30. apríl 2013

Apríl 2013


Hjólaði samtals 294 km í mánuðinum, 190 km til og frá vinnu og 104 km í aðrar ferðir.
Fór 17 af 20 vinnudögum á hjólinu til vinnu og var í orlofi þessa  3 daga sem uppá vantar.
Sá að meðaltali 12 á hjóli á leið minni til vinnu. Mest voru það 17 og minnst 3 en þann dag var ansi hvass vindur.

Ég er enn á nagladekkjunum og enn á báðum áttum hvort það borgi sig að taka þau undan strax.  Það er kalt og hætta á hálku, en hefur þó verið þurrt að mestu.  Ætla að sjá til í nokkra daga í viðbót.
Garmin græjan mín hætti að virka í mánuðinum og tókst ekki að koma henni í gang aftur svo ég er farin að nota símann og forrit sem heitir endomondo til að halda utan um það sem ég hjóla.
Ég nota hjólið að mestu sem samgöngutæki.  Það er helst á sumrin að ég fer í hjólatúra þar sem tilgangurinn er ekki aðallega fólginn í því að komast á ákveðinn stað á ákveðnum tíma.  Enn eru "aðrar ferðri" hjá mér aðallega tengdar kórastarfi.  Með batnandi færð, veðri og aukinni birtu þá hjóla ég frekar þangað sem ég þarf að komast og skil bílinn eftir heima.
Svo er hér smá samanburður milli mánaða og ára á fjölda hjólandi sem ég tel á leið minni til vinnu á morgnana.

 
Þessir fjórir mánuðir eru kannski ekki mjög samanburðurhæfir þar sem verðurfar er ansi misjafnt eftir árum.  T.d. var janúar í fyrra (árið 2012) nokkuð snjóþungur og febrúar sama ár töluvert vindasamur. En veður mikið mildara í ár þó það hafi komið nokkrir hvellir.  Á leið minni eftir stígnum við Sæbraut virðast vera ríkjandi áttir mér í vil, þ.e. ég er oft með meðvind á morgnana og líka á heimleiðinni.  Þegar hingsvegar vindurinn er mjög kröftugur á móti mér þá vel ég að fara inn í hverfin og ef mér líst sérlega illa á veðrið fer ég meðfram Suðurlandsbrautinni, sú leið er stutt en ekki eins skemmtileg að hjóla eins og Sæbrautin að mínu mati.
Verið er að gera hjólastíg meðfram Suðurlandsbrautinni og fer þeim framkvæmdum vonandi að ljúka.  Verður spennandi að sjá hvernig það kemur út.

26. apríl 2013

Síðasti vetrardagur - veðufar.

Hjólaði í vinnuna síðasta vetrardag (eins og flesta aðra daga).  Þegar ég lagði af stað féllu eitt og eitt snjókorn af himni en það var svo lítið að ég ákvað að fara ekki í hlífðarbuxurnar (þær fengu að vera í körfunni).  Ekki nema um 5 mín seinna hafi hressilega bætt í snjóinn og ég fór í buxurnar og kveikti blikkljósið aftan á hjólinu..  Nokkrum mínútum seinna var snjókoman orðin svo þétt að varla sást úr augum og ég endaði á því að taka ofan gleraugun því snjórinn settist jafnóðum á þau.  Sem betur fer var næstum logn þennan dag.  Fyrstu myndina tók vinkona mín á leið sinni til vinnu eftir Sæbraut.

Seinni myndin flakkaði um á Facebook.  Því staðreyndin var sú að það snjóaði hressilega en bara rétt í um klukku stund og svo skipti algjörlega litum og sólin fór að skína. 
Þegar ég hjólaði heim var varla nokkur snjór sjáanlegur og það litla sem var eftir hamaðist við að bráðna.  Stígurinn leit úr eitthvað á þessa leið (mynd fengin af Facebook og er ekki af leiðinni sem ég hjólaði eftir).
 

6. apríl 2013

Ræktun

Alltaf finnst mér jafn dásamlegt og undursamlegt að sjá plöntu vaxa upp af fræi.

Þann 10 mars setti ég fræ í sáðmold.  Þetta var blómkál, spergilkál, rófur og 4 tegundir af sumarblómum.
14. mars tek ég eftir því að sprotar eru farnir að gægjast upp úr moldinni og 17. mars tek ég þessa mynd.


