17. mars 2011

Að berjast við vindmyllur.


Margir álíta mig stórskrítna fyrir það að hjóla til og frá vinnu allan ársins hring. Þetta er minn þriðji vetur í hjólreiðum en fyrsta veturinn bjóst ég alveg við því að gefast upp fyrir veðri og vindum, en í raun er ekki eins erfitt og menn halda að hjóla á veturnar - ef maður er rétt útbúinn. (Það sama má í raun segja með sumarið).


En það erfiðasta við vetrarhjólreiðarnar er snjórinn sem ekki er skafinn. En Reykjavíkurborg er metnaðargjörg varðandi hjólreiðar og vill gera borgina hjólavæna, það er a.m.k. það sem sagt er. Á meðfylgjandi mynd er sýnt hvernig stígar í Reykjavík eiga að vera hreinsaðir af snjó skv. áætlun. En það sem ég get ekki fundið upplýsingar um er hversu oft þetta á við. Ef það t.d. snjóar í nótt og það er skafið og svo heldur áfram að snjóa pínulítið næsta sólarhringinn og kannski skefur smá - á þá aftur að skafa á morgun?
Þetta á nefninlega við um síðasta sólarhring. Í gærmorgun hjólaði ég eftir Sæbrauinni og skv. áætluninni á að byrja á því að skafa þar frá Kringlumýrarbraut og að Hörpu (engin tímatakmörk sett þar samt sem áður), en þar var ekki búið að skafa fyrir kl. 8.
Svo ég sendi þennan póst til Reykjavíkurborgar undir heitinu "Kvörtun. Snjóhreinsun á stíg við Sæbraut":
"Skv. áætlun um snjóhreinsun stíga sem finna má á vef Reykjavíkurborgar (hér setti ég slóðina á kortið sem fylgir þessu bloggi) á að hreinsa stíginn við Sæbraut frá Kringlumýrarbraut að Hörpu á undan stígum sem hreinsaðir eru fyrir kl. 8. Það var ekki búið að hreinsa þann bút þegar ég hjólaði þar í morgun rétt fyrir 8. En okkur sem hjólum munar mikið um það að stígarnir séu hreinsaðir."

Seinna um daginn fékk ég þetta svar:
"Sæl Bjarney,við fórum út að vinna við hjólastígana kl 5,30 í morgun,
við erum með verktaka á Sæbrautini,
hann var eitthvað á eftir,
en hann var búinn að klára kl 8,30,
líklega hefur hann endað á Sæbraut. "


Svo í morgun þegar ég lagði af stað hugsaði ég mér að fara eftir Suðurlandsbrautinni þar sem sú leið er styttir en leiðin sem ég fer vanalega og yfirleitt skjólbetri. Skv. kortinu er hluti þeirrar leiðar í forgangi. En ég gafst fljótt upp á þeirri leið þar sem ekki var búið að hreinsa hana í morgun og fyrir ofan Laugardalinn safnast snjórinn mjög fljótt í skafla sem gerir stíginn ófærann. Þá tók ég þá ákvörðun að hjóla eftir Kringlumýrarbrautinni því skv. póstinum sem ég fékk í gær þá byrja þeir verulega snemma að skafa stígana og þá eru meiri líkur á því að búið væri að skafa þann stíg. En nei, því miður þá var það ekki heldur búið og leiðin var þungfær á köflum.

Eiginlega þyrfti maður að fá að vita, í svona færð, hvar byrjað er að hreinsa svo maður getir stefnt á þá stíga - ef það er nokkur möguleiki.

Aðalatriðið er þó í þessu að það er svo gaman að hjóla og að mínu mati er þetta besta leiðin til að koma sér til og frá vinnu. Það er í raun frábært að það skuli vera hægt á veturnar. En það gæti líka verið svo mikið auðveldara ef hreinsunardeildin færi eftir áætluninni sem gerð hefur verið.

1 ummæli:

abelinahulda sagði...

Gaman að lesa þetta blogg þitt. Þetta er ekki auðvelt og í vetur hefur snjóað meira en oft áður, eða það finnst mér einhvern veginn. Snjómokstur á stígum er eitthvað sem ekki virðist í forgangi þrátt fyrir fögur fyrirheit ráðamanna. Það er svo sterk hefð fyrir að bílarnir hafi forgang. Hugsið ykkur hvað það væri ódýrara fyrir "kerfið" ef miklu fleiri hjóluðu/gengu/tækju strætó til og frá vinnu. Bara minnkun á sliti gatna myndi spara mikið. Snjóhreinsun yrði bara fyrir strætóleiðir og svo stígana. Það væri mikill munur.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...