Ekki beinlínis minn happadagur.
Það hafði snjóað í nótt, loksins, og búið að spá hvassviðri á suðurlandi sem átti að færa sig yfir á vesturlandið með deginum. Þegar ég lagði af stað á hjólinu í vinnuna var hinsvegar ágætis veður og snjórinn ekki það mikill að hann tefði för á hjólinu. Það var sem sagt ekkert að færðinni og fínt að hjóla.
En ég var ekki komin langt, var að hjóla yfir gatnamótin hjá Grensásvegi og Fellsmúla þegar framhjólið fer ofan í holu og ég flýg af hjólinu og skell á gangstéttinni. Á meðfylgjandi mynd hef ég sett rauðan hring utan um hættusvæðið. En holuna sá ég ekki fyrir snjónum.
Svona holur eða misfellur eru allt of algengar í borginni okkar. En í tilefni fallsins sendi ég tölvupóst til Reykjavíkurborgar og sagði farir mína ekki sléttar og bað um að sett yrði viðvörun við holuna þar til hægt væri að gera við hana svo fleiri lentu ekki í því sama og ég. Ég hef fengið það svar að tekið sé við þessari ábendingu.
Eftir að hafa staðið upp þá lagfærði ég keðjuna á hjólinu (en hún hafði hrokkið af), sparkaði snjónum upp úr holunni og hélt svo áfram í vinnuna. Ég fann mest til í öxlinni og verkurinn ágerðist eftir því sem nær dró vinnunni. Annars var ég aðeins með smávægileg sár á öðru hnénu og einum fingri. Líklegast hefur vetrarfatnaðurinn bjargað miklu, en maður er ágætlega dúðaður á hjólinu á þessum árstíma.
Eftir vinnu ákvað ég að fara á slysavarðstofuna því öxlin var eitthvað skrítin og mér fannst það ekki lengur alveg samræmast því að ég væri bara marin eins og ég hélt í fyrstu. Eftir 2 tíma bið hitti ég lækninn sem sendi mig í röntgen og sem betur fer er ég ekki brotin, en er hinsvegar tognuð. Þetta er á svæðinu þar sem viðbeinið mætir herðablaðinu. Svo nú er að bryðja Ibufen í nokkrar vikur og láta þetta batna.
Ég gerði síðan verðsamanburð á Ibufeni 600mg, 100stk í nokkrum apótekum og hér er niðurstaðan:
kr. 2.234,- Lyf og heilsa, Glæsibæ
kr. 1.953,- Apótekið, Hagkaup Skeifunni
kr. 1.838,- Lyfjaver, Suðurlandsbraut
kr. 1.453,- Lyfja Lágmúla (já, ég var líka svakalega hissa, hélt að þetta væri dýrasta apótekið þar sem það er opið svo til allan sólarhringinn,en svona er nú það).
Nei, það kom í ljós að þessi upphæð stóðst ekki. Þegar á staðinn var komið var verðið í Lyfju kr. 2.220,- sem er frekar fúlt, en þar sem ég hafði þurft að bíða í hálftíma eftir að fá lyfið lét ég slag standa og keypti það hjá þeim eftir svolítið tuð og óánægjuröfl.
2 ummæli:
Þetta var nú ljóta óhappið, en ég segi það enn og aftur. Ef hola kemur í akvegi þá eru þeir annað tveggja lagðir strax, eða sett við einhver viðvörun svo bílarnir keyri ekki ofaní. Eins og bílar geti ekki keyrt ofaní holur og uppúr þeim aftur. En þar sem gangandi og hjólandi fara þykir þetta ekki tiltökumál. Þú ættir að prófa að fara í mál við borgina.
Gott hjá þér að gera athugun á kostnaði lyfsins. Það hefur mér aldrei dottið í hug að gera, en fer alltaf í Apótekarann af því ég er ákveðin í að þar sé ódýrast,en svo lengi lærir sem lifir. Ég tek þetta upp hjá þér:-)
Láttu þér batna.
Enda stóðst verðið ekki. Ég er búin að bæta rétta verðinu við upphaflega bloggið..
Skrifa ummæli