9. ágúst 2007

Dagbækur

Ég hef haldið dagbók síðan ég var 9 ára. Svona var fyrsta færslan mín:

"Það er ekkert mjög gaman í dag mánudaginn 25 febrúar 1980 ég kelmdi mig á vísifingri og það var mjög sárt ég klemdi mig á bíl hurðini klukkan hálf ellefu. ég var að fara til þórhalls að sækja hann. pabbi og mamma Daði og ég
mamma sat undir mér alla leiðina heim og pabbi hélt á mér alla leiðina inn ég er 9 ára og 30 kíló. ég hef líka áður klemt mig á þumalfingrinumm í firra eða hitti firra þá klemdi ég mig á hægri hendini en núna á vinstri enn ég vona að ég klemmi mig ekki aftur."

Fyrstu dagbókina fékk ég líklegast í afmælisgjöf. Hún er klædd gallaefni, með vasa framaná og læst með lás. En lykillinn týndist einhverntíman svo ég endaði með því að klippa í sundur efnið sem hélt henni saman.

Síðan þá hef ég alltaf haldið dagbók. Þó ekki frá degi til dags, heldur bara svona þegar mig langar að skrifa. Ég hef notað bækurnar þegar ég er í leiðu skapi til að úthella sorgum mínum og létta á mér þegar illa hefur legið á mér. En líka til að segja frá skemmtilegum upplifunum og atvikum. Stundum gramsa ég til að finna gamla bók og les yfir gamla færslu. En bókina frá tímabilinu 15-17 ára hef ég ekki getað lesið. Þar er svo til ekkert nema sjálfsvorkun og geglgjuskrif. Ojbara. Kannski á ég eftir að fá meiri húmor fyrir sjálfri mér seinna og get þá lesið þetta.

Ég hlakka mikið til þegar ég eignast draumahúsið mitt því þá ætla ég að fá mér kistur til að setja þessar bækur í og fleiri gull. Í húsinu verður háaloft og þar verða kisturnar og allskonar skemmtilegir hlutir og hægt verður að gleyma sér við að skoða og gramsa.

3 ummæli:

BbulgroZ sagði...

Þú áttir alltaf eða yfirleitt einkaherbergi, einkadagbækur og skatthol, svo áttirðu líka alltaf nammið þitt miklu lengur en við bræðurnir og jú kókið líka...það var alltaf eitthvað svo spennandi og sveipað dulúð það sem þú varst að gera. En alltaf langaði mig að vita hvað þú varst að bralla og í öll þessi ár þegar þú skrifaðir dagbækur, var ég viðþolslaus að fá að líta í þær og sjá hvað í þeim stóð, núna 29 árum síðar fæ ég að sjá og lesa eitthvað, loksins!! Þetta var nú líka biðarinnar virði : )
Ég vil fá blaðsíðu 2 í dagbókinni líka!!

Nafnlaus sagði...

já, þú hefur verið alveg óþreytandi við þessi dagbókaskrif öll þessi ár :) Og ég sé alveg fyrir mér kisturnar þínar í draumahúsinu, alveg eins og litlu bastkörfuna manstu, sem þú hafðir fyllt af dóti til að rífa með þér út ef það myndi kvikna í!! Það var svo spennandi fannst mér :)

Nafnlaus sagði...

Sæl Bjarney:) Ég skrifaði líka dagbækur þegar ég var stelpa og eitthvað fram á unglingsárin. En ég hef ekki lesið þær í fjöldan allan af árum. Kveðja, Auður.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...