28. febrúar 2007

Leikjanet.is

Þessi síða er auðvita bara frábær. Hef fundið þar fullt af skemmtilegum leikjum sem stytta mér stundir meðan beðið er í síma (þú ert númer 25 í röðinni...) eða bara ef manni leiðist og vill ekki gera neitt sem "þarf" að gera.

Hér eru nokkrir sem ég hef gaman að:

Grow cube er leikur þar sem rökhugsun fær að njóta sín. Leikurinn felst í því að setja rétta hluti út á kubbinn á réttum tíma. Ef allt er gert í réttri röð þá vex og blómstrar líf á kubbnum.

Mahjongg. Þessi er klassíkur. Ég er að berjast við hann um þessar mundir. Fyrst byrjaði ég á Red Dragon, full af sjálfstrausti, því ég er ógeðslega klár. En varð að játa mig ekki eins klára og ég hélt og er að berjast við Cloud-Normal eftir að hafa lokið hinum tveimur stigum á undan.

Connect2 er nokkuð skemmtilegur. Þarna er unnið í kapp við tímann og þarf að finna allar samstæður áður en tíminn rennur út (bara til að fá upp nýtt borð með því sama, er samt gaman að honum).

Jamm þetta eru sem sagt þeir leikir sem ég mæli með í augnablikinu.

Væri gaman að fá ábendingar um skemmtilega leiki.

20. febrúar 2007

Á batavegi

Jæja nú er ég öll að skríða saman. Auðvitað er kvefið enn að plaga mig, en þá er það nefspreyið sem bjargar lífinu (og skapinu).

Hérna eru nokkrar, ja, skondnar myndir. Við vonum að sjálf sögðu að enginn hafi slasast þarna.

16. febrúar 2007

Veikindi

Er á 3. ja degi í veikindum núna. Með kvefpest. Er lítið búin að gera annað en liggja uppi í sófa, snýta mér og glápa á sjónvarpið. Verð að viðurkenna að mér finnst það svolítið notarlegt að gera ekkert annað og hafa góða afsökun fyrir því.

Stundum hef ég tekið mér einn og einn frídag sem á að vera bara fyrir mig í afslöppun, en einhvernvegin fara þeir í annaðhvort í samviskubit yfir því að vera ekki að setja í þvottavél eða taka til eða eitthvað annað sem nauðsynlega þarf að gera eða það er einmitt það sem þessir frídagar fara í.

Nú er ég veik og hef ekki orku í þvottavél eða þrif og ligg þess vegna bara undir sæng og slappa af.

En nú er komið nóg af svo góðu samt sem áður og kominn tími til að hrista þessa pest af sér, enda komin helgi. Það er ekkert vit í því að vera veikur um helgi.

8. febrúar 2007

Breiðasta brosið


Í gær horfði ég á sjónvarpsþátt sem ég hef gaman að. Hann kallast Heroes og er að mörgu leiti frábær.
EN það er eitt atriði sem pirrar mig við hann og marga þætti og bíómyndir í dag og þið hljótið að hafa tekið eftir þessu.
Það eru allir með svo allt of hvítar tennur.
Nú er ég ekki að segj að gular tennur séu fallegar, en þegar tennur eru orðnar óeðlilega hvítar og allir eru með þessar skjannahvítu tennur þá er eitthvað ekki í lagi.
Man eftir að hafa séð ódýrann sjónvarpsþátt (eða sjónvarpsmynd) sem átti að gerast átjánhundruð og eitthvað. Faðirinn í myndinn var pípureykingamaður og bæði húð og rödd hans gáfu til kynna reykingar svo til alla æfi. En þegar hann brosti voru tennurnar skjanna hvítar. Þetta var í svo hrópandi ósamræmi við persónuna að ég gat ekki annað en látið það pirra mig.
Mér finnst menn (og þá er ég að tala bæði um karla og konur) vera komnir yfir strikið með að hvíta tennur sínar.

7. febrúar 2007

Stimpilgjöld

Átti ekki að fella þessi gjöld niður?

Vitið þið eitthvað um málið. Ég reyndi að finna eitthvað á vefnum en fann ósköp fátt merkilegt. Það sem ég fann var t.d. framboðsræður og blogg stjórnmálamanna og svo umræðu á Alþingi frá 1984. Sem greinilega leiddi ekkert af sér.
Var ekki svo mikil umræða um þetta á síðasta ári, eða er ég að rugla?

Endilega uppfræðið mig.

6. febrúar 2007

Auðkennislykill


Þetta apparat er ekki til góðs fyrir almenning.

Menn týna, glata og skemma.
Er sem betur fer ekki farin að nota þetta heima fyrir, bara í vinnunni. En bankinn minn er stöðugt með hótanir um að nú sé byrjað að loka á almenning og að verið sé að senda þessa lykla út til viðskiptavina og bla bla bla...

1. febrúar 2007

Uppgötvun

Var að fatta að ekki þarf lengur að vera með óskaplegt vesen til að kommenta hjá öðrum. Nóg að nota "Google/Blogger, Sign with your Google Account".

Þvílíkur léttir!

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...