7. febrúar 2011

Snjómokstur í borginni.

Ég labbaði heim úr vinnunni í dag. Veðrið var fallegt, aðeins kalt (-4°) og hefði verið betra að vera í hlífðarbuxur en göngutúrinn var bara hressandi. Í morgun lagði ég ekki í að fara á hjólinu því ég hafði tekið eftir því í gær þegar ég var á ferðinni í bílnum að stígar voru ansi misjafnlega vel skafðir.

Á fyrstu myndinni er ég að ganga frá Hlemmi. Stígurinn þar er þröngur og líklega erfitt að koma moksturstækjum á hann, enda leit hann út eins og tæki hefði verið ekið um hann en ekkert endilega neitt skafið. Svo hafa moksturstæki sem skafa götuna ausið slabbi og salti yfir stíginn (nú er ég auðvitað bara að giska) sem gerði það að verkum að á stígnum var mikið slabb og erfitt að fótasig.

Þetta skánaði töluvert þegar komið var fram hjá Fíladelfíu, þar var betur skafið og ekkert slabb á stígnum, en hann var allt of þröngur og ekki gott að mæta öðrum gangandi, hvað þá hjólandi.Ég sé eftir því að hafa ekki tekið mynd af gatnamótunum Laugavegur-Kringlumýrarbraut því þau voru hrikaleg. Virtust ekki hafa verið skafin og hraukar af slabbkenndum snjó.

En þegar yfir þau gatnamót var komið tók við draumur þess sem ferðast um borgina gangandi eða hjólandi. Þessi stígur var virkilega vel skafinn alveg að Glæsibæ. Þvergötur vandaðar og hvergi hrauk að sjá. Sá sem skafar þarna er greinilega fagmaður á sínu sviði. Þetta var unun að sjá.


Það sama má þó ekki segja um gönguljósin sem liggja frá þessum stíg yfir Suðurlandsbrautina. Eins og sést á myndinni hefur ekkert verið skafað.En hérna tók ég mynd af því að svona ættu þessi gatnamót að vera að mínu viti. En í raun eru þau ekki svona, hér er farið fram af kantsteini og komið beint á kantstein hinu megin. Stígurinn sem sagt liggur í sveigju niður til vinstri beggja vegna við götuna. Það er galli að þeir sem hanna stígana virðast almenn ekki nota þá og hugsa meira um útlit en hagkvæmni. Þegar ég hjóla þessa leið þá er þægilegra fyrir mig að hjóla neðan við eyjuna, það er minni sving og sveigja í þeirri leið.

Hér er ég komin að gatnamótunum hjá Glæsibæ (sést í húsið sem Hreyfing er í og svo TBR húsið þarna hægra megin), en á þarna einmitt, undir öllum snjónum er stígur sem ég ætlaði að ganga eftir í áttina heim. En hann hefur bara ekkert verið skafinn!Svo var það stígurinn meðfram Álfheimunum. Hann var almennt ágætlega mokaður, en svo komu bútar þar sem innkeyrsur á bílastæði og það eru leiðindasvæði.


Hérna hefur moksturinn af bílastæðinu til vinstri farið yfir á gangstíginn og tækið sem mokaði stíginn ekki unnið á snjóhrúgunni.
Stígarnir eru sem sagt ansi misvel mokaðir og hreinsaðir. Sumir stígar eru í forgangi og er mokaðir fyrst, en vandamálið er að komast á þá. Hér er slóð á kort hjá Reykjavíkurborg sem sýnir forgang í snjóhreinsun stíga.

2 ummæli:

abelinahulda sagði...

Það er svo sorglegt hvernig þetta er að fara með fólkið í stjórnum bæjarfélagana hér á höfuðborgarsvæðunum, fólkið sem við kusum og sáum þarna "mannlega" fólkið sem vildi snúa hjólunum við. Hætta þessari bíladýrkun og gera veg gangandi og hjólandi hærra undir höfði. Við sáum strætó eflast og aukast, en nei því miður þá er staðan svo aum hjá þessum bæjarfélögum eftir vaðal hægri aflanna að allt þetta góða er eða virðist vonlaust.
Það sama á við hér í kópavogi með hreinsun stíga. Við höfum bæði gengið og hjólað þessa daga sem snjórinn hefur verið og við getum sagt alveg það sama. Sumir stígar eru bara ekki hreinsaðir á meðan aðrir eru teknir mjög vel í gegn.
Verst er þar sem saltblandan sem sett er á akvegina hefur slest inná stígana, það er eins og að ganga/hjóla í lopa eða bómull að fara þar eftir. Alveg andstyggilegt, mjög hált og þreytandi að ganga/hjóla í slíku. Mér finnst að hér ætti að gera eins og ég upplifði í Álaborg í Dk um jólin. Þar var álíka mikill snjór og verið hefur hér undanfarið. Þar er lítið saltar og aðeins hreinsað, engin á nöglum og allt gengur upp. Þar hefur komið í ljós að dauðaslysum í umferðinni hefur fækkað svo að það þarf að fara aftur til 1932 til að finna samanburð. Þar er gott strætókerfi, bílinn hefur ekki forgang og snjórinn helst hvítur og hreinn í marga marga daga. Í Álaborg er svipaður mannfjöldi og á öllu höfuðborgarsvæðinu hér.

Árni Davíðsson sagði...

Tek undir með ykkur. Mér finnst sveitarfélögin ekki hafa staðið sig nógu vél að ryðja snjóinn í þessu áhlaupi.

Hjólað í mars

Hjólaði samtals 157 km í mánuðinum þar af 121 til og frá vinnu. Hjólaði 18 af 23 vinnudögum. Byrjaði mánuðinn að jafna mig eftir veikindi og...