23. mars (tveimur vikum eftir sáningu) dreifsetti ég kálið og eina tegund af sumarblómum.  Bæði átti ég ekki meiri mold og svo var ekkert farið að spretta hjá tveimur tegundum af sumarblómum.  Ég hreinlega hélt að það mundi ekkert spretta þar fyrst ekkert var komið en hélt þó áfram að vökva og halda í vonina.

Í dag (6. apríl) tók ég svo þessar myndir.  Efst er kálið.  Í miðjunni eru sumarblóm, þetta stóra er skjaldflétta sem er mjög svo fallegt blóm og neðst er meira kál og sumarblóm.







5. apríl 2013

Fleiri að hjóla í veðurblíðunni.

Veðrið hefur leikið við höfuðborgarbúa það sem af er apríl.  Margir hafa dustað rykið af hjólunum sínum og það sést á talningatölunum mínum á leið til vinnu.  Í mars var algengast að sjá 8 á hjóli á leið minni til vinnu eftir stígnum við Sæbraut.  En það sem af er þessum mánuði (þessa 4 virku daga) hefur bæst við töluna á hverjum degi.
Á þriðjudag sá ég 8, á miðvikudag 12, í gær 15 og í morgun 17.  Hvar endar þetta, maður bara spyr sig?

Þetta er mjög jákvætt og allir halda sig hægra megin.  En það er kannski af því að þá er ég í víkjandi stöðu miðað við skiptinguna á hjólareininni (sem er þó óðum að hverfa). 
Á heimleiðinni er þetta oft flóknara því þá eru fleiri á stígnum, á öllum aldri og fararmátinn fjölbreyttari.  Og sumir hjólreiðamenn eiga það til að víkja ekki út af hjólaræmunni fyrr en í síðustu lög og þá er maður farin að velta því fyrir sér hvort viðkomandi hafi yfir höfuð komið auga á sig og ég er oft farin að undirbúa að fara út í grasið til að forða árekstri.  Sem betur fer hefur ekki komið til þess enn.

Nú er ætlar borgin ekki að halda við þessum línum sem skipta stígnum í gangandi og hjólandi og ég veit af hverju það er og er sammála að þessi ræma hentar ekki þar sem hjól geta ekki mæst innan línunnar og þá er maður í raun að brjóta lög við að fara yfir heila línu þegar víkið er fyrir þeim sem koma á móti.  En menn eru orðnir vanir þessari skiptingu og halda sig almennt réttu megin við strikið (sem var alls ekki raunin í upphafi því þá var mjög algengt að menn gengju á línunni sjálfri).  Þannig að nú þegar línurnar eru að hverfa þá er komin upp óvissa.  Margir ganga alltaf lengst til vinstri (hef velt fyrir mér hvort það sé af því að í gamla daga þá var manni kennt að ganga á móti umferð þar sem ekki eru gangstéttar) en ef svona blandaður stígur á að ganga upp þarf að vera hægri regla.  Þ.e menn halda sig hægra megin og það er tekið framúr vinstramegin.  Vonandi verður það þannig þegar til kemur.

3. apríl 2013

Gönguferð annan í páskum.

Um páskana afrekuðum við fjölskyldan (eða stór hluti af henni) að ganga ALLAN Langholtsveginn, frá Suðurlandsbraut að Sæbraut.  Öll fjögur lögðum við af stað en misstum einn fjölskyldumeðliminnn frá okkur við Holtaveg, því var ekki við bjargandi.  En við stelpurnar héldum ótrauðar áfram.  Teljum við að þetta sé einstakt afrek sem ekki hefur áður verið skráð á spjöld sögunnar (svo vitað sé).  Höfðum við bæði gott og gaman af göngutúrnum sem var allt í allt 5 km.

2. apríl 2013

Mars 2013

Hjólaði samtals 280 km í mánuðinum.
Fór 17 af 19 vinnudögum á hjólinu til vinnu.  2 daga skildi ég hjólið eftir heima vegna veðurs.
Sá að meðaltali 7 hvern dag á hjóli á leið minni til vinnu.  Mest voru það 12 og minnst 1 en það var daginn eftir óveðrið.

Ég er enn á nagladekkjunum þó löngunin að taka þau undan sé orðin ansi sterk.  Tel að það borgi sig ekki að taka þau undan strax þar sem apríl gætið komið með kulda og hálku og ég vil ekki þurfa að skilja hjólið eftir heima út af því.  Þess vegna fá nagladekkin að vera undir hjólinu enn um sinn.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...