29. janúar 2009

Snjór, snjór, snjór og aftur snjór


Veit ekki hvort ég er endanlega farin yfirum. En ég hjólaði í vinnuna í morgun. Færðin var ansi misjöfn. Sumstaðar (og á flestum stígum) búið að moka, en annarsstaðar ekkert mokað síðan í gær og á 2 stöðum ekkert mokað og auðvitað hraukar hér og þar og aðallega við göturnar. Hef sjaldan þurft að teyma hjólið jafn oft og í morgun.
Sá engan annan hjólreiðamann en för í snjónum eftir einn (smá fegin að sjá að ég er ekki ein um að vera svona klikk). Var 26 mínútur í vinnuna sem er 8 mínútum lengur en í gær.
En á svona ferðalagi á hugurinn það til að fara á flug. Ég mætti einni gröfu á stígunum og þá var mér hugsað til pabba, þegar hann var á vegheflinum. Hvernig hann dreymdi fyrir peningum með snjókomu því snjór táknaði vinnu. Og það leiddi hugann að vegheflinum sem stóð útí götu og við Hörn lékum okkur í og kölluðum GullinTá. Man ekki betur en að við höfum samið lag um GullinTá a.m.k. var hefillinn uppspretta margra ævintýra.
Og svo komst ég inn á Laugaveginn sem er upphitaður og snjólaus. Náði þar 24 km/klst hraða, var augljóslega svolítið þreytt eftir barninginn við snjóinn því ég hjóla þar eins hratt og ég mögulega get, hef mest náð 28 km/klst þar í vetur.
Það er svo frábært að hjóla!

28. janúar 2009

Hjólafréttir

Eitthvað virðist hjólreiðamönnum hafa fækkað á morgnanna. Sé ekki nema 2-3 á leið minni í vinnuna. Um miðja síðustu viku sást til 5. En almennt eru fleiri för í snjónum svo við erum að á öllum tíma dagsins.

En mér gengur ljómandi vel að hjóla. Á í raun erfitt með að trúa því að það sé ekki meira mál að hjóla á veturnar. Veðrið hefur auðvitað leikið við mig þ.e. lítið er um blástur. Færðin misjöfn en að meðaltali er ég ekki nema 5 mín lengur í vinnuna núna heldur en á sumrin.

Svo er gaman að því að benda fólki á átak sem er að hefjast sem kallast lífshlaupið. Þetta er fyrirtækja- og einstaklingskeppni sem stendur yfir 2. - 24 febrúar og felst í því að hreyfa sig (skiptir ekki máli hvernig eða hvenær) í 30 mín samanlagt (þarf ekkert frekar að vera allt í einu) á dag.

24. janúar 2009

Búsáhalda byltingin

Mér finnst þetta skemmtilegt heiti á mótmælunum og ætla mér að mæta í dag.

Það er komin endurnýjuð orka í mótmælin og menn virðast hafa náð að hemja ólætin og árásir á lögreglu. Því hver vill lifa í landi þar sem óeyrðir geysa? Þegar svona ólæti hafa verið í sjónvarspfréttunum frá útlöndum þá hefur tilfinningin fyrir því að svona gerist ekki á Íslandi verið til staðar.

En þó verð ég að segja að eftir að mótmælin hófust og maður sá hvernig tekið var á þeim í fjölmiðlum þá fóru nú að renna á mig tvær grímur.
Í upphafi mótmælanna (fyrir hvað 15 eða 16 vikum) tók ég þátt í friðsömum mótmælum, hlustaði á kröftugar ræður og fannst magnað að vera innan um fjölda manns með sömu óvissuna í hjarta. Svo fór maður heim ánægð með dagsverkið og horfið svo á fréttir um kvöldið og hlakkaði til að sjá boðskapinn útbreyddann með brotum úr ræðunum (því margir sem vildu komust ekki á staðinn), en nei - þá voru bara myndir af fólki með ólæti. Þeir sem hrópuðu hæst komust í mynd en ekki málefnin.
Þetta breyttist þó aðeins eftir háværar kvartanir frá þeim sem tóku þátt í mótmælunum. En ég komst ekki hjá því að hugsa hvort þetta væri svona líka þarna í útlöndunum. Þegar við sjáum myndir af fánabrennum og æstum mönnum (konur eru líka menn) kastandi grjóti og bensínsprengjum, eru þetta þá bara dreggjarnar af kröftugum, fjölmennum, mótmælum sem farið hafa úr böndunum eftir að hin almennu mótmæli eru yfirstaðin?

Allavega þá trúi ég því að mótmælin í dag verði fjölmenn, kröftug og án ofbeldis.
Ætlar þú að mæta?

13. janúar 2009

Hjólafréttir


Einn gír eftir. Þ.e. aftuskiptirinn er frosinn og ég var búin að útskýra þetta með miðjutannhjólið að framan. En það merkilega er að það kemur ekki að sök. Kemst vel af með þennan eina gír eins og veðrið er þessa dagana, aðeins meiri átök upp sumar brekkur og gæti farið hraðar á öðrum stöðum (fyndið samt að vera á 21 gíra hjóli og nota bara 1, hí hí).

Meðalhraðinn er 14 km/klst og hámarkshraðinn 22 km/klst. Töluvert hægar en í sumar en kemur mér örugglega á milli staða. Bremsurnar haga sér vel sem skiptir öllu máli.

5. janúar 2009

5. janúar 2009

Í dag á mamma mín afmæli. Til hamingju með daginn mamma!

Hjólið mitt er nýþvegið og smurt og svakalega fínt. Fundum reyndar út að miðjutannhjólið að framan er algjörlega búið, það er farið í sundur á 2 stöðum (enda var það alltaf að haga sér eins og verið væri að skipta um gír) svo núna er hjólið mitt bara 8 gíra af því ég nota eingöngu stærsta tannhjólið að framan, en það gerir ekki til, greinilega þarf ekki meira svona innanbæjar í góðu færi.

Á morgun byrja skólarnir hjá stelpunum og jólaskrautið ratar aftur ofaní kassa. Eins og það er gaman að segja það upp þá er ég líka alltaf jafn fegin þegar það fer niður aftur. Er komin með meira en nóg af glitri og glingri.

Þetta árið hef ég prjónað eins og vindurinn (tilvitnun í ¡Three Amigos!) og gengur mjög vel. Er að prjóna virkilega fallega peysu sem er sérpöntuð (gaman að fá svona pantanir) og ég virðist ætla að ná að klára hana á met tíma.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...