24. maí 2012

Hjólastæðin við Hörpu


Svolíti pirruð yfir því að hjólið mitt dettur alltaf þegar ég festi það við hjólastangirnar hjá Hörpu.  En eins og sést á þessum myndum sem teknar voru í morgun þá eiga ekki allir við sama vandamál að stríða, þó eru þrjú hjól dottin um koll.  Svo finnst mér líka vanta hjólastæði (ekki eins og þessi samt) hinu megin líka, við aðal innganginn.
Báðar myndirnar eru teknar af stama stæðinu bara úr sitt hvorri áttinni.

En engu að síður gaman að því hvað margir eru á hjóli.

22. maí 2012

Helgarferð á Skagaströnd

Tók mér frí í vinnunni á föstudag og fór í heimsókn til Ingu á Skagaströnd.
Veðrið var með fallegasta móti og það var ekki leiðinlegt að aka norður í land við þessar aðstæður.
Hrund hafði ætlað að koma með mér og stoppa á Blönduósi til að hitta vinkonu sína þar, en vegna aðstæðna tók hún rútuna daginn eftir.

Við Inga höfðum ákveðið að fara í göngutúr til Lindu systur Ingu sem býr ca 12 km frá Skagaströnd.  En það er sauðburður hjá Lindu og ekki alltaf auðvelt að komast frá (okkur vantaði einhvern til að skuttla okkur til baka) svo plön breyttust þannig að við ókum til Lindu og löbbuðum þaðan, sem var auðveldara fyrir okkur því landið liggur meira niður í móti þá leiðina.  Athugið að á vegalengdinni 6-8 km slökkti ég óvart á garmin-græjunni og þess vegna vantar rétta mælingu þar.  Það var sæmilegt gönguveður, sólin skein en þó var helst til of mikill vindur en hann lægði af og til svo þetta var bara fínt.

Síðan höfðum við planað að fara á tónleika sem við héldum upphaflega að væru um kvöldið en kom í ljós að voru um miðjan dag og þegar til kom vorum við báðar of þreyttar eftir gönguna til að fara (við steinsofnuðum báðar uppi í sófa á eftir).

Snemma á sunnudeginum fór ég svo í morgun göngu-skokk á meðan gestgjafarnir sváfu og það var líka ljómandi gaman.  Sólin skein í heiði og það var ekki eins mikill vindur og deginum áður.

Svo um hádegisbilið hittumst við Hrund á Blönduósi og keyrðum saman í bæinn.

Þetta var mjög svo skemmtileg helgarferð og við Inga erum farnar að plana sameiginlegt ferðalag næsta sumar á Raufarhöfn þar sem Inga átti heima þegar hún hóf skólagöngu.

16. maí 2012

Kaffitjöld - Hjólað í vinnuna.

Stoppaði við í morgun og fékk kaffi á vegum átaksins Hjólað í vinnuna.  Kaffitjaldið var við Sæbrautina á móti Kringlumýrarbraut.  Þar fékk ég loft í framdekkið (hefði þurft líka í afturdekkið en við náðum ekki hattinum af ventlinum).
Morgun talningin ruglaðist út af þessu en ég fór samt upp í 32 (líklega hafa það verið fleiri).  Aftur hjólaði "Guðmundur" framhjá án þess að stoppa eins og á síðasta ári, ég væri virkilega til í að vita hvað hann heitir í alvörunni en við höfum verið að hjólast á í nokkur ár, alltaf á morgnana.

Það er virkilega gaman að stoppa og sjá allan þennan fjölda sem fer um stíginn á hjóli á þessum tíma.  Ég gerði mér engan grein fyrir því að það væru svona margir.

Mikið væri nú gaman að fá svona teljara eins og er víða í útlöndunum sem telja þá sem fara um á hjóli.

15. maí 2012

Kuldakast

Kuldakastið hefur hvorki farið vel í gróður né menn.  Fjöldi þeirra sem hjóluðu til vinnu í síðustu viku voru almennt yfir tuttugu og eitthvað niður í það að vera 7 á mánudag og 11 í morgun.  Enda var frost báða þessa morgna og vindur (sérstaklega á mánudag).


Svo er það gróðurinn.  Reynitréð fyrir utan eldhúsgluggann minn er sorglegt að sjá, vonandi nær það sér þegar hlýnar.

9. maí 2012

Hjólað í vinnuna hófst í dag.

