Stoppaði aðeins við gamla vinnustaðinn til að smella af mynd. Þetta var góður vinnustaður og það var ljómandi fínt að hjóla þangað.
Var búin að ákveða að hjóla í fyrsta skipti eftir nýja hjólastígsbútnum við Sæbraut en þá er hann lokaður ennþá með moldarhrúgum hér og þar (sem virðast settar þar í þeim eina tilgangi að gera stíginn ónothæfan. Svo jómfrúarferðin eftir þeim stíg bíður betri tíma.
Aðeins lengra eftir stígnum er verið að búa til útskot sem ég ímynda mér að verði með bekkjum til að sitja á og njóta útsýnisins. Þarna er oft ansi magnað sjónarspil þegar nótt breytist í dag og öfugt, eða þegar norðurljósin leika um himininn.
Einu sinni (fyrir mörgum árum) sendi ég ábendingu til Reykjavíkurborgar um að setja lýsingu á stíginn (sem verið er að gera núna). Það er ansi dimmt á stígnum þarna í dimmasta skammdeginu þar sem götulýsingin nær ekki bakvið skólphreinsistöðina. En það sem tapast við ljósið er norðurljósasýnin og þess vegna var ég eiginlega búin að skipta um skoðun um að rétt væri að setja lýsingu þarna. Stundum þegar ljósin léku um himininn stoppaði ég, slökkti ljósin á hjólinu og naut sýningarinnar.
Á leiðinni (var um 45 mín að hjóla) taldi ég 51 á hjóli. Fæstir af þeim voru í "einkennisbúningi hjólara" (skærum jakka eða endurskinsvesti og þröngum svörtum hjólabuxum) heldur í hversdagslegum fötum og var ég mjög ánægð að sjá það. Þetta er öfugt við þá sem ég mæti á morgnana þegar ég hjóla í vinnuna í gegnum Elliðaárdalinn. En hver og einn verður að fá að hafa sinn stíl og þó það henti mér best að vera á borgarhjóli og í venjulegum fötum þá veit ég að mörgum finnst skemmtilegt að klæða sig uppá fyrir tilefnið og þá hafa þeir það þannig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli