30. júní 2006

Nenni þessu ekki!

Það er föstudagur, hálftími eftir af vinnudeginum og sólin skín inn um gluggann.
Hvernig á maður að geta unnið við þessar aðstæður?

27. júní 2006

Hmmm???

Stundum gerast skrítnir hlutir. Ég var vitni að því fyrir 2 eða 3 árum að strætóbílstjóri opnaði hurðina hjá sér til þess að arga á hjólreiðamann að drulla sér upp á gangstétt (viðkomandi hjólaði sem sagt á götunni).
Og í gærmorgun argaði gangandi vegfarandi á mig að ég ætti að hjóla á götunni (ég var á gangstéttinni).
Þetta sýnir að engin leið er að þóknast öllum.
Skrítið samt að gera svona - arga á fólk. Hlýtur að vera uppsafnaður pirringur sem allt í einu springur.

22. júní 2006

Komin heim frá Kanada


Þetta var mjög skemmtileg ferð. Við fengum gott veður allan tímann, rigndi 2x en í annað skiptið vorum við á hátíðarkvöldverði og í hitt skiptið í rútu svo það kom ekki að sök.

Farið var yfir ótrúlegar vegalengdir á hverjum einasta degi, landið er svo stórt. Við flugum til Minnesota, gistum í Alexandriu á leiðinni til Kanada og vorum í Winnipeg í 5 nætur. Við heimsóttum við Gimli, Hecla island, Rivertown og fleiri staði, allstaðar hittum við vestur Íslendinga sem töluðu íslensku og kunnu ættjarðarlögin sem við sungum.

Ef þið hafið áhuga á að skoða fleiri myndir þá hef ég sett þær inn hér.

6. júní 2006

Hitt og þetta

Nú er sumarið komið. Skólarnir að fara í frí og við tekur letilíf hjá krökkunum sem þau hafa hlakkað til lengi (þar til vinnan hefst). Þurfa ekki að fara fram úr rúminu fyrr en þau vilja sjálf og svoleiðis. Þetta leiðir af sér að ég get sofið næstum hálftíma lengur á morgnana sem er gott. Kannski næ ég þá líka að vaka hálftíma lengur á kvöldin?!?

Rúntaði norður á Skagaströnd um helgina til að sjá hvernig hún vinkona mín hefur komið sér fyrir. Heillaðist algjörlega af staðnum og húsinu hennar. Veðrið var mjög gott og við fórum rúnt um plássið og það var virkilega fallegt í sólinni. Svo sátum við í garðinum og nutum sólarinnar.

Sem betur fer fór ég í gegnum Hvalfjarðargöngin áður en áreksturinn varð. Það er of dimmt í þessum göngum. Það er skrítið að við sem eigum allt þetta ódýra og umhverfisvæna rafmagn getum ekki lýst upp göngin betur. Er ekki meiri innkoma vegna ganganna en gert var ráð fyrir? Má ekki nota eitthvað af þeim peningum í lýsingu? Heyrði í fréttunum að vegna kvartana frá nokkrum vegfarendum (ekki hefur mér dottið í hug að kvarta þó ég hugsi um þetta í hvert skipti sem ég fer göngin) að þá eigi að bæta lýsingu við sitthvorn endann á göngunum. Það er bara ekki nóg. Á maður að kvarta?

Eftir viku verð ég í Kanada. Er að verða pínu spennt - mest spennandi er að vita hvort nýja vegabréfið mitt komist í mínar hendur áður en lagt verður af stað. Við lendum nefnilega í hinu mikla USA landi. Þetta kemur allt saman í ljós er líða fer á vikuna.

Í framhaldi af því er rétt að auglýsa opna æfingu sem verður í Kópavogskirkju annaðkvöld (miðvikudagskvöldið 7. júní) kl. 20.00 þar sem sungið verður yfir lögin sem flutt verða í Kanada. En á efnisskránni eru ættjarðarljóð, sálmar og aðrar íslenskar perlur.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...