27. apríl 2007

Er ekki kominn tími á hjólafréttir?


Mætti ekki nema 3 hjólurum á leið minni í vinnuna í morgun og allir í mínu eigin hverfi. Frekar öfugsnúið því venjulega eru flestir niðri í miðbæ. En svona er lífið stundum á hvolfi.


Tókst í gær að leysa úr vanda sem hefur plagaði mig lengi. Þannig er að hnakkurinn á hjólinu mínu seig alltaf niður og stoppaði svo í ákveðinni hæð c.a. 5 cm neðar er æskilegt var. Í þessari lágu stöðu var hann pikkfastur, en í bestu stöðu var hægt að snúa honum í hringi og allt.


Svo í gær þegar ég pantaði tíma fyrir hjólið í uppherslu og almennt tékk (fékk tíma eftir 2 viikur, þetta er bara eins og að panta læknatíma) og sagði frá þessum vanda mínum var strákurinn sem ég talaði við ekki að skilja þetta, en minntist eitthvað á að herða á...


U.þ.b. hálftíma síðar kveiknaði ljós (maður á auðvitað ekki að segja frá þessu en mitt heilabú er bara ekki fljótvirkara en þetta). Þannig að þegar ég kom heim var verkfærakistan tekin fram og fundinn sexkantur í viðeigandi stærð og hnakkurinn festur í bestu stöðu. Tók ekki nema 5 mín. Af hverju í ósköpunum hafði mér ekki dottið þetta í hug? Búin að vera að bölsóta þessu í hverri einustu hjólaferð.


Þá er bara eftir að leysa vandann með bleytuna í hnakknum sjálfum. Það er nefninlega saumur aftan á honum sem hleypir regnvatni bæði inn og út. Hingað til hefur það verið leyst með plastpoka (eftir fyrsta rassbleytudag í vinnunni) en það er bara svo ljótt. Ef einhver veit um einfalt og gott ráð við þessu endilega látið mig vita.

24. apríl 2007

Ný regla í tungumálinu.

Legg til að ný regla verði sett í íslenskufræðin. Hún er sú að nöfn fyrirtækja séu undanskilin beygingum í tali og skrifi manna.

Til eru fyrirtæki eins og Spölur ehf og það er bara ekkert einfalt mál að beygja þetta nafn. Það er eitthvað afkárlegt við beygja fyrirtækjanöfn. Þó nöfnin beygist eðiliega. T.d. Margt smátt ehf. Ég var að tala við þennan eða hinn frá Mörgu smáu... það passar eitthvað svo illa.

Samkvæmt nýju reglunni þá verður þetta svona: "Ég var að tala við þennan eða hinn frá Margt smátt... "

Stundum þegar hlustað er á fréttir (eða aðra sem tala "rétt") áttar maður sig ekki strax á því hvaða fyrirtæki verið er að tala um þegar búið er að snúa nafninu eftir kúnstarinnarreglum tungunnar og afbjaga þannig nöfn þeirra.

Og hana nú. Að lokum legg ég til að ibbsilonið verðu tekið úr málinu líka til að létta mér lífið.

Kv. Bjarnei

21. apríl 2007

Ahhhh...

Nú get ég andað léttar og þið hin líka. Þau undur og stórmerki gerðust að í dag keypti ég mér tvennar buxur hvorki meira né minna. Það er hin ótrúlega frábæra búð ZikZak sem á heiðurinn að því að hafa buxur í minni stærð og lengd og ekki nóg með það heldur er umrædd búð í göngufæri frá heimili mínu.

Það er ótrúlegt hvað framkvæmt er í dag.


Þetta er skemmtigarður rétt við Berlín í Þýskalandi. Þeir lofa að aldrei rigni og þar sem þetta er innandyra geta þeir líklega staðið við loforði. Hægt er að kaupa gistingu á staðum bæði í tjaldi (rúm í tjaldinu) og á hóteli. Er nokkuð annað en að skellasér. Þetta er heimasíðan þeirra.

19. apríl 2007

Gleðilegt sumar!


Í dag er fæðingardagur Gundýjar ömmu. Þá er vel við hæfi að lyfta glasi (helst fyllt með sherry eða port víni) og segja (og nú vona ég að ég fari rétt með):


Skál fyrir okkar áagrund og lukkunnar leiði.

Lifi Íslands litfríð sprund.

Húrra!

17. apríl 2007

Buxnafréttir og hjálparbeiðni

Ekki gengur vel að finna nýjar buxur í stað þeirra sem gáfu upp andann rétt fyrir helgi. Dró eldra afkvæmið með mér í Kringluna um helgina og þá var mátað og mátað. Í nokkrum búðum eru ekki seldar buxur í minni stærð (ég sem hélt ég væri svo grönn). Í einni búð fundust buxur sem pössuðu um mittið en þær voru allt of stuttar!!! Ótrúlegt!.

Rölti Laugaveginn í hádeginu og kíkti í búðina þar sem mínar fyrrverandi uppáhaldsbuxur voru keyptar. Þar voru ekki til nema 2 gerðir af buxum en verðið allt í lagi 4.999kr... en því miður passa ekki.

Svo mig vantar hjálp!!! Plís hvar er hægt að kaupa buxur í eðlilegri stærð á þokkalegu verði?

