22. nóvember 2013

Saga af of sterku hjólaljósi.



Það er ekki gott að láta kalla athugasemd á sig, sérstaklega þegar hún kemur frá aðila sem átti hlut í sökinni.
Best að útskýra betur.  Í morgun var ég að hjóla í vinnuna eins og venjulega eftir stígnum við Sæbraut.  Þar eru enn leifar af málaðri línu sem aðskilur hjólandi frá gangandi (hún er að hverfa og eftir því sem ég best veit á ekki að endurnýja hana heldur á hægri umferð að gilda á stígnum).  En ég er að hjóla vinstra megin á stígnum (eins og línan segir til um) til vinnu og þarf að víkja fyrir þeim sem koma hjólandi á móti. 
Á hverju morgni mæti ég nokkrum á hjóli og hef það fyrir reglu að víkja tímanlega svo það sé skýrt að ég sjái viðkomandi og mér finnst það vera góð regla.  Undantekning er auðvitað ef gangandi eru á stígnum, þá þarf að taka sérstakt tillit til þeirra.  En það sem gerist nú í morgun er að hjól kemur á móti mér með það sterkt framljós að það útilokar sýn hjá mér og ég sé ekki tvo skokkara sem eru á stígnum á milli okkar, ekki fyrr en þeir víkja fyrir mér og fara fyrir geislann á ljósinu á hjólinu sem kemur á móti.  Ég sem sagt er búin að víkja yfir á hægri helming stígsins mjög tímanlega og það veldur því að skokkararnir fara næstum fyrir hjólið hjá þeim sem kemur á móti - til að víkja fyrir mér.  Honum bregður og skipar mér (þegar hann fer framhjá) að vera á hjólastígnum.  Augljóslega áttar hann sig ekki á því að hjólaljósið hjá honum er það sterkt að það útilokar sýn hjá þeim sem koma á móti, við sjáum hvorki fram eða aftur fyrir hjólið hjá honum.
Ég reyndi að garga eitthvað til baka, en það var ekkert vit í því (er bara ekki svona fljót að hugsa) og engin leið fyrir viðkomandi hjólara að ná út úr því þeim upplýsingum að hann er með allt of sterkt ljós fyrir innanbæjarakstur.  Eftir sat ég með vonda tilfinningu.  En get ég eitthvað lært af þessu?  Það er allavega ljóst að ég mun ekki víkja svona tímalega aftur þega ég mæti hjóli með þetta sterkt framljós.

Engin ummæli:

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...