Veðurlega séð var janúar frekar mildur. Hitastigið rétt í kringum frostmarkið, en til að kvarta undan einhverju þá var hann helst til of vindasamur og einn morguninn hjólaði ég ekki í vinnuna vegna roksins en lét skutla mér með hjólið og hjólaði svo heim. Þannig að ég hjólaði alla vinnudaga janúarmánaðar en sleppti einum morgni.
Talning hjólreiðamanna sem ég sé á leið minni til vinnu heldur áfram og ég hef bætt við talningu á heimleiðinni líka. Dóttir mig spurði mig á síðasta ári af hverju ég teldi ekki á heimleiðinni líka og það varð til þess að ég fór að telja þá líka. Ég var alveg viss um að það væru alltaf fleiri á hjóli seinni partinn en annað hefur komið í ljós, og í þessum mánuði hef ég oftar séð fleiri á morgnana eða 13 daga af 22. Og eina skiptið sem ég sá engan á hjóli var einmitt á heimleið 3. janúar en þá var rok og rigning.
Flesta sá ég 22. janúar, þá töldust 18 um morguninn og 11 seinni partinn en það er met þessa mánaðar fyrir báðar ferði og ég sá aldrei færri en 2 að morgni.
Að meðaltali sá ég 6 á hjóli á morgnana og 5 á heimleiðinni. En það má taka það fram að ég tel líka fólk sem teymir hjólin eða situr á bekk með hjólið hjá sér.
Ég hef verið í vandræðum með afturdekkið síðan fyrir jól og það hefur sprungið ansi oft á því, líklega kominn tími til að fá nýtt dekk en nagladekkin eru á sínum fimmta vetri núna. Tvisvar hefur allt loft farið úr afturdekkinu á leið til eða frá vinnu. Í fyrra skiptið kom mér það ekki á óvart og var ég því með nýja slöngu meðferðis (var þegar búin að setja 3 bætur á slönguna). En svo þegar kom gat á nýju slönguna ekki nema viku seinna verð ég að viðurkenna að ég varð frekar pirruð.
Það hefur lítið snjóað það sem af er ári, aðeins
tvisvar hef ég skráð hjá mér snjó á stígum.
Það var 2. janúar og mánudaginn 14. janúar og í bæði skiptin var ég engan
vegin sátt við hreinsunina á stígnum.
Sérstaklega þann 14. þá hafði
snjóað um helgina en engin tæki send út til að hreinsa fyrr en á mánudagsmorgun
og þá höfðu margir troðið niður snjóinn og tækin náðu því ekki upp (eða lögðu
sig ekki fram um það) og þvottabrettastemning á stígnum. Það sem gerði þetta enn meira pirrandi var að
gatan við hliðina á var auð og engan snjó þar að sjá. En Sæbrautin finnst mér ekki spennandi gata
að hjóla á og geri ekki nema í neyð (hefur gerst einu sinni í mars 2010 þegar stígurinn var
algjörlega ófær af snjó).
Hér má sjá súlurit yfir hvern dag hjá mér á hjólinu í janúar. Samtals eru þetta 233 km.
Hér má sjá súlurit yfir hvern dag hjá mér á hjólinu í janúar. Samtals eru þetta 233 km.