Augnfréttir

Fór til læknis í gær og þá var aftur tekin mynd af augnbotnunum. Og nú sagði læknir að eins og hann hefði haldið síðast (???talaði þá um að ekkert væri hægt að sjá) þá væri augljóst þegar myndirnar eru bornar saman að það er þroti eða bjúgur í augnbotninum. Og að hann er á undanhaldi.

Þetta er allt saman sem sagt á réttir leið og allar líkur til að ég verði næstum jafn góð og fyrir. Málið er samt að þetta skilur eftir sig ör og getur því eitthvað dregið úr sjóninni varanlega. Það er ekki þekkt afhverju þetta gerist eða hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Svo er nú það.

13. apríl 2007

NNNNEEEEeeiiiiii...


Var að taka eftir því að það er komið gat á bestu og svo til einu buxurnar mínar.


Ónei það táknar aðeins eitt, að ég verð að fara í búð og finna mér nýjar buxur.


Arghh!


Veit fátt leiðinlegra eða erfiðara verkefni. Einu sinni var það þannig að ég átti í mesta basli með að finna buxur sem væru nógu síðar en mátulegar í mittið (þ.e. ekki of víðar). Nú hefur þetta snúist við. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að finna nógu síðar buxur lengur, en þær vilja vera helst til of þröngar í mittið.

12. apríl 2007

Sjónin

Hvað er meira hversdagslegt og sjálfsagt en að sjá og nota augun?
Það er ekki fyrr en sjónin klikkar að maður áttar sig á því hversu miklu máli hún skiptir. En það skrítna er að þegar allt verður eðlilegt aftur þá gleymist fljótt hvernig það var að sjá ekki vel og aftur verður hversdaglegt að sjá vel. Af öllu fólki ætti ég kannski að vera meðvituð um þetta þar sem ég hef ekki nema þetta eina auga að hlaupa uppá (vegna fæðingagalla). En það er nú bara ekki þannig.

Ég er núna í þriðja skiptið að upplifa töluvert tap á sjón, sem ætti að ganga til baka eins og í hin 2 skiptin (og ég tel mig sjá betur í dag en í gær).

Þetta gerðist fyrst árið 1998. Þá var ég í nýju starfi og þurfti að taka mér viku veikindafrí. Fyrstu einkennin eru lítill blettur fyrir því sem ég horfi á. T.d. við lestur þá sé ég ekki stafinn sem ég horfi beint á en bara stafina sitthvoru megin. Síðan verð ég viðkvæm fyrir ljósi og bletturinn stækkar og verður að flekki (tilfinning svipuð því og þunn slæða sé fyrir andlitinu) Ég fór að sjálfsögðu til augnlæknis og hann taldi sig sjá bólgu í augnbotninum rétt við sjóntaugina. Hann ráðlagði algjöra hvíld og enga áreynslu á augað. Ferðir til augnlæknisins urðu svo til daglegur viðburður. Sjónin versnaði í 2-3 daga en fór þá að skána aftur.

Næst kom þetta fyrir árið 2002 eða 2003 (árið sem Anna vinkona gifti sig). Það byrjaði eins en varði nokkrum dögum lengur í þetta skiptið og sjónin varð verri. Þá fór ég til annars augnlæknis líka og hann sendi mig í æðamyndatöku á auganu. Það er gert þannig að litarefni er sprautað í æð og myndir teknar um leið og það flæðir í augað. Læknirinn taldi sig sjá leyfar eða ör eftir bólgur en ekkert meira en það. Aftur lagaðist sjónin og varð eins góð og hún hafði verið fyrir.

Svo fyrir rétt rúmri viku síðan hófst ferlið aftur. Miðvikudaginn fyrir páska áttaði ég mig á því að ég var farin að horfa fram og til baka til að sjá það sem ég var að skrifa og ákvað þá að ekki væri ráðlegt að vera í vinnunni og fór heim. Páskarnir fóru að mestu leiti í hvíld (eftir tónleikana auðvitað á skírdag og föstudaginn langa). En sjónin var alltaf jafn slæm. Á þriðjudaginn fór ég til augnlæknis og hann taldi sig aftur sjá bólgu/þrota í augnbotninum, en nú væri komið nýtt tæki sem tekur n.k. sneiðmyndir af auganu og með því væri hægt að sjá augnbotninn betur en áður. Tími var bókaður og ég fór á augndeild Landspítalans þar sem umræddar myndir voru teknar. En á þeim sést ekki neitt.
Hvað þá? Ekkert bara að bíða. Þetta hlýtur að lagast núna eins og það gerði síðast. Það á að taka myndir aftur n.k. mánudag og bera saman við hinar fyrri (sama hvort mér verður batnað eða ekki).

Ég er mætt í vinnuna því eins og ég sagði áðan þá finnst mér ég vera betri en áður og læknarnir telja að það skaði ekki sjónina að nota augað. En ég á enn erfitt með að sjá andlit í meira en 5 metra fjarlægð og að lesa smáan texta. Þó hef ég fulla trú á því að allt verð gott aftur sem fyrr. Ég bara tek því rólega og loka augunum af of til og hvíli mig.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...