29. maí 2008

Græjur

Skokkaði í morgun 4,45 km í vinnuna og var 31 mín 50 sek og 89 sekúndubrot að því.
Við þessa hreyfingu eyddi ég upp 353 kaloríum.
Hámarks hraðinn hjá mér var 15,8 km/klst en meðalhraðinn 8,4 km/klst.

Já, ég er búin að kaupa mér nýja og flotta græju sem heldur utan um alla mína hreyfingu af nokkuð mikilli nákvæmni. Græjan heitir Garmin Forerunner 205 og er á stærð við stórt armbandsúr. Hún tengir sig við gervihnött áður en lagt er af stað (helsti gallinn hvað hún er lengi að því og mér þykir leiðinlegt að bíða, er ca. 1 mín að ná sambandi).

Svo þegar ég kem heim (og það er það flottasta) þá hleð ég upplýsingunum inn í tölvuna mína og þá get ég farið nákæmlega yfir ferðalagið mitt. Séð hversu hratt ég fór á hverjum stað, séð hvort ég fór upp eða niður brekku og hversu brött hún var (á þó eftir að læra betur á að lesa úr þessum línum öllum saman).
Ps. Er ekkert sérlega bjartsýn í dag á að ná að hlaupa 10 km í ágúst. Finnst það sem ég hljóp í morgun vera nokkuð langt og sé mig ekki hlaupa þá vegalengd 2x í einu lagi.

22. maí 2008

Hjólafréttir

Enn er ágætis hjólaveður, þó verið sé að spá einhverri vætu í dag.
Fór Sæbrautina og þar var ágætis meðvindur.
Sást til 5 annara hjólamanna, allt karlmenn.
Hvað varð um kvenfólkið?
Gufar það upp þegar sólin hverfur bak við ský?

Íslenski fjallahjólaklúbburinn auglýsir hjólaferð um helgina. Hjólað verður á Nesjavelli, lagt af stað á laugardag og gist um nóttina og síðan hjólað aftur til Reykjavíkur á sunnudeginum. Hljómar mjög spennandi. Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar.
Ég gæti vel hugsað mér að fara svona ferð en vildi gjarnan hafa einhvern með mér. Svo, þó ég ætli ekki í ár, þá ef einhver gæti hugsað sér að fara með mér á næsta ári...

19. maí 2008

Hjólafréttir

Fínasta hjólaveður í morgun 10 stiga hiti og meðvindur.

Sást til 18 annara hjólreiðamanna.

18. maí 2008

Þæfing



Mig hefur lengi langað til að prófa að þæfa ull og lét þann draum rætast þessa helgi. Ég átti plötulopa og notaði stærstu prjónana sem ég á. Síðan teiknaði ég upp einfalda tösku, setti á hana smá munstur og hóf prjónaskapinn.

Myndirnar sýna töskuna fyrir og eftir þæfingu (þ.e. þvott á 40°C).



Ég er bara nokkuð sátt við útkomuna. En þó er eitt vandamál sem þarf að finna út úr og það er að taskan "límdist" saman að innan. Ég náði henni í sundur með því að toga og rífa, en ætli það sé hægt að koma henni úr þæfingunni án þess að lenda í því vandamáli?

Er einhver þarna úti sem vill deila með mér eigin reynslu?

15. maí 2008

"Litlu vitlausu laukarnir mínir"


Eru ekki lengur litlir og vissu greinilega hvað þeir voru að gera.
Til samanburðar má sjá mynd frá 6. mars með því að smella hér.
(Aftur 14 hjólreiðamenn og meirihlutinn kvenkyns - áfram stelpur!)

14. maí 2008

Hjólafréttir

Nú er átakið "Hjólað í vinnuna" í fullum gangi. Þátttakendur eru með eindæmum heppnir með veður, enda sést það á fjölda hjólreiðamanna þessa dagana. Í morgun sá ég hvorki fleiri né færri en 14 hjólara, fyrra met á þessu vori eru 8 svo það er mikil fjölgun (og þá er einungis átt við morgunumferð það eru miklu fleiri á ferli seinni part dags).

Það er vert að ítreka fyrir mönnum að á Íslandi gildir hægri umferð, líka á göngustígum.

Ég er ekki þáttakandi í átakinu í ár, þó ég hjóli í vinnuna á hverjum degi. Pínu skrítið en svona er það nú samt. Og ekki nóg með það heldur er mælitækið mitt á hjólinu eitthvað bilað (grunar að rafhlaðan sé orðin léleg) og það er hætt að segja mér hvursu hratt ég fer og hvað langt. Verð að koma því í lag sem fyrst því ég hef svo gaman að tölulegum upplýsingum.

7. maí 2008

Athugasemdir (comment)

Ég skal viðurkenna það að mér þykir óskaplega gaman að fá athugasemdir við bloggið mitt og bíð spennt eftir hverja nýja færslu að einhver skrifi.

En hvernig er maður með að skrifa á önnur blogg?
Það er æði misjafnt. Eins er mjög miserfitt að láta sér detta eitthvað í hug til að setja við hjá öðrum. Svo er það líka þannig að maður skrifar ekki á blogg hjá hverjum sem er. Það eru þónokkrir skrifarar sem ég hef á skoðunarlistanum mínum, en ekki nema í mesta lagi helmingur sem ég mun nokkurntíman koma til með að skrifa hjá.
En af hverju ætli það sé? Nú er vitað að bloggið er fyrir alla til að lesa sem detta inn á síðuna og maður veit vel að af og til slæðast inn einhverjir sem eru utan nánustu fjölskyldu og vina, eins og maður sjálfur fer inn á hinar og þessar síður. Af hverju kvittar maður ekki fyrir innlitið, sérstaklega þegar skrifin eru skemmtileg og áhugaverð?

Eru þetta enn ein af þessum óskrifuðu lögum?

Ég a.m.k. skrifa bara á blogg hjá þeim sem vita að ég skoða síðurnar þeirra og þeir sem skrifa á mína síðu eru þeir sem ég veit að kíkja á mína síðu. Ég hef bara einu sinni fengið kommennt frá utanaðkomandi og þá var það útlendingur sem enganvegin skildi það sem ég var að skrifa um, en var að safna sér bloggvinum héðan og þaðan úr heiminum.

Hvernig er það með ykkur? Skrifið þið athugasemdir hjá fólki sem þið þekkið ekki?

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...