20. febrúar 2022

Meira um snjó

Febrúar hefur verið óvenju snjóþungur og vindasamur. Hver lægðin á fætur annari kemur yfir landið með roki og látum. Síminn minn er orðinn fullur af snjómyndum því bæði er hann fallegur en líka er hann til ama, sérstaklega þegar hann hindrar för. 

Ég ætla mér að henda hérna inn nokkrum myndum frá liðinni viku og skrifa eitthvað um það sem sést á myndunum.

---

Fyrst eru hér myndir úr innkeyrslunni hjá okkur, teknar mánudaginn 14. febrúar. Mér finnst ekki leiðinlegt að moka snjó og reyni að fara út jafn óðum og það snjóar til að moka. Reynslan hefur kennt mér að snjórinn er léttastur að moka fyrst eftir að hann hefur fallið. Það hafði snjóað hressilega um nóttina, eins og sést á ljósunum. Svo vel vildi til að ég var að vinna heima þennan dag og mokaði því innkeyrsluna í stað þess að ferðast í vinnuna. 




Svona leit þetta út seinna um daginn. Ég átti orðið í vandræðum með að finna stað til að moka snjónum á. Helsti staðurinn er hinumegin við fyrsta tréð vinstramegin á myndinni.
---
15. febrúar. Vann líka heima þennan dag, en þurfti að skreppa í Ármúlann. Ákvað að taka hjólið með þó ég ætti allt eins von á því að þurfa að teyma það mikinn hluta af leiðinni.
Hér horfi ég út götuna heima hjá mér. Merkilegt nokk þá er vel hægt að hjóla þarna þar sem snjórinn er þjappaður eftir fólk á göngu. Svolítið þvottabretti en vel fært.

---
Þessi mynd er tekin upp gangstéttina við Holtaveginn. Þarna er snjórinn í saltpækli og ekki hægt að hjóla. Þessi gangstétt er oftast illfær þegar snjór er af því það gusast alltaf af götunni upp á stíginn og drullan af götunni er þannig að bæði er leiðinlegt að ganga í því og hjóla.
---
Hér er gangstéttin við Holtaveg niður að Langholtsskóla og Laugardal. Þarna var snjórinn vel þjappaður og ágætis hjólafæri.  En takið eftir öllum bílunum. Það var bílaröð bæði upp og niður, greinilegt að mörgum börnum er skuttlað í skólann og það á ekki bara við þegar mikill snjór er. Þetta virðist vera svona alla morgna. Varla búa svona mörg börn það langt frá skólanum að þau geta ekki gengið í skólann?
---
Hér er ég við hliðina á fjölskyldugarðinum. Stígarnir skafðir og fínir.
---
Hér eru stígarnir meðfram Suðurlandsbraut. Líka skafðir og fínir.
---
Það kom mér skemmtilega á óvart að búið var að skafa bútinn upp á Suðurlandsbraut sem ég þurfti einmitt að fara. Teymdi samt hjólið þarna upp.
---
Komin upp að gatnamótunum, þau eru líka allt í lagi.
---
Það sem tekur við ekki alveg jafn skemmtilegt, en ekkert sem kemur á óvart. Gatnamótin Fellsmúli-Ármúli voru líka ömurleg, full af snjó og erfitt að komast um. Ég var samt alls ekki ein um að vera þarna fótgangandi.
---
Ekkert formlegt hjólastæði á áfangastað, en þá er bara að finna sér staur til að festa hjólið við.
---
Þegar ég kom til baka var búið að skafa götuna heima hjá mér og það var gert þannig að gangstéttin var ófær svo ég þurfti að fara götuna, en hún var líka illfær og engin leið að hjóla hana.

---
Hjólað heim úr vinnuni, miðvikudaginn 16. febrúar
Hér er ég meðfram Suðurlandsbrautinni, komin yfir Skeiðarvog og að nálgast Langholtsveg. Stígurinn bara nokkuð fínn. Ég hjóla frekar hægt þessa dagana og margir taka fram úr mér.
---
Barðavogur með Sæbraut á hægri hönd. Mjög ánægjulegt að sjá þennan bút svona vel hreinsaðann. Hann á það til að gleymast eða vera sleppt úr þó hann sé á aðalleið.
---
Og svo var yndislegt að koma á auðan stíg meðfram Sæbrautinni.

Af því þetta er orðinn svo langur póstur þá ætla ég að segja þetta gott í bili. Á þó dágóðann slatta af myndum eftir bæði frá því í gær og fyrradag sem mig langar líka að setja hér inn. En held það sé heppilegra að gera í nýrri færslu.


Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...