins og sagði í upphafi þá er þetta loksins farið að ganga betur.

1. október 2007

Nóg að gera um helgina.

Fór í kórferðalag austur á land á laugardagsmorgun. Flogið til Egilsstaða og þaðan farið beint að skoða Kárahnjúkavirkjunina. Landslagið þarna er hrikalegt og fallegt í senn. En ekki skil ég hvernig starfsmenn og fjölskyldur þeirra hafa farið að því að halda geðheilsu þarna uppi á veturnar. Vinnubúðirnar eru á afskaplega hráslagalegu og drungalegu svæði. Myndin er af stærstu stíflunni af þremur. Kárahnjúkurinn sjálfur er til vinstri á myndinni og glöggir menn sjá tröllkerlingu sem hefur dagað uppi á leið í hellinn sinn.

Eftir að hafa séð bæði stíflurnar og stöðvarhúsið (fengum harðkúluhatta og skærgul vesti og skrifuðum undir að við værum þarna á okkar eigin ábyrgð) var farið aftur á Egilsstaði til að sækja nokkar kórfélaga sem komu með seinna flugi. Og síðan var ekið sem leið lá á Eskifjörð og að sjálfsögðu farið beint í kirkjuna til að prófa hljóminn og ýmislegt.
Þaðan var farið á Neskaupsstað þar sem kórstjórinn býr og bauð hann í kvöldmat. Það var ekið yfir Oddskarð í svarta þoku og mikill léttir að koma inn í göngin, sem eru einbreið en vel upplýst.
Kvöldið endaði síðan með akstri til baka yfir á Eskifjörð þar sem hluti kórsins svaf á gistiheimili.
Í gærmorgun vökuðum við í blíðskaparveðri. Sólin skein og umhverfið var töfrandi fagurt. Seinni myndin er af Eskifirði, tekin frá gistiheimilinu sem er rétt fyrir utan bæinn.
Þann daginn var sungið við messu og svo tónleikar.
Á meðan á þessu stóð hjá mér var Elías heima að rífa flísarnar af sturtuveggjum og gólfi. Þá kom í ljós að veggir og gólf voru gegnsósa af vatni og er verið að þurrka það upp núna áður en hægt verður að leggja nýtt lag af flísum þar á. Því fylgir raki og lykt sem hvorutveggja er fremur hvimleitt, en vonandi tekur það ekki of langan tíma.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...