Það leit ekki vel út í gærkvöld þegar byrjaði að snjóa og í morgun var grasið í garðinum enn hvítt af snjó en göturnar auðar.  Svo mér fannst spennandi að vita hvort ég sæi fleiri á hjóli þennan morguninn og hvort veðrið fældi fólk frá því að hjóla.

Það byrjaði ekki vel og ég sá engan á hjóli fyrr en ég var komin yfir Sæbrautina við Langholtsveg (á góðum degi er ég oft komin með 3 til 4 á þeim stað).  En strax þar á eftir komu þeir í ljós bæði karlar og konur.  Talan fór að lokum upp í 24 sem er fjöldamet á þessari leið á þessu ári.
Reyndar er þetta ekki fjöldamet ársins því þann 30. mars hjólaði ég Fossvogsdalinn (þetta var þegar hitabylgjan var og veðrið var með eindæmum gott) og þann morguninn sá ég 25 á hjóli.

Ég hef sjálf aðeins tvisvar tekið þátt í átakinu (þ.e. skráð mig til þátttöku, ég hjóla alltaf til og frá vinnu og er ekkert að fara að hætta því), en það eru ýmsar ástæður fyrir því sem óþarft er að telja upp hér.

Að lokum við ég minna fólk á að fara eftir umferðarreglum, horfa fram fyrir sig (ekki bara niður á götuna), muna að það er hægri umferð á landinu okkar og við förum eftir því á stígunum þegar við mætumst og ekki gleyma að hafa gaman að því að hjóla.

Gleðilegt hjólasumar!

Hér er slóðin á átakið hjólað í vinnuna.

8. maí 2012

Snæfellsnes

Ég og Elías skruppum á Snæfellsnesið.  það var ekkert allt of hlýtt og helst til of mikill vindur en við tókum hjólin aðeins niður af bílnum og hjóluðum smá.

7. maí 2012

Lindsay sem ákvað að gerast hjólreiðamaður.

Á facebook er hópur sem kallar sig Slow bicycle movement og þar fann ég bloggið hennar Lindsay sem heitir "You ain´t got Jack". 

Lindsay er heimavinnandi húsmóðir sem á tveggja ára son og býr í Walla Walla í Bandaríkjunum.  Hún ákvað um áramótin að fara að hjóla með það að markmiði að bæta heilsuna og vera góð fyrirmynd fyrir litla drenginn sinn.  Svo hafði það líka smá áhrif að ökuskírteini hennar rann út á svipuðum tíma.
Hún segist sjálf hafa verið sófakartafla og ekkert hreyft sig að ráði, en í janúar keypti hún sér hjól og í febrúar fékk hún barnasæti á hjólið og frá áramótum hefur hún haldið úti bloggi um upplifun sína og reynslu af þessu hjólaævintýri.
Mér finnst mjög áhugavert að lesa um upplifun hennar sem byrjanda á hjóli, hún er mjög einlæg og segir frá því hvernig henni líður með þetta allt saman.  Í apríl tók hún þátt í áskorun sem fólst í því að hjóla eitthvað á hverjum degi allan apríl mánuð.  Ég hlakka til að halda áfram að fylgjast með henni og þeim framförum sem hún óneitanlega mun ná ef hún heldur áfram á sömu braut.  Það er einmitt svo ótrúlega skemmtilegt að upplifa framfarirnar sem verða hjá manni við æfingar, og jafnframt skrítið hvernig manni  finnst oft ekkert miða áfram fyrr en allt í einu að brekkan sem maður puðaði upp fyrir einhverju síðan virkar ekki eins brött eða löng.
Svo – áfram Lindsay!

Fjölgun fólks á reiðhjóli milli ára

Skv. talningu hjá VÍS tryggingafélagi hefur orðið umtalsverð fjölgun á hjólandi milli ára.  Í ár töldu þeir samtals 1.143 á hjóli en á sama tíma í fyrra voru taldir 1.045.
Mínar morgun talningar (á leið til vinnu) staðfesta þessa fjölgun.  Það var bara í janúar sem færri voru á hjóli, en veðrið var líka frekar óhagstætt í ár.
Hér er meðaltal þeirra hjólandi sem ég tel á dag yfir mánuðinn:
                2011    2012
Janúar        5            2 (sá sem sagt að meðaltali 2 á hjóli á dag í janúar árið 2012)
Febrúar      5             4
Mars          3             5
Apríl          6           10

Og hér eru samanlagður heildarfjöldi yfir mánuðinn:

                2011   2012
Janúar        96        29
Febrúar      76        91
Mars           58      102
Apríl         103      176

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...