18. september 2017

Hjóla- og göngutúr.

Á laugardaginn fór ég með hjólið á verkstæði Hjólaspretts í Hafnarfirði þar sem það var keypt.
Það var kominn tími á uppherslu og ég ákvað í leiðinni að láta setja nagladekk undir (vonandi allt of snemma).  Ég tók því rólega og stoppaði af og til og tók myndir.

Fyrsta myndin er tekin við enda Langholtsvegar (Suðurlandsbraut) þar sem verið er að byggja fjölbýlishús fyrir eldra fólk að ég held. 

Hér er ég svo í undirgöngunum undir Reykjanesbraut (Sæbraut) við Sprengisand.

Síðan er það Kópavogurinn.  Þarna er ég að koma að Smáralindinni og er að velta fyrir mér hvaða leið ég á að fara.

Og ég held ég hafi valið þá erfiðustu því ég fór upp laaaaanga brekku.  Það hlýtur að vera hægt að hjóla þægilegri leið.  Þetta snapp var tekið þegar ég var komin langleiðina upp brekkuna.

Hér er ég hinumegin við hæðina, komin í Garðabæ (?) eða allavega á leiðinni þangað.  Við endann á stígnum eru undirgöng til vinstri og stígur til hægri sem ég fór.

Ég er ekki alveg sú besta í sjálfum, og þarna langaði mig að ná mynd af hjólinu líka, en það sést bara rétt svo í stýrið.

Hér er ég komin í Hafnarfjörð, rétt hjá IKEA.  Þessi stígur er flottur þar sem hann hlykkjast í gegnum hraunið.

Ég lenti svo í ógöngum við endann á hraunstígnum, þurfti að snúa við og fara þessa leið og hér er ekki gert ráð fyrir gangandi eða hjólandi.

Og núna var hjólið komið á verkstæði og ég hafði ákveðið að mig langaði að prófa að ganga til baka.   Þetta listaverk eftir Grím Marinó er við Fjarðarkaup.  Hef aldrei séð það héðanmegin frá.

Þetta skilti biður fólk um að sýna tillitsemi hvort til annars á stígunum.

Hér er ég aftur í Garðabæ, hafði valið ranga leið á stígnum sem liggur í hring og er hugsað fyrir hjól til að komast upp á göngubrúna yfir veginn.  Ég hefði átt að taka stíginn til vinstri, en það vissi ég ekki fyrir, en veit núna.

Fallegur lækur og brú við stíginn.

Byggingarsvæði í Garðabæ.

Kópavogur og æskuheimilið falið bakvið nýbyggingar (séð frá Árnarnesi)

Á stígunum í Kópavogi eru svona "bækur" á staurum hér og þar.

Hamraborg í Kópavogi, og nú var ég komin með nóg af labbi og hringdi eiginmanninn og fékk hann til að sækja mig.

17. september 2017

Flókin gatnamót

Þetta er leiðin sem ég hjóla þessa dagana til og frá vinnu.  Inn á kortið hef ég teiknað rauðan hring utan um þann stað á leiðinni sem mér finnst vera erfiðastur.  Það er af því að gatnamótin þarna eru flókin, ekki yfir Sæbrautina sjálfa (sem myndin er af hér fyrir ofan), þar eru komin ágætis ljós, heldur rétt þar fyrir neðan.


Þetta sést betur á þessari mynd hér fyrir neðan.  Ég hef teiknað inn örvar til að sýna bílaumferð sem maður verður að vera meðviðtaður um og fylgjast með, gleymdi reyndar að setja örvar fyrir þá sem fara beint. Einnig er töluverð umferð á hjólum sem líka þarf að taka með í reikninginn.  Bláa línan er sú sem ég hjóla.  Reyndar eru menn duglegir að stoppa og hleypa yfir, en ekki allir.  Gæti þessi staður orðið öruggari með því að setja hringtorg?  Ég er svo sem ekki mikill aðdáandi hringtorga, en veit um gatnamót sem hafa batnað töluvert með komu þeirra (hringtorgið hjá Glæsibæ), en kannski er aðeins of langt á milli Dugguvogar og Knarrarvogar til þess að það gangi upp, ég ætla ekki að þykast hafa vit á því.  Hingsvegar er þetta svæði varasamt eins og það er og mundi ég svo gjarnan vilja hafa það einhvernvegin öðruvísi.

4. september 2017

Og smá úr garðinum

Hef aðeins verið að breyta í garðinum.  Breytti undirstöðunum þar sem gróðurhúsið var í jarðarberjabeð, færði runna og fékk nýjar plöntur.

Hér var sem sagt áður gróðurhús en er nú jarðarberjabeð.  Setti niður hvítlauksrif fyrir aftan beðið eftir að hafa minnkarð hindberjarunnana.

Hér voru alparifsrunnar sem ég færði niður fyrir húsið og fékk fullt af spennandi plöntum í staðin  Allar eiga þær það sameiginlegt að falla á veturnar og vaxa upp á nýtt næsta sumar.  Þá getur nágranninn án samviskubits mokað snjónum úr innkeyrslunni yfir girðinguna hjá okkur í vetur.  Hlakka til að sjá hvernig þær koma undan vetrinum næsta sumar.


Og hér er alparifsið á nýja staðnum.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...