3. mars 2022

Hjólað í febrúar 2022

Hjólaði samtals 145 km í mánuðinum þar af 93 til og frá vinnu. Hjólaði aðeins 13 af 20 vinnudögum mánaðarins. En febrúar hefur verið óvenju snjóþungur mánuður eins og sjá má á þessari frétt: Snjóþyngsti febrúar í Reykjavík frá aldamótum. Út af veðri og færð þá labbaði ég til vinnu 3 sinnum, 3 daga vann ég heima og fór ekki út að hjóla fyrir vinnu eins og ég hef hingað til gert þó ég sé heima og einn daginn var önnur ástæða fyrir því að ég hjólaði ekki.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 5 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 8 gangandi. Ekki mikil breyting þar frá janúar, þó færðin hafi verið töluvert mikið verri.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 9 á en fæst sá ég 1.

Heildar talning í mánuðinum var: 62 á hjóli, 10 á hlaupahjóli og 106 gangandi.

Hef mikið pirrað mig á snjóhreinsun stíga þennan mánuðinn. Augljóslega hefur verið mikið að gera í snjómokstrinum og það hefur komið fram að það náðist ekki að hreinsa alla stíga í samræmi við skipulag. Nú höfum við farið í gegnum heimsfaraldur (geri hér ráð fyrir og vona innilega að við séum þar á lokametrunum) og þá hafa verið virkjaðar allskonar viðbragðsáætlanir. Eins þegar óveður skella á landinu erum við með litakóða sem segja okkur við hverju má búast. Einnig hefur komið fram að u.þ.b. á 5 ára fresti koma tímabil þar sem meiri snjór fellur í Reykjavík en flest ár. Svo ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að setja á nokkurskonar viðbragðsáætlun varðandi snjóhreinsum stíga. T.d. væri hægt að setja á "of mikill sjór" viðbragð og þá er aðaláherslan á að hreinsa aðalleiðir og farið í hliðar leiðri eftir því sem við er komið. 

Fyrir mig sem samgönguhjólara þá skiptir öllu að geta treyst því að komast á þokkalega skafinn stíg. Ég er alveg til í að puðast út götuna mína og á hliðarstígum með þá vissu að aðalstígurinn sé fær. Eins væri ég alveg til í að fara lengri leið ef það þýðir að ég komist á vel hreinsaðan stíg.

Hér er hitakortið frá Strava það sem af er þessu ári. Maður hefur ekki farið mikið annað er til og frá vinnu og svo í heimsóknir til dótturinnar í Grafarvog.


Svona var færðin á Suðurlandsbrautarstígnum síðasta dag febrúarmánaðar og þarna var ég bara nokkuð sátt með þessa svörtu rönd. Það sem sést ekki sérlega vel á myndinni er að snjórinn sitthvoru megin við röndina er hallandi upp, í vel gleitt vaff og svo koma hraukarnir. En röndin er það breið þarna að það var fínt að hjóla á henni.


 

Engin ummæli:

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...