24. júlí 2007

Mikið geta draumar verið skrítnir.

Dreymdi í nótt að ég vaknaði af draumi þar sem mig hafði dreymt hana Gúndý-ömmu mína. Hún hafði komið til mín í drauminum og heilsað mér.

Svo allt í einu var hún komin (og nú var ég vöknuð í draumnum). En því var þannig háttað að ég bjó í hennar hluta af Kópavogsbrautinni. Mér fannst þetta pínu vandræðalegt þar sem hún er jú dáin, en hún var sér greinilega ekki meðvituð um það. Svo ég og pabbi gáfum henni að borða og bjuggum um rúm fyrir hana. Pabbi meira að segja skenkti henni vín í glas, sem hún var hin ánægðasta með. En allan tíman var ég að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að segja henni þau tíðindi að hún væri dáin og ætti ekki heima hérna lengur.

18. júlí 2007

Sprengdi mig í morgun

Á leið minni til vinnu var strákhvolpur sem hélt að hann gæti hjólað hraðar en ég. En ég sýndi honum það sko að það borgar sig ekki að abbast upp á Franey Praney þegar hún er á hjólinu og svoleiðis stakk hann af!!!

Atvikið átti sér stað þegar við biðum á ljósum við Sæbrautina. Hann var á undan mér af stað yfir götuna og inn á stíginn. En eftir nokkrar sekúndur fyrir aftan hann sá ég að hraðinn var aðeins undir mínum óska hraða svo ég tók framúr. En lögmálið er svoleiðis að ef þú tekur framúr þá verður þú að sýna að þér er alvara með framúrakstrinum svo ég hjólaði eins og vitleysingur - með vindinn í fangið og allt. En hann tók ekki framúr mér aftur svo ég vann!

Hinsvegar er ég eldrauð eins og karfi núna rétt ný komin í vinnuna og með þreytuverki í fótunum, en það er vel þess virði.

13. júlí 2007

RSS

Var að uppgötva þessa snilld.

Merki mér síður sem ég vil fylgjast með og get þá auðveldlega séð þegar menn hafa bætt einhverju nýju á síðuna sína. Sparar tíma og pirring yfir því að vera alltaf að kíkja á síður hjá fólki sem skrifar sjaldan.
Bætti tengli inn á síðuna hjá mér og það sem þarf að gera er að smella á og samþykkja að skrá sig (með einum smelli, ekkert að skrifa eða neitt). En það er líka hægt að skrá sig án þess að menn hafi þennan tengil.

Á takkaslánni hérna efst hjá mér er appelsínugulur takki sem ég get smellt á til að skrá "feed" eins og það kallast.

Síðan fer ég í uppáhaldstenglana mína (favorites) til að skoða hvort einhver hefur skrifað eitthvað nýtt og þá eru viðkomandi feitletraðir.

Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt, það er svo gaman.

12. júlí 2007

Máfarnir á tjörninni


Mér blöskraði þegar ég skoðaði Fréttablaðið í morgun. Á forsíðu er mynd af fjölskyldu niðri á tjörn að gefa fuglunum brauð. Það vill þannig til að á myndinni sjást nokkrar dúfur og svo máfager á tjörninni sjálfri. Undir myndinni stendur eitthvað á þá leið að ekki sé ljóst hvað fólkinu gengur til með þessu háttarlagi (þá er líklegast átt við það að gefa máfunum brauð).


Þetta er farið að jaðra við ofsóknir. Ég sjálf fór síðast í gær niður að tjörn og þar voru bæði endur og svanir á tjörinni, þó svo ljósmyndarinn hafi verið svo "heppinn" að ná mynd án anda.

Svo er ég ekki sammála því að máfurinn megi ekki vera á tjörninni. Að mínu mati er þar fallegur fugl á ferð, með ótrúlega flughæfni. Það er gaman að fylgjast með honum á flugi og við lendingu. Einnig er gaman að gefa honum brauð. Hafið þið prófað að búta brauðið í marga litla mola og henda því svo upp í loftið? Við það fljúga máfarnir upp og grípa bitana á flugi. Það eina sem er hvimleitt við máfin eru hljóðin í honum. Hann hefur ekki fögur hljóð að mínu mati.

8. júlí 2007

Hjólað í veðurblíðunni

Mikið vildi ég óska að svona veður eins og var síðustu 2 vikurnar væri venjulegt sumarveður á Íslandinu okkar. Því hvað er dásamlegra en sól og hiti.

Ég og dömurnar mínar nýttum okkur góða veðrið um síðustu helgi til að hjóla inn í Kópavog til mömmu og pabba.

Þetta var alveg yndislegur hjólatúr sem tók u.þ.b. klst með stoppum hér og þar til að hvíla sig og njóta veðurblíðunnar.

Myndirnar segja fleira en mörg orð.







Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...